Samfélagsmiðlar

Campari styrkir sig

Ítalska Campari-samsteypan hefur gengið frá kaupum á hinum þekkta konjak-framleiðanda Courvoisier af Beam Suntory fyrir um 1,3 milljarða dollara. Þetta eru stærstu kaup sem Campari hefur gert til þessa.

Camparino in Galleria. Dómkirkjan í Mílanó í baksýn - MYND: ÓJ

Kaup Campari-samsteypunnar á Courvoisier, einum fjögurra stóru konjak-framleiðandanna, eru krúnudjásn á viðskiptaferli forstjórans Bob Kunze-Concewitz sem ætlar að hætta störfum á næsta ári. Á síðustu árum hefur hann leitt mikinn vöxt Campari með kaupum á öðrum framleiðendum, þ.á m. franska Grand Marnier árið 2016. Fyrir átti Campari lítinn konjak-framleiðanda, Bisquit, en Courvoiser er í úrvalsdeild framleiðenda í Cognac-héraðinu í Frakklandi. 

Bob Kunze-Concewitz, forstjóri Campari-samsteypunnar – MYND: Campari Group

Með kaupum á Courvoisier fyrir um 1,3 milljarða dollara er Campari farið að veita risunum á áfengismarkaðnum, Diageo og Pernod Ricard, alvöru samkeppni. Campari getur nú státað af því að framleiða aperatífa, freyðivín, líkjöra, búrbon, tekíla og konjak. Bob Kunze-Concewitz gerir ráð fyrir að með kaupunum aukist heildarsala fyrirtækisins um 9 prósent og hann sér fyrir sér að Campari nýti betur framleiðslugetu sína og markaðsstyrk í Frakklandi. 

Höfuðstöðvar Courvoisier í Jarnac – MYND: Courvoisier

Höfuðstöðvar Courvoisier eru í bænum Jarnac við ána Charente í suðvestanverðu Frakklandi, á milli Angoulême og Cognac. Jarnac er líklega þekktastur fyrir konjakið og að vera fæðingarbær François Mitterrand, fyrrverandi Frakklandsforseta, sem jafnframt hvílir þar. Nú er konjakið. bæjarstolt Jarnac, komið í hendur ítalskrar stórsamsteypu. 

Það er ekki síst á Bandaríkjamarkaði sem Campari-samsteypan treystir sig nú í sessi. Rúmur helmingur af sölu Courvoisier-konjaksins er þar vestra. Þá eru miklir sóknarmöguleikar sagðir í Suðaustur-Asíu, einkum í Kína. Með betri fótfestu á þessum tveimur stóru markaðssvæðum, Bandaríkjunum og Kína, getur Campari velgt stærri keppinautum undir uggum.

Saga Campari-samsteypunnar hófst í Novara í Piedmont-héraði vestur af Mílanó árið 1860 þegar vínbruggaranum Gaspare Campari tókst að blanda fagurrauðan bitter eða aperatíf. Árið 1867 opnaði Gaspare Campari síðan vínbar við dómkirkjutorgið í Mílanó, Camparino in Galleria, við innganginn í hinni frægu gleryfirbyggðu verslunargötu Galleria Vittorio Emanuele, sem til varð um svipað leyti. Þangað soguðust listamenn og bóhemar borgarinnar og bitterinn rauði varð stöðugt vinsælli. Það var síðan sonurinn, Davide Campari, sem lét reisa fyrstu Campari-verksmiðjuna í Sesto San Giovanni í útjaðri Mílanó árið 1904.

Galleria Vittorio Emanuele í Mílanó – MYND: ÓJ

Landar þeirra Campari-feðga, bræðurnir Luigi og Silvio Barbieri í Padua, löguðu árið 1919 annan og veikari bitter, Aperol, sem nú er í eigu Campari-samsteypunnar. Af öðrum vörumerkjum Campari-samsteypunnar má nefna Cinzano-vermúð, Wild Turkey-búrbon, Bulldog-gin, Skyy-vodka, freyðivínið Riccadonna – og að ógleymdum franska Grand Marnier, sem blandað er úr konjaki og appelsínulíkjör. 

Nýtt efni

Tónlistarmaðurinn hefur á þessum árum lagt inn 689 lög í eigin nafni. En þrátt fyrir afar litlar vinsældir hefur maðurinn fengið útborgaðar um það bil sem svarar 90 milljónum íslenskra króna frá streymisveitunum vegna þess hve oft lögin hafa verið spiluð. Til að fá útborgað um eitt hundrað krónur frá tónlistarstreymisveitu þarf lag að vera …

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …