Samfélagsmiðlar

Flókinn veruleiki lárperunnar

Velflestir hafa á einhverjum tímapunkti gætt sér á lárperu eða avókadó. Lárperan er ávöxtur lárperutrésins sem er upprunnið í Mexíkó þar sem það hefur vaxið í árþúsundir. Þessi ávöxtur fellur í flokk með hollustu matvælum heims en vinsældirnar undanfarin ár eiga sér líka fleiri og margslungnari hliðar. Lárperur eru afar trefjaríkur ávöxtur sem jafnframt er sneisafullur af próteini, hollum fitusýrum og vítamínum.

Fyrsti áfangi í að búa lárperu til matar - MYND: Unsplash/Louis Hansel


Í lok síðasta árs lést ástralski sjónvarpskokkurinn Bill Granger en hans er ef til vill einna helst minnst sem guðföður morgunverðarins „avókadó á ristuðu brauði“. Sjálfur átti Granger agnarsmátt kaffihús í Melbourne á fyrstu dögum ferilsins þar sem plássleysið gerði það að verkum að ekki var hægt að bjóða upp á flókna matseld.

Fljótlega varð hann víðfrægur fyrir þessa einföldu, hollu og ljúffengu samsetningu með lárperuna í aðalhlutverki. Vissulega var hann ekki fyrstur til að raða lárperusneiðum á ristað brauð en vinsældirnar urðu fljótt gríðarlegar og teygðu sig út um allan heim. Á um það bil þremur áratugum umturnaðist lárperan frá því að vera mikilvæg fæða í ákveðnum heimshlutum til þess að verða alltumlykjandi fyrirbæri sem var tekið fagnandi á kaffihúsum, veitingastöðum, heimilum og síðast en ekki síst samfélagsmiðlum um gjörvallan heim.

En hverjar eru afleiðingarnar af þessari breyttu heimsmynd lárperunnar, gríðarlegri eftirspurn og auknu framboði?

Lárpera á vaxtarstað – MYND: Unsplash/Melvin Chavez

„Lárperan er orðin svo miklu meira en bara einhver ávöxtur. Núna er hún táknmynd hugmynda um áherslumun og jafnvel átök á milli kynslóða, áskoranir í umhverfismálum og félagslegan ójöfnuð. Í gegnum úthugsaða markaðssetningu á síðustu áratugum hefur hún orðið að lúxusvöru með gríðarlegan fjölda áhugafólks og fylgjenda á samfélagsmiðlum,“ segir Honor May Eldridge, sérfræðingur í matvælafræði og matvælaframleiðslu í nýútkominni bók sinni „The Avocado Debate,“ þar sem hún tekur til skoðunar flókna samsetningu matvælaframleiðslu og neyslu í nútímasamfélagi, með lárperuna sem útgangspunkt.

Kápa bókarinnar The Avocado Debate – MYND: Routledge

Því fer þó fjarri að verið sé að útmála lárperuna eða áhangendur hennar sem einhverskonar illmenni heldur er fyrst og fremst verið að leiða neytendum fyrir sjónir þær afleiðingar, sem oft liggja ekki í augum uppi, sem hljótast af neysluvenjum þeirra og þá staðreynd að þegar kemur að matvælaframleiðslu og matvælaöryggi á heimsvísu er ekkert til sem heitir einföld svör.

„Allt sem við borðum hefur áhrif, góð og slæm. Við þurfum bara að hafa meiri þekkingu á þessum málum svo við getum tekið upplýstari ákvarðanir og hagað neysluvenjum okkar í samræmi við það.“

Í bókinni fjallar Eldridge um sögu lárperunnar frá upphafi, allt frá því að vera mikilvæg uppistöðufæða í mataræði frumbyggjaþjóða til þess að vera á boðstólum um heim allan. Vandlega úthugsaðar ákvarðanir sem teygja sig frá nýlendutímanum til markaðsafla dagsins í dag hafa mótað hina annars lítillátu lárperu í gríðarlega eftirsótta lúxusvöru.

Fjölmiðlafárið sem umlukti lárperuna hefur fært umræðuna öfganna á milli, allt frá því að vera vatnssvolgrandi óværa í ræktun og til þess að vera sannkölluð ofurfæða og allra meina bót. Í bókinni segir Eldridge allt slíkt tal ekki hjálplegt og kallar eftir hófstilltari umræðum og auknum skilningi um ræktun og neyslu lárpera. Hún leggur ríka áherslu á að umhverfisáhrif ávaxtarins fari, líkt og öll önnur ræktun, eftir hvernig hann er ræktaður og framleiddur.

Kassastæður með lárperur – MYND: Unsplash

Áskoranir tengdar siðferði og umhverfi
Áskoranir framleiðenda eru einnig skoðaðar í bókinni út frá áhrifum áburðar, vatnsnotkunar og skórdýraeiturs á vistkerfi og samfélög. Eitt stærsta áhyggjuefnið snýr að síaukinni þörf fyrir stærra ræktunarland sem sviptir margar dýrategundir búsvæðum sínum og stofnar þannig líffræðilegum fjölbreytileika svæðanna í hættu.

Spurningar um jöfnuð og sjálfbærni eru einnig teknar til skoðunar ásamt tengslum milli lárperuræktunar og landtöku. Jafnframt er varpað fram vangaveltum um þau áhrif sem þjóðir á norðurhveli hafa á þær sem byggja suðurhvel jarðarinnar út frá hugleiðingum um jöfnuð.

Þá vekur Eldridge máls á mikilvægum spurningum varðandi áhrif stórfellds útflutnings á landbúnaðarafurðum á staðbundin samfélög og bendir jafnframt á umhverfisáhrif þess að rækta lárperur á svæðum sem nú þegar kljást við neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga. Í tengslum við það er sjónum beint að siðvænum og/eða lífrænum vottunum, kostum þeirra og takmörkunum. 

Ristað brauð með lárperu og spæleggi – MYND: Unsplash/David B. Townsend

Markmiðið segir Eldridge eftir sem áður vera að hvetja lesendur til að taka upplýstar ákvarðanir og kynna sér þær mörgu hliðar sem matvælaframleiðsla og heildrænt fæðukerfi okkar í nútímasamfélagi hefur. Enginn matur sé í eðli sínu góður eða slæmur en mikilvægast sé að færa umræðuna á hærra plan, út fyrir einfaldar lýsingar og hefja upp flóknari staðreyndir því þær endurspegli þá möguleika sem við höfum til að taka upplýstar ákvarðanir um matinn sem við borðum.

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …