Samfélagsmiðlar

Vaxandi samkeppni í hvalaskoðun fyrir norðan

Special Tours ætla að bjóða upp á hvalaskoðun frá Akureyri næsta sumar. Ásta María Marinósdóttir, framkvæmdastjóri, segir að Akureyri sé heitur áfangastaður, rými sé fyrir fleiri hvalaskoðunarfyrirtæki nyrðra. Árni Eyfjörð Halldórsson á Hauganesi segir ljóst að kúnnum muni fækka hjá hinum.

Ásta María Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Special Tours - MYND: Special Tours„

„Við höfum fylgst með því hvernig markaðurinn fyrir hvalaskoðunarferðir á Norðurlandi hefur stækkað. Frá því fyrir heimsfaraldur höfum við horft til þess hvort markaðurinn væri nógu stór til að við gætum tekið þátt. Nú höfum við ákveðið að byrja 1. maí með einn bát og bjóða upp á tvær hvalaskoðunarferðir á dag frá Akureyri,“ segir Ásta María Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Special Tours í Reykjavík, í viðtali við FF7.

Farþegar fara um boð í einn á bátum Special Tours í Reykjavík – MYND: ÓJ

Hvalaskoðunarfyrirtækið Special Tours var stofnað árið 1996 og bauð fyrst upp á ferðir að lundabyggðum við Sundin og ferðir fyrir skólahópa. Umsvifin jukust og boðið var upp á hvalaskoðun, sjóstangveiði, Norðurljósaferðir og önnur ævintýri á Faxaflóa.

Nú er stefnan sett norður í Eyjafjörð. Tvíbytnan Lilja, sem getur flutt 189 farþega, fer til Akureyrar í vor og sinnir hvalaskoðun á Eyjafirði næsta sumar en snýr svo til baka í haust þegar Norðurljósaferðir hefjast frá Reykjavík. Special Tours eru þó ekki að draga saman seglin í hvalaskoðunarferðum frá Reykjavík. Annar bátur kemur í stað Lilju sem fer norður.

Lilja á siglingu – MYND: Special Tours

„Við erum ekki að draga saman seglin – bara að þenja okkur út,“ segir Ásta María.

Óhætt er að segja að vaxandi samkeppni sé í hvalaskoðun á Norðurlandi – bæði á Eyjafirði og á Skjálfanda. Fyrirtæki sem þið keppið við í Reykjavík, Elding, er búið að koma sér fyrir á Akureyri og nú bætist þið við. Þá eru ótalin fyrirtæki Norðlendinga. Þú heldur að það sé nægur markaður fyrir svo mörg fyrirtæki?

„Já, við teljum að markaðurinn á Akureyri sérstaklega sé nægilega stór til að við getum hafið starfsemi þar. Það styrkir markaðinn að Special Tours, sem er vel þekkt vörumerki, komi norður og vilji þjónusta ferðamenn þar líka.“

Sérðu fyrir þér að ferðamarkaðurinn fyrir norðan fari stækkandi?

„Markaðurinn fyrir norðan fer stækkandi vegna markaðssetningar á Norðurlandi, komu allra þessara skemmtiferðaskipa og beina flugsins í vetur – þó að við stílum ekki inn á það. Markaðssetningin er sterk og Akureyri er heitur áfangastaður í dag.“

Special Tours hafa tryggt sér aðstöðu í höfninni við Torfunef á Akureyri, þar sem stækkunarframkvæmdir eru í gangi.

Hvalaskoðunarbátur við nýja hafnarbakkann á Akureyri – MYND: ÓJ

Hvalaskoðunarfyrirtækin á Norðurlandi kynntu starfsemi sína á Mannamóti markaðsstofa landshlutanna í Kópavogi. Árni Eyfjörð Halldórsson, framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Whales á Hauganesi á Árskógsströnd, sem er það elsta sem starfar í þessari grein ferðaþjónustunnar, var meðal þátttakenda. Á síðasta ári fengu þau á Hauganesi um 26 þúsund farþega í hvalaskoðunarferðir. Það var besta árið í þessum gamalgróna rekstri hingað til.

Árni Eyfjörð Halldórsson á Mannamóti – MYND: ÓJ

„Staðan er mjög góð hjá okkur. Við höfum siglt í allan vetur. Aðeins ein ferð klikkaði, sem var aðallega út af veðri – snjókomu. Annars hafa hvalirnir dansað þarna fyrir utan – síðastliðið sumar og í allan vetur.“

Þið reynduð fyrst vetrarsiglingar 2020. Eru þið sannfærð um að það sé framtíð í hvalaskoðun á veturna?

„Þetta er alveg hægt en hafa verður mikið fyrir því. Við rúntum um fjörðinn og leitum líka að hvölum úr landi.“

Hnúfubakur stingur sér á kaf á Eyjafirði – MYND: ÓJ

Norðursigling er komin á Árskógssand og Special Tours að hefja starfsemi á Akureyri í vor. Hvernig líst þér á vaxandi samkeppni hér fyrir norðan?

„Það er oft sem þetta fer úr böndunum,“ segir Árni og hlær.

Nú gengur vel og þá vilja fleiri komast að. Eru menn að fara of greitt? Getur þessum hvalaskoðunarfyrirtækjum fjölgað enn?

„Ég veit ekki hvort hægt sé að fjölga þeim mikið. Fyrirtæki sem bætist við dregur úr því sem þau fá sem fyrir eru. Engin fyrirtæki koma með kúnnana.“

Er það ekki mögulegt?

„Nei, nema kannski í gegnum einhver sambönd við skemmtiferðaskipin.“

Þið haldið áfram ótrauð á Hauganesi?

„Það stendur ekkert annað til. Vonandi verður hægt að halda áfram með þessa heilsársstarfsemi, sem við höfum verið að byggja upp.“

Árni gefur múkkanum bita um borð í hvalaskoðunarbátnum Níelsi Jónssyni – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …