Samfélagsmiðlar

Yrði í fyrsta sinn sem Ísland beitti neitunarvaldi

Evrópusambandið hefur samþykkt auknar álögur á flugferðir til að draga úr losun. Verði reglurnar innleiddar á EES svæðinu óbreyttar myndi að kollvarpa stöðu íslenska fluggeirans.

Utanríkisráðherra hefur skipað starfshóp til að sem skoða á leiðir og aðlaganir við upptöku nýrra reglna Evrópusambandsins hér á landi.

Rekstur Icelandair og Play byggir að miklu leyti á farþegum sem millilenda á Keflavíkurflugvelli á leið sinni milli Norður-Ameríku og meginlands Evrópu. Til marks um mikilvægi þessa hóps þá var annar hver farþegi Icelandair svokallaður skiptifarþegi á árunum sem félagið skilaði hagnaði á síðasta áratug. Í hinum sætunum sátu ferðamenn á leið til Íslands og Íslendingar í utanlandsferðum en þessir tveir hópar hefðu haft úr færri áfangastöðum að velja og stopulli ferðum ef ekki væri fyrir skiptifarþegana.

Lega landsins er því grunnurinn að viðskiptamódeli flugfélaganna tveggja og tilgangurinn með tugmilljarða framkvæmdum við stækkun Leifsstöðvar er að miklu leyti sá að gera hana að betri skiptistöð fyrir ferðalög milli heimsálfa.

Þyngri byrðar fyrir íslenskt flug

Nýsamþykktar reglur Evrópusambandsins um að leggja auknar álögur á flugsamgöngur, til að draga úr losun gróðurhúsalofttengunda, gætu hins vegar haft mjög neikvæð áhrif á bæði starfsemi íslensku flugfélaganna og Keflavíkurflugvallar. Reglurnar kveða nefnilega á um að hætt verði að úthluta flugfélögum fríum losunarheimildum og eins verða gerðar auknar kröfur um notkun á sjálfbæru eldsneyti en verð á því er miklu hærra en á hefðbundu eldsneyti.

Það er því viðbúið að kostnaðurinn við að fljúga innan evrópskrar lofthelgi hækki og að mati Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, leggja þessar nýju reglur þyngri byrðar á íslenska flugrekendur en aðra innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Breytingarnar myndu líka gera íslensku flugfélögunum það erfiðara að keppa við þau evrópsku og bandarísku um farþega á leið yfir Norður-Atlantshafið því hin flugfélögin þyrftu ekki að fylgja nýju evrópsku reglunum í beinu flugi milli heimsálfa. Það þyrftu íslensku flugfélögin hins vegr að gera því þau millilenda hér á leiðinni yfir hafið.

Bréf forsætisráðherra breyttu ekki afstöðu ESB

Til marks um alvarleika málsins að mati íslenskra stjórnvalda þá sendi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bréf til evrópskra ráðamanna í fyrra þar sem hún lýsti „þungum áhyggjum“ af áhrifum þessara tillagna á eyríki sem reiða sig algerlega flugsamgöngur. Einnig kom forsætisráðherra því á framfæri að fyrrnefndar tillögur muni hafa neikvæðari áhrif á verð á Íslandsflugi en annað Evrópuflug. Engu að síður voru reglurnar samþykktar af aðildarríkjum ESB.

Frá þessu greindi Túristi í síðasta mánuði og í kjölfarið tóku Fréttablaðið og Morgunblaðið málið upp. Í frétt þess síðarnefnda í fyrradag var vísað í umfjöllun norska Dagblaðsins en þar var fullyrt að Íslendingar íhugi að beita neitunarvaldi sínu innan EFTA til að knýja á um breytingar á reglunum áður en þær öðlast gildi á EES-svæðinu.

Hafa trú á að tillit verði tekið til Íslands

Ef það gengur eftir þá yrði það í fyrsta sinn sem EFTA-ríkin hafna upptöku ESB-löggjafar sem fellur undir gildissvið í EES-samningsins samkvæmt svörum utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Túrista. Það hafa þó oft verið gerð skilyrði fyrir upptöku löggjafar sem þá leiðir til samningaviðræðna við ESB.

„Þegar aðilar eru ásáttir um með hverjum hætti viðkomandi löggjöf skal gilda í EFTA-ríkjunum er svo tekin ákvörðun um að taka gerðina upp í samninginn á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, en samþykki Íslands er skilyrði fyrir slíkri ákvörðun,“ segir jafnframt í svari utanríkisráðuneytisins.

Þar kemur einnig fram að íslensk stjórnvöld hafa fulla trú á því að málið verði leyst farsællega áður en til þess kæmi að beita þyrfti neiturnarvaldinu.

Skoða leiðir að aðlögun að nýjum veruleika

Þrátt fyrir þessa tiltrú stjórnvalda þá hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra skipað starfhóp sem mun skoða leiðir og aðlaganir við upptöku reglnanna svo þær hafi sem minnst áhrif á samkeppnisskilyrði á íslenskt flug. Jafnframt á starfshópurinn að greina þá kosti sem eru í stöðunni ef ekki verður tekið tillit til íslenskra hagsmuna með „ásættanlegum hætti.“

Sem fyrr segir er tilgangur hinna nýju ESB reglna sá að draga úr flugi og beina fólki frekar í aðra ferðamáta, til dæmis lestar og almenningssamgöngur. Þessir valkostir eiga ekki við varðandi samgöngur til og frá Íslandi og á þeim grundvelli er leitað eftir aðlögun en „Ísland skorast ekki undan því að taka þátt í og styðja við heildarmarkmið þessarar nýju löggjafar,“ segir í svari ráðuneytisins.

Því er bætt við að það sé skýr afstaða íslenskra stjórnvalda að fyrrnefndar breytingar verði ekki teknar upp í  EES-samninginn án þess að tekið sé tillit til íslenskra aðstæðna.

Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …