Kjallarinn undir Narfeyrarstofu er undur á að líta. Á veggjum mætast gamlar hleðslur sem voru undir húsinu og svo blasir við þversnið af berginu undir þeim. Birtan er notaleg, áklæði stóla og bekkja í mjúkum litum, borðplötur úr grænleitum marmara, pússaðir veggir grámálaðir. Þetta er glæsileg vínstúka.
Sæþór Þorbergsson kallar sig bryta í símaskránni. Mér þykir því við hæfi að nefna þessa viðbót við Narfeyrarstofu vínstúku frekar en bar eða ölkrá. Sæþór og kona hans Steinunn Helgadóttir eiga og reka staðinn og hafa gert frá 2001.
Þarna niðri er nú orðinn til móttökusalur veitingahússins, vínstúka, kokteilstofa, staður fyrir fólk að hittast, fá sér drykk og spjalla. Sæþór segir mikinn létti að hætta móttöku gesta beint inn á miðhæðina. Það sé léttara fyrir starfsfólk og skapi meiri frið fyrir sitjandi gesti. Mikið áreiti hafi verið við útidyrnar, hurðaskellir og fólk að bíða eftir sæti. Nú geti fólk beðið í kjallaranum. „Þetta breytir öllu,” segir Sæþór.
Áður var kaffihús á miðhæðinni. Veitingahúsið hefur smám saman þróast og breyst, þrátt fyrir að haldið hafi verið í heildarmynd gamla hússins. Árið 2004 var stigahús byggt við til að gestir kæmust með góðu móti upp á efstu hæðina. Fyrir fjórum árum var byggt nýtt eldhús á jarðhæð, við hlið nýju vínstúkunnar, og fleiri breytingar hafa verið gerðar til að auðvelda og bæta reksturinn.
„Við höfðum alltaf í huga að þarna niðri mætti gera eitthvað. Ef Covid-tíminn kenndi manni eitthvað þá var það að skera niður allan óþarfan kostnað og búa okkur undir framtíðina. Svo þegar við höfðum safnað nægum kjarki og sannfært okkur um að faraldrinum hlyti að fara að ljúka þá var leitað ráða hjá kunnáttufólki, talað við verkfræðinga og aðra, um hvort þetta væri mögulegt. Svo byrjuðum við í janúar.
Við mokuðum út yfir 200 tonnum af grjóti og jarðvegi.”
Elsta hleðslan sem blasir nú við þeim sem kemur í kjallarann er frá því um 1800, því húsið sem nú stendur var byggt árið 1906 ofan á sökkul af eldra húsi. Aðrar hleðslur eru frá því húsið var byggt. Í raun hafa þessar endurbætur bjargað húsinu til framtíðar, rennt undir það styrkari stoðum, því að í ljós kom í framkvæmdunum að gömlu stoðirnar voru orðnar veikar. „Húsið dúaði áður leiðinlega mikið á miðhæðinni. Útveggir voru hinsvegar traustir og högguðust ekki á meðan unnið var í kjallaranum.”
Að baki er sjö mánaða vinna við að kljúfa bergið, brjóta og moka, skjóta stoðum undir húsið, smíða, leggja dren og lagnir, steypa, pússa, mála og innrétta. Verkið hófst 2. janúar og nú hafa Hólmarar eignast glæsilegan nýjan stað, vínstúku eða kokteilstofu, sem um leið er hluti af elsta veitingahúsinu í bænum. Kjallarinn tekur um 40 manns í sæti og er þar með stærsta rýmið í húsinu. Á miðhæðinni er stór bar og starfsmannarými og efsta hæðin er undir súð. Sæþór er sannfærður um að þessi viðbót styrki Narfeyrarstofu verulega og komi sér líka vel fyrir Stykkishólm. Engin slík aðstaða hafi verið til í bænum. Vínstúkan henti t.d. vel hópum sem gott er að hrista saman fyrir árshátíð. Þá er líka hægt að halda lokuð samkvæmi á staðnum.
Yfirgnæfandi hluti gesta í Narfeyrarstofu eins og annarra veitingastaða í Stykkishólmi er ferðafólk, mest útlendingar, en auðvitað Íslendingar líka. Í heimsfaraldrinum bauð Narfeyrarstofa upp á tilbúna fiskrétti og heimsendan mat, sem hjálpaði mikið upp á í rekstrinum. Í sumar hefur verið nóg að gera, stríður straumur gesta.
„Hér eru um þúsund rúm á hótelum og gistihúsum. Flest eru þau bókuð yfir háannatímann. Stykkishólmur er náttstaður. Við erum endastöð dagsins. Að kvöldi fer ferðamaðurinn út að borða.“
Narfeyrarstofa treystir ekki á gestakomur með rútum. Flestir koma á bílaleigubílum. Gestir eru 250 til 300 á hverjum degi. Rennslið er jafnt. Stórir hópar með rútum, þar sem allir fá það sama, valda álagi og hökti, segir Sæþór. Betra sé að afgreiða alla à la carte. Þá sé rennslið best. Yfir sumarið og háveturinn gerir gesturinn vel við sig í mat og drykk, en þeir sem koma á vorin og haustin eyða flestir minna, fá sér eitthvað léttara. „Allir tala um hversu gott hráefni við erum að vinna með. Við erum með hörpuskel, bláskel og fisk úr firðinum í margskonar útfærslum. 80 prósent af sölunni er fiskur.“
Óvissa ríkir um framtíð ferjusiglinga um Breiðafjörð. Sæþór eins og aðrir í Hólminum hafa áhyggjur af því hvað tekur við ef Baldur siglir ekki næsta sumar vegna ástandsins á skipinu.
Aðgerðaleysi ráðamanna í ferjumálum á Breiðafirði vekja undrun.
En brytinn í Narfeyrarstofu segir að það verði fundnar aðrar leiðir til að að fá gesti ef ferjunnar nýtur ekki við næsta sumar.
„Við höfum marga fjöruna sopið. Við héldum að þetta væri búið strax fyrsta rekstrarárið, 2001, þegar ráðist var á tvíburaturnana í New York 11. september. Þá myndu nú allir hætta að ferðast. Svo kom hrunið 2008 og þá endurtókum við sönginn um að öllu væri lokið. En þar á eftir kom sprenging í ferðaþjónustunni. Síðast kom svo Covid-19. Við höfum lifað þetta allt af. Það er bara verkefnið. Við höfum notað skynsemina, verið gamaldags í fjármálahugsun, í fámennum hópi veitingafólks sem á sjálfa fasteignina undir reksturinn. Það er lykilþáttur. Þau sem borga himinháa leigu þola ekki að illa gangi í 3-4 mánuði. Þetta er ofboðsleg vinna en maður væri ekki í þessu nema af því að maður hefur ofboðslega gaman af þessu. Hausinn á manni snýst bara um mat og þjónustu.”
Veitingahjónunum Sæþór og Steinunni hefur boðist ýmsilegt, t.d. að opna svipaðan veitingastað annars staðar á landinu en niðurstaðan hefur alltaf orðið sú sama:
„Við höfum alltaf staðið í fæturna og sagst ætla að halda áfram því sem við erum að gera – og reyna að gera það vel. Þetta kann maður. Margir flaska á því að ætla að gleypa lífið.”