Samfélagsmiðlar

Ný upplifun á hálendinu

Þekkingin sem orðið hefur til í Bláa lóninu nýtist nú við uppbyggingu rótgróins ferðamannastaðar í Kerlingarfjöllum og nýsköpun í Þjórsárdal, þar sem er verið að reisa glæsilegt hótel og baðstað. Túristi ræðir við Magnús Orra Marínarson Schram, framkvæmdastjóra, um þessi verkefni dótturfyrirtækja Bláa lónsins.

Fjallaböðin í Þjórsárdal

„Í Kerlingarfjöllum erum við að búa til fyrsta heilsárs áfangastaðinn á hálendi Íslands. Þar komum við til móts við ólíkar óskir ferðalanga varðandi gistingu. Opnað verður 1. júlí. Allir eiga að geta komið í Kerlingarfjöll og notið þeirra.

Segja má að hugsunin sé þessi: Við erum að auðvelda fleira fólki aðgengi að einhverri helstu náttúruperlu Íslands. Það gerum við með því að bjóða upp á fjölbreytta gistingu og styðja við upplifun fólks í Kerlingarfjöllum. Við vinnum með Umhverfisstofnun, eigum samstarf um að láta skrifa sögu Kerlingarfjalla, merkjum gönguleiðir, sjáum til þess að að hægt sé að fylgja þeim stafrænt og setjum upp skilti.

Komið verður á reglulegum ferðum upp í Kerlingarfjöll árið um kring. Þannig opnast leiðin að þessari perlu á hálendi Íslands, þar sem hægt verður að stunda ýmsa afþreyingu, fara á fjalla- og gönguskíði, ganga snjóþrúgum, ferðast á vélsleða.“

Magnús Orri Marínarson Schram
Magnus Orri Marínarson Schram, framkvæmdastjóri – MYND: ÓJ

Nýjungin felst þá ekki síst í því að tryggja aðgengi að áfangastað á hálendinu árið um kring. Þið eruð bjartsýn á að þessu verði vel tekið yfir veturinn?

„Já, það er gaman að finna fyrir því núna þegar við erum að kynna þetta, á sölusýningum og í samtölum við ferðaheildsala og fleiri, að við fáum mjög góð viðbrögð einmitt við því að hægt verði að sækja staðinn á veturna. Það er klárlega spurn eftir því að fara inn á hálendi Íslands, sofa í góðu rúmi, sitja við kamínuna og lesa bók, fara í heita laug eftir góðan göngutúr, sem þarf ekki að vera langur. Það að vera bara úti í náttúrunni, uppi á hálendinu, hefur mikið aðdráttarafl. Okkar verkefni er fyrst og fremst að tryggja gott aðgengi að fjöllunum, skapa þar góðar aðstæður. Þau viðbrögð sem við fáum eru gríðarlega sterk.“

Ferðaþjónusta víða um land kvartar einmitt undan slæmu aðgengi að mögulegum ferðamannastöðum á veturna. Vegir séu ekki ruddir. Hvernig ætlið þið að koma fólki í Kerlingarfjöll um hávetur?

„Aðgengi upp í Kerlingarfjöll er þannig að frá því um miðjan júní og út september er hægt að fara á hvaða bíl sem er þangað. Allar ár eru brúaðar. Svo þegar fer að snjóa er oftast hægt að fara á venjulegum jeppum. Við verðum í samstarfi við fyrirtæki sem annast munu reglulegar ferðir upp í Kerlingarfjöll á breyttum fjallajeppum. Við förum ekki af stað með fólk ef veðurspáin er ekki góð eða færð er vond. Þá látum við viðskiptavini okkar vita af því með fyrirvara. Gestir eru í öruggum höndum, vita að kunnáttumenn á stórum bílum sinna reglulegum ferðum á öflugum bílum. Á hverjum degi fer bíll frá Gullfossi upp í Kerlingarfjöll og til baka sama dag.“

Hveradalir í Kerlingarfjöllum – MYND: Blue Lagoon

Það er sem sagt ekki að verða bylting í samgöngumálum upp í Kerlingarfjöll?

„Nei, en svo getum við talað lengi um veginn sem liggur um Kjöl. Stór hluti hans er niðurgrafinn ýtuslóði og í hann safnast snjór. Því verður hann erfiður yfirferðar á vorin og á veturna. Það þarf með einhverjum hætti að bæta Kjalveg. Þá er ég ekki að tala um að malbika veginn heldur að lyfta honum upp.“

Ef ykkur gengur vel í Kerlingarfjöllum ættu líkur að aukast á því að vegabætur verði gerðar þarna á hálendinu.

„Jú, vonandi. Grundvallarspurningin er þessi: Viljum við leyfa fleirum að upplifa Kerlingarfjöll jafnt sumar sem vetur? Margt fólk hefur ekki komið í Kerlingarfjöll, fundist það vera of flókið. Nú segjum við: Þú getur komið á þínum Yaris upp í Kerlingarfjöll, fengið þér góðan kaffibolla og vöfflu, upplifað Hveradalina, og rennt svo til baka í bæinn. Þetta verður ekkert mál. Svo með reglulegum ferðum uppeftir á veturna, opnast algerlega nýr möguleiki til útivistar. 

Við erum núna að lagfæra innviði og framkvæma á þegar röskuðu svæði, um leið við stuðlum að bættri umgengni við náttúruperlur í Fjöllunum. Við viljum áfram hafa fjallvegina í kringum Kerlingarfjöllin eins og þeir eru, óbrúaða. Með því að opna leið fyrir fólk að komast að hálendismiðstöðinni gerum við fleirum kleift að upplifa hálendið og umhverfi Fjallanna. Frá miðstöðinni okkar getur fólk farið gangandi, hjólandi eða skíðandi um svæðið – allt árið um kring. 

Yfirlitsmynd með teikningu af húsum í Kerlingarfjöllum – MYND: Blue Lagoon

Við höfum lagt á það mikla áherslu að nýta eins og kostur er eldri húsakynni. Aðalhúsið er byggt á grunni eldra veitingahúss og við það verða laugarnar. Við nýtum kjallarann áfram en þar verður búningsaðstaða og laugarnar þar fyrir utan. Svo erum við að endurgera gömlu A-húsin, sem voru einkennandi fyrir Kerlingarfjöll, leggja nýtt tjaldsvæði og reisa þjónustuhús við það. Þá er verið að móta svæðið í kring, snyrta það til, og laga gönguleiðir. Svæðið er að taka stakkaskiptum. 

Nærmynd með teiknuðum mannvirkjum á gistisvæðinu í Kerlingarfjöllum – MYND: Blue Lagoon

Þarna verður þá í boði gisting í ýmsum gæðaflokkum?

„Fólk getur tjaldað á endurbættu tjaldsvæði með aðgangi að eldhúsi, salernum og sturtum. Svefnpokagisting í skála verður í boði fyrir 3-15 manns. Loks verður hægt að kaupa gistingu í uppábúnum rúmum í herbergjum af nokkrum gerðum. Með þessu viljum við mæta ólíkum þörfum ferðamanna. Helsta nýjungin felst í því að hægt verður að fá mjög vandað gistirými í Kerlingarfjöllum. Í þeim flokki finnum við fyrir mikilli eftirspurn. Margir hafa í huga að dvelja á góðu hóteli í Reykjavík en fara síðan í Kerlingarfjöll og sofa þar í góðu rúmi í tvær nætur eða svo. Ef troðið er í alla skála þá gætu um 130 manns gist í einu á svæðinu.“

Tveggja manna lúxusherbergi í Kerlingarfjöllum – MYND: Blue Lagoon

Mér er sagt að það sé ekkert endilega samasemmerki milli fjárhagslegrar getu fólks og þess hverskonar gistingu það kaupir?

„Það er hárrétt. Oft á tíðum er það þannig að fólk er tilbúið að kaupa mjög einfalda gistingu í hluta ferðar en leyfir sér í lokin mjög góða gistingu. Við sjáum líka að fólk sem stundar mikið útivist er tilbúið í hvernig gistingu sem er en leggur sig eftir því að geta fengið góðan og næringarríkan mat. Þá eru heitu laugarnar mikið aðdráttarafl, sérstaklega á veturna. Hinsvegar er á útleið að fólk sé tilbúið að sofa margt saman á stórum flatsængum. Það er tilbúið að sofa í svefnpoka, hafa hlutina einfalda og skemmtilega, en vill geta stúkað sig betur af en hægt er í gömlu fjallaskálunum.“

Þannig að gamla skálastemmningin í Kerlingarfjöllum hverfur?

„Nei, það verður áfram svefnpokagisting í gömlu A-húsunum og svo við verðum áfram með gamla Ferðafélagsskálann, sem er skemmtilegur 15 manna skáli, byggður 1937 og endurbyggður síðan. Hann er mikilvægur hluti Kerlingarfjalla og verður áfram í notkun.“ 

Þessi plön hljóma þannig að verulegur hluti gesta mun ekki skilja eftir mikla fjármuni í Kerlingarfjöllum. Hvaðan eiga tekjurnar að koma?

„Þær eiga að koma frá gistingunni, veitingasölunni, sölu á afþreyingu og aðgangi að baðaðstöðunni.  En það þarf að vera til staðar þolinmótt fjármagn í svona verkefni. Þau sem standa að baki okkur eru með skýra sýn og mikla trú á verkefninu. Við teljum að vetrarferðamennska á hálendi Íslands eigi mikla framtíð fyrir sér og með góðu samspili metnaðarfullrar uppbyggingar á þjónustu og náttúruverndar sé hægt að gera hlutina rétt og vel.“

Herbergi í Kerlingarfjöllum – MYND: Blue Lagoon

Það voru fremur frumstæðar aðstæður við Bláa lónið í upphafi en nú er baðstaðurinn þekktur um allan heim fyrir lúxus og gæði. Sérðu fyrir þér að eitthvað svipað gerist í Kerlingarfjöllum?

„Sú uppbygging sem á sér stað núna í Kerlingarfjöllum á að vera sjálfbær og við sjáum ekki fyrir okkur miklar framkvæmdir til viðbótar þar næstu árin. Þess vegna höfum við horft til þess að gera hlutina vel í upphafi. Vissulega mun svo áfangastaðurinn verða í stöðugri þróun, enda mikilvægt að vera sífellt á tánum í ferðaþjónustu.“ 

Það er enn ýmsu ólokið upp frá?

„Við ljúkum gerð baðlauganna í sumar. Það hefur verið borað eftir heitu vatni sem nýtist í laugarnar við húsið. Þarna verður einfaldur en einstakur baðstaður.“ 

Þið eruð að auðvelda fólki að komast í Kerlingarfjöll og njóta svæðisins. Þetta er viðkvæmt svæði, friðlýst. Er ekki hættuspil að hefja rekstur á svona stað?

„Jú, og við erum mjög meðvituð um það. Sérsaklega er hverasvæðið í Hveradölum viðkvæmt. Í fyrsta lagi erum við einungis að framkvæma á þegar röskuðu landi. Þá höfum við átt mjög gott samstarf við Umhverfisstofnun um það hvernig staðið er að þessu verkefni. Mikilvægt er að bæta innviði í Kerlingarfjöllum svo tryggt sé að umgengni við náttúruna verði góð. Við erum því að móta betur hvaða leiðir fólk má fara um gangandi, hjólandi og ríðandi – og hvar ekki. Við ætlum að bæta merkingar, gera betri kort og ferðalýsingar, og við erum í samstarfi um ritun nýrrar bókar um Kerlingarfjöll, þar sem sögunni verða gerð og ítarlegar ferðalýsingar birtar. Allt er þetta gert til að verja betur viðkvæma hluta Kerlingarfjalla.

Hér er um að ræða áhugavert samstarf einkaaðila og opinberra aðila. Báðir hafa mikinn hag af því að vel sé gengið um svæðið. Þetta samstarf gengur vel. Við erum einnig meðvituð um umhverfisþáttinn. Allar byggingarframkvæmdir verða BREEM-vottaðar. Gert var nýtt, mjög fullkomið þriggja þrepa rotþróakerfi og aðrir innviðir svæðisins teknir í gegn. Þá taka öll innkaup og sorpmál mið af staðsetningu áfangastaðarins.“ 

Fjallaböðin
Yfirlitsmynd af Fjallaböðunum fyrirhuguðu í Þjórsárdal – MYND: Basalt / Fjallaböðin

Þá víkur sögu austur í Þjórsárdal. Þar verður ekki byggt á grunni sömu hefða og í Kerlingarfjöllum heldur byggður fyrsta flokks gististaður uppi í fjallshlíð með glæsilegri baðaðstöðu. Fjallaböðin verða opnuð sumarið 2025. Þú hefur lengi gengið með þetta í maganum.

„Þrátt fyrir mikla náttúrufegurð hefur Þjórsárdalur eilítið setið eftir í miklum uppgangi ferðaþjónustunnar á Suðurlandi. Það er sérstakt. Þjórsárdalur var á sínum tíma eftirsóttur áfangastaður. Hann var til að mynda fyrsta viðfangsefni Árbókar Ferðafélags Íslands 1928. Síðan dró úr vinsældunum en þær jukust um tíma á áttunda og níunda áratugnum eftir að Þjóðveldisbærinn var reistur. Þarna vantaði hinsvegar innviði til að ferðaþjónusta blómstraði. 

Austurendi Fjallabaðanna – MYND: Basalt / Fjallaböðin

Fjallaböðin verða reist við Reykholt þar sem áður var heit laug sem starfsmenn Búrfellsvirkjunar gerðu í kringum 1970.  Laugin var illa byggð í upphafi og hafði um nokkurt skeið verið lokuð þegar ég hóf undirbúning að verkefninu árið 2015. 

Þarna erum við, í botni Þjórsárdals, að byggja 5.300 fermetra hús, baðstað og hótel með 40 herbergjum undir nafninu Fjallaböðin. Við gerum ráð fyrir tveimur hópum ferðalanga í Fjallaböðin. Annars vegar daggestum í baðlónið og hinsvegar næturgestum á hótelið. Hótelgistingin verður vönduð. Þetta verður, þó ég segi sjálfur frá, stórkostlegt mannvirki, byggt að 60-70 prósentum inni í fjallinu, sem þýðir að gestir ganga inn í fjallið en svo stendur byggingin út úr fjallshlíðinni með stórum gluggum og stórkostlegu útsýni í suðurátt, niður dalinn. Baðgesturinn skiptir um föt inni í fjallinu og fer þar ofan í vatnið, fikrar sig svo út í birtuna. Vatnið liggur í stöllum í hlíðinni. Þarna verður líka skemmtilegt veitingarými. 

Yfirlitsmynd af svæðinu kringum væntanlega gestastofu – MYND: Basalt / Fjallaböðin

Ég kalla þetta „úti að leika“ hótel. Við viljum að gestir njóti náttúrunnar umhverfis, upplifi Þjórsárdal, en þarna í grenndinni eru Háifoss, Hjálparfoss, Gjáin, Stöng – skógar, sandar og gervigígar. Og svo er hálendið í bakgarðinum. Það er nóg að skoða og gera. Þannig viljum við að gestir eigi gott með að upplifa dalinn á fjölbreyttan hátt og geti svo undir lok dags hvílt lúin bein í Fjallaböðunum.

Mikið starf á sér stað núna við undirbúning Þjórsárdals. Við erum að skrifa bók um dalinn til að taka saman á einn stað efni sem við getum miðlað til gesta um sögu, menningu og náttúru. Þá er verið að gera ný kort og merkja nýjar ferðaleiðir um dalinn svo við gætum vel að náttúrunni. 

Við erum líka að reisa gestastofu í 9,5 kílómetra fjalægð frá Fjallaböðunum, í mynni dalsins, við Sandártungur. Þangað koma gestir Fjallabaðanna á sínum eigin bílum eða með rútum. Þaðan verður þeim síðan ekið á okkar eigin hópbifreiðum á 20 mínútna fresti upp að Fjallaböðunum. Með þessu móti minnkum við umferðaálag og átroðning í dalnum og aukum upplifun gesta. Þetta er auðvitað flókið í framkvæmd og ekki ódýr lausn en styrkir þá tilfinningu gestsins að hann sé að fara í fjallaböð. Ekið er í gegnum skóg og yfir eyðisand alla leið upp í dalinn.“ 

Væntanleg gestastofa í Þjórsárdal – MYND: Basalt / Fjallaböðin

Spilla nálægar virkjanir fyrir – eða styrkja þær upplifun á svæðinu?

„Ég hef velt þessu mikið fyrir mér. Við erum mjög nærri Búrfelli þó að virkjunin sjáist ekki frá væntanlegri hótelbyggingu. Nýting Þjórsár á sér stað í dalnum og ég vil frekar miðla til gesta hvað á sér þar stað heldur en að fela þá staðreynd.  Í gestastofunni munum við því segja söguna af nýtingu fallvatnsins, sögu hreinnar orku og hvernig saga þjóðarinnar er samtvinnuð Þjórsá. 

Í gestastofunni munum við einnig segja við sögu Þjórsárdals, þar var blómleg byggð á landnámsöld sem eyddist í kjölfar Heklugoss 1104. Hart var gengið á skóginn og smátt og smátt hvarf grundvöllur byggðar. Þessi saga er merkileg og henni þarf að miðla. Við sjáum fyrir okkur að gestastofan verði gátt að Þjórsárdal og hálendinu upp af honum – hvort sem þú ert á leið í Fjallaböðin eða ekki.  

Við erum meðvituð um ábyrgð okkar. Þjórsárdalur er stórkostlegt svæði. Sá sem fær leyfi til að byggja þar verður að stíga varlega til jarðar. Hann þarf að vanda sig og það höfum við reynt að gera. Nálgast verkefnið af miklum metnaði. Við byggjum til að mynda inn í fjallið til að draga úr sýnileika byggingarinnar og ljósmengun frá henni, lögum þannig bygginguna að náttúrulegu umhverfi. Þannig búum við til nýtt aðdráttarafl með þessu samspili. Yfir húsbygginguna setjum við svo Hekluvikur til að hylja hana eins og kostur er. Við Breeam-vottum okkar byggingar í Þjórsárdal og stefnum að því að þarna verði reistar umhverfisvænstu byggingar landsins. Vonandi tekst það. Til dæmis erum við að horfa til þess að minnka kolefnisspor eins og kostur er. Það gerum við t.d. með byggingaraðferðum sem nýta jarðveginn á staðnum í stað sements. Þannig verður þjappaður jarðvegur einkennandi í byggingunni. Með þessu og fjölmörgu öðru horfum við til þess að framkvæmdirnar og reksturinn verði eins og best gerist á heimsvísu í umhverfismálum. Þá höfum við nú þegar plantað 120 þúsund trjáplöntum á skógræktarsvæðunum í Þjórsárdal en þessar plöntur binda kolefni á næstu árum. Þannig stefnum við að kolefnishlutlausum rekstri strax við opnun Fjallabaðanna. Þessi nálgun er nýmæli á Íslandi – að fyrirtæki planti trjám þremur árum áður en starfsemi hefst.  

Baðstaðir eru orðnir eitt helsta aðdráttarafl Íslands, fyrst Bláa lónið og svo staðir víðar um land. Fyrir voru auðvitað sundlaugar sem ferðamenn hafa alltaf kunnað að meta.

„Það er ekkert skrýtið að ferðamenn hafi mikinn áhuga á baðlaugum á Íslandi. Það er stórkostleg upplifun fyrir ferðalanginn að fara í heita laug utan dyra eftir að hafa  stundað útiveru allan daginn. Okkur er að takast vel upp í þessum efnum hér á landi. 

Magnus Orri Marínarson Schram
Magnús Orri er bjartsýnn á framtíð baðstaða á Íslandi – MYND: ÓJ

Ég er svo heppinn að vera hluti af teymi Bláa lónsins sem er algerlega á heimsmælikvarða í því hvernig á að hanna, byggja, starfrækja og markaðssetja baðstaði. Í Bláa lóninu hefur byggst upp þekking í 30 ár sem ekki er að finna annars staðar. Allir sem sækja lónið eru í skýjunum með upplifunina og þessa þekkingu er nú verið að nýta á öðrum stöðum en í Svartsengi.“

Nýtt efni

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …

Rauðu og hvítu sporvagnarnir hafa verið meðal táknmynda Istanbúl, þjónað íbúum og ferðamönnum í meira en öld. Nú líður að því að þeim verði skipt út fyrir vagna sem búnir verða rafhlöðum. Vagnarnir hafa gengið eftir spori á Istiklal-breiðgötunni Evrópumegin í Istanbúl. Þeir voru fyrst teknir í notkun árið 1914, á dögum Ottómanveldisins. Ýmsar lagfæringar …

Skattaívilnanir til kaupa á nýjum rafbílum féllu niður um áramótin en frádrátturinn gat numið allt að 1,3 milljónum króna. Nú fæst 900 þúsund króna styrkur frá Orkusjóði í staðinn en sala á rafbílum hefur þó dregist umtalsvert saman það sem af er ári. Á þessum tíma í fyrra höfðu 3.211 nýir rafbílar verið skráðir nýir …

Seljendur hlutabréfa í almennu hlutafjárútboði Íslandshótela, stærsta hótelfyrirtæki landsins, hafa ákveðið að falla frá útboði og þar með skráningu félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Almennu hlutafjárútboði Íslandshótela lauk seinnipartinn í gær en í ljósi þessarar ákvörðunar munu allar áskriftir falla sjálfkrafa niður. Þetta kemur fram í tilkynningu. Vel á þriðja þúsund aðilar tóku þátt í …

MYND: ÓJ

Nýbirt Þróunarvísitala ferðageirans (Travel & Tourism Development Index) fyrir árið 2024, sem Alþjóðaefnahagsráðið ( World Economic Forum) tekur saman annað hvert ár, sýnir að Ísland fellur niður listann um 10 sæti frá 2019 - í 32. sæti, Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru töluvert ofar en Noregur er hins vegar ekki meðal þeirra 119 landa sem …

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar áformaði að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu úr 11 prósentum í 24 prósent um mitt árið 2018. Stjórnin sprakk hins vegar áður en málið fór í gegnum Alþingi. Samtök ferðaþjónustunnar börðust gegn þessari hækkun á sínum tíma og í morgun efndu samtökin til fundar í ljósi þess að „undanfarin misseri …

Ferðafólk fylgist með hval dregnum á land í Hvalfirði

Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands dagana 30. apríl til 7. maí 2024 eru 49 prósent aðspurðra því andvíg að leyfi Hvals hf. til veiða á langreyðum verði endurnýjað. Hins vegar eru 35 prósent aðspurðra því hlynnt. Beðið er ákvörðunar nýs matvælaráðherra. Meginniðurstöður könnunar Maskínu fyrir Náttútuverndarsamtök Íslands - MYND: Maskína Niðurstöður Matvælastofnunar í …