Samfélagsmiðlar

Spáð í vottanir

Eru umhverfisvottanir bara peningaplokk og er ferðafólki sama hvernig staðið er að þjónustu við það út frá umhverfissjónarmiðum? Já, segja sumir. Aðrir telja óhjákvæmilegt að ferðaþjónustan taki af meiri alvöru á rekstri sínum og umfangi gagnvart náttúru og samfélagi. Túristi pælir í þessu.

Laugarvatn

Lognkyrr dagur á Laugarvatni

„Ferðamenn spá ekkert í þessar vottanir,” sagði Boggi Tona á Facebook-síðunni Raunverulegt bakland ferðaþjónustunnar þegar hann brást við frétt Túrista um það hversu fá fyrirtæki í ferðaþjónustu, hótel og veitingahús, hefðu Svansvottun, sem er staðfesting óháðra aðila á því að rekstur sé í samræmi við kröfur um að lágmarka kolefnislosun, úrgangur sé flokkaður rétt, unnið sé markvisst gegn matarsóun, notaðar séu umhverfisvottuð hreinsiefni, svo eitthvað sé nefnt. Boggi Tona segir Svansvottun „sama peningaplokkið og Vakinn,” sem er gæða- og umhverfisvottun sem stýrt er af Ferðamálastofu. Á sama þræði á Facebook skrifar Ólína Gunnlaugsdóttir: „Því miður velta ferðamennirnir almennt ekki fyrir sér umhverfismálum. Þeir hvorki spyrja né velja eftir slíkum vottunum og eins og sjá má í eftirsókn af einnota borðbúnaði þá telja þeir ekki eftir sér að nota hann, ef hann er í boði. Hvaðan maturinn kemur er líka eitthvað sem þeim er nokkuð sama um.” 

Í verslun við Geysi – MYND: ÓJ

Ætli þetta sé almenn upplifun og sýn fólks í ferðaþjónustu og þeirra sem eru í baklandi hennar? Það virðist a.m.k. ljóst að áhugi á markvissu umhverfisstarfi virðist enn frekar takmarkaður innan ferðaþjónustunnar þó vafalaust hugsi æ fleiri í þá áttina. Fá fyrirtæki í ferðaþjónustu virðast tilbúin að leggja í þá vegferð að afla vottunar um að þau starfi með það að leiðarljósi að verja náttúru og umhverfi. Aðeins 54 fyrirtæki,félög og stofnanir sem tengjast ferðaþjónustu hafa fengið vottun frá Vakanum og einungis 10 hótel og veitingastaðir mega skarta Svaninum, umhverfismerki Norðurlanda. Þetta áhugaleysi birtist líka þegar skoðuð er þátttaka í verkefni Íslenska ferðaklasans, Ábyrgri ferðaþjónustu, þar sem fyrirtækjum bauðst aðild að fræðsluáætlun sem fól í sér aðstoð við að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sjá hvernig hringrásarhagkerfið getur nýst þeim. Afurð þessarar vinnu var stefna viðkomandi fyrirtækja í sjálfbærnimálum. Aðeins 70 af yfir 2.000 fyrirtækjum á Íslandi sem skráð eru í einhvers konar ferðaþjónstu tóku þátt í verkefni sem lauk í desember síðastliðinn. 

Fiskur og franska á Raufarhöfn – MYND: ÓJ

Þegar Túristi ræddi við Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans, í haust spurði hún hvar hin fyrirtækin væru og hvað þau væru að gera: 

„Eftir þrjú til fimm ár verður þú ekki með í þessum bransa ef þessi mál eru ekki í fyrsta sæti. Fjármagnseigendur, allir lífeyrissjóðir og bankar, allt ferðafólk, hið opinbera, öll sveitarfélög – allir sem hafa eitthvað með þróun greinarinnar að gera munu ekki lána, styðja eða veita nokkra fyrirgreiðslu öðruvísi en hægt verði að sýna fram á að viðkomandi fyrirtæki sé með sjálfbæran rekstur. Við erum að reyna að sýna eigendum fyrirtækja fram á að með því að byrja núna séu þeir að auka forskotið. Þá eru þeir farnir af stað þegar kallið kemur að ofan og allir verða skikkaðir til að uppfylla þessar kröfur.” 

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir – MYND: ÓJ

Þessi ummæli framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans eru samhljóma því sem rætt er og ritað víða á heimsvísu um framtíð ferðaþjónustu í heiminum, t.d. á vettvangi Alþjóðaráðs um sjálfbæra ferðamennsku, The Global Sustainable Tourism Council, GSTC, og í fjölmiðlum sem fjalla um ferðalög og náttúru, eins og The National Geographic. Könnun sem sá virti fjölmiðill lét gera 2019 sýndi mikinn stuðning ferðafólks við sjálfbærnikröfuna og sögðust 42 prósent aðspurðra sig líklega til að setja sjálfbærni á oddinn í ferðalögum framtíðarinnar. En jafnframt kom í ljós í þessari könnun að einungis 15 prósent þessara meðvituðu og viljugu ferðalanga telja sig hafa það á hreinu hvað felist í sjálfbærni. Það er einkum ungt fólk sem hefur kynnt sér þessi mál og hefur þekkingu á þeim – fólkið sem mun bera uppi ferðaþjónustu framtíðarinnar. 

Fjallganga – MYND: ÓJ

Ásta Kristín lýsti því í viðtalinu við Túrista hvað fælist í þeirri vinnu sem fyrirtækin hér heima þyrftu að ráðast í á leið þeirra að sjálfbærni. Kortleggja þyrfti allt sem þau væru að gera, í hvað peningum væri eytt, hvað keypt væri inn. Þetta snérist um flokkun, sóun og eldsneytisnotkun. Verkfærin væru margskonar og mikilvægast væri að fara af stað. Það virðist eins og mörgum fallist hendur þegar byrjað er að ræða kröfuna um sjálfbærni. Jafnvel hefur Túristi heyrt sagt að rekstur og afkoma fyrirtæki gefi ekki svigrúm til að standa í svona löguðu. Ásta Kristín blés á það í viðtalinu: 

„Þá svara ég bara: Þú hefur ekki efni á að reka fyrirtæki í ferðaþjónustu. Punktur. Farðu að gera eitthvað annað. Við megum nefnilega aldrei gleyma því að ferðaþjónustan þarf að vera til á forsendum samfélagsins – en ekki öfugt.”

Við Þingvallavatn – MYND: ÓJ

Ef ummælin á Facebook sem vísað var til í upphafi lýsa almennri upplifun og áliti fólks í ferðaþjónustu: Að ferðamenn velti lítið fyrir sér umhverfismálum og að það sé peningaplokk að leita eftir umhverfisvottun, þá er kannski skiljanlegt að lítill áhugi sé á átaksverkefnum sem stuðla eiga að sjálfbærum rekstri. Dapurlegra er þó ef ekki er almennur skilningur á því að við þurfum öll að leggja eitthvað af mörkum til að halda hlýnun innan við eina og hálfa gráðu á Celsius, helminga kolefnislosunina fyrir 2030, gera allt sem í okkar valdi stendur til að verja náttúruna, svo lífvænlegt verði til framtíðar. Það er beinn og mælanlegur ávinningur af sjáfbærum rekstri – líka í ferðaþjónustunni – með bættri heilsu, verndun gjöfullar náttúru, hagkvæmari flutningum og betri nýtingu hráefna. 

Skarphéðinn Berg Steinarsson
Skarphéðinn Berg Steinarsson – MYND: ÓJ

Í viðtali við Túrista í sumar sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson, þá ferðamálastjóri, þetta um ferðaþjónustuna og umhverfismálin: 

„Við höfum ekki hugað nógu vel að umhverfismálunum. Þetta á eiginlega við um allt: flugið, bílaaksturinn um hringveginn og almennt notkun jarðefnaeldsneytis, val á matvælum og nýtingu þeirra, fráveitumálin. Við höfum ekki haft þessi mál í fókus þó vissulega séu sífellt fleiri að setja þau á dagskrá hjá sér.“ 

Og áður en Skarphéðinn kvaddi starfið ræddi Túristi við hann í desember og spurði hvort hann sæi einhver batamerki þegar kemur að sjálfbærni greinarinnar:

Við Jökulsárlón – MYND: ÓJ

„Ég held að almennt hafi þokast í rétta átt, erum að taka þetta fastari tökum. Við þurfum ekki einvörðungu að líta til umhverfisþátta, þó þeir séu fyrirferðarmestir, heldur líka til efnahagslegrar og samfélagslegrar sjálfbærni greinarinnar. Ferðaþjónustan þarf að hagnast, geta staðið við skuldbindingar sínar – hvort sem það er starfsfólk, lánardrottnar, eða einhverjir aðrir. Ferðaþjónustan er hluti af samfélaginu og þar eru atriði sem gæta verður að. Ferðaþjónustan er þurftafrek á húsnæði, m.a. íbúðahúsnæði. Hvernig leysum við úr því þegar húsnæðisskortur er í landinu? Gæta þarf að því að hagsmunir fari saman.”

Er ekki full ástæða fyrir ferðaþjónustuna að pæla í þessum málum, sækjast eftir vottunum eða viðurkenningum á góðri viðleitni, og styrkja stöðu landsins sem ferðaáfangastaðar sem tekur umhverfismál alvarlega?

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …