Samfélagsmiðlar

Evrópuþjóðir hafa varann á gagnvart ferðamönnum frá Kína

Ferðamenn frá Kína þurfa að framvísa neikvæðu kórónaveiruprófi við komuna til Bretlands á fimmtudag. Evrópusambandsþjóðirnar ætla að samræma sínar aðgerðir.

Á Heathrow-flugvelli á meðan kórónaveirufaraldurinn geisaði

Óþægileg tilfinning gæti læðst að mörgum um þessi áramót vegna frétta af því að verið er að losa um hömlur á utanferðum Kínverja á sama tíma og kraftur er enn kórónaveirufaraldrinum í landi þeirra. Strangt aðhald stjórnvalda mætti mótspyrnu íbúa og mótmæli brutust út víða en nú er ljóst að eftir að horfið var frá núll-stefnu stjórnvalda breiddist sjúkdómurinn hratt út í þessu þéttbýla landi.

Starfsfólk Air India nokkuð hresst í faraldrinum

Hvað gerist þá í næstu viku þegar boðaðar ferðahömlur verða afnumdar?  „Kínverjarnir koma,“ gæti fólk sagt fagnandi í ferðaþjónustu um allan heim. Það munar um kínverska ferðamenn. Hindranir eru þó enn í veginum. Margar þjóðir hafa þegar ákveðið takmarkanir á komum ferðamanna frá Kína, sett ströng skilyrði um bólusetningar og sóttkví.

Þetta hljómar kunnuglega. Ný sóttvarnalæknir hér á Íslandi, Guðrún Aspelund, verður þó vonandi ekki strax jafn þekkt og forveri hennar, Þórólfur Guðnason, sem hvert mannsbarn þekkti vegna stöðugra tilkynninga um aðgerðir í tengslum við kórónaveirufaraldurinn hér heima. Á vef Ríkisútvarpsins er þetta haft eftir Guðrúnu um hugsanlegar ráðstafanir vegna komu kínverskra ferðamanna: „Auðvitað erum við að skoða þetta eins og aðrir og það eru engin bein flug hingað frá Kína en auðvitað erum við lítið land með lítið heilbrigðiskerfi og megum ekki við miklu í viðbót. Það er eins og í mörgum öðrum löndum einnig svo sem að það er mikið álag hérna út af ýmsum sýkingum eins og er og kerfið er viðkvæmt.“

Grímur á andlitum um borð í KLM-vél

Líklegt verður að telja að Evrópuþjóðir muni almennt krefja kíverska ferðamenn um neikvætt Covid-19-próf á landamærum. Svíar hafa þegar hafið undirbúning á því og sagt að Kínverjar gætu þurft að bregðast við ákvörðunum með stuttum fyrirvara. Það er ekki síst horft til Svía af því að þeir eru í forsæti Leiðtogaráðs Evrópusambandsins og í krafti þeirrar stöðu boðað til fundar á morgun í Ráði um samræmdar pólitískar neyðarráðstafnir (IPCR – Integrated Political Crisis Response) til að reyna að samræma aðgerðir Evrópuþjóðanna.

Kröfur um hreinlæti og aðgæslu á ferðalögum eiga áfram við

Bretar standa fyrir utan ESB en hafa þegar tekið ákvörðun: Ferðahindranir vegna Covid-19 taka gildi í Bretlandi á fimmtudag, 5. janúar. Allir sem hyggjast ferðast frá Kína og Hong Kong til Bretlands þurfa að framvísa neikvæðu vottorði, ekki meira en tveggja sólarhringa gömlu, áður en þeir stíga um borð í flugvél. Ekki liggur þó ljóst fyrir hvaða próf verða viðurkennd. Þá gætu ferðamenn frá Kína jafnframt verið beðnir um að endurtaka próf við komuna til Brelands. Stefnt er að því að allt að fimmti hver farþegi frá Kína verði beðinn um að fara í nýtt próf til að staðfesta það fyrra. Farþegar geta þó hafnað þessu boði. Ekki verður krafist einangrunar þó próf reynist jákvætt. Mest mun reyna á þetta á Heathrow-flugvelli, þangað sem flestir koma frá Kína, en reglurnar gilda á öllum flugvöllum landsins.

Svona var þetta

Heilbrigðisyfirvöld í Evrópulöndum óttast að þessi snöggi viðsnúningur á stefnu Kínverja í málum sem varða kórónaveiruna valdi því að ný og hættuleg afbrigði komi fram. Nokkur lönd hafa þegar ákveðið að prófa kínverskt ferðafólk, þar á meðal eru Ítalía, Bandaríkin og Japan.

Þessar aðgerðir sem víða eru hafnar eða virðast á leiðinni eru auðvitað áfall. Síðastliðið vor töldu flestir ólíklegt að ferðahindranir yrðu settar á aftur vegna kórónaveirunnar. Harðar ráðstafanir gagnvart Kínverjum skýrast af ótta við ný afbrigði, þá staðreynd að of fáir hafa verið bólusettir og vegna tregðu kínverskra yfirvalda til að deila upplýsingum um gang sjúkdómsins heimafyrir.

Farþegi Delta brosir í gegnum grímuna

Rétt er þó að hafa í huga að þó Kínverjar heimili fólki ferðast til útlanda í næstu viku þá er ekki búist við að straumurinn verði stríður til að byrja með. Í næstu viku er í Bretlandi aðeins vænst um 1.800 ferðamanna frá Kína. Ef harðar sóttvarnareglur eða hindranir gilda um komur kínverskra ferðamanna til Evrópulanda má búast við að það dragi úr umferðinni. Það er auðvitað áfall fyrir ferðaþjónustuna. Hlutur Kínverja í ferðaþjónustu og viðskiptaferðamennsku í heiminum fór ört vaxandi fyrir heimsfaraldur og mátti rekja um fimmtung af peningaeyðslu á heimsvísu til þeirra.

Verra væri þó fyrir ferðaþjónustu heimsins að þær ráðstafanir sem nú eru fyrirhugaðar gagnvart Kínverjum muni smám saman færast yfir á ferðamenn annarra þjóða. Þá væri klukkunni snúið aftur til þeirra tíma sem við vorum að vonast til að geta gleymt. En við skulum halda ró okkar: Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur ítrekað að ferðabönn komi ekki í veg fyrir útbreiðslu sýkinga og þau séu mjög íþyngjandi fyrir fólk og efnahag. 

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …