Samfélagsmiðlar

„Túristinn í dag vill upplifa eitthvað“

Grindavík er í senn gamalt útgerðarpláss og vettvangur mikillar nýsköpunar. Suðurstrandarvegur breytti miklu fyrir ferðaþjónustuna og nú velta menn fyrir sér að taka á móti skemmtiferðaskipum til að nýta höfnina betur. „Aðrir innviðir verða líka að þola fleiri heimsóknir," segir Kristín María Birgisdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi.

Kristín María Birgisdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi Grindavíkur

Grindavík leynir á sér. Þetta sjávarpláss við suðurströnd Reykjanesskagans laðar til sín fjölda ferðafólks árið um kring, miklu fleiri en maður áttar sig á í fljótu bragði. Flestir fara í Bláa lónið. Einn rigningardaginn nýverið fylgdist TÚRISTI með stríðum straumi fólks að þessum heimsþekkta baðstað í hrauninu. Það er auðvitað undur hvernig tekist hefur að nýta kísilríkan afgangsvökva Svartsengisvirkjunar – breyta honum í dýrmætt baðvatn þarna í úfnu hrauninu. 

Við Bláa lónið – MYNDIR: ÓJ

Bílar af öllum stærðum og gerðum streymdu að Bláa lóninu. Allir gleyma veðrinu þegar þeir eru komnir ofan í heitt, blátt vatnið. Þetta er stærsta fyrirtækið í Grindavík og fjölsóttasti áfangastaður ferðamanna sem koma til Íslands. Líklega gera fæstir gesta sér grein fyrir því að Bláa lónið er innan sveitarfélagsmarka útgerðarbæjar handan fjallsins – Grindavíkur.

Þau sem stýra ferðamálum í Grindavík vildu gjarnan sjá aðeins fleiri gesti aka framhjá Þorbirni og niður í sjávarplássið. Ekki svo að skilja að fáir geri það. 

Erlendir ferðamenn og lyftari – MYND: ÓJ

Þennan þungbúna dag sem TÚRISTI staldrar við í Grindavík er slæðingur af ferðamönnum á vappi eða inni á einhverjum margra veitingahúsa í bænum. Þá voru vafalítið einhverjir að skoða nýja hraunið við Fagradalsfjall, í Geldingadölum, Merardölum. Við hvaða stað á maður að kenna eldgosið? (Við Íslendingar höfum þetta aldrei einfalt).

Svo gengur fólkið til baka og borðar eða fær sér kaffi í gamla útgerðarstaðnum. 

Matartími í frystihúsinu – MYND: ÓJ

Grindavík er útgerðar- og orkunýtingarbær með öfluga matvælavinnslu og nýsköpun í líftækniiðnaði og framleiðslu á húðvörum. Það hefur ekki verið efst á blaði að efla ferðaþjónustu í bænum en tækifærin hafa komið – ferðamennir hafa komið. Eldgos og jarðhræringar hræða nútímafólk ekki í burtu. Eiginlega þvert á móti. 

Eldgosið í Geldingadölum við Fagradalsfjall á sjötta degi, 24. mars 2021 – MYND: ÓJ

Á bæjarstjórnarskrifstofunum við Víkurbraut starfar upplýsinga- og markaðsfulltrúi bæjarins, Kristín María Birgisdóttir, sem áður átti sæti í bæjarstjórn og var formaður bæjarráðs. Nú er hún með ferðamálin á sinni könnu, er tengiliður bæjarins við ferðaþjónustufyrirtækin í Grindavík. Þá hefur Grindavíkurbær staðið fyrir kynningarherferðum, vefsíðan Visit Grindavík var endurnýjuð og bætt. Auðvitað falla til ýmis verkefni, eins og hátíðin Sjóarinn síkáti, sem haldin er um sjómannadagshelgina.

En þegar eldgos hefst í bakgarðinum er allt annað sett til hliðar.

Norski herinn kom til að sjá eldgosið – MYND: ÓJ

„Eldgosið var rosalega stórt verkefni. Íslendingar komu allir að sjá það – og þeir erlendu ferðamenn sem voru hérna þrátt fyrir Covid-19. Okkur finnst Reykjanesskaginn oft hafa orðið útundan hjá ferðamönnum. Allir fara Gullna hringinn en við höfum verið að berjast fyrir því að fá meiri umferð á Reykjaneshringnum. Þar er svo margt að skoða. Þetta eldgos kom eins og eftir pöntun. Augu allra beindust að Reykjanesskaganum og Grindavík. Eldgosið kom Grindavík á kortið á sama hátt og eldgosið í Eyjafjallajökli kom Íslandi á kortið á sínum tíma. Umferð hingað margfaldaðist. Enn er mikil umferð fólks upp eftir að skoða hraunið. Því miður eru innviðir ekki eins og við viljum hafa þá, engir salerni eru á svæðinu. Landeigendur rukka fyrir lagningu bíla en við hefðum viljað sjá að á móti yrðu sett upp salerni.“

Er Grindavíkurbær ekki í aðstöðu til að láta gera þarna úrbætur?

„Við eigum ekki landið. Það þyrfti þá að vera gert í samstarfi við landeigendur. Við fengum framlag úr Uppbyggingasjóði ferðamannastaða á sínum tíma. Peningarnir voru notaðir til að gera gönguleiðina öruggari, stika leiðina, reyna að koma í veg fyrir að fólk færi sér að voða. Ég fór að fyrra eldgosinu á öðrum degi. Þar var fólk á opnum klossum og spariskóm, sumir á stuttbuxum. Það virtist ekkert átta sig á því út í hvað það var að fara. 

Kvika að utan og innan. Kristín María lýsir fyrirhuguðum sýningum á jarðhæð – MYNDIR: ÓJ

Nú vinnum við að því að markaðssetja Grindavík út frá þeim staðreyndum að þarna var eldgos. Í menningarhúsinu Kvikunni er unnið að uppsetningu gestastofu sem mun sinna hlutverki samfélagsmiðstöðvar um jarðvá. Sýningin Saltfiskur í sögu þjóðar hefur verið færð á efri hæðina. Þannig fengum við fjölnota aðstöðu á neðri hæðinni fyrir samkomur af ýmsu tagi. Þar verður sýning sem Gagarín hefur hannað og snýr að eldvirkni og viðbrögðum við eldgosum. Í móttökusal hússins verður Guðbergsstofa, sýningin um Guðberg Bergsson, rithöfund og heiðursborgara Grindavíkur. Þaðan sér út yfir höfnina. Við viljum að þarna verði heimilislegt og þægilegt að setjast niður. Þetta hús er á besta stað í bænum og það verður að þjóna Grindvíkingum sjálfum og gestum Reykjanes-jarðvangsins. Fjórða hvert ár koma úttektaraðilar til að kanna hvort við höldum þeirri stöðu að njóta viðurkenningar UNESCO að teljast Global Geopark.“

Hvaða vonir bindið þið við endurnýjaða Kviku?

„Við viljum að fólk fræðist og skynji á hvaða svæði það er statt. Þetta er eldfjallagarður og virkt svæði, eins og við höfum fengið að kynnast. Heimsókn á gamla Saltfisksetrið fól ekki í sér mikla upplifun heldur frekar fróðleik. Túristinn í dag vill upplifa eitthvað. Hann vill fara beint niður í fjöru og fylgjast með briminu skella á ströndinni og fara síðan og skoða nýja Ísland – nýjasta hraun landsins – og loks heimsækja Kviku til að sækja upplýsingar og fróðleik – og fá sér kaffi í leiðinni. Við viljum að heimsóknin verði hvatning til að skoða Reykjanesið enn frekari.“

Rafskúta og fiskikassar – MYND: ÓJ

Er þá ekki óhætt að segja að Grindavík sé orðin ferðamannabær?

„Jú, við fáum mjög marga ferðamenn hingað. Við höfum raunar lengi talað um að við þyrftum að lækka Þorbjörn til að gestirnir í Bláa lóninu sæju að á bak við væri íbúabyggð! Við höfum viljað fá fleiri þeirra hingað niður eftir. Margar leiðir eru farnar til að vekja athygli á Grindavik, með upplýsingaefni á Keflavíkurflugvelli og á vefsíðu. Við kynnum okkur líka á Alipay og náum þannig til asískra ferðamanna. Ferðamennirnir sjá þá hvað er í boði nálægt Bláa lóninu. Margir koma hingað og kaupa Bioeffect-húðvörur og skoða gróðurhúsið hér í Grindavík, þar sem eru 130 þúsund byggplöntur. Ferðamenn geta nálgast vandaðar húðvörur bæði í Bláa lóninu og hjá Bioeffect, sem framleiðir hér virka efnið í sínum vörum. 

Sambýli sjávarútvegs og ferðaþjónustu við Grindavíkurhöfn – MYNDIR: ÓJ

Þegar Suðurstrandarvegur var opnaður 2011 varð Grindavík bær sem fólk ók í gegnum. Margir fara til og frá Keflavíkurflugvelli, aka Suðurstrandarveg en sleppa því að fara Reykjanesbraut og í gegnum höfuðborgarsvæðið. Suðurstrandarvegur tengist núna beint ferðamannaslóðum á Suðurlandi.“

Veitingastaðurinn Bryggjan við höfnina – MYND: ÓJ

Þið finnið fyrir þessu hér í Grindavík – á veitingastöðum og í verslunum.

„Já, við gerum það. Það er fimm stjörnu hótel við Bláa lónið og hér hefur verið opnað gistiheimili. Okkur vantar nýtt hótel í Grindavík. Svo eru fleiri tækifæri. Nú er tekið á móti skemmtiferðaskipum í 20 höfnum á Íslandi. Það væri gaman ef Grindavíkurhöfn myndi bætast í þann hóp. Það er vaxandi hiti víða um lönd og fólk sækist eftir því að komast í svalara loft. Frá maí og fram í október er litlu landað í Grindavíkurhöfn og við þyrftum að nýta hana betur. Það væri kjörið að fá skemmtiferðaskipin en þá þyrfti að dýpka og breikka innsiglingarrennuna og stækka sjóvarnagarðinn. Eins og aðstaðan er núna gætum við tekið á móti 100 metra löngum skipum. 

Við höfnina – MYND: ÓJ

Þetta snýst um það hvert við viljum stefna, hvernig ferðamannabær við viljum að Grindavík verði. Það er viðkvæði margra að skemmtiferðaskipin skilji ekkert eftir sig. Staðreyndin er sú að á mörgum þeirra, sérstaklega þeim minni, er mjög auðugt fólk sem vill ekki vera í margmenni en kaupa góða þjónustu og láta gott af sér leiða í umhverfismálum.“

Innsiglingin í Grindavíkurhöfn – MYND: ÓJ

Þið viljið laða skemmtiferðaskipin til Grindavíkur?

„Það væri kjörið að nýta höfnina betur. Aðrir innviðir verða líka að þola fleiri heimsóknir. Það er sveitarfélaganna að hafa þá í lagi. Við verðum að ráða við verkefnið. Það er ekki nóg að fá fólkið í land. Hér þurfa að vera til staðar nægilega mörg salerni, veitingafólkið þarf að vera tilbúið að taka á móti fleirum og hér þarf að vera hægt að sækja einhverja afþreyingu.“

Saltið komið á land – MYND: ÓJ

Ferðaþjónustan er vaxandi en í huga flestra landsmanna er Grindavík fyrst og síðast útgerðarpláss.

„Hluti af því verkefni að laða hingað fleiri ferðamenn er að benda á sögu okkar. Við viljum halda því á loft að hér er stundaður sjávarútvegur og fiskvinnsla. Veitingamenn hér vilja gera út á þetta. Grindavík er þorp fiskimanna. Hér færðu nýjan og góðan fisk að borða. Ferðaþjónustan er auðvitað orðin stór hér eins og annars staðar. Við þurfum líka að muna hvar við erum – á þessum jarðvangi. Í jarðskjálftunum þurftum við að taka utan um 600 íbúa af erlendum uppruna, skýra fyrir þeim hvað væri í gangi. 

Þetta svæði er svo auðugt – gefur svo mikið af sér. Hér er Auðlindagarður HS Orku, sá eini sinnar tegundar í heiminum. Þar er samfélag 11 fyrirtækja sem nýta jarðvarmann hvert með sínum hætti. Ekkert á að fara til spillis. Hugmyndir og umræður um umhverfismál og sjálfbærni falla vel að því sem verið er að gera í Auðlindagarðinum. Grindavíkurbær er að hefja vinnu við gerð umhverfis- og loftslagsstefnu. Það er bagalegt að hún liggi ekki þegar fyrir. En nú er unnið af kappi á Suðurnesjavettvangnum og með íbúum og fyrirtækjum að því að bæta úr því og innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Almennt erum við Íslendingar langt á eftir í sjálfbærnimálum.“

Kristín María á bæjarskrifstofunum – MYND: ÓJ

Þið eruð með alþjóðaflugvöllinn á aðra hönd og höfuðborgina á hina, eruð í miðju þessa magnaða umbrotasvæðis. Maður skyldi ætla að þið væruð í lykilstöðu að þróa hér öfluga ferðaþjónustu.

„Já, við erum það. Hún hefur þróast hér í mörg ár. Spurningin er hvernig haldið er á spilunum. Fólk flytur hingað. Það vill búa hér. Það dró ekkert úr spurn eftir húsnæði þegar eldgosið hófst og á meðan jarðskjálftahrinan stóð. Það varð enn meira spennandi að búa í Grindavík. En á sama hátt og þegar tekið er á móti nýjum íbúum þá þurfa innviðir að vera í lagi. Það verður að vera hægt að taka á móti gestum. Það verður að gæta að þolmörkum. Íbúarnir verða að vera tilbúnir að taka á móti fleiri gestum. Miklu skiptir að fólkið sem kemur hingað líði eins og það sé velkomið. Troðningstúrismi er hættulegur. Náttúruperlur hverfa ef ekki er gætt að því hvernig tekið er á móti fólki. Skammtíma gróði á kostnað langtíma notkunar er sorglegur.“ 

Nýtt efni

Kínverjar eru leiðandi í smíði rafbíla, sem taldir eru mikilvægir vegna nauðsynlegra orkuskipta í samgöngum. Hinsvegar er Kína enn mjög háð brennslu kola, nærri 60% rafmagns í landinu er framleitt með kolum og það er enn verið að auka kolanám í landinu. Auk þess sem flutt er inn mikið af olíu og gasi. Jafnhliða er …

Það vour 1.299 bílar skráðir nýir á götuna hér á landi fyrstu þrjár vikurnar í júní og þar af 986 á vegum bílaleiga. Það jafngildir því að 24 prósent nýrra ökutækja fór til einstaklinga en á sama tíma í fyrra var hlutfallið 38 prósent samkvæmt tölum Bílgreinasambandsins sem ná til 23. júní. Þessar fyrstu þrjár …

Það voru þrjú norræn alþjóðaflugfélög sem hófu flugrekstur í Covid-faraldrinum. Hér á landi var það Play en Flyr og Norse í Noregi. Öll þrjú leigðu árið 2021 þotur á lægra verði en áður hafði þekkst og efndu til hlutafjárútboða meðal fagfjárfesta og almennings. Í byrjun síðasta árs varð Flyr gjaldþrota en rekstur þess byggði á …

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir …

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum - ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum …

Í Svíþjóð kalla sumarsólstöður, eða Midsommar, á mikil hátíðarhöld þar sem síld og snaps hafa lengstum verið í aðalhlutverki. Sölutölur sænskra kaupmanna sýna þó að vinsældir síldarinnar dala ár frá ári og nú er svo komið að salan hefur helmingast frá árinu 2008. Frá þessu greinir Sænska ríkisútvarpið. Skýringin á þessari þróun liggur í bragðlaukum …

Ferðahópur á Þingvöllum

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi en mótun stefnunar var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira …

Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventures

Arctic Adventures er eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu og hefur verið að stækka starfssvið sitt, síðast með kaupum á Special Tours, sem sinnir skoðunarferðum á slóðum hvala og lunda, auk þess að reka Hvalasafnið (Whales of Iceland) í Reykjavík.  Ásgeir Baldurs tók við starfi forstjóra Arctic Adventures fyrir rúmu ári, þegar margir bundu vonir við …