Samfélagsmiðlar

Segja mjög litlar líkur á því að Vita þurfi fjárhagslegan stuðning

Ef Icelandair Group þarf að ganga á lánalínu ríkisins þá má lánsféð aðeins nýta í flugrekstur samsteypunnar. Stjórnendur Icelandair flokka Vita sem flugrekstur og segja ferðaskrifstofuna standa fjárhagslega vel.

Hjá Vita er hægt að kaupa pakkaferðir en líka flugsæti og í langflestum tilvikum er þá flogið með Icelandair.

Nú er unnið að sölu Iceland Travel út úr Icelandair Group en ferðaskrifstofan hefur lengi verið ein sú umsvifamesta í skipulagningu á Íslandsferðum. Hins vegar verður Vita, sem selur Íslendingum utanlandsferðir, ekki seld þar sem hún er flokkuð sem hluti af flugrekstri samsteypunnar.

Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Bændaferða og Hey Iceland, sagði samtali við Túrista í síðustu viku að það væri af hinu góða að Icelandair seldi Iceland Travel. Vísaði hann þar til þess að tengsl ferðaskrifstofunnar við flugfélagið hafi líklega skekkt samkeppnisstöðuna. Sævar bætti því við að hann hefði viljað að Icelandair losaði sig einnig við Vita.

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, segist ekki skilja hvernig starfsemi Vita geti verið flokkuð sem flugrekstur af hálfu forráðamanna Icelandair. „Vita er ferðaskrifstofa en ekki flugfélag samkvæmt opinberri skráningu,” ítrekaði Þórunn.

Óheimilt að ráðstafa fé til dótturfélaga

Alþingi setti það skilyrði fyrir nærri 16 milljarða króna lánalínu til Icelandair Group, síðastliðið haust, að þá upphæð megi aðeins nota til að styðja flugrekstur fyrirtækisins.

Spurður hvort eðlilegt væri að lánsféð yrði nýtt til að styðja við rekstur Vita þá segir Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, að fyrir honum sé málið býsna skýrt. En þess má geta að Willum er fyrrum kennari í ferðamálaskólanum og vann lengi hjá Samvinnuferðum-Landsýn.

Willum vísar í svari sínu til nefndarálits meirihluta fjárláganefndar en þar segir að fjármunum úr lánalínunum hins opinbera verði eingöngu varið til þess að standa skil á almennum rekstrarkostnaði sem tengist flugrekstri Icelandair Group. Að auki verði óheimilt að nýta lánið til fjármögnunar á rekstri eða ráðstafa því með öðrum hætti til dótturfélaga í samstæðu lántaka sem ekki eru í flugrekstri á Íslandi.

Veltan jókst um þriðjung en hagnaðurinn helmingaðist

„Rekstur Vita er sjálfbær. Fyrirtækið fjárhagslega vel statt og mjög litlar líkur á því að það þurfi fjárhagslega aðstoð,“ segir í svari frá Icelandair við fyrirspurn Túrista um hvort stjórnendur Icelandair telji að nota megi ríkislánið til að styðja við rekstur Vita ef til þess kemur.

Samkvæmt síðasta ársreikningi Vita þá nam velta fyrirtækisins um fjórum milljörðum króna árið 2019 og jókst um nærri þriðjung frá árinu 2018. Hagnaðurinn lækkaði hins vegar um helming milli ára og nam 78 milljónum króna í hittifyrra.

Nýta flugflotann betur með Vita um borð

Rök stjórnenda Icelandair, fyrir því að skilgreina Vita sem hluta af flugrekstri samsteypunnar, eru þau að starfsemin sé nátengt flugrekstrarstarfseminni þar sem Vita selur flugsæti og í langflestum tilvikum er flogið með Icelandair.

„Eins og í ýmissi annarri starfsemi okkar, til að mynda hjá Loftleiðum, þá er mikil áhersla hjá VITA á ferðir yfir vetrarmánuðina þegar hægir um í millilandaflugi Icelandair og þar með náum við að nýta flota félagsins betur allan ársins hring. Þetta fer því mjög vel saman. Mjög mörg flugfélög út um allan heim eru með einingar sem leggja áherslu á pakkaferðir,“ segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í svari til Túrista.

„Þetta höfum við séð bæði hérlendis og alþjóðlega í áratugi. Sum flugfélög hafa verið að leggja enn meiri áherslu á þennan hluta af starfsemi sinnar á undanförnum misserum,“ bætir Ásdís við.

Í því samhengi er rétt að minna á að Icelandair er með eigin ferðaskrifstofu innan flugfélagsins. Vita og Iceland Travel eru viðbót við þann rekstur.

Æðstu stjórnendur Icelandair í stjórn Vita

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, er stjórnarformaður Vita og tveir af framkvæmdastjórum samsteypunnar sitja með honum í stjórninni. Þetta fyrirkomulag gagnrýndi forstjóri Úrval-Útsýn í fyrrnefndu viðtali við Túrista.

„Við erum líklega einn stærsti viðskiptavinur Icelandair en viðskiptasambandið er mjög sérstakt að því leyti að forstjóri Icelandair og tveir af framkvæmdastjórum flugfélagsins skipa stjórn Vita, okkar helsta samkeppnisaðila. Hagsmunatengslin gætu ekki verið meiri,” sagði Þórunn.

Aðspurð þessi tengsl milli efstu laga fyrirtækjanna þá bendir Ásdís, upplýsingafulltrúi Icelandair, á að Icelandair og Vita séu bæði í 100 prósent eigu Icelandair Group.

„Félögin eru því hluti af sömu samstæðu og um eina efnahagslega einingu er að ræða. Rekstur Icelandair Group skiptist niður í nokkrar mismunandi einingar þar sem í sumum tilfellum eru einingar í sérstöku félagi.“

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …