Samfélagsmiðlar

Vaxandi samkeppni í hvalaskoðun fyrir norðan

Special Tours ætla að bjóða upp á hvalaskoðun frá Akureyri næsta sumar. Ásta María Marinósdóttir, framkvæmdastjóri, segir að Akureyri sé heitur áfangastaður, rými sé fyrir fleiri hvalaskoðunarfyrirtæki nyrðra. Árni Eyfjörð Halldórsson á Hauganesi segir ljóst að kúnnum muni fækka hjá hinum.

Ásta María Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Special Tours - MYND: Special Tours„

„Við höfum fylgst með því hvernig markaðurinn fyrir hvalaskoðunarferðir á Norðurlandi hefur stækkað. Frá því fyrir heimsfaraldur höfum við horft til þess hvort markaðurinn væri nógu stór til að við gætum tekið þátt. Nú höfum við ákveðið að byrja 1. maí með einn bát og bjóða upp á tvær hvalaskoðunarferðir á dag frá Akureyri,“ segir Ásta María Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Special Tours í Reykjavík, í viðtali við FF7.

Farþegar fara um boð í einn á bátum Special Tours í Reykjavík – MYND: ÓJ

Hvalaskoðunarfyrirtækið Special Tours var stofnað árið 1996 og bauð fyrst upp á ferðir að lundabyggðum við Sundin og ferðir fyrir skólahópa. Umsvifin jukust og boðið var upp á hvalaskoðun, sjóstangveiði, Norðurljósaferðir og önnur ævintýri á Faxaflóa.

Nú er stefnan sett norður í Eyjafjörð. Tvíbytnan Lilja, sem getur flutt 189 farþega, fer til Akureyrar í vor og sinnir hvalaskoðun á Eyjafirði næsta sumar en snýr svo til baka í haust þegar Norðurljósaferðir hefjast frá Reykjavík. Special Tours eru þó ekki að draga saman seglin í hvalaskoðunarferðum frá Reykjavík. Annar bátur kemur í stað Lilju sem fer norður.

Lilja á siglingu – MYND: Special Tours

„Við erum ekki að draga saman seglin – bara að þenja okkur út,“ segir Ásta María.

Óhætt er að segja að vaxandi samkeppni sé í hvalaskoðun á Norðurlandi – bæði á Eyjafirði og á Skjálfanda. Fyrirtæki sem þið keppið við í Reykjavík, Elding, er búið að koma sér fyrir á Akureyri og nú bætist þið við. Þá eru ótalin fyrirtæki Norðlendinga. Þú heldur að það sé nægur markaður fyrir svo mörg fyrirtæki?

„Já, við teljum að markaðurinn á Akureyri sérstaklega sé nægilega stór til að við getum hafið starfsemi þar. Það styrkir markaðinn að Special Tours, sem er vel þekkt vörumerki, komi norður og vilji þjónusta ferðamenn þar líka.“

Sérðu fyrir þér að ferðamarkaðurinn fyrir norðan fari stækkandi?

„Markaðurinn fyrir norðan fer stækkandi vegna markaðssetningar á Norðurlandi, komu allra þessara skemmtiferðaskipa og beina flugsins í vetur – þó að við stílum ekki inn á það. Markaðssetningin er sterk og Akureyri er heitur áfangastaður í dag.“

Special Tours hafa tryggt sér aðstöðu í höfninni við Torfunef á Akureyri, þar sem stækkunarframkvæmdir eru í gangi.

Hvalaskoðunarbátur við nýja hafnarbakkann á Akureyri – MYND: ÓJ

Hvalaskoðunarfyrirtækin á Norðurlandi kynntu starfsemi sína á Mannamóti markaðsstofa landshlutanna í Kópavogi. Árni Eyfjörð Halldórsson, framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Whales á Hauganesi á Árskógsströnd, sem er það elsta sem starfar í þessari grein ferðaþjónustunnar, var meðal þátttakenda. Á síðasta ári fengu þau á Hauganesi um 26 þúsund farþega í hvalaskoðunarferðir. Það var besta árið í þessum gamalgróna rekstri hingað til.

Árni Eyfjörð Halldórsson á Mannamóti – MYND: ÓJ

„Staðan er mjög góð hjá okkur. Við höfum siglt í allan vetur. Aðeins ein ferð klikkaði, sem var aðallega út af veðri – snjókomu. Annars hafa hvalirnir dansað þarna fyrir utan – síðastliðið sumar og í allan vetur.“

Þið reynduð fyrst vetrarsiglingar 2020. Eru þið sannfærð um að það sé framtíð í hvalaskoðun á veturna?

„Þetta er alveg hægt en hafa verður mikið fyrir því. Við rúntum um fjörðinn og leitum líka að hvölum úr landi.“

Hnúfubakur stingur sér á kaf á Eyjafirði – MYND: ÓJ

Norðursigling er komin á Árskógssand og Special Tours að hefja starfsemi á Akureyri í vor. Hvernig líst þér á vaxandi samkeppni hér fyrir norðan?

„Það er oft sem þetta fer úr böndunum,“ segir Árni og hlær.

Nú gengur vel og þá vilja fleiri komast að. Eru menn að fara of greitt? Getur þessum hvalaskoðunarfyrirtækjum fjölgað enn?

„Ég veit ekki hvort hægt sé að fjölga þeim mikið. Fyrirtæki sem bætist við dregur úr því sem þau fá sem fyrir eru. Engin fyrirtæki koma með kúnnana.“

Er það ekki mögulegt?

„Nei, nema kannski í gegnum einhver sambönd við skemmtiferðaskipin.“

Þið haldið áfram ótrauð á Hauganesi?

„Það stendur ekkert annað til. Vonandi verður hægt að halda áfram með þessa heilsársstarfsemi, sem við höfum verið að byggja upp.“

Árni gefur múkkanum bita um borð í hvalaskoðunarbátnum Níelsi Jónssyni – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …