Í þingkosningunum í Grikklandi 25. maí fór svo í fyrsta skipti í meira en fjóra áratugi að sitjandi ríkisstjórn jók fylgi sitt. Nýtt lýðræði, hægri-miðflokkur forsætisráðherrans Kyriakos Mitsotakis, vann glæsilegan sigur, fékk 41 prósent atkvæða, en það dugði ekki til að fá hreinan meirihluta. Mitsotakis vill ekki samsteypustjórn og freistar þess að sækja hreinan meirihluta í nýjum kosningum 25. júní.
Lögregla til taks vegna mótmæla við þinghúsið – MYND: ÓJ
Kosið verður um öll 300 sætin á gríska þjóðþinginu með fyrirkomulagi sem skilar þeim sem fær mest fylgi aukasætum. Þessu fyrirkomulagi er ætlað að auka festu við stjórn landsins. Það má færa sterk rök fyrir því að það sé einmitt festa sem Grikkir þurfa á að halda. Fái Mitsotakis hreinan meirihluta eru horfur á að Grikkland fái á komandi mánuðum hærri lánshæfiseinkunn og sterkari stöðu á vettvangi Evrópustjórnmála. Fjármálaöflin kunna vel að meta stjórnmálalegan stöðugleika – ekki síst ef við völd situr ríkisstjórn sem vill vinna með þeim. En spurningin er hvort almenningur í Grikklandi fær langþráðar lífskjarabætur – meira félagslegt réttlæti.
Kosningaspjald Nýs lýðræðis með mynd af forsætisráðherranum – MYND: ÓJ
Það miðaði sannarlega í rétta átt í efnahagsmálum Grikklands á síðasta kjörtímabili þó að það hafi ekki dugað til að tryggja áframhaldandi völd Mitsotakis í fyrstu tilraun. Þjóðarframleiðsla jókst um 5,9 prósent í samanburði við 3,5 á Evrusvæðinu í heild og búist er við að vöxturinn á þessu ári haldi áfram, verði 3,3 prósent, sem er nokkru yfir meðaltalinu í Evrópusambandinu.
Ferðahópur í miðborginni, mannfjöldi á Ermou, bandarískar stúlkur í Plaka og Asíubúar á Akrópólis – MYNDIR: ÓJ
Óhætt virðist vera að tala um mjög áhugaverðan efnahagslegan viðsnúning í Grikklandi – nokkurs konar Öskubuskusögu, þó kannski sé of snemmt að fullyrða um farsæl sögulok á valdatíma Mitsotakis. Mestu munar um hraðan vöxt ferðaþjónustunnar eftir heimsfaraldurinn en miklu skiptir að tekist hefur að auka framleiðslugetu í landinu með fjárfestingum í nýjum verksmiðjum og tækjum. Mitsotakis hefur beitt sér fyrir því að ríkið auki fjárfestingar og hvetji með því móti einkaaðila til dáða en landið hefur líka notið góðs af gríðarháum styrkjum og lánum úr sjóðum Evrópusambandsins. Efnahagslegur uppgangur og stöðugleiki færir landinu hærri lánshæfiseinkunn og betri kjör á fjármálamörkuðum. Grikkir virðast á leiðinni upp úr ruslflokki í augum fjármálaheimsins. Þau umskipti gætu orðið á næsta ári ef vel verður haldið á spilunum.
Á förnum vegi í miðborg Aþenu – MYNDIR: ÓJ
Leiðin framundan er þó hvorki bein né greið fyrir Grikki. Áfram þurfa þeir að búa við fremur erfiðar efnahagslegar og félagslegar aðstæður í vestur-evrópskum samanburði. Þjóðin eldist hratt og framleiðni er ekki nægilega mikil. Félagslegt óöryggi og laskað velferðarkerfi dregur úr mætti og getu Grikkja til að nýta tækifærin sem bíða. Fátækt og félagsleg niðurlæging blasir við Túrista á ferð um sum hverfi Aþenu: Ölmusufólk með útréttar hendur, fíklar liggja í rennusteinum eða híma undir húsveggjum, gamalt fólk, lúið og lasið, reynir að afla tekna með sölu á þreytulegum og oft fremur óspennandi varningi á götum úti.
Graffití: List eða skemmdarverk? – MYNDIR: ÓJ
Þetta breystist ekki alveg á næstunni. Grikkir verða áfram í efnahagslegu basli. En það hefur náðst árangur. Leiðin liggur upp á við í efnahagslegu tilliti og það ætti að gefa Mitsotakis færi á að beita sér meira á alþjóðavettvangi, sérstaklega innan Evrópusambandsins, þar sem hægriblokkin styrkist á Evrópuþinginu – og auðvitað í samningum við fjármálastofnanir og fjárfesta.
Uppstillingar á Akrópólis – MYND: ÓJ
Þó að nýjar verksmiðjur rísi og framleiðslugeta í iðnaði aukist er það ferðaþjónustan sem er helsta bjargræði Grikkja og skilar hátt í fjórðungi þjóðartekna. Vonir um áframhaldandi vöxt í þjóðarbúskapnum byggjast að verulegu leyti á jákvæðum horfum í ferðaþjónustu. Um 31 milljón ferðamanna kom til Grikklands árið 2019 – fyrir faraldurinn. Á síðasta ári var vöxturinn í ferðaþjónustunni meiri í Grikklandi en víðast annars staðar í Evrópu.
Umferðarþys í miðborginni – MYND: ÓJ
Til landsins komu 28 milljónir ferðamanna í fyrra en ferðamálaráðherrann, Vasilis Kikilias, gerir fastlega ráð fyrir fleiri ferðamönnum í ár, þeim fjölgi um meira en 10 prósent – fjöldinn fari vel yfir 30 milljónir. Hann bendir á að þrátt fyrir margskonar erfiðleika í heiminum hafi ferðamenn streymt til Grikklands og það muni þeir gera áfram árið um kring.
Horfur eru á að ferðamönnum fjölgi ekki síst frá stórum markaðssvæðum eins og Bretlandi. Þá er vaxandi umferð frá Kína, líka utan háannar. Gríska ferðamálaráðið hefur opnað skrifstofu í Melbourne í Ástralíu og eru vonir bundnar við fjölgun ferðamanna þaðan. Fleiri flugferðir bjóðast en áður frá Ísrael og unnið er að því að efla tengslin við flugfélögin í Saudi-Arabíu og koma á sambandi við Indland og Suður-Kóreu.
Ferðamenn á Monastiriki-torgi – MYND: ÓJ
Áframhald verður á beinu flugi frá Bandaríkjunum og Kanada, sem hófst á síðasta ári og stóð fram í janúar. Það hófst að nýju í marsmánuði. Hluti af þessum uppgangi er svo auðvitað áætlunarflug Play milli Íslands og Aþenu í allt sumar og fram í janúar á næsta ári. Í fyrstu ferðum félagins til Aþenu í júní hefur verið vel bókað.
Farþegar Play ganga frá borði á Eleftherios Venizelos-flugvelli við Aþenu – MYND: ÓJ
Tölurnar tala sínu máli. Um 2,5 milljónir ferðamanna komu til Grikklands á fyrsta ársfjórðungi, fjölgaði um rúm 74 prósent frá sama tímabili 2022. Fjölgun flugfarþega var um 65 prósent og fjöldi þeirra sem kom landleiðina tvöfaldaðist. Þetta gefur vísbendingu um árið í heild. Talað er um að september sé orðinn jafn annasamur og ágúst.
Þessi mikli og vaxandi straumur reynir mjög á alla innviði og getu til að þjóna. Um milljón manna starfar í ferðaþjónustu í Grikklandi. Allir sem heimsækja landið sjá að heimafólkið sinnir störfum sem t.d. á Íslandi eru að stærstum hluta falin útlendu vinnuafli – þ.á m. ungum Grikkjum. Á hótelinu sem Túristi dvaldi á var fólk á miðjum aldri í flestum hlutverkum, vaktir fólksins langar en þjónustan góð.
Þetta mikla vinnuframlag Grikkjanna sjálfra í heimalandinu dugar þó ekki til. Sækja þarf til útlanda um 80 þúsund manns til starfa á háönninni, m.a. verða nýttir samningar sem gerðir hafa verið við stjórnvöld í Egyptalandi, Bangladesh og Pakistan í þessu skyni. Egyptar eru ekki síst ráðnir til að sinna störfum í landbúnaði – framleiða mat handa gestunum. Við blasir að skortur á vinnuafli mun valda sífellt meiri erfiðleikum ef svo fer að ferðafólki heldur áfram að fjölga í Grikklandi og þeir verði 30-40 milljónir á ári.
Á hótelafgreiðslu í miðborg Aþenu – MYND: ÓJ
Aþena með alla sína mikilfenglegu sögu og minjar á Akrópólis og víðar, fjölskrúðugt mannlíf í skemmtilegum og áhugaverðum hverfum, fjölda veitingahúsa og frábæran mat – og tækifæri til að skjótast í dagsferðum út í eyjar eða annað – laðar til sín flesta ferðamenn, eða meira en 6 milljónir á ári. Nú um miðjan júnímánuð var hvergi örtröð nema á leiðinni upp á Akrapólishæð. Þar voru m.a. áberandi stórir hópar farþega af skemmtiferðaskipum.
Grísku eyjarnar eru margar og ólíkar og fá til sín ferðamenn árið um kring. Af vinsælustu ferðamannaeyjunum dugar að nefna Santorini, Krít, Korfú, Ródos og Mykonos. Annars eru ferðamenn hvarvetna á Grikklandi, hvort sem er á meginlandinu eða eyjunum. Góðar ferjusiglingar tryggja að auðvelt er að ferðast frá Piraeus við Aþenu út í hinar og þessar eyjar, fara síðan á milli þeirra eftir því sem hver og einn kýs.
Í ferjuhöfninni í Piraeus – MYND: ÓJ
Grikkland er töfrandi land og gestgjafarnir elskulegir, kurteisir og þolinmóðir – vilja allt fyrir ferðamanninn gera. Auðvitað hafa margra ára erfiðleikar með efnahagshruni, óstjórn og spillingu, veiklun innviða og félagslegri upplausn sett mark á fólk. Grikkir hafa þurft að bera mikinn þunga vegna straums flóttafólks yfir hafið. Skelfilegir atburðir verða við bæjardyr þeirra, fólk ferst undan ströndum í lélegum bátum sem óvandaðir menn nota til að flytja fólk til betra lífs. Þessi straumur gæti enn þyngst. En okkur hinum sem fljúgum til Grikklands í góðum og öruggum farkostum til að njóta skamma hríð dásemda þessa fjölbreytilega lands með alla sína merku sögu og ríkulegu menningu á líka eftir að fjölga.
Nýir menn á vaktina í Exarcheia – MYND: ÓJ
Efnahagslega kemur það Grikkjum mjög til góða eftir erfið ár að ferðaþjónustan blómstri – en forsjálni þarf að fylgja. Það verður að vera hægt að sinna öllum þessum fjölda sómasamlega án þess að þræla út vinnandi fólki. Vonandi tekst Grikkjum vel að leysa öll þau stóru verkefni sem bíða. Landið og íbúarnir sjálfir eiga það skilið.
Skilaboð til ferðamanna í Exarcheia – MYND: ÓJ
———
Flugfélagið Play greiddi flugmiða blaðamanns Túrista til Aþenu