Samfélagsmiðlar

„Þurfum að meta upp á nýtt hvað sé vel heppnuð ferðaþjónusta“

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hvetur til betri stýringar í ferðaþjónustu á komandi árum - á sama tíma og greinin þarf að leita nýrra leiða til að halda fyrri styrk og efnahagslegu mikilvægi. „Það verður að finna út úr því hvers konar ferðaþjónustu við viljum í löndum okkar," segir yfirmaður ferðamála hjá OECD.

Jane Stacey

Jane Stacey, yfirmaður ferðamála hjá OECD, í ræðustól í Hörpu

„Ferðaþjónustan hefur gengið í gegnum mjög erfiða tíma og í ljós hefur komið hversu mikilvægu hlutverki hún gegnir í efnahagslífinu hér á Íslandi en líka í öðrum löndum – til að skapa störf og auka velsæld,” sagði Jane Stacey, yfirmaður ferðamála hjá OECD, á ráðstefnunni í Hörpu um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar. Lilja D. Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, hitti hana nýverið í aðalstöðvunum í París og bauð henni að taka til máls á ráðstefnunni í Reykjavík 22. mars, sem gefa á tóninn í þeirri vinnu sem framundan er við að smíða nýja ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030.

Jane Stacey í ræðustól – MYND: ÓJ

OECD hjálpar ríkisstjórnum aðildarríkjanna til að taka upplýstar ákvarðanir í efnahagsmálum, byggðar á bestu mögulegu upplýsingum sem tiltækar eru, og takast á við aðsteðjandi vandamál. Jane Stacey sagði að starf hennar og félaga fælist í að tengja ferðamálin við önnur stefnusvið, eins og samgöngur, umhverfismál, menntun, heilbrigðismál og veita ríkisstjórnum ráðgjöf byggða á þeirri þekkingu sem aflað væri.

Jane Stacey rakti í máli sínu hversu mikilvæg ferðaþjónustan hefði verið fyrir mörg aðildarríki OECD og hversu mikið áfall heimsfaraldurinn hefði verið. „Nú þegar ferðaþjónustan er að ná vopnum sínum að nýju er staðan engu að síður brothætt. Mikill skortur er á starfsfólki og þekkingu víða í greininni, m.a. hér á Íslandi. Auðvitað er staðan verst í löndum sem treyst hafa mjög á ferðaþjónustu.” Stacey nefndi í þessu sambandi Portúgal, Mexíkó, Grikkland, sem væru lönd þar sem ferðaþjónustan legði fram álíka stóran hlut af landsframleiðslunni og hér á Íslandi.

Lönd sem háð voru ferðaþjónustu urðu fyrir miklum efnahagslegum áhrif um af Covid-19 – MYND: OECD

Ferðaþjónustan var ein fyrsta atvinnugreinin sem stöðvaðist í heimsfaraldrinum og er meðal þeirra síðustu að endurheimta fyrri styrk. „Vistkerfi ferðaþjónustunnar er mjög flókið og viðamikið og áhrifin af faraldrinum eru víðtæk. Fyrirtækin í þorpum og bæjum, sem flest eru lítið eða meðalstór, eru mjög innbyrðis tengd – háð hvert öðru. Í þessu samspili felst styrkleiki en jafnframt veikleikar – sýnir hversu brothætt greinin er. Ferðaþjónustan þarfnast þess að allir leikendur taki þátt,” sagði Jane Stacey. 

Ferðamálastjórinn frá OECD ræddi mikilvægi ferðaþjónustunnar við öflun útflutningstekna í mörgum aðildarlöndum, ekki síst á Íslandi. Mörg aðildaríkin hefðu þess vegna orðið fyrir miklu tapi þegar tekjur af þjónustuútflutningi hrundu 2020. Hún nefndi sérstaklega Portúgal, Króatíu og Ísland. Heimamarkaður í þessum löndum hefði engan veginn getað bætt fyrir skaðann sem orðið hafði. Ísland er eiginlega sér á báti vegna smæðar innri markaðar. Þrír fjórðu hlutar af neyslu ferðamanna má rekja til erlendra gesta . Virðisaukinn í samfélaginu er meiri en í öðrum útflutningsgreinum vegna keðjuverkunar sem fylgja eyðslu erlenda ferðamannsins. 

Erlendir gestir eru skrifaðir fyrir 73% af neyslu ferðafólks á Íslandi – MYND: OECD

Jane Stacey ræddi vandræðin í efnahagsmálum heimsins en nýjustu spár OECD bentu til þess að horfur væru heldur að skána – en staðan yrði mjög viðkvæm næstu árin. Ferðaþjónustan þyrfti að takast á við verðhækkanir og erfiða stöðu á vinnumarkaði. Almenningur tækist á við hækkun framfærslukostanaðar og það hefði áhrif á það hversu hratt greinin næði fyrri styrk. Það verður vart fyrr en 2025. 

Túristar í vorsólinni í Mílanó – MYND: ÓJ

„Heimsfaraldurinn leiddi í ljós hversu viðkvæm ferðaþjónustan er fyrir ytri áföllum. Greinin þarf í framtíðinni að vera betur búin til að mæta þeim í framtíðinni. – Meðal þess sem þarf að gera er að skapa fleiri, lífseigari og fjölbreyttari áfangastaði. Ferðaþjónustan á að skjóta fleiri stoðum undir efnahagskerfi landa. Styrkja þarf stöðu sjálfra fyrirtækjanna, einkum lítilla og meðalstórra, og mæta áskorunum sem við blasa á vinnumarkaði.”

Líka væri nauðsynlegt að afla meiri gagna og upplýsinga til að skapa forsendur fyrir betri stýringu. Komið hefði fram í heimsfaraldrinum að skort hefði á betri upplýsingar til að meta stöðuna. 

Gondólaræðarar í Feneyjum bíða eftir að viðskiptin glæðist – MYND: ÓJ

Sjálfbærni er eitt lykilhugtakið í ferðaþjónustu dagsins. Jane Stacey ræddi þær áskoranir sem fylgdu fjölgun ferðamanna. Hraður vöxtur í ferðaþjónustu hafi aukið þrýsting á umhverfi og nærsamfélög:

„OECD hefur bæði fyrir og eftir heimsfaraldur hvatt til betri stýringar á komum ferðamanna. Nú þarf að bregðast við og gera ferðaþjónustuna sjálfbærari. Við þurfum að meta upp á nýtt hvað sé vel heppnuð ferðaþjónusta og leita meira jafnvægis milli tilkostnaðar og ávinnings. – Það verður að finna út úr því hvers konar ferðaþjónustu við viljum í löndum okkar.”

Liður í þessu væri að auka fjölbreytni, bjóða ferðamönnum fleiri kosti – nýja áfangastaði, og styðja fyrirtækin við að innleiða vistvænar lausnir til að stuðla að sjálfbærari ferðaþjónustu. 

Nýtt efni

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …