Samfélagsmiðlar

„Metnaðarfull áform um vöxt“

Eftir breytingar í eigendahópi á Arctic Adventures ekki lengur hlut í ferðaþjónustufyrirtækjum í Alaska. Nýi forstjórinn, Ásgeir Baldurs, segir að helsta verkefnið nú sé að tryggja stöðugleika í rekstrinum. Fyrst um sinn einbeiti félagið sér að starfseminni hér heima - en stefnt sé að því að stækka félagið og hugsanlega setja á markað.

Jökull kannaður að innan

„Þetta er spennandi. Ferðaþjónustan er mjög vaxandi grein og áhugaverð, skiptir stöðugt meira máli í lífi fólks. Það er gaman að vera kominn á vettvang þar sem fólk hefur áhuga á því sem er verið að selja. Maður hefur ekki alltaf orðið var við það í fyrri störfum. Það eru líka forréttindi að kynna fyrir útlendingum það sem landið hefur að bjóða. Stundum getur verið óaðgengilegt að njóta þess besta á Íslandi. Fólk fær mest út úr ferðinni ef það notfærir sér þjónustu fyrirtækis eins og okkar,“ 

segir Ásgeir Baldurs, nýr forstjóri Arctic Adventures. Hann býr að víðtækri reynslu úr viðskiptalífinu, var forstjóri VÍS, fjárfestingastjóri TM og forstöðumaður og ráðgjafi hjá Kviku. 

Nýr forstjóri Arctic Adventures, Ásgeir Baldurs – MYND: ÁB

„Ferðaþjónustan hefur mikil áhrif á samfélagið og vegur þungt í efnahag landsins. Fólk hefur sterkar skoðanir á greininni og miklar tilfinningar blandast í umræðu um hana. Það er skiljanlegt. Ferðaþjónusta snertir víða við lífi fólks. Áhrifin eru að mestu mjög jákvæð. Það er skemmtilegt og verðugt verkefni fyrir okkur hjá Arctic Adventures að hjálpa til við að búa til vel skipulagt og öruggt aðgengi að feðamannastöðum landsins – helstu perlum Íslands. Við viljum bjóða fólki að ferðast á betri hátt en það myndi gera á eigin vegum.“

Gengið á jökul – MYND: Arctic Adventures

Hver eru helstu verkefni Arctic Adventures núna?

„Stærsta verkefnið er að tryggja stöðugleika í rekstrinum eftir mikinn vöxt sem verið hefur frá lokum Covid-19. Við þurfum að viðhalda starfseminni og bæta hana, byggja upp innviði til að hægt verði að taka á móti fyrirsjáanlegum vaxandi fjölda ferðamanna sem hingað kemur á næstunni. Síðan þurfum við stöðugt að auka gæðin, bæta allt sem við erum að gera.

Eins gott að vita hvað maður á að gera – MYND: Arctic Adventures

Margt gott starfsfólk vinnur hjá okkur, leiðsögumenn og annað fólk. Hinsvegar er ljóst að þessi hraði vöxtur sem varð eftir heimsfaraldurinn reyndi á innviði Arctic Adventures eins og hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Það var erfitt að ná í tól og tæki, ráða þurfti mannskap á stuttum tíma. Það hefur gengið vel en ná verður meiri stöðugleika eftir hraðan vöxt á síðasta ári – og byggja síðan ofan á.“

Eruð þið sátt við það hvernig álagið dreifist yfir árið?

„Auðvitað viljum við alltaf hafa það jafnara. Eftir heimsfaraldurinn tók bókunartíminn að styttast. Minni fyrirsjáanleiki varð í starfseminni. Ég trúi því að þetta eigi eitthvað eftir að jafnast þó að ekki stefni í sama horf og fyrir faraldurinn. Veruleikinn er orðinn sá að fólk bókar með styttri fyrirvara en áður. Það reynir meira á ferðaþjónustufyrirtækin í áætlanagerð. Þetta á eftir að ganga aðeins til baka. Eftir faraldurinn gat fólk allt í einu ferðast að nýju og bókaði með mjög stuttum fyrirvara. Sá fyrirvari á kannski eftir að lengjast aðeins – en almennt stefnir í þessa átt: að bókað er með styttri fyrirvara en áður fyrr.“

Upplifun á fjöllum – MYND: Arctic Adventures

Og þið verðið að laga ykkur að þessum veruleika?

„Já, það er verkefnið. Hraðinn í heiminum hefur aukist og við sem fyrirtæki verðum að laga okkur að því.“

Er þá líka algengara en áður að fólk afpanti ferðir?

„Það hefur alltaf tíðkast. Nú er þetta allavega þannig að ferðaþjónustufyrirtækin loka ekki á bókanir fyrr en rétt fyrir brottför – til að halda áfram sölu eins lengi og hægt er. Það er hluti af skipulagsvinnunni að takast á við þetta.“

Leiðin inn í Langjökul – MYND: Arctic Adventures

Að stærstum hluta hefur Arctic Adventures verið með starfsemi á sunnanverðu landinu og á hálendinu. Er það að breytast?

„Við vorum að festa kaup á Hótel Hellissandi og opnum það núna í júní. Markmiðið er að geta boðið gistingu í okkar ferðum um landið. Svo höfum við keypt allt hlutafé í Óbyggðasetrinu í Fljótsdal, þar sem gisting er í boði. Þetta er hluti af aukinni áherslu okkar á gistiþjónustu þó að við höfum engin áform um stórfelld umsvif í hótelgeiranum. Fyrir rekum við hótel á Geirlandi og í Hofi. Nú bætist Hellissandur við hjá okkur. Stefna okkar er að horfa til alls landsins sem okkar starfssvæðis. Við einblínum ekki á þetta en erum tilbúin að grípa tækifæri sem gefast til að veita ferðafólki þjónustu. Það eru góðar fréttir að EasyJet ætli að fljúga frá Bretlandi til Akureyrar næsta vetur. Vonandi náum við dreifingu um allt land – líka yfir vetrartímann. Við höfum trú á því að það sé frábær söluvara að bjóða Ísland allt sem áfangastað árið um kring.“

Sameiginlegt félag Arctic Adventures og bandaríska fjárfestingafélagsins Pt Capital keypti á síðasta ári ferðaþjónustufyrirtækin All Alaska Tours og Alaska Private Touring og uppi voru áform um umsvif í Alaska og byggja á reynslu frá Íslandi. Nú hafið þið hinsvegar dregið ykkur út úr þessu. Hvers vegna?

„Þetta tengist breytingum á eignarhaldi Arctic Adventures. Þessu fylgdi að við seldum frá okkur hlutinn sem við áttum í rekstrinum í Alaska. Að svo stöddu ætlum við að einbeita okkur að Íslandi.“

Það eru engin áform um landvinninga?

„Nú höldum við okkur við Ísland en útilokum ekkert að grípa tækifæri annars staðar.“

Raufarhólshellir – MYND: Arctic Adventures

Sjáið þið fyrir ykkur að afþreyingarhluti starfseminnar eigi eftir að vaxa?

„Við erum að móta stefnu til framtíðar. Nú seljum við ferðir og flytjum fólk um landið en viljum um leið geta boðið afþreyingu og upplifun. Við rekum áfangastaðinn Into the Glacier og eigum 80 prósent í Raufarhólshelli, bjóðum upp á köfun í Silfru, íshellaferðir, jöklagöngur og gönguferðir á hálendinu. Til viðbótar eru það svo dagsferðir eða lengri ferðir um suðurströndina, Snæfellsnes, Vestmannaeyjar eða allan hringinn – ásamt hótelunum sem við starfrækjum. Þetta er blandan og svona verður hún.“

En markmiðið er þá að halda í horfinu – styrkja það sem fyrir er í rekstrinum?

„Já, en á sama tíma höfum við metnaðarfull áform um vöxt. Við ætlum okkur að stækka félagið. Það verður bæði gert með því að efla núverandi starfsemi en svo skoðum við hvort einhver tækifæri eru fyrir hendi til að kaupa fyrirtæki sem myndu henta vel okkar rekstri – þar sem við gætum komið með eitthvað að borðinu og bætt það sem fyrir er.“

Ásgeir (t.v.) á Falljökli með Johnny Solie – MYND: ÁB

Er Arctic Adventures að hugsa um að fara á almennan markað með hlutabréf?

„Það var áður stefna félagsins. Áhuginn er enn fyrir hendi en segja má að búið sé að fresta áformunum. Með því að Alaska-hluturinn fór í burtu er Arctic Adventures ekki komið í þá stærð að vænlegt sé að setja félagið á markað. En markmiðið til lengri tíma er að tryggja að félagið verði hæft til skráningar á markaði. Það gæti orðið spennandi kostur í Kauphöllinni ef hægt væri að fjárfesta í þessari atvinnugrein – í öðru en flugfélögum.“

Útgerðir mætast í Grindavík – MYND: ÓJ

Mikill þrýstingur er á flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki um allan heim að draga úr losun og auka sjálfbærni. Þið eruð hinsvegar með bílaflota sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti. Mun ekki reyna á að umbreyta rekstrinum og minnka losun umtalsvert?

„Þetta er eitt af stóru málunum hjá okkur. Við lifum á því að sýna fólki náttúruna og verðum að treysta því að geta haft aðgang að henni í góðu ástandi. Við þurfum að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til okkar. Umhverfismálin eru eitt af stóru verkefnum okkar. Fyrirséð er að skipta verður út jarðefnaeldsneyti. Það styttist vonandi í að við tökum í notkun farartæki sem nota rafmagn og aðra vistvæna orkugjafa. Þangað til reynum við að draga úr mengun. Uppi á Langjökli sjáum við greinilega hvaða áhrif hlýnun jarðar hefur. Við notum tækifærið og fræðum fólk um þessi áhrif. Það er hluti af þeirri sögu sem við segjum að ekki sé víst að hægt verði að skoða jöklana að einhverjum árum liðnum. Fólk ætti að koma til Íslands á meðan jöklarnir eru þar enn.“

Bíll Arctic Adventures

Bíll Arctic Adventures á leið um Öxi í vor – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Það er mat Standard & Poor's að Grikkland hafi loks bundið enda á skulda- og bankakreppuna sem reið yfir landið fyrir 15 árum síðan. Hin gríska skuldakreppa gekk nærri evrusamstarfinu á sínum tíma en úr var að Grikkland fékk 50 milljarða króna lán úr stöðugleikasjóði Evrópusambandsins. Sú upphæð fór í einskonar gríska bankasýslu sem lagði …

Umtalsverður samdráttur hefur orðið í vínútflutningi Nýsjálendinga að undanförnu. Verð hefur lækkað og minna selst á mikilvægustu markaðssvæðum. Áhugi á nýsjálenskum vínum náði hámarki um mitt árið 2023 en leiðin hefur legið niður á við síðustu mánuði, eins og tölur frá uppgjörsárinu sem lauk í júní sýna glögglega. Verðmæti nýsjálenskra vína minnkaði um 12,2% frá …

Stjórnendur Play gera ekki ráð fyrir að fjölga þotunum í flotanum á næsta ári en það er engu að síður þörf á nýjum flugmönnum. Play hefur því auglýst til umsóknar lausar stöður flugmanna og rennur fresturinn til að sækja um út í byrjun desember. Ekki liggur fyrir hversu margir verða ráðnir samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu. …

Nýr forsætisráðherra Frakklands, Michel Barnier, er ekki sáttur við stöðu innflytjendamála í landinu og vill herða tökin. Endurspeglar hann þar stöðugt háværari umræðu í landinu um fjölda innflytjenda. Meginþunginn í stefnuræðu Barnier á þinginu fyrr í vikunni var á stöðu efnahagsmála, hvernig stöðva þyrfti skuldasöfnun, skera niður útgjöld og hækka skatta. En hann ræddi líka …

Í lok október þyngist flugumferðin milli Íslands og Bretlands enda fjölmenna Bretar hingað til lands yfir vetrarmánuðina. Breska flugfélagið Easyjet hefur verið stórtækast í flugi milli landanna tveggja á þessum árstíma en félagið hefur nú skorið niður áætlunina þónokkuð frá síðasta vetri. Til viðbótar við þennan niðurskurð á Keflavíkurflugvelli þá hefur Wizz Air fellt niður …

Toyota Motor hefur ákveðið að fresta framleiðslu rafbíla í Bandaríkjunum vegna þess að dregið hefur úr eftirspurn. Viðskiptavefur Nikkei greinir frá því að framleiðslan hefjist ekki fyrr en á fyrri hluta árs 2026. Framleiðandinn á að hafa greint birgjum nýverið frá því að það drægist að hefja smíði fyrsta rafbílsins, þriggja sætaraða sportjeppa, í verksmiðju …

Hið konunglega hollenska flugfélag, KLM, boðar aðgerðir til að ná niður kostnaði til að vega upp á móti almennum verðlagshækkunum. Í tilkynningu segir að þetta hafi í för með sér samdrátt í fjárfestingum, einfaldara skipulag, aukna kröfu um framleiðni og almennar sparnaðaraðgerðir. „Flugvélarnar okkar eru fullar en framboðið er enn þá minna en það var …

Á miklum óvissutímum fyrir botni Miðjarðarhafs vegna stríðsátaka, sem hafa mikil áhrif á flugsamgöngur, tilkynnir bandaríska flugfélagið Delta Air Lines um samstarf við Saudia Airlines, þjóðarflugfélag Sádi-Arabíu. Markmiðið er að fjölga ferðamöguleikum á milli Bandaríkjanna og Miðausturlanda. Um er að ræða samkomulag (codeshare agreement) um að deila áætlunum og útgefnum flugmiðum. Viðskiptavinir geta þá framvegis …