Samfélagsmiðlar

„Þurfum að meta upp á nýtt hvað sé vel heppnuð ferðaþjónusta“

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hvetur til betri stýringar í ferðaþjónustu á komandi árum - á sama tíma og greinin þarf að leita nýrra leiða til að halda fyrri styrk og efnahagslegu mikilvægi. „Það verður að finna út úr því hvers konar ferðaþjónustu við viljum í löndum okkar," segir yfirmaður ferðamála hjá OECD.

Jane Stacey

Jane Stacey, yfirmaður ferðamála hjá OECD, í ræðustól í Hörpu

„Ferðaþjónustan hefur gengið í gegnum mjög erfiða tíma og í ljós hefur komið hversu mikilvægu hlutverki hún gegnir í efnahagslífinu hér á Íslandi en líka í öðrum löndum – til að skapa störf og auka velsæld,” sagði Jane Stacey, yfirmaður ferðamála hjá OECD, á ráðstefnunni í Hörpu um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar. Lilja D. Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, hitti hana nýverið í aðalstöðvunum í París og bauð henni að taka til máls á ráðstefnunni í Reykjavík 22. mars, sem gefa á tóninn í þeirri vinnu sem framundan er við að smíða nýja ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030.

Jane Stacey í ræðustól – MYND: ÓJ

OECD hjálpar ríkisstjórnum aðildarríkjanna til að taka upplýstar ákvarðanir í efnahagsmálum, byggðar á bestu mögulegu upplýsingum sem tiltækar eru, og takast á við aðsteðjandi vandamál. Jane Stacey sagði að starf hennar og félaga fælist í að tengja ferðamálin við önnur stefnusvið, eins og samgöngur, umhverfismál, menntun, heilbrigðismál og veita ríkisstjórnum ráðgjöf byggða á þeirri þekkingu sem aflað væri.

Jane Stacey rakti í máli sínu hversu mikilvæg ferðaþjónustan hefði verið fyrir mörg aðildarríki OECD og hversu mikið áfall heimsfaraldurinn hefði verið. „Nú þegar ferðaþjónustan er að ná vopnum sínum að nýju er staðan engu að síður brothætt. Mikill skortur er á starfsfólki og þekkingu víða í greininni, m.a. hér á Íslandi. Auðvitað er staðan verst í löndum sem treyst hafa mjög á ferðaþjónustu.” Stacey nefndi í þessu sambandi Portúgal, Mexíkó, Grikkland, sem væru lönd þar sem ferðaþjónustan legði fram álíka stóran hlut af landsframleiðslunni og hér á Íslandi.

Lönd sem háð voru ferðaþjónustu urðu fyrir miklum efnahagslegum áhrif um af Covid-19 – MYND: OECD

Ferðaþjónustan var ein fyrsta atvinnugreinin sem stöðvaðist í heimsfaraldrinum og er meðal þeirra síðustu að endurheimta fyrri styrk. „Vistkerfi ferðaþjónustunnar er mjög flókið og viðamikið og áhrifin af faraldrinum eru víðtæk. Fyrirtækin í þorpum og bæjum, sem flest eru lítið eða meðalstór, eru mjög innbyrðis tengd – háð hvert öðru. Í þessu samspili felst styrkleiki en jafnframt veikleikar – sýnir hversu brothætt greinin er. Ferðaþjónustan þarfnast þess að allir leikendur taki þátt,” sagði Jane Stacey. 

Ferðamálastjórinn frá OECD ræddi mikilvægi ferðaþjónustunnar við öflun útflutningstekna í mörgum aðildarlöndum, ekki síst á Íslandi. Mörg aðildaríkin hefðu þess vegna orðið fyrir miklu tapi þegar tekjur af þjónustuútflutningi hrundu 2020. Hún nefndi sérstaklega Portúgal, Króatíu og Ísland. Heimamarkaður í þessum löndum hefði engan veginn getað bætt fyrir skaðann sem orðið hafði. Ísland er eiginlega sér á báti vegna smæðar innri markaðar. Þrír fjórðu hlutar af neyslu ferðamanna má rekja til erlendra gesta . Virðisaukinn í samfélaginu er meiri en í öðrum útflutningsgreinum vegna keðjuverkunar sem fylgja eyðslu erlenda ferðamannsins. 

Erlendir gestir eru skrifaðir fyrir 73% af neyslu ferðafólks á Íslandi – MYND: OECD

Jane Stacey ræddi vandræðin í efnahagsmálum heimsins en nýjustu spár OECD bentu til þess að horfur væru heldur að skána – en staðan yrði mjög viðkvæm næstu árin. Ferðaþjónustan þyrfti að takast á við verðhækkanir og erfiða stöðu á vinnumarkaði. Almenningur tækist á við hækkun framfærslukostanaðar og það hefði áhrif á það hversu hratt greinin næði fyrri styrk. Það verður vart fyrr en 2025. 

Túristar í vorsólinni í Mílanó – MYND: ÓJ

„Heimsfaraldurinn leiddi í ljós hversu viðkvæm ferðaþjónustan er fyrir ytri áföllum. Greinin þarf í framtíðinni að vera betur búin til að mæta þeim í framtíðinni. – Meðal þess sem þarf að gera er að skapa fleiri, lífseigari og fjölbreyttari áfangastaði. Ferðaþjónustan á að skjóta fleiri stoðum undir efnahagskerfi landa. Styrkja þarf stöðu sjálfra fyrirtækjanna, einkum lítilla og meðalstórra, og mæta áskorunum sem við blasa á vinnumarkaði.”

Líka væri nauðsynlegt að afla meiri gagna og upplýsinga til að skapa forsendur fyrir betri stýringu. Komið hefði fram í heimsfaraldrinum að skort hefði á betri upplýsingar til að meta stöðuna. 

Gondólaræðarar í Feneyjum bíða eftir að viðskiptin glæðist – MYND: ÓJ

Sjálfbærni er eitt lykilhugtakið í ferðaþjónustu dagsins. Jane Stacey ræddi þær áskoranir sem fylgdu fjölgun ferðamanna. Hraður vöxtur í ferðaþjónustu hafi aukið þrýsting á umhverfi og nærsamfélög:

„OECD hefur bæði fyrir og eftir heimsfaraldur hvatt til betri stýringar á komum ferðamanna. Nú þarf að bregðast við og gera ferðaþjónustuna sjálfbærari. Við þurfum að meta upp á nýtt hvað sé vel heppnuð ferðaþjónusta og leita meira jafnvægis milli tilkostnaðar og ávinnings. – Það verður að finna út úr því hvers konar ferðaþjónustu við viljum í löndum okkar.”

Liður í þessu væri að auka fjölbreytni, bjóða ferðamönnum fleiri kosti – nýja áfangastaði, og styðja fyrirtækin við að innleiða vistvænar lausnir til að stuðla að sjálfbærari ferðaþjónustu. 

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …