Samfélagsmiðlar

Spáð í vottanir

Eru umhverfisvottanir bara peningaplokk og er ferðafólki sama hvernig staðið er að þjónustu við það út frá umhverfissjónarmiðum? Já, segja sumir. Aðrir telja óhjákvæmilegt að ferðaþjónustan taki af meiri alvöru á rekstri sínum og umfangi gagnvart náttúru og samfélagi. Túristi pælir í þessu.

Laugarvatn

Lognkyrr dagur á Laugarvatni

„Ferðamenn spá ekkert í þessar vottanir,” sagði Boggi Tona á Facebook-síðunni Raunverulegt bakland ferðaþjónustunnar þegar hann brást við frétt Túrista um það hversu fá fyrirtæki í ferðaþjónustu, hótel og veitingahús, hefðu Svansvottun, sem er staðfesting óháðra aðila á því að rekstur sé í samræmi við kröfur um að lágmarka kolefnislosun, úrgangur sé flokkaður rétt, unnið sé markvisst gegn matarsóun, notaðar séu umhverfisvottuð hreinsiefni, svo eitthvað sé nefnt. Boggi Tona segir Svansvottun „sama peningaplokkið og Vakinn,” sem er gæða- og umhverfisvottun sem stýrt er af Ferðamálastofu. Á sama þræði á Facebook skrifar Ólína Gunnlaugsdóttir: „Því miður velta ferðamennirnir almennt ekki fyrir sér umhverfismálum. Þeir hvorki spyrja né velja eftir slíkum vottunum og eins og sjá má í eftirsókn af einnota borðbúnaði þá telja þeir ekki eftir sér að nota hann, ef hann er í boði. Hvaðan maturinn kemur er líka eitthvað sem þeim er nokkuð sama um.” 

Í verslun við Geysi – MYND: ÓJ

Ætli þetta sé almenn upplifun og sýn fólks í ferðaþjónustu og þeirra sem eru í baklandi hennar? Það virðist a.m.k. ljóst að áhugi á markvissu umhverfisstarfi virðist enn frekar takmarkaður innan ferðaþjónustunnar þó vafalaust hugsi æ fleiri í þá áttina. Fá fyrirtæki í ferðaþjónustu virðast tilbúin að leggja í þá vegferð að afla vottunar um að þau starfi með það að leiðarljósi að verja náttúru og umhverfi. Aðeins 54 fyrirtæki,félög og stofnanir sem tengjast ferðaþjónustu hafa fengið vottun frá Vakanum og einungis 10 hótel og veitingastaðir mega skarta Svaninum, umhverfismerki Norðurlanda. Þetta áhugaleysi birtist líka þegar skoðuð er þátttaka í verkefni Íslenska ferðaklasans, Ábyrgri ferðaþjónustu, þar sem fyrirtækjum bauðst aðild að fræðsluáætlun sem fól í sér aðstoð við að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sjá hvernig hringrásarhagkerfið getur nýst þeim. Afurð þessarar vinnu var stefna viðkomandi fyrirtækja í sjálfbærnimálum. Aðeins 70 af yfir 2.000 fyrirtækjum á Íslandi sem skráð eru í einhvers konar ferðaþjónstu tóku þátt í verkefni sem lauk í desember síðastliðinn. 

Fiskur og franska á Raufarhöfn – MYND: ÓJ

Þegar Túristi ræddi við Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans, í haust spurði hún hvar hin fyrirtækin væru og hvað þau væru að gera: 

„Eftir þrjú til fimm ár verður þú ekki með í þessum bransa ef þessi mál eru ekki í fyrsta sæti. Fjármagnseigendur, allir lífeyrissjóðir og bankar, allt ferðafólk, hið opinbera, öll sveitarfélög – allir sem hafa eitthvað með þróun greinarinnar að gera munu ekki lána, styðja eða veita nokkra fyrirgreiðslu öðruvísi en hægt verði að sýna fram á að viðkomandi fyrirtæki sé með sjálfbæran rekstur. Við erum að reyna að sýna eigendum fyrirtækja fram á að með því að byrja núna séu þeir að auka forskotið. Þá eru þeir farnir af stað þegar kallið kemur að ofan og allir verða skikkaðir til að uppfylla þessar kröfur.” 

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir – MYND: ÓJ

Þessi ummæli framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans eru samhljóma því sem rætt er og ritað víða á heimsvísu um framtíð ferðaþjónustu í heiminum, t.d. á vettvangi Alþjóðaráðs um sjálfbæra ferðamennsku, The Global Sustainable Tourism Council, GSTC, og í fjölmiðlum sem fjalla um ferðalög og náttúru, eins og The National Geographic. Könnun sem sá virti fjölmiðill lét gera 2019 sýndi mikinn stuðning ferðafólks við sjálfbærnikröfuna og sögðust 42 prósent aðspurðra sig líklega til að setja sjálfbærni á oddinn í ferðalögum framtíðarinnar. En jafnframt kom í ljós í þessari könnun að einungis 15 prósent þessara meðvituðu og viljugu ferðalanga telja sig hafa það á hreinu hvað felist í sjálfbærni. Það er einkum ungt fólk sem hefur kynnt sér þessi mál og hefur þekkingu á þeim – fólkið sem mun bera uppi ferðaþjónustu framtíðarinnar. 

Fjallganga – MYND: ÓJ

Ásta Kristín lýsti því í viðtalinu við Túrista hvað fælist í þeirri vinnu sem fyrirtækin hér heima þyrftu að ráðast í á leið þeirra að sjálfbærni. Kortleggja þyrfti allt sem þau væru að gera, í hvað peningum væri eytt, hvað keypt væri inn. Þetta snérist um flokkun, sóun og eldsneytisnotkun. Verkfærin væru margskonar og mikilvægast væri að fara af stað. Það virðist eins og mörgum fallist hendur þegar byrjað er að ræða kröfuna um sjálfbærni. Jafnvel hefur Túristi heyrt sagt að rekstur og afkoma fyrirtæki gefi ekki svigrúm til að standa í svona löguðu. Ásta Kristín blés á það í viðtalinu: 

„Þá svara ég bara: Þú hefur ekki efni á að reka fyrirtæki í ferðaþjónustu. Punktur. Farðu að gera eitthvað annað. Við megum nefnilega aldrei gleyma því að ferðaþjónustan þarf að vera til á forsendum samfélagsins – en ekki öfugt.”

Við Þingvallavatn – MYND: ÓJ

Ef ummælin á Facebook sem vísað var til í upphafi lýsa almennri upplifun og áliti fólks í ferðaþjónustu: Að ferðamenn velti lítið fyrir sér umhverfismálum og að það sé peningaplokk að leita eftir umhverfisvottun, þá er kannski skiljanlegt að lítill áhugi sé á átaksverkefnum sem stuðla eiga að sjálfbærum rekstri. Dapurlegra er þó ef ekki er almennur skilningur á því að við þurfum öll að leggja eitthvað af mörkum til að halda hlýnun innan við eina og hálfa gráðu á Celsius, helminga kolefnislosunina fyrir 2030, gera allt sem í okkar valdi stendur til að verja náttúruna, svo lífvænlegt verði til framtíðar. Það er beinn og mælanlegur ávinningur af sjáfbærum rekstri – líka í ferðaþjónustunni – með bættri heilsu, verndun gjöfullar náttúru, hagkvæmari flutningum og betri nýtingu hráefna. 

Skarphéðinn Berg Steinarsson
Skarphéðinn Berg Steinarsson – MYND: ÓJ

Í viðtali við Túrista í sumar sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson, þá ferðamálastjóri, þetta um ferðaþjónustuna og umhverfismálin: 

„Við höfum ekki hugað nógu vel að umhverfismálunum. Þetta á eiginlega við um allt: flugið, bílaaksturinn um hringveginn og almennt notkun jarðefnaeldsneytis, val á matvælum og nýtingu þeirra, fráveitumálin. Við höfum ekki haft þessi mál í fókus þó vissulega séu sífellt fleiri að setja þau á dagskrá hjá sér.“ 

Og áður en Skarphéðinn kvaddi starfið ræddi Túristi við hann í desember og spurði hvort hann sæi einhver batamerki þegar kemur að sjálfbærni greinarinnar:

Við Jökulsárlón – MYND: ÓJ

„Ég held að almennt hafi þokast í rétta átt, erum að taka þetta fastari tökum. Við þurfum ekki einvörðungu að líta til umhverfisþátta, þó þeir séu fyrirferðarmestir, heldur líka til efnahagslegrar og samfélagslegrar sjálfbærni greinarinnar. Ferðaþjónustan þarf að hagnast, geta staðið við skuldbindingar sínar – hvort sem það er starfsfólk, lánardrottnar, eða einhverjir aðrir. Ferðaþjónustan er hluti af samfélaginu og þar eru atriði sem gæta verður að. Ferðaþjónustan er þurftafrek á húsnæði, m.a. íbúðahúsnæði. Hvernig leysum við úr því þegar húsnæðisskortur er í landinu? Gæta þarf að því að hagsmunir fari saman.”

Er ekki full ástæða fyrir ferðaþjónustuna að pæla í þessum málum, sækjast eftir vottunum eða viðurkenningum á góðri viðleitni, og styrkja stöðu landsins sem ferðaáfangastaðar sem tekur umhverfismál alvarlega?

Nýtt efni

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …

Rauðu og hvítu sporvagnarnir hafa verið meðal táknmynda Istanbúl, þjónað íbúum og ferðamönnum í meira en öld. Nú líður að því að þeim verði skipt út fyrir vagna sem búnir verða rafhlöðum. Vagnarnir hafa gengið eftir spori á Istiklal-breiðgötunni Evrópumegin í Istanbúl. Þeir voru fyrst teknir í notkun árið 1914, á dögum Ottómanveldisins. Ýmsar lagfæringar …

Skattaívilnanir til kaupa á nýjum rafbílum féllu niður um áramótin en frádrátturinn gat numið allt að 1,3 milljónum króna. Nú fæst 900 þúsund króna styrkur frá Orkusjóði í staðinn en sala á rafbílum hefur þó dregist umtalsvert saman það sem af er ári. Á þessum tíma í fyrra höfðu 3.211 nýir rafbílar verið skráðir nýir …

Seljendur hlutabréfa í almennu hlutafjárútboði Íslandshótela, stærsta hótelfyrirtæki landsins, hafa ákveðið að falla frá útboði og þar með skráningu félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Almennu hlutafjárútboði Íslandshótela lauk seinnipartinn í gær en í ljósi þessarar ákvörðunar munu allar áskriftir falla sjálfkrafa niður. Þetta kemur fram í tilkynningu. Vel á þriðja þúsund aðilar tóku þátt í …

MYND: ÓJ

Nýbirt Þróunarvísitala ferðageirans (Travel & Tourism Development Index) fyrir árið 2024, sem Alþjóðaefnahagsráðið ( World Economic Forum) tekur saman annað hvert ár, sýnir að Ísland fellur niður listann um 10 sæti frá 2019 - í 32. sæti, Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru töluvert ofar en Noregur er hins vegar ekki meðal þeirra 119 landa sem …

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar áformaði að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu úr 11 prósentum í 24 prósent um mitt árið 2018. Stjórnin sprakk hins vegar áður en málið fór í gegnum Alþingi. Samtök ferðaþjónustunnar börðust gegn þessari hækkun á sínum tíma og í morgun efndu samtökin til fundar í ljósi þess að „undanfarin misseri …

Ferðafólk fylgist með hval dregnum á land í Hvalfirði

Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands dagana 30. apríl til 7. maí 2024 eru 49 prósent aðspurðra því andvíg að leyfi Hvals hf. til veiða á langreyðum verði endurnýjað. Hins vegar eru 35 prósent aðspurðra því hlynnt. Beðið er ákvörðunar nýs matvælaráðherra. Meginniðurstöður könnunar Maskínu fyrir Náttútuverndarsamtök Íslands - MYND: Maskína Niðurstöður Matvælastofnunar í …