Samfélagsmiðlar

„Þurfum að sameina kraftana“

Nýr formaður Leiðsagnar, félags leiðsögumanna, Jóna Fanney Friðriksdóttir, vill að kannað verði hvort rétt sé að fara í bandalag með öðrum stéttarfélögum til að styrkja stöðuna í baráttunni fyrir bættum kjörum. TÚRISTI ræðir við Jónu Fanneyju um starfið og hagsmunamál leiðsögumanna.

Jóna Fanney Friðriksdóttir, formaður Leiðsagnar

Við mæltum okkur mót á kaffihúsi við Bankastræti. Leiðtogar Evrópuríkja voru horfnir á braut en venjulegir túristar fóru óhindraðir ferða sinna um súldarlega miðborgina. Þegar við settumst niður með kaffibollana byrjar Jóna Fanney Friðriksdóttir á því að segja mér að hún sé algjörlega ósofin eftir að hafa skilað af sér ferðamannahópi suður á Keflavíkurflugvöll í nótt. Svona er líf leiðsögumannsins. Það er vaknað snemma og oft farið seint að sofa – já, eða því bara sleppt.  

Jóna Fanney tók nýverið við sem formaður Leiðsagnar, félags leiðsögumanna á Íslandi. Um 900 manns eiga aðild að félaginu en miklu fleiri starfa við leiðsögn hérlendis – margir þeirra eru útlendingar sem sinna ökuleiðsögn.

Leiðsögumenn eru sundurleitur hópur, fólk úr ýmsum áttum og með ólíka menntun og bakgrunn. Helsta baráttumál Leiðsagnar hefur frá upphafi verið að auka gæði leiðsögustarfsins. Það er vafalaust mjög krefjandi verkefni. Ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega mikið á rúmum áratug og það hefur auðvitað reynt mjög á getu Íslendinga til að sinna gestgjafahlutverki sínu. Við ræðum stöðu ferðaþjónustunnar og verkefni leiðsögumanna á meðan við súpum á kaffinu. Allt í kringum okkur sitja erlendir ferðamenn að velta fyrir sér næstu áföngum í Íslandsferðinni. 

Erum við of fámennur hópur til að standa ein í þessari baráttu?“ – MYND: ÓJ

Stærsta hagsmunamál leiðsögumanna í dag eru kjaramálin. Samningar verða lausir í janúar 2024. Við erum að mynda hóp til að fara í þau mál og vonast ég til að þau sem hafa unnið að þeim fyrir okkur geri það áfram. Kjaramálin eru númer eitt, tvö og þrjú. Mig langar líka til að við leiðsögumenn spyrjum okkur hvort við værum betur komin í bandalagi með öðrum stéttarfélögum. Erum við of fámennur hópur til að standa ein í þessari baráttu? Þetta er eitt af því sem við munum skoða. Með þessu er ég ekki að segja að sameining við annað stéttarfélag fylgdi því að ganga í bandalag með öðrum. 

Annað stórt hagsmunamál okkar er að sameina hópinn – sameina leiðsögumenn. Ýmsir hópar sem sinna leiðsögn eru utan félagsins – eins og ökuleiðsögumenn og fjallaleiðsögumenn. Þetta er ekki góð þróun. Við erum í heildina fámenn stétt og megum ekki við því að kljúfa okkur í marga litla hópa. Þá verður lítið bit í okkur. Við þurfum að sameina kraftana.  

„Ég tel að við þurfum að koma okkur inn í 21. öldina hið fyrsta“ – MYND: ÓJ 

Vandinn liggur að hluta í því hvernig Leiðsögn hefur hingað til metið skilyrði til aðildar að félaginu – út frá því hvaðan viðkomandi hefur lokið leiðsögumannaprófi. Þetta þarf að fara betur yfir. Félag leiðsögumanna fer ekki með völdin menntamálum, það gera yfirvöld menntamála. En það dugar ekki lengur að vinna eftir gömlum námsskrám og úreltum kröfum. Félag leiðsögumanna þarf að sameina krafta leiðsögumanna og beita sér fyrir því að koma námskrárgerð leiðsögumanna í örugga höfn í ráðuneyti menntamála. Ég tel að við þurfum að koma okkur inn í 21. öldina hið fyrsta. 

Þriðja atriðið sem ég vil nefna af því sem blasir við í starfi Leiðsagnar er þörfin á því að móta framtíðarsýn félagsins. Hvernig félag viljum við vera? Mér finnst mjög brýnt að við spyrjum okkur þeirrar spurningar. Raddirnar eru margar. Það er óánægja víða. Litlir hópar hafa klofið sig frá heildinni. Nú þurfum við að koma saman og ákveða hvernig við viljum að félagið verði. Viljum við sinna hagsmunamálum stéttarfélagsins í sjálfboðastarfi? Viljum við fá skjól af öðru sterku stéttarfélagi? Þessu svara ég ekki ein. Það er félagsmanna að svara þessum spurningum. Ljóst er að við þurfum að styrkja okkur. Við þurfum að greina betur forsendur fyrir kröfum okkar um betri laun fyrir starfið.“ 

Jóna Fanney sat í stjórn Landverndar – MYND: JFF

Jóna Fanney hlaut réttindi sem leiðsögumaður árið 1987 en hefur á starfsævinni sinnt fjölmörgum öðrum störfum, m.a. verið bæjarstjóri á Blönduósi.  

„Ég hef iðulega hlaupið í leiðsögn á sumrin þó ég hafi verið í stjórnarstörfum, hef litið á það sem frí. Hef mikið verið í hestaferðum. Þegar ég bjó á Blönduósi fór ég oft sem leiðsögumaður í hestaferðir yfir Kjöl í sumarfríum.“ 

Ferðamenn á Skólavörðuholti – MYND: ÓJ

Hvernig myndir þú lýsa breytingunni á ferðaþjónustunni frá þeim tíma þegar þú varst að byrja? 

„Það hafa orðið algjör umskipti. Þetta er allt annað landslag – allt annar heimur en þegar ég byrjaði 1987. Þá komu öðruvísi gestir, fólk sem þekkti Ísland betur fyrirfram en vildi fara meira á dýptina. Fjöldatúrisminn er öðruvísi. Starf leiðsögumanna breytist með þessari þróun. Vaxandi fjölda ferðamanna hefur fylgt að hingað koma margir leiðsögumenn frá öðrum Evrópulöndum, ungt fólk sem sér þarna tækifæri á starfi. Það er ekkert sem stöðvar þetta fólk í að koma hingað og starfa.“ 

Þetta er opinn og frjáls atvinnumarkaður fyrir fólk af Evrópska efnahagssvæðinu. 

„Já, akkúrat. Og kannski getum við sagt: Sem betur fer! Við erum ekki nægilega mörg til að sinna þessum fjölda ferðamanna sem hingað kemur. Ekki frekar en á hótelunum. Þetta er orðin stærsta atvinnugreinin í landinu og við náum ekki að manna hana ein.“ 

Þykir nýja formanninum einhver ógn stafa af þessu vinnuafli að utan – leiðsögumönnum frá öðrum Evrópulöndum? 

„Nei, alls ekki. Ég tel að flest þetta unga fólk frá Evrópu sé að gera mjög vel. En það má flokka þjónustuna betur. Þá er ég engan veginn að tala um lögverndun starfsins. Mín sýn er að það myndi skili okkur litlu. Það verður hinsvegar að vera ljóst þegar atvinnurekandi ræður leiðsögumenn að um er að ræða nokkra flokka eftir menntun, starfsaldri og reynslu, Atvinnurekandinn ræður þessu. Sum ferðaþjónustufyrirtækin ráða eingöngu lærða leiðsögumenn, önnur blöndu úr báðum hópum: faglærða og minna menntaða, en leggja áherslu á að þau yngri sem koma að utan fái þjálfun hér – fari í ferðir fyrst með reyndum leiðsögumönnum.“ 

Hópferðabílar við Reynisfjöru – MYND: ÓJ

Er ekki erfitt fyrir Leiðsögn að sækja launahækkanir á sama tíma og fyrirtækin geta mannað störfin með ódýru, ungu vinnuafli frá meginlandinu? 

„Þá komum við kannski að því hvers virði menntunin er. Hvers virði er menntun leiðsögumanna hér í landinu? Þarf ekki að miða launin út frá því?“ 

Það gæti verið freistandi fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að horfa einfaldlega framhjá því og telja fullgott að ráða lítt þjálfaða leiðsögumenn? 

„Jú, það er veruleikinn í dag. En mörg fyrirtækjanna leggja mikla áherslu á menntun og reynslu – ráða jafnvel eingöngu Íslendinga í þessi störf – telja að í því því felist mikil verðmæti.“ 

Hvernig horfir sumarið við þér sjálfri? 

„Það er allt komið í fullan gang. Í nótt skilaði ég af mér hópi suður á Keflavíkurflugvelli. Þetta var starfsmannahópur frá Indlandi í sex rútum. Eigandinn var í rútunni með mér. Þetta er mjög stórt fyrirtæki á sínu sviði. Farnar verða fimm ferðir um Ísland í sumar með valið starfsfólk frá indverska fyrirtækinu, yfir þúsund manns. Í þessu verð ég í maí og júní. Ég er frílans og sinni mikið hvataferðum, eins og þeim sem Indverjarnir eru að fara í. Það er ekki bara ekið að Gullfossi og Geysi heldur líka farið á jökul, boðið upp á stuð og ævintýri – hefðbundin dagskrá er brotin upp með einhverju skemmtilegu.“ 

Það verður nóg að gera hjá þér í sumar. 

„Já, ég gæti unnið endalaust. Það er nóg að gera í þessum bransa árið um kring – aðeins rólegra núna eins og venja er í apríl og maí.“  

Gott að kunna jóga. Jóna Fanney á vettvangi starfsins – MYND: JFF

Hvaða kostir prýða góðan leiðsögumann?  

„Góður leiðsögumaður þarf að muna að vera hann sjálfur og kunna að lesa salinn, eins og sagt er. Ferðamenn eru ekki endilega komnir til að hlýða á langa fræðilega fyrirlestra, góð kímnigáfa er nauðsynleg öllum leiðsögumönnum. Þeir verða að geta byggt brú fyrir ferðamennina yfir í okkar menningarheim og samtímis að efla hópinn innbyrðis. 

Þetta síðasta sem ég nefni – að að efla hópinn innbyrðis – má líklega segja að sjálfir leiðsögumennirnir þurfi að gera í dag: efla hópinn og byggja á samtakamættinum!“

Ferðamaðurinn er stundum einn – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Í byrjun apríl tók Einar Örn Ólafsson við sem forstjóri Play eftir að hafa verið stjórnarformaður þess allt frá því að félagið hóf áætlunarflug fyrir bráðum þremur árum síðan. Stuttu eftir að Einar Örn settist á forstjórastólinn réði hann Sigurð Örn Ágústsson, fyrrum forstjóra Bláfugls, sem framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar og gerði Arnar Má Magnússon að aðstoðarforstjóra. …

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …