Samfélagsmiðlar

Nær sósunni aldrei eins og hjá mömmu

Þau eru fá sem hafa alist upp við að borða rjúpu á jólunum sem geta hugsað sér að snæða eitthvað annað á aðfangadagskvöld. Einn þeirra er Úlfar Finnbjörnsson matreiðslumeistari sem segir það jaðra við lögbrot að borða ekki rjúpu á jólunum. 


Víkingurinn Úlfar talar í gemsa - MYND: Karl Petersson

Úlfar er Íslendingum að góðu kunnur enda hefur hann verið í fararbroddi matreiðslumenningar hér á landi árum saman. Auk þess að vera manna fróðastur um villibráð er hann líka Íslandsmeistari í grænmetisréttum og gaf nýverið út bókina Veislumatur Landnámsaldar ásamt Kristbirni Helga Björnssyni sagnfræðingi og Karli Petersson ljósmyndara.

Höfundar bókarinnar Veislumatur landnámsaldar: Úlfar, Kristbjörn og Karl – MYND: Facebook/Drápa

„Ég er skapandi í matargerð allt árið um kring en á jólunum kemur ekkert annað til greina en rjúpurnar eins og mamma hafði þær. Þær hef ég borðað frá því að ég fæddist og þetta eru bara lög á mínu heimili. Þó að ég hafi sjálfur skotið rjúpur í gegnum tíðina þá passa ég mig á því að borða þær bara á aðfangadag og aldrei annars. Einu sinni var mér boðið út að borða og kokkurinn fékk að ráða matnum. Í aðalrétt voru rjúpur og ég varð að afsaka mig og fá að senda þær til baka því það var ekki aðfangadagur og þá bara gat ég ekki borðað þær,“ segir Úlfar.

Hann lagar rjúpuna að mestu eins og mamma hafði þær, nema nú léttsteikir hann bringu og læri en leyfir hinu að malla í pottinum. Sósunni segir hann sig þó aldrei ná alveg nákvæmlega eins og hún hefur hana. „Við kokkarnir erum vanir að nota allskyns grænmeti og krydd við að búa til soð en aldrei var ég að ná þessu almennilega þegar kom að sósunni með rjúpunum og spurði mömmu út í þetta. Hún sagði að allt þetta yfirgnæfði svo rjúpubragðið og það eina sem hún notaði væri einfaldlega salt og pipar til að leyfa bragðinu að koma í gegn. Þetta fór að ganga betur hjá mér eftir það.“

MYND: Drápa

Aðspurður hvort honum þyki skemmtilegra að elda jólamatinn eða borða hann segir hann upplifunina alla vera mjög samhangandi. „Mér finnst svo gaman að elda jólamatinn. Að brúna rjúpurnar og fá lyktina í húsið. Þá er voðalega gaman. Ég er alltaf farinn að hlakka til löngu fyrir jól að fá rjúpur því jólaupplifunin öll tengist þeim svo sterkt. Þetta er allt svo heilagt einhvern veginn. Við erum yfirleitt með humar í forrétt en það getur verið breytilegt og í eftirrétt bý ég til ís eftir uppskriftinni hennar mömmu.“

Matarhefðir hafa líklegast verið Úlfari sérstaklega hugleiknar undanfarin misseri en í bókinni Veislumatur Landnámsaldar lagar hann uppskriftir út frá þeim hráefnum sem stóð forfeðrum okkar til boða á sínum tíma. „Kristbjörn Helgi rannsakaði Íslendingasögurnar út frá tilvitnunum um mat og svo tengdum við þetta saman og ég kem með mínar samsetningar á réttum út frá því sem völ var á á þessum tíma. Ég var ekkert að nútímavæða þetta neitt, heldur vildi vera trúr tíðarandanum og til dæmis var grænmeti og krydd af skornum skammti svo ramminn af bókinni var skapaður út frá þeim heimildum sem við höfðum. Við leituðum til fornleifafræðinga bæði hér heima og í Skandinavíu og í Svíþjóð komumst við í samband við fornleifafræðinga sem höfðu til að mynda ágætis heimildir um fæðu fólks út frá kamri sem þeir höfðu grafið upp frá árinu 860. Í bókinni er meðal annars uppskrift að skreiðasúpu, rostungssúpu og grilluðum geirfugli sem eðli málsins samkvæmt var vandkvæðum háð að fara nákvæmlega eftir en við fundum skapandi lausn á því,“ segir Úlfar Finnbjörnsson matreiðslumeistari að lokum.

Jólamatur landnámsmanna? – MYND: Karl Petersson
Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …