Samfélagsmiðlar

Ráðandi fyrirtæki hindri uppbyggingu á landsbyggðinni með markaðsáherslum

Þráinn Lárusson, eigandi 701 Hotels, segir að ráðandi fyrirtæki eins og Icelandair, Play og Bláa lónið hafi ekki áhuga á að dreifa ferðamönnum um landið. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hjá Niceair segir nærtækast að jafna verð á flugvélaeldsneyti og styrkja þannig flugvelli á landsbyggðinni.

Horft niður kirkjutröppurnar á Akureyri

Meðal þess sem oftast er nefnt þegar rætt er um æskilegar breytingar á íslenskri ferðaþjónustu er að mikilvægt sé að ferðafólk dreifist meira um landið. Áhrifaríkasta leiðin til þess er væntanlega að efla aðrar gáttir inn í landið en Keflavíkurflugvöll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, sagði frá því í viðtali við Túrista að í ráðuneyti hennar væri unnið að aðgerðaáætlun til að styrkja hin svonenfndu kaldari ferðaþjónustusvæði landsins. Skoða ætti hverjir væru möguleikar ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni á að nálgast fé til fjárfestinga. Því væri haldið fram að meirihlutinn færi á höfuðborgarsvæðið. Sagði ráðherra að leitað væri skýringa hjá stjórnendum bankanna á þessu. Eins væri verið að skoða þjónustu Vegagerðarinnar og aðgengi ferðafólks að vinsælum stöðum eins og Dettifossi árið um kring, og stöðu innanlandsflugsins.

„Við erum að vinna að áætlun sem nær út kjörtímabilið um það sem við erum sammála um að þurfi að gera til að styrkja þessi svæði,” sagði ferðamálaráðherra í þessu viðtali við Túrista. 

Töfrar á Seyðisfirði – MYND: GUNNAR FREYR GUNNARSSON – ICELANDIC EXPLORER

Meðal þeirra sem lengi hafa varað við ofuráherslu á að beina ferðafólki á Suðvestur- og Suðurland er Þráinn Lárusson, hótelhaldari og veitingamaður á Héraði. Hann segist hingað til hafa fengið litlar undirtektir hjá ráðherrum ferðamála. Núverandi ferðamálaráðherra hitti Þráin síðsumars. 

Þráinn á svölum Hótel Hallormsstaðar í sumar – MYND: ÓJ

„Ég hef bent á og varað við því frá árinu 2016 að þessi staða kæmi upp: Að við gætum ekki fylgt Suður- og Suðvesturlandinu eftir þegar kæmi að frekari fjölgun ferðamanna. Ástæðan væri sú að ekkert væri gert til að dreifa ferðamönnum um landið og kæmi það fyrst og fremst niður á vetrarmánuðunum. Það væri einfaldlega útilokað að byggja upp frekari þjónustu ef hún ætti eingöngu að stóla á tekjur yfir hábjargræðistímann. Það gengi einfaldlega ekki upp. Ég hef alveg frá því að ég byrjaði að vara við þessu fengið litlar undirtektir þó svo að ég hafi bent á að þetta kæmi á endanum niður á landinu öllu – ekki síst Gullströndinni.”

Segir Þráinn þegar Túristi leitar viðbragða við orðum Lilju Daggar í viðtalinu í síðustu viku. „Gullströndin“ í hans huga er gjörvöll suðurströnd Íslands og ferðamannastaðir við hana sem soga til sín stríðan straum ferðafólks árið um kring. 

„Þetta er gamalt vandamál sem er að fá athygli núna af því að það hefur raungerst, eins og hver einasti maður hefði átt að sjá fyrir. Sennilega hefði þetta gerst fyrr ef ekki hefði komið til takmarkana vegna Covid-19.”

Þröng á þingi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í sumar – MYND: ÓJ

Þráinn dregur ekki upp fagra mynd af þeim undirstöðum sem ferðaþjónustan sem atvinnugrein hvílir á:

„Þetta hefur verið hálfgerður hrunadans hjá ferðaþjónustunni – eins og í villta vestrinu. Engar áætlanir. Engin framtíðarsýn. Litlar sem engar rannsóknir. Ná bara nógu miklu inn á sem stystum tíma hvað sem tautar og raular. Túristi birti á dögunum grein um ástandið í Róm – að þar vanti stefnu, ferðamönnum sé beint inn á fáa staði og það gerir borgina ekki nógu aðlaðandi. Það nákvæmlega sama er að gerast hér.”

Þráinn segir að ferðamálaráðherra hafi spurt sig hvað væri helst til ráða.

„Ég sagði að þetta snérist fyrst og fremst um að náttúruperlur okkar og áhugaverð svæði fengju meiri athygli. Það væri fráleitt að það ekki væri vetrarþjónusta að náttúruperlum okkar rétt eins og er fyrir sunnan. Hvernig í ósköpunum eigum við að laða til okkar ferðamenn ef ekki er aðgengi að því sem fólk er komið til að skoða? Ég fagna því að ráðherra hreyfi nú við því að bætt sé úr þessari skömm.”

Á Dettifossleið að vetri – MYND: STAR TRAVEL

Þráinn segist líka hafa sagt við ráðherra að ekki þyrfti að markaðssetja ferðamannastaði við suðurströndina.

„Í raun þarf Gullströndin ekki opinberan stuðning í markaðsetningu lengur enda sjá ráðandi fyrirtæki á landinu, eins og Icelandair, Play og Bláa Lónið, um að markaðssetja það svæði. Þessi fyrirtæki hafa nákvæmlega engan áhuga á að dreifa ferðamönnum um landið. Þvert á móti þá gengur það gegn þeirra hagsmunum. Þau eru steinar í götu okkar sem viljum dreifa ferðamönnum. Þeirra hagsmunir ganga út á að fá fleiri ferðamenn til styttri dvalar. Eftir heimsfaraldur fjölgaði þeim sem vildu stoppa lengur, sem skilar meiri tekjum. En þarna komu veikleikar í uppbyggingu ferðaþjónustunnar í ljós. Þessi ráðandi aðilar í íslenskri ferðaþjónustu brugðust við með því að markaðssetja stuttar ferðir innan þröngs hrings í kringum höfuðborgina. Ferðamaðurinn gat þá nýtt sér hótelpláss í Reykjavík og dvalið skemur á landinu.”

Þráinn nefndi í viðtali við Túrista í sumar að hann vildi hætta markaðssetningu á Íslandi sem heild. Skipta ætti landinu í tvennt í sölu- og markaðsstarfi: Suður-Ísland og Norður-Ísland. Þá hugmynd ítrekar hann nú í vetrarbyrjun. 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra – MYND: ÓJ

Lilja Dögg, ferðamálaráðherra, sagði í viðtalinu við Túrista að það væru forsendur meiri dreifingar ferðafólks um landið að efla gáttirnar á Akureyri og Egilsstöðum:

„Við erum auðvitað að tala um allt annað ferðalag ef erlendi ferðamaðurinn kemst beint til Akureyrar eða Egilsstaða, eða í gegnum Keflavíkurflugvöll, á þessa staði.”

Vísaði ráðherra til fundar sem hún átti í sumar með forstjóra Icelandair um innanlandsflugið. 

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson á Oddeyri í sumar – MYND: ÓJ

Norður á Akureyri situr stofnandi og framkvæmdastjóri Niceair, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson. Niceair hefur gjörbreytt ferðamöguleikum Norðlendinga og Þorvaldur Lúðvík fagnar auknum áhuga erlendra fugfélaga á beinu flugi norður og austur. Í hans huga er þó skýrt hvað helst mætti verða til að örva þann áhuga – og þá um leið skapa ný sóknarfæri fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Á Akureyrarflugvelli – MYND: ÓJ

„Það væri nærtækt með litlum hliðrunum að koma flugvélaeldsneyti undir flutningsjöfnun og standa þannig við Stefnumótandi Byggðaáætlun frá 2018, sem enn hefur ekki orðið að veruleika.”

Þorvaldur Lúðvík bendir á þann mikla aðstöðumun sem felst í hærri olíugjöldum á Akureyrarflugvelli og Keflavíkurflugvelli. Þar muni hátt í fimmþúsund krónum á hvert sæti. Þarna sé tækifæri til jöfnunar:

Þorvaldur Lúðvík telur mikilvægara að styrkja Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll sem gáttir fyrir millilandaflug en að beina traffíkinni um Keflavíkurflugvöll, eins og Icelandair boðar:

„Skjótvirkara væri að hlúa að köldum svæðum með því að styrkja aðrar gáttir, og markaðsstarf þeirra, í stað þess að púkka upp á innanlandsflugið. Flestar aðgerðir hingað til, samanber Loftbrúin, hafa ekki gert annað en að ríkisstyrkja enn frekar eitt fyrirtæki á fákeppnismarkaði. Þetta má glöggt sjá af þróun innanlandsfargjalda frá því fyrir og síðan eftir Loftbrúna. Hækkunin virðist fara í sama vasann.”

Af viðbrögðum þessara tveggja forkólfa í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi að dæma ríkir nokkur vantrú á að mikila breytinga sé að vænta á ferðamálastefnunni. En skilaboðunum hefur verið komið á framfæri: Landsbyggðin vill sjá eitthvað meira en fögur orð á blaði. 

Unnið er að stækkun stöðvarhúss við Akureyrarflugvöll – MYND: ÓJ
Nýtt efni
Arnar Guðmundsson, Íslandsstofu

Íslandsstofa vinnur að því að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland, kemur íslenskum fyrirtækjum á framfæri á erlendri grundu og liðkar til eftir bestu getu fyrir erlendri fjárfestingu á fimm sviðum atvinnulífs: orku og grænum lausnum, sjávarútvegi og matvælaframleiðslu, hugviti og tækni, listum og skapandi greinum - og loks ferðaþjónustu. Allt byggist þetta á útflutningsstefnu landsins, sem …

Það voru 27.293 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu hér á landi í mars 2024 sem er aukning um 2 prósent frá sama tíma í fyrra en 2 prósent færri í samanburði við mars 2018. Það ár voru ferðamenn hér flestir en gert er ráð fyrir álíka ferðamannastraumi í ár. Vægi starfsfólks með íslenskan bakgrunn er …

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur slitið viðræðum við franska Renault um að þróa og smíða saman nýja gerð af rafknúnum smábíl á viðráðanlegu verði, sem keppt gæti við ódýrustu kínversku bílana. Hugmyndin var sú að bíllinn yrðu byggður á grunni Twingo-smábílsins frá Renault. Renault hyggst nú upp á eigin spýtur þróa Twingo áfram sem rafbíl og …

„Pittsburgh flugið fer vel af stað og er ánægjulegt að sjá að farþegar frá 25 Evrópulöndum hafa bókað flug með okkur til Pittsburgh um Ísland og þaðan hafa farþegar bókað flug til 30 áfangastaða Evrópumegin," sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilefni af fyrstu áætlunarferð flugfélagsins til bandarísku borgarinnar á fimmtudaginn. Forstjórinn lagði um …

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …