Samfélagsmiðlar

Sinnulaus eigandi Isavia

Það voru vísbendingar um slæma stöðu WOW air löngu áður en stjórnvöld hófu að fylgjast vel með gangi mála.

Bjarni Benediktsson og Skúli Mogensen í desember 2015. Það ár og árið eftir skilaði WOW air hagnaði en svo tók við taprekstur.

„Stjórnvöld hafa fylgst mjög vel með, bæði á vettvangi ráðherranefnda en einnig ráðherrar á sínu fagsviði eftir því sem efni hafa staðið til, allt frá því að í ljós kom að félagið átti í erfiðleikum með að fjármagna sig í gegnum skuldabréfaútboð síðastliðið haust,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í svari sínu á Alþingi á miðvikudag. Tilefnið var fyrirspurn Jóns Þórs Þorvaldssonar, þingmanns Miðflokksins, sem óskaði eftir svörum um hvort ráðherrar og ráðuneyti hafi búið yfir upplýsingum um skuldasetningu WOW air á Keflavíkurflugvelli.

Ógreidd lendinga- og farþegagjöld félagsins námu rúmum tveimur milljörðum króna þegar það fór í þrot í lok mars. Ef Landsréttur kemst að sömu niðurstöðu og héraðsdómur, í máli Isavia og flugvélaleigunnar Air Lease Corporation, þá fær hið opinbera aðeins greiddan lítinn hluta af kröfunni.

Það er fjármálaráðherra sem fer með hlut ríkisins í Isavia en hann segir það hafa verið fyrst í kringum skuldabréfútboð WOW, sem lauk um miðjan september sl., sem stjórnvöld byrja að fylgjast mjög vel með gangi mála hjá flugfélaginu líkt og segir í svari hans á Alþingi í vikunni. Í greinargerð sem Isavia birti nýverið, vegna kröfu þess á ALC flugvélaleiguna, kemur hins vegar fram að það var strax í lok árs 2017 að safnast höfðu upp vanskil hjá WOW air á Keflavíkurflugvelli.

Sú tímasetning er sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að nákvæmlega þarna, í byrjun vetrar 2017, herti Kortaþjónustan skilmála sína verulega gangvart viðskiptavinum sínum og meðal annars WOW air. Nú fékk flugfélagið ekki lengur hluta af söluverði flugferða, sem ennþá voru ófarnar, greiddar fyrirfram líkt og áður hafði tíðkast. Þessar breytingar voru gerðar í kjölfar gjaldþrots breska lág­far­gjalda­flug­fé­lagsins Mon­arch sem hafði fengið háar fyrirframgreiðslur frá Kortaþjónustunni. Þær upphæðir þurfti íslenska fyrirtækið svo að bakfæra til farþega Monarch við greiðslustöðvunina.

WOW air var á þessum tímapunkti í viðskiptum við fleiri færsluhirða og flutti stjórnendur flugfélagsins stærstan hluta af viðskiptunum annað en hélt um fimmtungi eftir hjá Kortaþjónustunni. Ekki liggur fyrir hversu stór hluti greiðslukortagreiðslna WOW fór í gegnum Kortaþjónustuna áður en nú er ljóst að það var á þessum tímapunkti sem vanskil WOW air á Keflavíkurflugvelli hefjast. Umræðan um erfiðleika Kortaþjónustunnar og áhrif þeirra á WOW air voru þónokkur á þessum tíma þó hún hafi ekki verið opinber nema að litlu leyti. Þarna hefur fjármálaráðuneytið samt ekki verið farið að fylgjast „mjög vel“ með stöðunni.

Og það er ekki ólíklegt að fréttatilkynning sem WOW air sendi frá sér þann 14. nóvember 2017 hafi verið ætlað að slá á sögusagnir um veika fjárhagsstöðu félagins í kjölfar breytinganna hjá Kortaþjónustunni. Í tilkynningunni er nefnilega fullyrt að WOW air væri nú fullfjármagnað út árið 2019 eftir að hafa selt og endurleigt þotur sem þá voru væntanlegar til landsins. „Við afhendingu flugvélanna fær WOW air um 4 milljarða króna. Fyrri flugvélin verður afhent í janúar 2018 og seinni vélin í apríl 2018,“ sagði í tilkynningunni.

Fyrri þotan kom reyndar ekki fyrr en um miðjan febrúar í fyrra og sú seinni í lok apríl en þrátt fyrir fjögurra milljarða sölutekjur þá safnaðist áfram upp skuld hjá Isavia miðað við þær upplýsingar sem nú ligga fyrir. Á þessum tíma er eigandi Isavia samt sem áður ekki farinn að fylgjast „mjög vel“ með stöðunni sem vekur upp spurningar um hvort stjórnendur og stjórn Isavia hafi ekki upplýst fjármálaráðuneytið um skuldasöfnun WOW. En þess má geta að Ingimundur Sigurpálsson, þáverandi stjórnarformaður Isavia, var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Isavia og sonur hans framkvæmdastjóri þingflokks flokksins.

Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, lét heldur engan bilbug á sér finna á meðan á öllu þessu stóð. Í lok janúar 2018 fullyrti hann til að mynda í viðtali við Morgunvakt Rásar 1 að félagið hefði aldrei staðið betur. Þarna í lok janúar í fyrra vissi Skúli væntanlega að félagið hafði verið rekið með tapi árið á undan en þær mikilvægu upplýsingar voru fyrst opinberar hálfu ári síðar. Og fram að þeim tíma var Skúli spar á upplýsingar um reksturinn árið 2017. Hann sagði þó í viðtali við Morgunblaðið í apríl í fyrra að velta ársins 2017 hefði verið um 50 milljarðar. Miðað við áður útgefnar farþegatölur mátti þá reikna út að tekjur félagsins, á hvern farþega, höfðu hríðlækkað líkt og Túristi benti á.

Í fyrrnefndu viðtali á Rás 1, sem undirritaður tók þátt í, er Skúli jafnframt spurður hvort það sé ekki slæmt fyrir reksturinn að farmiðaverð lækki á sama tíma og olíuverð fari hækkandi. Skúli segir samlegðaráhrif í rekstri og auknar hliðartekjur eiga að auðvelda félaginu að halda farmiðaverðinu lágu áfram miðað við þáverandi ástand. Síðar kom í ljós að áform um aukna áherslu á viðskiptafarrými, fleiri breiðþotur og flug til Indlands gengu ekki eftir og það reyndist félaginu dýrt að vera óvarið fyrir eldsneytishækkunum.

Miðað við það sem hér hefur verið rakið þá voru sterkar vísbendingar um að fyrirframgreiðslur Kortaþjónustunnar, á farmiðapöntunum, hafi verið lykilatriði í rekstri WOW air lengi framan að. Þegar þeirra naut ekki lengur við tók nærri samstundis við skuldasöfnun hjá Isavia undir árslok 2017. Það er fyrst misserum síðar sem fjármálaráðuneytið fer að fylgjast „mjög vel“ með gangi mála og það sinnuleysi kann að reynast ríkissjóði dýrkeypt því WOW skildi eftir sig rúmlega tveggja milljarða skuld við Keflavíkurflugvöll og Isavia.

 

Nýtt efni

Árið 1970 barst Pattie Boyd nafnlaust og dularfullt ástarbréf frá einhverjum sem þráði hana afar heitt. Vandinn var bara sá að Pattie var þegar gift öðrum manni og ekki ófrægum; hún og George Harrison gítarleikari The Beatles höfðu búið saman í sex ár þegar bréfið barst Pattie.  „Ég skrifa þér þessa orðsendingu í þeim megintilgangi …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …