Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur

Spænskir smáréttir, sænsk jarðaber og frönsk súkkulaðikaka eru meðal þess sem Rósa Björk Brynjólfsdóttir minnist frá ferðum sínum til útlanda. Rósa Björk skipar annað sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðvesturkjördæmi.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Ég fór fyrst til útlanda þegar ég var 10 ára gömul. Þá fór ég með mömmu minni til Svíþjóðar, nánar tiltekið til smábæjarins Gislaved í Smálöndunum. Pabbi fór ekki með okkur, sem mér þótti leitt en hann var þá plagaður af miklum ótta við flugferðir og fór ekki til útlanda fyrr en mörgum árum seinna. Við mamma vorum að heimsækja æskuvinkonu hennar sem bjó í yndislegu, rauðu timburhúsi með hvítum gluggalistum eins og ég hafði séð í Astrid Lindgren bókunum. Ég man alltaf eftir því að þegar við keyrðum í gegnum þéttan skóginn í Smálöndunum, fékk ég yfirþyrmandi innilokunarkennd yfir því að sjá ekkert landslag. Bara tré út um allt! En þarna dvöldum við í heilar 3 vikur og í minningunni borðuðum við fersk jarðaber á hverju kvöldi sem þótti náttúrulega stórkostlegt á tímum þegar fersk jarðaber fyrirfundust ekki á Íslandi. Ég var farin að tala sænsku við krakkana í hverfinu eftir nokkra daga og mamma fór og keypti á okkur ekta sænska klossa. Þetta var mjög skemmtileg dvöl.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Æ, ég hef farið í svo margar dásamlegar utanlandsferðir að mér þykir erfitt að gera upp á milli þeirra. En ein nýleg, frábær, ferð er ferðalag okkar Kristjáns Guy, sambýlismannsins míns, til Baskalands í ágúst 2011. Þetta var önnur utanlandsferðin okkar saman og við höfðum hvorugt komið þangað áður. Við dvöldum í San Sebastian, þeim yndislega bæ sem er með eitt fallegasta bæjarstæði sem ég man eftir. Við vorum hrædd um að það yrði ekki þverfótað fyrir ferðamönnum en sú varð ekki raunin. Mestmegnis Spánverjar og Frakkar sem komu yfir landamærin. Veðrið var gott og við fórum í sjóinn á hverjum degi en maður minn, maturinn! Yndislegir pinxtos-staðir út um allt. Við römbuðum á hverju kvöldi á milli pinxtos-staða og borðuðum frábæra pinxtos (sem er nk. stærri útgáfa af tapas-réttum) og drukkum góð vín með. Frábær stemmning og góður matur! Síðan fórum við í eplavínsframleiðslu og smökkuðum þar eplavínin sem Baskar eru frægir fyrir og fengum steik á viðarplanka með. Við þræddum svo strandlengjuna á bíl til Bilbao en við sjávarsíðuna er dásamlega falleg lítil þorp með undarlegum nöfnum og sérstæðum byggingarstíl. Þetta var rómantísk og frábær ferð um svæði sem er uppfullt af sögu Baskanna og frábærum mat.

Verst heppnaða utanlandsferðin:

Hmmm…ég man í svipinn ekki eftir neinni. Man bara eftir að hafa fengið svæsna matareitrun í Kaíró í Egyptalandi þegar ég var að vinna sem flugfreyja hjá Atlanta fyrir mörgum árum síðan. Þá vorum við að selflytja egypska kennara sem unnu í Sádí-Arabíu í frí til síns heimalands og flugum svo aftur með þá í vinnuna sína viku seinna eða svo til Jeddah eða Ryadh. Við höfðum verið vöruð við því að nánast allir fengju matareitrun í Kaíró og þrátt fyrir að passa mig, þá varð ég engin undantekning. En það var ótrúlega gaman að fá tækifæri til að vera bara 23 ára og sjá og vera í Egyptalandi.

Besta máltíðin í útlöndum:

Úff þær eru svo margar dásamlegar og eftirminnilegar enda rennur matur og ferðalög saman í eitt hjá mér og myndar minningar og upplifanir. Ég man eftir besta ratatouille sem ég hef fengið í lífinu hjá Marie, ömmu Karenar æskuvinkonu minnar sem er hálf-frönsk. Marie er spænsk en flúði borgarastyrjöldina spænsku og hefur búið í pínulitlu frönsku þorpi við Pýreneafjöllin æ síðan. Hún býr til ógleymanlegt ratatouille sem ég smakkaði fyrst þegar ég dvaldi hjá henni þegar ég var 12 ára. Svo var máltíð á frábærum veitingastað sem við römbuðum á í Bilbao ógleymanleg. Þar borðuðum við andalæri og fíkjur sem bráðnaði upp í manni. Kannski líka af því við fundum veitingastaðinn alveg óvænt.

Síðan er nýleg máltíð ógleymanleg þegar við fögnuðum fertugsafmæli Kristjáns míns nú um páskana í Gordes í Provence-héraðinu í Suður Frakklandi, einu fallegasta þorpi landsins. Þá borðuðum við lambaskanka með fersku grænmeti úr héraðinu sem voru fullkomlega eldaðir. Svo man ég líka eftir einni af mörgum frönskum súkkulaðikökum sem ég hef borðað sem var alveg einstaklega góð. Hana borðaði ég með tveimur sænskum vinum mínum þegar ég var í námi í Stendhal-háskólanum í Grenoble í Frakklandi. Við fórum á pínkulítinn veitingastað þar sem einn maður með mikið yfirvaraskegg þreif, þjónaði og eldaði. Þegar við sátum ein á veitingastaðnum og biðum eftir matnum þá rauk hann allt í einu út og við kölluðum á eftir honum hvert hann væri að fara, hann sagðist vanta brauð og kæmi rétt strax! Hann bauð okkur svo upp á einhvern frábæran pastarétt en súkkulaðikakan hans bráðnaði upp í okkur! Þegar við forvitnuðumst um uppskriftina af þessari dýrindisköku, þá benti hann okkur á kassann utan um kökuna sem hann hafði keypt í stórmarkaði og hafði tekið úr frysti fyrir okkur! Þetta sýnir að matur og stemningin myndar órjúfanleg heild.

Tek alltaf með mér í ferðalagið:

Kósýbuxur til að sofa í!

Draumafríið:

Mig langar ógurlega mikið til Indónesíu. Það er ótrúlega fallegt land og okkur dreymir um að fara þangað í langt frí. Svo væri ég líka til í að fara til Suður-Ameríku, sér í lagi til Argentínu. Afríka bíður mín líka veit ég…

 

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …