Samfélagsmiðlar

Til minningar um Ísland

Íslendingar kalla minjagripaverslanir gjarnan „lundabúðir” og hrista hausinn yfir varningnum. Þetta virðist hinsvegar vera góður bissniss. Á síðasta ári námu erlendar kortafærslur í gjafa- og minjagripaverslunum 5,4 milljörðum króna. Þá er ekki allt talið.

Minjagripir

Til minningar um uppruna Íslendinga

Víða í miðborg Reykjavíkur hafa hefðbundnar verslanir sem þjónuðu aðallega heimafólki vikið fyrir gjafa- og minjagripaverslunum, lundabúðum. Mörgum Íslendingum þykja þessar verslanir heldur óspennandi enda er markhópurinn erlendir ferðamenn.

Þorraafsláttur af minjagripum – MYND: ÓJ

Þegar gengið er framhjá lundabúðum sést að oft er slæðingur af fólki að skoða það sem er í boði: styttur af víkingum og tröllum, mjúka og loðna lunda, lyklahringi, ísskápasegla, könnur og glös, lopavarning, muni úr hrauni, boli, húfur, jóladót, smávarning af ýmsu tagi með fánamerki eða einhverju sem á að vekja minningar um Íslandsferð.

Matvara í ferðabúningi er meðal minjagripa – MYND: ÓJ

Heildarsala á varningi sem ferðamenn gætu sagst hafa keypt til minja er örugglega meiri en 5-6 milljarðar króna á ári. Tölur um erlenda kortaveltu í gjafa- og minjagripaverslunum upp á 5,4 milljarða króna á árinu 2022 gefa þó góða vísbendingu um veltuna. En til viðbótar er svo margt sem ferðamaður kaupir til minja í öðrum tegundum verslana. Útivistarfatnaður er meðal þess sem ferðamenn sækjast eftir á Íslandi. Útivistarbúðirnar keppa við minjagripaverslanirnar um athygli ferðamanna – og peningana þeirra. 

Gamlir Reykvíkingar og auðvitað miklu fleiri gráta einhæfnina í verslunarrekstri í miðborginni. Nú er Brynja farin. Hvað kemur í stað hennar? Lundabúð? Í stað þess að gráta ætti heimafólkið að fagna því að ferðamennirnir glæða miðborgina lífi alla daga ársins. Hugmyndaauðgi í verslanaframboði mætti þó vissulega vera meira.

Hraunbreiða minjagripa – MYND: ÓJ

Minjagripaverslun er orðin býsna gróin iðja en á kannski ekki ýkja sterkar rætur í verkmenningu eða listum.

Fjölskyldufyrirtækið Sólarfilma var frumkvöðull í innflutningi og sölu minjagripa og útgáfu póstkorta á Íslandi, stofnað 1961. Á síðasta ári fór fyrirtækið endanlega úr höndum stofnenda yfir til verslunarveldisins Pennans, sem yfirtók lager og allan búnað. Penninn-Sólarfilma vinnur með hönnuðum að gerð minjagripa og er Brian Pilkington þekktastur þeirra en hann á heiðurinn af jólasveinastyttunum sem lengi hafa verið vinsælar. Fyrirtækið gefur út um 500 póstkort. Vörutegundir eru um 800 talsins. 

Minjagripaverslanir í miðborg Reykjavíkur – MYND: Google

Þegar ferðamannastraumur til Íslands jókst stórum sáu eigendur Pennans viðskiptatækifæri. Nýir eigendur blésu til stórsóknar og voru innkaup félagsins á minjagripum og ferðamannavarningi endurskipulögð frá grunni árið 2016, eins og segir á heimasíðu fyrirtækisins. Á árunum þar á eftir jukust umsvifin. Árið 2018 var vörulína Icelandic Magic keypt, en fyrirtækið framleiðir boli, húfur, vettlinga og annan fatnað. Það sama ár voru verslanir The Viking teknar yfir. Nú rekur Penninn þrjár ferðamannaverslanir undir nafninu The Viking og eina Islandia-búð. Svo eru auðvitað 16 verslanir um land allt starfræktar undir nafninu Penninn-Eymundsson þar sem finna má ýmsan varning sem beint er að ferðamönnum.

Miklu fleiri selja auðvitað minjagripi, lundabúðir litlar og stórar í Reykjavík og út um land allt, bensínstöðvar, kaupfélög og safnbúðir, sem reknar eru í tengslum við minjasöfn landsins. Þetta er vaxandi verslunargrein. Eða hvað?

Iceland á ísskápinn – MYND: ÓJ

Lundabúðirnar selja auðvitað aðeins hluta af þeirra gripa eða varnings sem ferðamenn kaupa til minja – eða bara af því að þá langar í hlutina. Margir kaupa íslensk matvæli, bjór eða sælgæti, skartgripi, bækur, íslenskan útivistarfatnað – að ógleymdri lopapeysunni – og hafa með sér yfir hafið og heim.

Þetta er mikilvægur hluti ferðaþjónustunnar. En það er margt sem ræða mætti í þessu sambandi: Upprunaleika, stíl og gæði – líka hvort íslensku minjagripirnir uppfylli kröfur samtímans um sjálfbærni. Hvernig eru góðir minjagripir?

Gagnlegir minjagripir – MYND: ÓJ

Með vaxandi vitund um umhverfisáhrif og sóun beinist athygli auðvitað að minjagripum eins og öllum öðrum varningi. Það hljómar auðvitað ekki vel í þessu sambandi að Íslendingar, sem státa af hreinleika lands og hafa skuldbundið sig til að leggja sitt af mörkum til að minnka kolefnisfótspor, skuli láta framleiða minjagripi úr plasti og öðrum gerviefnum í Kína eða öðrum fjarlægum löndum og selja ferðamönnum uppi á Íslandi – minjagripi sem ætlað er að minna á menningu og náttúru landsins, tengja við skynjun ferðamannsins á landi og þjóð. 

Plastað hraun – MYND: ÓJ

Minjagripir eru meðal þess sem taka verður með í umhverfisreikning ferðaþjónustunnar. Minjagripir ættu að endurspegla sjálfsmynd þjóðar, draga fram eitthvað af því sem hún vill leggja áherslu á.

Minjagripaverslun við Geysi – MYND: ÓJ

Skoðum þá eitthvað af því sem ferðafólki nútímans er bent á að hafa í huga við minjagripakaup:

Þekking á menningu og staðháttum. Mælt er með því að ferðamaðurinn kanni fyrirfram hvað einkenni þær slóðir sem heimsækja á. Fjallað er um ýmis óáþreifanleg menningaverðmæti á heimasíðu Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Þar er sagt frá verkþekkingu og efnum sem tengja má við ólík menningarsvæði. Fólk ætti að taka sér tíma í að velja minjagripi, hugsa um það fyrirfram hvað vert væri að kaupa í landinu sem á að heimsækja.

Njáll og Bergþóra? – MYND: ÓJ

Innlent handverk fremur en innflutt fjöldaframleiðsla. Ferðamaðurinn ætti að leita eftir handverksmunum úr innlendum smiðjum, kaupa hluti sem unnir eru af fólki í viðkomandi landi en ekki fjöldaframleiddir í öðrum löndum og fluttir um langan veg. Helst ættu minjagripakaupin að styðja við samfélagslega mikilvæg verkefni eða hópa sem standa höllum fæti. Fjárfestu í samfélaginu sem þú heimsækir. 

MYND: Listmunir og minjagripir frá Sólheimum í Grímsnesi

Ekki láta blekkjast af falsmerkjum. Mjög oft eru hlutir sagðir handgerðir þó við blasi að það standist ekki. Öruggasta leiðin til að kaupa handunna gjafavöru eða minjagripi er að nálgast þær vörur hjá þeim sem búa þær til eða í verslunum sem augljóslega selja þær. Bensínstöðvar eru ekki líklegar til að bjóða úrval handgerðra muna. Gott er auðvitað ef á viðkomandi hlut er merki sem vottar uppruna. 

Fáðu leiðsögn heimamanna. Ein árangursríkasta leiðin til að kynnast staðháttum, menningu og viðhorfum er að skrá sig í skoðunarferð með lærðum og reyndum leiðsögumanni. Þá sér fólk betur í gegnum það hvað er ekta og hvað óekta. Þetta á ekki síst við um matarupplifun. Ýmis matvara er seld á Íslandi með minjavara. Sumt af því hefur venjulegur Íslendingur aldrei sett inn fyrir sínar varir. Almennt er gott að fá ábendingar frá heimafólki um hvað vert er að skoða eða upplifa þó Tripadvisor hafi ekki frétt af því. 

Minjagripasala í þjóðgarðinum á Þingvöllum – MYND: ÓJ

Það sem er einhvers virði kostar aðeins meira. Það er auðvitað léleg afsökun fyrir því að kaupa nýjan lyklahring, upptakara eða segul á ísskápinn að viðkomandi dót hafi verið svo ódýrt. Allir ættu að velja gæði umfram magn. Vandaðir minjagripir, handunnir af fólki í viðkomandi landi, kosta auðvitað meira en plastdótið frá Austurlöndum fjær. Líta ætti á minjagrip sem fjárfestingu. Eitt af því sem líka ætti að hafa í huga er hvort viðkomandi minjagripur hafi eitthvert notagildi – eða verði til fegurðarauka á heimilinu. 

Skartgripabúð í Reykjavík – MYND: ÓJ

Þessari helgarhugleiðingu Túrista um minjagripi lýkur með tilvitnun í bandaríska söngvaskáldið John Prine sem samdi söng um forgengileika minjagripa lífsgöngunnar:

Memories, they can’t be boughten

They can’t be won at carnivals for free

Well it took me years to get those souvenirs

And I don’t know how they slipped away from me

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …