Samfélagsmiðlar

„Þurfum að meta upp á nýtt hvað sé vel heppnuð ferðaþjónusta“

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hvetur til betri stýringar í ferðaþjónustu á komandi árum - á sama tíma og greinin þarf að leita nýrra leiða til að halda fyrri styrk og efnahagslegu mikilvægi. „Það verður að finna út úr því hvers konar ferðaþjónustu við viljum í löndum okkar," segir yfirmaður ferðamála hjá OECD.

Jane Stacey

Jane Stacey, yfirmaður ferðamála hjá OECD, í ræðustól í Hörpu

„Ferðaþjónustan hefur gengið í gegnum mjög erfiða tíma og í ljós hefur komið hversu mikilvægu hlutverki hún gegnir í efnahagslífinu hér á Íslandi en líka í öðrum löndum – til að skapa störf og auka velsæld,” sagði Jane Stacey, yfirmaður ferðamála hjá OECD, á ráðstefnunni í Hörpu um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar. Lilja D. Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, hitti hana nýverið í aðalstöðvunum í París og bauð henni að taka til máls á ráðstefnunni í Reykjavík 22. mars, sem gefa á tóninn í þeirri vinnu sem framundan er við að smíða nýja ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030.

Jane Stacey í ræðustól – MYND: ÓJ

OECD hjálpar ríkisstjórnum aðildarríkjanna til að taka upplýstar ákvarðanir í efnahagsmálum, byggðar á bestu mögulegu upplýsingum sem tiltækar eru, og takast á við aðsteðjandi vandamál. Jane Stacey sagði að starf hennar og félaga fælist í að tengja ferðamálin við önnur stefnusvið, eins og samgöngur, umhverfismál, menntun, heilbrigðismál og veita ríkisstjórnum ráðgjöf byggða á þeirri þekkingu sem aflað væri.

Jane Stacey rakti í máli sínu hversu mikilvæg ferðaþjónustan hefði verið fyrir mörg aðildarríki OECD og hversu mikið áfall heimsfaraldurinn hefði verið. „Nú þegar ferðaþjónustan er að ná vopnum sínum að nýju er staðan engu að síður brothætt. Mikill skortur er á starfsfólki og þekkingu víða í greininni, m.a. hér á Íslandi. Auðvitað er staðan verst í löndum sem treyst hafa mjög á ferðaþjónustu.” Stacey nefndi í þessu sambandi Portúgal, Mexíkó, Grikkland, sem væru lönd þar sem ferðaþjónustan legði fram álíka stóran hlut af landsframleiðslunni og hér á Íslandi.

Lönd sem háð voru ferðaþjónustu urðu fyrir miklum efnahagslegum áhrif um af Covid-19 – MYND: OECD

Ferðaþjónustan var ein fyrsta atvinnugreinin sem stöðvaðist í heimsfaraldrinum og er meðal þeirra síðustu að endurheimta fyrri styrk. „Vistkerfi ferðaþjónustunnar er mjög flókið og viðamikið og áhrifin af faraldrinum eru víðtæk. Fyrirtækin í þorpum og bæjum, sem flest eru lítið eða meðalstór, eru mjög innbyrðis tengd – háð hvert öðru. Í þessu samspili felst styrkleiki en jafnframt veikleikar – sýnir hversu brothætt greinin er. Ferðaþjónustan þarfnast þess að allir leikendur taki þátt,” sagði Jane Stacey. 

Ferðamálastjórinn frá OECD ræddi mikilvægi ferðaþjónustunnar við öflun útflutningstekna í mörgum aðildarlöndum, ekki síst á Íslandi. Mörg aðildaríkin hefðu þess vegna orðið fyrir miklu tapi þegar tekjur af þjónustuútflutningi hrundu 2020. Hún nefndi sérstaklega Portúgal, Króatíu og Ísland. Heimamarkaður í þessum löndum hefði engan veginn getað bætt fyrir skaðann sem orðið hafði. Ísland er eiginlega sér á báti vegna smæðar innri markaðar. Þrír fjórðu hlutar af neyslu ferðamanna má rekja til erlendra gesta . Virðisaukinn í samfélaginu er meiri en í öðrum útflutningsgreinum vegna keðjuverkunar sem fylgja eyðslu erlenda ferðamannsins. 

Erlendir gestir eru skrifaðir fyrir 73% af neyslu ferðafólks á Íslandi – MYND: OECD

Jane Stacey ræddi vandræðin í efnahagsmálum heimsins en nýjustu spár OECD bentu til þess að horfur væru heldur að skána – en staðan yrði mjög viðkvæm næstu árin. Ferðaþjónustan þyrfti að takast á við verðhækkanir og erfiða stöðu á vinnumarkaði. Almenningur tækist á við hækkun framfærslukostanaðar og það hefði áhrif á það hversu hratt greinin næði fyrri styrk. Það verður vart fyrr en 2025. 

Túristar í vorsólinni í Mílanó – MYND: ÓJ

„Heimsfaraldurinn leiddi í ljós hversu viðkvæm ferðaþjónustan er fyrir ytri áföllum. Greinin þarf í framtíðinni að vera betur búin til að mæta þeim í framtíðinni. – Meðal þess sem þarf að gera er að skapa fleiri, lífseigari og fjölbreyttari áfangastaði. Ferðaþjónustan á að skjóta fleiri stoðum undir efnahagskerfi landa. Styrkja þarf stöðu sjálfra fyrirtækjanna, einkum lítilla og meðalstórra, og mæta áskorunum sem við blasa á vinnumarkaði.”

Líka væri nauðsynlegt að afla meiri gagna og upplýsinga til að skapa forsendur fyrir betri stýringu. Komið hefði fram í heimsfaraldrinum að skort hefði á betri upplýsingar til að meta stöðuna. 

Gondólaræðarar í Feneyjum bíða eftir að viðskiptin glæðist – MYND: ÓJ

Sjálfbærni er eitt lykilhugtakið í ferðaþjónustu dagsins. Jane Stacey ræddi þær áskoranir sem fylgdu fjölgun ferðamanna. Hraður vöxtur í ferðaþjónustu hafi aukið þrýsting á umhverfi og nærsamfélög:

„OECD hefur bæði fyrir og eftir heimsfaraldur hvatt til betri stýringar á komum ferðamanna. Nú þarf að bregðast við og gera ferðaþjónustuna sjálfbærari. Við þurfum að meta upp á nýtt hvað sé vel heppnuð ferðaþjónusta og leita meira jafnvægis milli tilkostnaðar og ávinnings. – Það verður að finna út úr því hvers konar ferðaþjónustu við viljum í löndum okkar.”

Liður í þessu væri að auka fjölbreytni, bjóða ferðamönnum fleiri kosti – nýja áfangastaði, og styðja fyrirtækin við að innleiða vistvænar lausnir til að stuðla að sjálfbærari ferðaþjónustu. 

Nýtt efni

Um síðustu mánaðamót var greint frá því á borgarvef Amsterdam að innan marka hennar væri að finna 10 snjalldælur sem ökumenn gætu nýtt sér án endurgjalds. Það sem greinir snjalldælu frá þessum hefðbundnu, sem ökumenn geta nálgast víða til að dæla lofti í bíldekkin, er að þær tryggja að þrýstingur sé réttur. Margir ökumenn hafa …

Eins og raunin var í gær, þá fá ferðamenn ekki að fara upp á Akrópólishæðina í Aþenu um miðjan daginn vegna óvenjulega mikils hita miðað við árstíma. Engum verður hleypt upp á hæðina frá hádegi til klukkan fimm síðdegis. Sama gildir um aðra fornleifastaði í landinu, sem ferðamenn sækjast eftir að skoða. Allir sem hafa …

Í byrjun síðasta vetrar hóf Easyjet að fljúga tvisvar í viku milli London og Akureyrar. Aldrei áður höfðu áætlunarferðir verið í boði á þessari flugleið og íbúar á Norðurlandi tóku þessari nýjung fagnandi og voru í meirhluta sætanna í þotum breska flugfélagsins. Þetta mátti sjá á tölum norðlenska gististaða því breskum gestum fjölgaði ekki ýkja …

Ákvörðun Evrópusambandsins um að leggja allt að 38,1 prósents viðbótartoll á kínverska rafbíla vekur áhyggjur margra í alþjóðlega viðskiptaheiminum. Verndartollum er ætlað að hemja samkeppni að utan, reisa varnir á heimavelli, en leiða auðvitað gjarnan til þess að mótaðilinn svarar fyrir sig. Það óttast einmitt evrópskir framleiðendur, sem háðir eru viðskiptum við Kína, að gerist …

Vorið 2021, stuttu áður en Play fór í loftið í fyrsta sinn, efndi félagið til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Í kjölfarið voru bréfin skráð á First North Growth í Kauphöllinni en um þann markað gilda ekki eins strangar reglur og Aðalmarkað Nasdaq. Í tengslum síðustu hlutafjáraukningu, sem lauk í apríl síðastliðnum, var …

Viðskiptastríð vesturveldanna og Kína heldur áfram að þyngjast því fyrr í dag gaf Evrópusambandið út að 38,1 prósent innflutningstollar yrðu lagðir á kínverska rafbíla frá og með næsta mánuði. Sú hækkun bætist við þann 10 prósent toll sem í dag ríkir á innflutning rafbíla frá Kína til aðildarríkja ESB. Þessi viðbótartollur hefur verið yfirvofandi síðustu …

Það var í júní 2014 sem breska lággjaldaflugfélagið Flybe, sem nú er gjaldþrota, hóf áætlunarflug til Íslands frá Birmingham. Flugleiðin stóð ekki undir væntingum stjórnenda Flyby og var lögð niður eftir níu mánuði. Þá tók Icelandair við keflinu og hélt úti tíðum ferðum milli Íslands og þessarar næstfjölmennustu borgar Bretlands fram í ársbyrjun 2018. Síðan …

Í Bandaríkjunum eru lestarsamgöngur ekki eins góðar og í Evrópu og þurfa þeir sem ætla að sækja komandi landsfundi Demókrata og Repúblikana annað hvort að keyra eða fljúga á fundarstað. Af þeim sökum hefur bandaríska flugfélagið United Airlines bætt við 118 flugferðum til og frá Chicago í ágúst í tilefni af landsfundi Demókrata. Repúblikanar hittast …