Samfélagsmiðlar

Flókinn veruleiki lárperunnar

Velflestir hafa á einhverjum tímapunkti gætt sér á lárperu eða avókadó. Lárperan er ávöxtur lárperutrésins sem er upprunnið í Mexíkó þar sem það hefur vaxið í árþúsundir. Þessi ávöxtur fellur í flokk með hollustu matvælum heims en vinsældirnar undanfarin ár eiga sér líka fleiri og margslungnari hliðar. Lárperur eru afar trefjaríkur ávöxtur sem jafnframt er sneisafullur af próteini, hollum fitusýrum og vítamínum.

Fyrsti áfangi í að búa lárperu til matar - MYND: Unsplash/Louis Hansel


Í lok síðasta árs lést ástralski sjónvarpskokkurinn Bill Granger en hans er ef til vill einna helst minnst sem guðföður morgunverðarins „avókadó á ristuðu brauði“. Sjálfur átti Granger agnarsmátt kaffihús í Melbourne á fyrstu dögum ferilsins þar sem plássleysið gerði það að verkum að ekki var hægt að bjóða upp á flókna matseld.

Fljótlega varð hann víðfrægur fyrir þessa einföldu, hollu og ljúffengu samsetningu með lárperuna í aðalhlutverki. Vissulega var hann ekki fyrstur til að raða lárperusneiðum á ristað brauð en vinsældirnar urðu fljótt gríðarlegar og teygðu sig út um allan heim. Á um það bil þremur áratugum umturnaðist lárperan frá því að vera mikilvæg fæða í ákveðnum heimshlutum til þess að verða alltumlykjandi fyrirbæri sem var tekið fagnandi á kaffihúsum, veitingastöðum, heimilum og síðast en ekki síst samfélagsmiðlum um gjörvallan heim.

En hverjar eru afleiðingarnar af þessari breyttu heimsmynd lárperunnar, gríðarlegri eftirspurn og auknu framboði?

Lárpera á vaxtarstað – MYND: Unsplash/Melvin Chavez

„Lárperan er orðin svo miklu meira en bara einhver ávöxtur. Núna er hún táknmynd hugmynda um áherslumun og jafnvel átök á milli kynslóða, áskoranir í umhverfismálum og félagslegan ójöfnuð. Í gegnum úthugsaða markaðssetningu á síðustu áratugum hefur hún orðið að lúxusvöru með gríðarlegan fjölda áhugafólks og fylgjenda á samfélagsmiðlum,“ segir Honor May Eldridge, sérfræðingur í matvælafræði og matvælaframleiðslu í nýútkominni bók sinni „The Avocado Debate,“ þar sem hún tekur til skoðunar flókna samsetningu matvælaframleiðslu og neyslu í nútímasamfélagi, með lárperuna sem útgangspunkt.

Kápa bókarinnar The Avocado Debate – MYND: Routledge

Því fer þó fjarri að verið sé að útmála lárperuna eða áhangendur hennar sem einhverskonar illmenni heldur er fyrst og fremst verið að leiða neytendum fyrir sjónir þær afleiðingar, sem oft liggja ekki í augum uppi, sem hljótast af neysluvenjum þeirra og þá staðreynd að þegar kemur að matvælaframleiðslu og matvælaöryggi á heimsvísu er ekkert til sem heitir einföld svör.

„Allt sem við borðum hefur áhrif, góð og slæm. Við þurfum bara að hafa meiri þekkingu á þessum málum svo við getum tekið upplýstari ákvarðanir og hagað neysluvenjum okkar í samræmi við það.“

Í bókinni fjallar Eldridge um sögu lárperunnar frá upphafi, allt frá því að vera mikilvæg uppistöðufæða í mataræði frumbyggjaþjóða til þess að vera á boðstólum um heim allan. Vandlega úthugsaðar ákvarðanir sem teygja sig frá nýlendutímanum til markaðsafla dagsins í dag hafa mótað hina annars lítillátu lárperu í gríðarlega eftirsótta lúxusvöru.

Fjölmiðlafárið sem umlukti lárperuna hefur fært umræðuna öfganna á milli, allt frá því að vera vatnssvolgrandi óværa í ræktun og til þess að vera sannkölluð ofurfæða og allra meina bót. Í bókinni segir Eldridge allt slíkt tal ekki hjálplegt og kallar eftir hófstilltari umræðum og auknum skilningi um ræktun og neyslu lárpera. Hún leggur ríka áherslu á að umhverfisáhrif ávaxtarins fari, líkt og öll önnur ræktun, eftir hvernig hann er ræktaður og framleiddur.

Kassastæður með lárperur – MYND: Unsplash

Áskoranir tengdar siðferði og umhverfi
Áskoranir framleiðenda eru einnig skoðaðar í bókinni út frá áhrifum áburðar, vatnsnotkunar og skórdýraeiturs á vistkerfi og samfélög. Eitt stærsta áhyggjuefnið snýr að síaukinni þörf fyrir stærra ræktunarland sem sviptir margar dýrategundir búsvæðum sínum og stofnar þannig líffræðilegum fjölbreytileika svæðanna í hættu.

Spurningar um jöfnuð og sjálfbærni eru einnig teknar til skoðunar ásamt tengslum milli lárperuræktunar og landtöku. Jafnframt er varpað fram vangaveltum um þau áhrif sem þjóðir á norðurhveli hafa á þær sem byggja suðurhvel jarðarinnar út frá hugleiðingum um jöfnuð.

Þá vekur Eldridge máls á mikilvægum spurningum varðandi áhrif stórfellds útflutnings á landbúnaðarafurðum á staðbundin samfélög og bendir jafnframt á umhverfisáhrif þess að rækta lárperur á svæðum sem nú þegar kljást við neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga. Í tengslum við það er sjónum beint að siðvænum og/eða lífrænum vottunum, kostum þeirra og takmörkunum. 

Ristað brauð með lárperu og spæleggi – MYND: Unsplash/David B. Townsend

Markmiðið segir Eldridge eftir sem áður vera að hvetja lesendur til að taka upplýstar ákvarðanir og kynna sér þær mörgu hliðar sem matvælaframleiðsla og heildrænt fæðukerfi okkar í nútímasamfélagi hefur. Enginn matur sé í eðli sínu góður eða slæmur en mikilvægast sé að færa umræðuna á hærra plan, út fyrir einfaldar lýsingar og hefja upp flóknari staðreyndir því þær endurspegli þá möguleika sem við höfum til að taka upplýstar ákvarðanir um matinn sem við borðum.

Nýtt efni

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …