Samfélagsmiðlar

Hugsjón og sérviska

Sjávarpakkhúsið í Stykkishólmi er rekið með þeirri hugsjón að færa gestinum það besta sem í boði er hvern dag úr matarkistu Snæfellsness og fiskimiða í kring. Þetta krefst mikillar vinnu eða „hugsjóna og sérvisku," svo notuð séu orð eigandans, Söru Hjörleifsdóttur, sem Túristi hitti á dögunum.

Sara Hjörleifsdóttir

Sara Hjörleifsdóttir í Sjávarpakkhúsinu

Sara Hjörleifsdóttir er Hólmari og hefur átt og rekið Sjávarpakkhúsið í 10 ár og segir að vel hafi gengið. Ríkisstyrkirnir fleyttu rekstrinum í gegnum Covid-19 og síðan tók gestum að fjölga í vor. Hún segist þó sakna þess að sjá ekki fleiri Íslendinga. „Þeir eru dálítið mikið í útlöndum, elta veðrið þegar þeir eru heima. Veðrið hefur ekki leikið við okkur í sumar. En auðvitað fáum við íslenska gesti, þá helst um helgar. Svo sækja þeir staðinn á veturna. Íslendingar eru betri kúnnar, kaupa meira – borða meira, drekka meira. Þannig að við höfum saknað þeirra pínulítið í sumar. Bærinn er samt smekkfullur af fólki og öll gistirými eru uppbókuð út september.”

Sara segir jákvætt að helstu veitingastaðir í Stykkishólmi,  kaffihús og vagn með fisk og franskar séu þarna í hnapp við höfnina. „Mér finnst meiri sjarmi yfir þessu en að staðirnir væru dreifðir um allan bæ.”

Sjávarpakkhúsið

Það dugar að líta út um gluggann á Sjávarpakkhúsinu til að sjá ferðamannastrauminn í Stykkishólmi – og auðvitað renna margir hýru auga í átt að þessum veitingastað í yfir 100 ára gömlu timburhúsi við höfnina. Það má eiginlega segja að allir staðir sem selja veitingar í Stykkishólmi séu smekkfullir flesta daga yfir hásumarið. Stærsti hluti gesta á Sjávarpakkhúsinu gistir í bænum, eru að ljúka ferðadeginum en vilja borða góðan mat áður en lagst er til hvílu. Svo koma margir seint um kvöld, úr Breiðafjarðarferjunni eða akandi, og halda svo áfram för sinni inn í nóttina. En er styrkleiki Stykkishólms að bærinn skuli vera endastöð margra eftir ferðalög um Snæfellsnes, Dalina eða Breiðafjörð? „Það er bæði og,” segir Sara. „Það vinnur með okkur yfir sumartímann þegar hér er mikil traffík og margir gista hér, en á veturna þegar flestir halda sig í Reykjavík, og þar í kring, þá dettum við svolítið út. Þá ekur fólk um útnesið, fer í þjóðgarðinn, og snýr svo til baka og heldur til Reykjavíkur. Stykkishólmur er þá orðinn óþarfur botnlangi þykir ýmsum og sleppa því að fara þangað. Ferjutúristar eru miklu færri á veturna. Þetta vinnur gegn okkur. Á sumrin hefur bærinn sem slíkur sitt aðdráttarafl með gömlu húsunumm og náttúrufegurðina í kring. Okkur vantar einhvern geggjaðan segul á veturna,” segir Sara en bætir því við að unnið hafi verið að því á undanförnum árum að breyta þessu – koma því til skila að þú ferð ekki um Snæfellsnesið í dagsferð.

„Þú þarft að gefa þér meiri tíma á Snæfellsnesi. Við viljum að fólk komi og sé ekki á hraðferð. Hér er svo margt að skoða, líka á veturna. Þetta svæði er ótrúlega fallegt á veturna.”

Við sitjum og spjöllum fyrripart dags. Yfirbragð staðarins er rólegt en innan úr eldhúsinu heyrist dálítið glamur. Það er verið að undirbúa kvöldið. Fyrstu gestirnir koma klukkan sex. Fyrstu árin var Sjavarpakkhúsið opið frá morgni og fram á nótt en Covid-19 breytti stefnunni sumarið 2020.

Kokkurinn Noel Bas leggur á ráðin

„Við fundum strax að það hentaði rekstrinum miklu betur að hafa aðeins opið á kvöldin og starfsfólkið var ánægðara. Fólk er að vaxa upp úr því að vinna þessa 18 tíma vinnudaga,” segir Sara.

En auðvitað er hún alltaf í vinnunni, vakin og sofin. Við tölum um mat. Þetta snýst allt um mat. Stundum skýst hún sjálf í eldhúsið og tekur þátt í eldamennskunni. Miklar breytingar hafa orðið á þessum 10 árum sem hún hefur staðið vaktina. Þetta var í byrjun súpueldhús með lítilli heimiliseldavél. „Svo þegar við höfðum safnað dálitlum pening var sett upp gott eldhús. Betri aðstaða skilaði fleiri réttum og meiri gæðum.”

Staðurinn er með 22 sæti fyrir gesti á neðri hæð og í vor var bætt við 16 sætum á hæðinni fyrir ofan. 

Dyrnar á Sjávarpakkhúsinu eru opnaðar. Inn gægist erlendur ferðamaður og spyr með vonarsvip hvort hægt sé að fá borð í kvöld. Jú, Sara bendir honum brosandi á að bóka borð á heimasíðunni. Við höldum áfram spjalli um mat. 

„Við erum eingöngu með fisk og annað sjávarfang. Þetta er staður sem er rekinn af hugsjón og sérvisku. Það er langt síðan við ákváðum að þetta væri ekki staður sem byði upp á eitthvað fyrir alla. Við viljum bjóða allt fyrir suma. Við erum ekki með barnamatseðil og margt er bannað að koma með hingað inn, t.d. tómatsósu. Við förum út um mela og móa að tína jurtir og erum með gróðurhús ofan við veitingastaðinn, þar sem við ræktum kryddjurtir, ætiblóm og tómata, og reynum að vera eins umhverfisvæn og sjálfbær og mögulegt er. Fyrir nokkrum árum fengum við umhverfisvottun, Svansmerkið, og vinnum eftir þeim stöðlum. Þetta er ekki þessi venjulega túristabúlla,” segir Sara og brosir.

Túristi jánkar því. 

Það sem vantar upp á af salati, kryddi og blómum er sótt til Áslaugar Sigvaldadóttur á Lágafelli á sunnanverðu Snæfellsnesi. 

Gróðurhúsið fyrir aftan veitingastaðinn

Það eru fáir réttir á matseðlinum í Sjávarpakkhúsinu og það er vandað til verka. Réttum er skipt ört út af matseðli. Árstíðir margra aðfanga eru mjög stuttar. Sara nefnir eltingaleik við íslensk ber. Íslensk jarðarber eru í boði aðeins í skamman tíma en þá taka við önnur ber úr náttúrunni í eftirréttina. 

Sjávarpakkúsið fær skelfisk, hörpuskel og bláskel, úr nágrenni Stykkishólms og annað fiskmeti héðan og þaðan af Snæfellsnesi. Mikil vinna liggur í því að keita uppi rétta hráefnið. Um hásumar er erfitt að fá góðan fisk. „Það er ein ástæðan fyrir því að við skiptum ört út réttum á matseðli. Við viljum ekki lenda í því að þurfa að fara langt að sækja fiskinn. Þá er hann ekki eins og við viljum hafa hann. Við skiptum frekar út og miðum við það sem hægt er að fá hverju sinni hér í grenndinni.” Bláskelina fær Sjávarpakkhúsið frá Símoni Sturlusyni, skeljabónda, sem hóf að ræktunina á köðlum 2007 og hefur náð miklum árangri þrátt fyrir nokkra tregðu á markaðnum fyrstu árin. Það þurfti stjörnukokka til að opna augu fólks fyrir gæðum kræklingsins úr Breiðafirði. Frá Símoni fær Sjávarpakkhúsið líka þang og annan sjávargróður sem hægt er að meðhöndla með ýmsu móti.

Já, við tölum um skelfisk, hinn fræga breiðfirska skelfisk. Sara lýsir því hvernig straumar í firðinum færa bláskelinni mikið æti svo hún dafnar betur en annars staðar, verður holdmeiri. Það var alltaf hægt að forðast hungrið við Breiðafjörð með því að éta fiskinn innan úr skelinni – þó það væri kallað að lepja dauðann úr skel. Skrýtið fólk, Íslendingar. Nú er kræklingur og annar skelfiskur talinn meðal þess besta sem vandaður veitingastaður eins og Sjávarpakkhúsið getur boðið gestum sínum. 

Sjávarpakkhúsið er staður með persónulega nálgun í stíl og vali á réttum, hengir sig ekki á einhverja stefnu í eldamennsku.

Af matseðli dagsins

„Við gerum fyrst og fremst það sem okkur þykir skemmtilegt – ekkert sem er leiðinlegt. Enginn réttur fer á seðilinn nema að okkur þyki hann góður. Við vinnum með það hráefni sem við getum fengið á þessu svæði hverju sinni. Starfsfólkið kemur úr öllum áttum, margir menningarheimar mætast.” 

Staðsetningin við höfnina er auðvitað frábær, ekki bara útsýnið.

„Við getum stundum bent gestinum á bátinn sem kom með fiskinn sem hann er að borða og belgina sem halda uppi línunum  sem kræklingurinn vex á.” 

„Þetta er skemmtilegur bransi. Ég held að það sé þannig að annað hvort fíli fólk þetta eða ekki. Ef þú fílar þetta er erfitt að hætta. Þetta er mjög skemmtilegt. Ég tala ekki um að vera svo heppin að fá að reka eigin stað og geta gert það sem þér hentar, vera endalaust að skapa eitthvað nýtt. Þetta væri ekki eins gaman ef staðsetningin væri leiðinleg. Hér erum við með aðgengi að öllu þessu frábæra hráefni og fegurðin í umhverfinu gerir þetta allt svo skemmtilegt.” 

Hugað að plöntunum

Eftir að hafa heilsað upp á kokkinn Noel Bas, sem er að undirbúa kvöldið í Sjávarpakkhúsinu, þá förum við Sara aftur fyrir húsið og lítum á plönturnar í gróðurhúsinu. Hún sýnir mér ætiblóm, segir blómin sæt en blöðin með dálítið hvössu bragði. Síðan rekjum við okkur framhjá pottum með hinum og þessum kryddjurtum og blómum sem eiga eftir að gleðja bragðlauka og augu gesta veitingahússins. Þessi ræktun er á fyrsta ári svo tómataplantan skilar ekki miklu í haust. En fólkið í Sjávarpakkhúsinu er þolinmótt.

Í þessu felst sérstaða Sjávarpakkhússins, þolinmæði og þrautsegju – að sækja hráefni til matargerðar sem allra mest í nágrennið og láta hjartað og virðingu fyrir umhverfinu ráða hvað eldað er hverju sinni.

Maturinn endurspeglar hugsjónir og smekk þeirra sem eiga og reka staðinn. 

Sara, Hekla dóttir hennar, og kokkurinn Noel Bas
Nýtt efni

Árið 1970 barst Pattie Boyd nafnlaust og dularfullt ástarbréf frá einhverjum sem þráði hana afar heitt. Vandinn var bara sá að Pattie var þegar gift öðrum manni og ekki ófrægum; hún og George Harrison gítarleikari The Beatles höfðu búið saman í sex ár þegar bréfið barst Pattie.  „Ég skrifa þér þessa orðsendingu í þeim megintilgangi …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …