Samfélagsmiðlar

„Án stuðnings Icelandair yrði rekstur Iceland Travel þungur í skauti“

Iceland Travel hefur lengi verið ein umsvifamesta ferðaskrifstofa landsins en nú gerir Icelandair Group nýja tilraun til að selja fyrirtækið. Í haust setti Alþingi það skilyrði fyrir lánveitingu sinni til Icelandair samsteypunnar að féð mætti aðeins nota í flugrekstur.

Ferðamenn við Námaskarð.

Icelandair gaf það út í byrjun vikunnar að ákveðið hefði verið að hefja söluferli ferðaskrifstofunnar Iceland Travel. „Þessi ákvörðun er í takt við stefnu Icelandair Group að leggja höfuðáherslu á kjarnastarfsemi félagsins, flugrekstur,“ segir í tilkynningu félagsins.

Þetta er sama skýring og gefin var í ársbyrjun 2019 þegar Icelandair boðaði sölu á Iceland Travel vegna áherslubreytinga í rekstri samsteypunnar. Rúmu einu ári fyrr hafði verið hætt við sameiningu Gray Line og Iceland Travel. Heimildir Túrista herma að í lok síðasta árs hafi átt sér stað söluviðræður við Kynnisferðir en þær hafi engu skilað.

Nú þegar heimsfaraldurinn hefur lamað ferðaþjónustu heimsins þá á að gera þriðju opinberu tilraunina til að koma Iceland Travel í verð.

Viðmælendur Túrista, í hópi forsvarsmanna íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja, eru hugsi yfir tímasetningunni og líka verðmæti Iceland Travel.

Forstjóri Icelandair telur þetta þó góðan tíma til að hefja undirbúning að sölu Iceland Travel en ekki standi til að selja Vita, aðra ferðaskrifstofu í eigu samsteypunnar, enda sé rekstur hennar skilgreindur sem hluti af flugstarfsemi Icelandair Group.

Icelandair ætti einnig að selja Vita

„Við höfum borið virðingu fyrir Iceland Travel sem hefur verið með fullt af öflugu fólki og unnið mjög vel í gegnum tíðina. Á hinn bóginn hafa tengslin við Icelandair, og sú forgjöf sem þau hafa líklega veitt ferðaskrifstofunni, skekkt samkeppnisstöðuna. Það er því af hinu góða að Icelandair losi sig við rekstur Iceland Travel og ég hefði vilja sjá það sama með Vita,“ segir Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Bændaferða og Hey Iceland. 

Spurður hvort hann telji marga áhugasama um kaup á Iceland Travel þá svarar Sævar því til að hann geti lítið tjáð sig um hvort að þeir séu til staðar en kaupverðið muni örugglega endurspegla ástandið.

Ferðageirinn fagnar því ef Icelandair einbeitir sér að fluginu

„Verðmætin eru fyrst og fremst í vörumerkinu en það er búið að segja upp stórum hluta af starfsmönnum fyrirtækisins og því má setja spurningamerki við verðmæti þeirrar þekkingar sem er í fyrirtækinu i dag,“ segir Sævar.

„Ferðageirinn mun fagna því ef Icelandair einbeitir sér að sinni kjarnastarfsemi enda þurfum við á þeim að halda sem öflugu flugfélagi,“ bætir framkvæmdastjóri Bændaferða og Hey Iceland við.

Tveir mínusar verða ekki endilega plús

Sem fyrr segir hefur Icelandair gert tilraunir síðustu ár til að selja rekstur Iceland Travel. Annar viðmælandi Túrista, sem óskar nafnleyndar, rifjar upp að þegar stjórn Icelandair Group reyndi að koma ferðaskrifstofunni í verð árið 2019 þá hafi ekki margir áhugasamir kaupendur gefið sig fram.

„Rekstur Iceland Travel, án stuðnings Icelandair, yrði nýjum aðila þungur í skauti og umtalsverð áskorun. Nú eru framundan umtalsverðar áframhaldandi hagræðingaraðgerðir og ef horft er til sameininga þá þurfa tveir mínusar ekki endilega að verða að plús. Staðan nú er mögulega öðruvísi en í upphafi 2019. Menn geti hafist handa með hreinna borð en ella og ýmis kostnaður hefur lækkað eða horfið. Á sama tíma hafa tekjur orðið að engu,“ segir þessi ónefndi forsvarsmaður íslensks ferðaþjónustufyrirtækis.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, telur hins vegar tækifæri felast í sameiningum í íslenskum ferðageira.

„Það eru talsverðar breytingar að eiga sér stað í íslenskri ferðaþjónustu. Tækifæri til að sameina og hagræða og þar getur Iceland Travel spilað stórt hlutverk, segir Bogi.

Áhugi klárlega til staðar

Annar stjórnandi í greininni, sem einnig óskar nafnleyndar vegna smæðar íslenska markaðarins, segir að Iceland Travel sé í raun verðlaust eins og staðan er í dag vegna heimsfaraldursins en innan fyrirtækisins séu þó verðmæt viðskiptasambönd. „Áhugi á ferðaskrifstofunni er því klárlega til staðar enda á íslensk ferðaþjónusta sér bjarta framtíð,“ bætir viðkomandi við.

Hann segist telja að með sölunni sé Icelandair einfaldlega að reyna að sækja allt það lausafé sem félagið getur náð í við þessar aðstæður sem nú ríkja. En þegar Iceland Travel var boðið til sölu fyrir tveimur árum síðan mun verðmiðinn hafa hljóðað upp á 1,5 til 2 milljarða króna.

Mega ekki nota ríkislánið til stuðnings ferðaskrifstofurekstri samsteypunnar

Þegar Alþingi veitti samþykki sitt í haust fyrir 120 milljón dollara lánalínu til Icelandair (15,6 milljarðar kr.) þá var sett inn skilyrði um að féð mætti aðeins nota í flugrekstur. Þar með getur Icelandair ekki nýtt lánsupphæðina í annan samkeppnisrekstur, t.d. ferðaskrifstofur Icelandair samsteypunnar.

Það skilyrði gæti líka verið ein ástæða þess að Iceland Travel er nú sett á sölu segir einn þeirra sem Túristi ræddi við.

„Innan Icelandair Group sjá þau mögulega fram á það að þurfa að ganga á lánalínur ríkisins fyrr en seinna í ljósi þess hverjar horfurnar eru á mörkuðum. Þá er væntanlega betra að vera laus frá þeim bagga sem Iceland Travel hefur verið flugfélaginu þar sem eignarhaldið flækir eins og við vitum nýtingu Icelandair Group á því lánsfé sem ábyrgt er af ríkinu.“

Velta Iceland Travel lækkaði um þrjátíu prósent árið 2019 og nam þá 62 milljónum evra. Það jafngildir 9,3 milljörðum króna á meðalgengi ársins 2019. Hagnaðurinn var 194 milljónir króna eða 1,3 milljónir evra.

Nýtt efni

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …

Stjórn Volvo Cars ætlar að láta af því verða að minnka hlutinn í sænska rafbílaframleiðandanum Polestar en áformin voru fyrst kynnt í byrjun þessa mánaðar. Fjárfestar tóku tíðindunum vel því hlutabréfin í Volvo hækkuðu í kjölfarið um fjórðung. Endurteknar hlutafjáraukningar Polestar hafa nefnilega haft neikvæð áhrif á gengi Volvo í kauphöllinni í Stokkhólmi samkvæmt frétt …

Notkun á sjálfbæru eldsneyti er besta leiðin til að draga hratt úr losun frá flugsamgöngum, segir Willie Walsh, framkvæmdastjóra Alþjóðasambands flugfélaga, IATA. Hann ræddi mikilvægi þess að minnka losun í ávarpi sínu á flugmálaráðstefnu Changi í Singapúr í vikunni.  Willie Walsh undirstrikaði í ávarpi sínu að flugheimurinn stefndi staðfastlega að kolefnishlutleysi árið 2050: „Við megum …

Vesturland er í útjaðri meginstraums erlendra ferðamanna sem koma til Íslands. Flestir eru þeir á Suðvesturlandi, fara Gullna hringinn og meðfram suðurströndinni - en auðvitað aka margir þeirra eftir Hringveginum í gegnum Borgarfjörð eða halda upp á Snæfellsnes - og áfram sem leið liggur til Vestfjarða með ýmsum útúrdúrum. Við ætlum sem sagt ekki að …