Samfélagsmiðlar

Segja mjög litlar líkur á því að Vita þurfi fjárhagslegan stuðning

Ef Icelandair Group þarf að ganga á lánalínu ríkisins þá má lánsféð aðeins nýta í flugrekstur samsteypunnar. Stjórnendur Icelandair flokka Vita sem flugrekstur og segja ferðaskrifstofuna standa fjárhagslega vel.

Hjá Vita er hægt að kaupa pakkaferðir en líka flugsæti og í langflestum tilvikum er þá flogið með Icelandair.

Nú er unnið að sölu Iceland Travel út úr Icelandair Group en ferðaskrifstofan hefur lengi verið ein sú umsvifamesta í skipulagningu á Íslandsferðum. Hins vegar verður Vita, sem selur Íslendingum utanlandsferðir, ekki seld þar sem hún er flokkuð sem hluti af flugrekstri samsteypunnar.

Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Bændaferða og Hey Iceland, sagði samtali við Túrista í síðustu viku að það væri af hinu góða að Icelandair seldi Iceland Travel. Vísaði hann þar til þess að tengsl ferðaskrifstofunnar við flugfélagið hafi líklega skekkt samkeppnisstöðuna. Sævar bætti því við að hann hefði viljað að Icelandair losaði sig einnig við Vita.

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, segist ekki skilja hvernig starfsemi Vita geti verið flokkuð sem flugrekstur af hálfu forráðamanna Icelandair. „Vita er ferðaskrifstofa en ekki flugfélag samkvæmt opinberri skráningu,” ítrekaði Þórunn.

Óheimilt að ráðstafa fé til dótturfélaga

Alþingi setti það skilyrði fyrir nærri 16 milljarða króna lánalínu til Icelandair Group, síðastliðið haust, að þá upphæð megi aðeins nota til að styðja flugrekstur fyrirtækisins.

Spurður hvort eðlilegt væri að lánsféð yrði nýtt til að styðja við rekstur Vita þá segir Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, að fyrir honum sé málið býsna skýrt. En þess má geta að Willum er fyrrum kennari í ferðamálaskólanum og vann lengi hjá Samvinnuferðum-Landsýn.

Willum vísar í svari sínu til nefndarálits meirihluta fjárláganefndar en þar segir að fjármunum úr lánalínunum hins opinbera verði eingöngu varið til þess að standa skil á almennum rekstrarkostnaði sem tengist flugrekstri Icelandair Group. Að auki verði óheimilt að nýta lánið til fjármögnunar á rekstri eða ráðstafa því með öðrum hætti til dótturfélaga í samstæðu lántaka sem ekki eru í flugrekstri á Íslandi.

Veltan jókst um þriðjung en hagnaðurinn helmingaðist

„Rekstur Vita er sjálfbær. Fyrirtækið fjárhagslega vel statt og mjög litlar líkur á því að það þurfi fjárhagslega aðstoð,“ segir í svari frá Icelandair við fyrirspurn Túrista um hvort stjórnendur Icelandair telji að nota megi ríkislánið til að styðja við rekstur Vita ef til þess kemur.

Samkvæmt síðasta ársreikningi Vita þá nam velta fyrirtækisins um fjórum milljörðum króna árið 2019 og jókst um nærri þriðjung frá árinu 2018. Hagnaðurinn lækkaði hins vegar um helming milli ára og nam 78 milljónum króna í hittifyrra.

Nýta flugflotann betur með Vita um borð

Rök stjórnenda Icelandair, fyrir því að skilgreina Vita sem hluta af flugrekstri samsteypunnar, eru þau að starfsemin sé nátengt flugrekstrarstarfseminni þar sem Vita selur flugsæti og í langflestum tilvikum er flogið með Icelandair.

„Eins og í ýmissi annarri starfsemi okkar, til að mynda hjá Loftleiðum, þá er mikil áhersla hjá VITA á ferðir yfir vetrarmánuðina þegar hægir um í millilandaflugi Icelandair og þar með náum við að nýta flota félagsins betur allan ársins hring. Þetta fer því mjög vel saman. Mjög mörg flugfélög út um allan heim eru með einingar sem leggja áherslu á pakkaferðir,“ segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í svari til Túrista.

„Þetta höfum við séð bæði hérlendis og alþjóðlega í áratugi. Sum flugfélög hafa verið að leggja enn meiri áherslu á þennan hluta af starfsemi sinnar á undanförnum misserum,“ bætir Ásdís við.

Í því samhengi er rétt að minna á að Icelandair er með eigin ferðaskrifstofu innan flugfélagsins. Vita og Iceland Travel eru viðbót við þann rekstur.

Æðstu stjórnendur Icelandair í stjórn Vita

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, er stjórnarformaður Vita og tveir af framkvæmdastjórum samsteypunnar sitja með honum í stjórninni. Þetta fyrirkomulag gagnrýndi forstjóri Úrval-Útsýn í fyrrnefndu viðtali við Túrista.

„Við erum líklega einn stærsti viðskiptavinur Icelandair en viðskiptasambandið er mjög sérstakt að því leyti að forstjóri Icelandair og tveir af framkvæmdastjórum flugfélagsins skipa stjórn Vita, okkar helsta samkeppnisaðila. Hagsmunatengslin gætu ekki verið meiri,” sagði Þórunn.

Aðspurð þessi tengsl milli efstu laga fyrirtækjanna þá bendir Ásdís, upplýsingafulltrúi Icelandair, á að Icelandair og Vita séu bæði í 100 prósent eigu Icelandair Group.

„Félögin eru því hluti af sömu samstæðu og um eina efnahagslega einingu er að ræða. Rekstur Icelandair Group skiptist niður í nokkrar mismunandi einingar þar sem í sumum tilfellum eru einingar í sérstöku félagi.“

Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …