Samfélagsmiðlar

Ferðaþjónusta í sátt við samfélagið

„Innviðir hér bera ekki mikið meira af ferðafólki. Á góðviðrishelgum á sumrin er allt yfirfullt," segir Anna Melsteð, eigandi Anok margmiðlunar í Stykkishólmi, og leiðsögumaður. Hún hefur á síðustu árum unnið að mörgum verkefnum tengdum ferðaþjónustu. Túristi kom við á Anok á ferð sinni í Hólminn á dögunum.

Anna Melsteð

Anna Melsteð

Ferðaþjónustan er frumkvöðlagrein í atvinnulífinu. Hún byggist að stórum hluta á því að fólk með hugmyndir hrindi þeim í framkvæmd – láti draumana rætast. Að baki býr oft vilji til að skapa eigin atvinnutækifæri, nýta þekkingu sem viðkomandi hefur öðlast í lífinu – öðlast sjálfstæði, ráða eigin örlögum. Anna Melsteð fellur ágætlega inn í flokk frumkvöðla og hefur margskonar tengsl við ferðaþjónustuna. Eftir farsælan feril sem tæknimaður og vefstjóri hjá Ríkisútvarpinu stofnaði hún Anok margmiðlun ehf. Síðan tók hún sig upp með manninum sínum Sigurði Ragnari Bjarnasyni og þremur börnum og fluttist í Stykkishólm með fyrirtækið og gaf um tíma út bæjarblaðið Stykkishólms-Póstinn. 

Anok veitir fjölþætta þjónustu fyrir viðskiptavini úr ýmsum áttum. Í húsinu við Nesveg í Stykkishólmi er veitt þjónusta varðandi prentun, ljósmyndir og allt sem viðkemur vefnum, hugmyndavinna, ráðgjöf og hönnun. Anna hefur mörg járn í eldinum og hefur m.a. sinnt fjölmörgum verkefnum í ferðaþjónustu í Stykkishólmi og á Snæfellsnesi með ráðgjöf, vinnslu kynningarefnis, prentun og margmiðlun. Mörg verkefnin eru unnin með styrkjum sem notaðir eru til að kaupa nauðsynlega vinnu, þ.á m. frá Anok. Auk verkefna fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, einstök sveitarfélög, ferðamálasamtök og stofnanir, hefur hún sinnt leiðsögn og matargöngum um Stykkishólm og unnið með frumkvöðlum í nýtingu sjávarfangs og veitingafólki. Verkefnalistinn er of langur til að rekja hann hér. En listinn er fróðlegur, gefur innsýn í hversu fjölþætt verkefni eru unnin víða um land í tengslum við ferðaþjónustu, ekki síst menningartengda þjónustu. 

Mynd: ÓJ

„Ég stofnaði fyrirtækið Anok í Reykjavík árið 2000 og flyt það með mér hingað 2005. Maðurinn minn er ættaður héðan. Hann segir að alltaf sé logn í Hólminum,“ segir Anna og hlær. Við vitum betur.

Frá byrjun hef ég unnið margt sem tengist menningarmálum, fyrst fyrir Árbæjarsafn, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og fleiri slíka aðila. Áhugi minn lá þarna og allt er þetta nátengt ferðaþjónustu – staðbundin menning er það sem ferðamenn hafa áhuga á. Svo skellti ég mér í þjóðfræðinám, sem ég lauk vorið 2021, og skrifaði um mennningararf, m.a. í Stykkishólmi, um gömlu húsin og kúltúrinn hérna. Niðurstaða mín var sú að þessi arfur er notaður til að markaðssetja bæinn og það hefur verið gert lengi. Þarna að baki er löng saga og afdrifarík lagaumgjörð með friðlýsingarlögunum 1970. Þá falla gömlu húsin allt í einu þar undir. Fyrstu tvö húsin sem friðuð voru samkvæmt þessum nýju lögum voru Norska húsið í Stykkishólmi og Pakkhúsið í Ólafsvík. Þetta leiddi til þess að fólk víða um land fer að sjá verðmæti í gömlum húsum í stað þess að rífa þau. Torfusamtökin í Reykjavík eru þekktust. Smám saman verður eftirsóknarvert að halda í staðbundna menningu – af því að hún er einstök – og margir hafa gaman af að skoða það sem er gamalt.”

Stykkishólmur væri ekki jafn vinsæll ferðamannastaður nema vegna gömlu húsanna og staðarandans sem mótast af þeim. 

„Nei, ég held að við getum alveg sagt það. Þó er rétt að nefna að Stykkishólmur er fram undir 1930 miðstöð á Vesturlandi, þjónustar mjög stórt svæði, síðan fer staðurinn að dala. Með bættu vegakerfi breytist staða Stykkishólms. En á seinni helmingi aldarinnar, sérstaklega eftir 1980, er farið að nota menningararfinn í markaðsskyni, því markvisst haldið á loft að í Stykkishólmi lifi gamli tíminn. Einhver fer að tala um það á tíunda áratugnum að danska hafi verið töluð í bænum á sunnudögum og bæjarhátíð er haldin.”

Þá má ekki gleyma menningaráhrifum frá klaustrinu. Systurnar af St.Fransiskus-reglunni komu til Stykkishólms frá Belgíu 1932 og í bænum var reist klaustur, kapella og spítali. Nunnurnar starfræktu líka dagheimili fyrir börn og kenndu börnum hannyrðir. St.Fransiskus-nunnurnar hurfu úr bænum 2009 en í stað þeirra komu nunnur úr reglu heilagrar Maríu, sem bæjarbúar kalla „bláu nunnurnar.”

„Klaustrið og starfsemin þar hafði gríðarleg áhrif. Þetta var stór vinnustaður og nunnurnar fluttu með sér evrópsk áhrif. Jarðarber frá þeim finnast hér í görðum. Þær báru með sér annan kúltúr, sem börnin kynntust.”

Anna lýsir því hversu virkan þátt „bláu nunnurnar” taka í bæjarlífinu í Hólminum í dag, þær mæti á leiki Snæfells í körfuboltanum og skemmti með gítarspili – sjáist jafnvel þeysast um á hjólaskautum. Starfsemin er þó minni en fyrr á árum, hótel komið í hluta bygginganna.

Já, ferðaþjónustan verður sífellt umfangsmeiri í Hólminum. 

„Stykkishólmur er pakkfullur af ferðafólki á sumrin en færri koma á veturna. Ferðamannatíminn er þó alltaf að lengjast í báða enda. Þetta er vertíð fyrir heimafólk. Það vantar starfsfólk og skortur hefur verið á húsnæði fyrir það. Í einhverjum tilvikum hafa rekstraraðilar veitingastaða og gististaða keypt húsnæði til að geta hýst starfsfólk á sumrin. Svo hægist um á haustin. Fyrirtækin eru eins og harmóníka, þenjast út á sumrin en dragast saman á veturna. Þegar við fluttum hingað var meira um að lokað væri á veturna. Nú er að mestu opið þó einhverjir tapi hugsanlega á því. Ég held að það sé þessi sjarmi sem miðbærinn býr yfir og að geta siglt út í eyjarnar. Miklir afþreyingarmöguleikar eru í boði: kajakferðir, ferðir með gúmmíbátum og svo Sæferðir með sínar siglingar um Breiðafjörð. Svo er hér stórt tjaldsvæði sem er ágætlega búið.”

Mynd: ÓJ

Meðal þess sem aukið hefur vinsældir Stykkishólms er kvikmyndafrægð, ekki síst kvikmynd Ben Stiller, The Secret Life of Walter Mitty, sem þar var tekin upp að hluta, tók yfir staðinn á meðan tökur fóru fram. Anna segir að fólk komi og vilji endurgera senur úr myndinni og spyrji þá hvar í ósköpunum sé barinn sem Walter Mitty fór á. Hann er ekki til. „Þar er viðskiptatækifæri,” segir Anna. Hún nefnir líka norrænar sjónvarpsseríur. Í einni lék Stykkishólmur grænlenskt þorp. Fleira dregur að ferðafólk, t.d. Vatnasafn Roni Horn.

En vantar eitthvað sérstakt aðdráttarafl í bæinn, einhverja viðbót við það sem fyrir er?

„Innviðir hér bera ekki mikið meira af ferðafólki. Á góðviðrishelgum á sumrin er allt yfirfullt, öll rúm bókuð og allir veitingastaðir fullskipaðir. Fólk kemur kannski og furðar sig á að fá ekki borð á veitingastað. En staðan er bara þannig. Þú verður að bóka. Og sundlaugin og tjaldsvæðið eru full af fólki. Allar nýlenduvörur búnar í Bónus. Þau sem eru í ferðaþjónustunni eru kannski ekki sammála mér. Umræðan hefur oft verið þannig að talað er um að allir keyri framhjá Stykkishólmi. Samt sem áður erum við með ofboðslega margt ferðafólk.”

Þarna togast sjónarmið dálítið á.

Mikil uppbygging áfangastaða og innviða hefur átt sér stað undanfarin ár víða á Snæfellsnesi og ekki síst í tengslum við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Það hefur leitt af sér að dreifing ferðamanna er víðar um Nesið en áratugina á undan, sem skapar umræður um hvernig Stykkishólmur þróast í takt við það. Ferðaskipuleggjendur í höfuðborginni selja mikið af dagsferðum á Snæfellsnes en sleppa Stykkishólmi þegar t.a.m. þjóðgarðurinn er heimsóttur og Vatnaleiðin er farin til baka!

„Það eru miklir álagstoppar í ferðaþjónustunni í Hólminum og þá er yfirdrifið nóg af fólki í bænum,” segir Anna.

En hvernig væri hægt að jafna álagið meira?

„Það gæti kostað tíma og peninga, Ég hef fundið það á þessum gönguferðum sem ég hef leitt yfir veturinn með Íslendinga að margir þeirra sem höfðu ætlað í matarupplifunarferð til Ítalíu, en komust ekki á meðan Covid-19 geisaði, áttu hér frábæra daga. En gallinn er sá að þeir staðir sem bjóða slíka upplifun eru fullbókaðir fyrir. Þetta er vetrarferðamennska sem ætti að geta dafnað. Þá held ég að hægt væri að markaðssetja meira umhverfi Stykkishólms fyrir alla sem vilja hreyfa sig og njóta náttúrunnar. Svo eru möguleikar fólgnir í því að efla safnastarfið og halda viðburði í tengslum við það.” 

Menningararfurinn og staðarandinn í Stykkishólmi er Önnu hugleikinn og þessu miðlar hún í sögugöngunum. 

„Þau í Svæðisgarði Snæfellsness komu að máli við mig um að taka þátt í verkefni sem hafði fengið styrk: Matargöngur í öllum þéttbýliskjörnum á Snæfelsnesi. Ég bjó til dagskrá eftir að hafa rætt við veitingamenn og hafði á sínum tíma aðstoðað við markaðssetningu á bláskel, kynnst framleiðendum í bænum og þróun matvöru. Það varð úr að auglýstar voru gönguferðir, sem tóku um þrjár og hálfa til fjórar klukkustundir. Við heimsóttum Sjávarpakkhúsið, Narfeyrarstofu og listasmiðjur sem þá störfuðu í bænum. Við borðuðum saman, ég sagði sögur og kokkarnir komu fram og ræddu við gestina. Þetta gekk upp. Þátttakendur voru átta til sextán í hverri ferð. Ekki var hægt að hafa fleira fólk vegna staðanna sem voru heimsóttir. Svo voru svipaðar ferðir á hinum stöðunum, t.d. eldaði Rúnar Marvinsson niðri í fjöru á Hellissandi. Það eru margir mjög góðir veitingastaðir á Snæfellsnesi, auk staðanna í Stykkishólmi. Ég nefni Bjargarstein Mathús í Grundarfirði, Sker í Ólafsvík, Búðir og Langaholt. Allir gera meira eða minna út á að nýta sjávarfangið. ”

Þessar göngur hófust á sama tíma og Covid-19 lagðist yfir með sínum þunga en hvað með framhaldið?

„Síðan þessu verkefni lauk hef ég verið pöntuð í ferðir, bæði í matar- og sögugöngur. Mest hafa þetta verið Íslendingar en í sumar hef ég líka sinnt lystiskipunum. Ég var svo frek að segjast ekki vilja fara með ferðafólkið í rútuferð um Snæfellsnes heldur vilja sýna því Stykkishólm á göngu. Þar væri margt að skoða. Þetta var samþykkt. Um 20 skip koma í sumar og farþegar fara í göngur um Hólminn. En auðvitað fara ekki 500 farþegar af hverju skipi í sögugöngur! Aðrir fara að Kirkjufelli, í þjóðgarðinn, í siglingu út í eyjar, eða annað.”

Ég get ekki hætt að tala um matinn, sem veitingastaðirnir í Stykkishólmi hafa að bjóða, staðir eins og Sjávarpakkhúsið, Narfeyrarstofa, Fosshótelið, Fish&Chips við höfnina og fleiri. 

Mynd: ÓJ

„Sjávarfangið er einstakt, Það er stutt að sækja það. Þó að hér séu ekki gerðir út togarar er aðgengi að fersku hráefni mjög gott, bæði héðan úr Hólminum og af Snæfellsnesi. Sjávarpakkhúsið fékk sem dæmi tilraunafla af humri sem veiddur var undir Jökli í fyrra. Það voru auðvitað tíðindi að humar veiddist þar. Hann var mjög góður. Þá virðist sem hörpuskelin sé að ná sér aftur á strik. Þú kaupir hana ekki úti í búð en færð hana hér á veitingahúsunum. Svo er það kræklingurinn sem Símon Sturluson safnar á reipin og skelin nærist af því sem straumarnir skila. Engin fóðrun á sér stað. Ég vann mikið fyrir þá félagana sem stofnuðu Íslenska bláskel á sínum tíma, fór til Kaupmannahafnar og heimsótti veitingastaðinn Noma og sótti námskeið í tilraunaeldhúsi þeirra, þar sem verið var að þróa notkun á þara. Það væri auðvitað hægt að sækja meira inn á markað neytenda sem eru pescatarian eða vegan. Ég held að Ísland í heild sinni geti sótt meira fram á þessum sviðum matargerðar. Það eru auðvitað sóknarfæri í því að gera meira með sjávarfangið,” segir Anna.

Við ljúkum spjallinu á því að ræða dálítið togstreitu ólíkra hagsmuna. Á meðan sumir vilja stóriðnað í Stykkishólm, þörungaverksmiðju eða annað, telja aðrir farsælla að byggja á mörgum stoðum, t.a.m.  í ferðaþjónustu, en jafnvel þar verður að fara að gát. Stóru lausnirnar geta freistað en eru varasamar.

„Ef byggja á upp ferðaþjónustu í sátt við samfélagið má þetta ekki verða þannig að við íbúarnir komumst ekki í sund á sumrin. Þannig var þetta orðið fyrir heimsfaraldur. Fyrst og síðast þarf samtal og samvinnu um það hvert sé best að stefna og byggja síðan upp innviði í samræmi við það.”

Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …