Samfélagsmiðlar

„Erum að dragast aftur úr”

Við höfum ekki hugað nógu vel að umhverfismálum og dregist aftur úr í þeim efnum. Á sama tíma er fjárhagsstaða greinarinnar ömurleg á heildina litið, segir ferðamálastjóri við Túrista.

Skarphéðinn Berg Steinarsson

Skarphéðinn Berg Steinarsson við Reykjavíkurhöfn, sem dregur til ferðafólkið.

Við setjumst niður á kaffihúsi í miðborginni í sumarblíðunni til að ræða stöðu ferðaþjónustunnar. Skarphéðinn Berg Steinarsson hefur gegnt embætti ferðamálastjóra síðustu fjögur og hálft árið. Þetta hefur verið sérstakt tímabil, með gríðarlegum uppgangi árin 2017 til 19 en svo kom kórónafaraldurinn. Skipunartími Skarphéðins rennur út um áramót en hann segir ekkert liggja fyrir um framhaldið. 

Sumarið verður gott en blikur eru á lofti

Við byrjum á að ræða hið augljósa: Ferðasumarið 2022 verður gott, eiginlega frábært ef miðað er við hrakspár margra. „Nú stefnir í að við fáum um 92 prósent af þeim ferðamannafjölda sem hingað kom fyrir heimsfaraldurinn,” segir Skarphéðinn og sýpur á svörtu kaffinu. „Þetta er hærra hlutfall en margar aðrar þjóðir eru að ná.” Sérfræðinga bíður það verkefni að greina ástæður þessarar velgengni. Ferðamálastjóri nefnir sem fyrstu skýringar góðar flugsamgöngur við Ísland og þá gæfu að ferðafólkið streymi hingað úr ólíkum áttum. Enn vanti þó ferðafólkið frá Asíu, sem mikið munar um. 

„Ísland er dýrt og hugsanlega eru margir að njóta þess nú að hafa litlu eytt á meðan Covid-19 geisaði, hafa lagt fyrir í tvö ár og láta nú verða af því að kaupa Íslandsferð.” 

Þetta hljómar trúlega.

En hvað gerist þegar þessi fyrsta bylgja ferðaþyrstra hefur gengið yfir? Skarphéðinn segir að í sumarlok blasi óvissa við. Enginn viti hvaða snúninga kórónaveiran taki, hversu lengi stríðið í Úkraínu vari og hvaða áhrif hráefnaskortur hafi, t.d á varahluti í flugvélar. Svo er það verðlagsþróunin – verðbólgan, sem leikur ferðaþjónustuna illa. Það er ekki einfalt að velta kostnaðaraukanum, verðhækkunum á aðföngum og lánsfé út í verðlagið, hækka verð á söluvörunni: ferðunum, gistingunni. Ferðamaðurinn ber saman verð og kaupir með löngum fyrirvara. 

Meiri samþjöppun nauðsynleg

„Afkoman í greininni er óviðunandi. Ferðaþjónustufyrirtækin voru varkár og verðlögðu þjónustuna lágt í aðdraganda sumarvertíðar. Verðið hefur ekki fylgt hækkun á kostnaði vegna launa, aðfanga og fjármagns. Þetta kemur illa við atvinnugreinina sem er skuldsett fyrir. Framleiðslutækin sem hún styðst við hafa elst og oft verið afskráð. Lánin eru því í mörgum tilvikum orðin hærri en veðin,” segir Skarphéðinn Berg Steinarsson og segir augljóst að breytingar þurfi að verða.

„Um leið og mikilvægt er að halda í styrk fjölbreytileikans er nauðsynlegt að sjá meiri samþjöppun í greininni,” segir ferðamálastjóri. „Við þurfum stærri fyrirtæki til að tryggja faglega nálgun og þekkingu í markaðsmálum, menntun og þjálfun starfsfólks – almennt kunnáttu í mannauðsmálum. Fjárhagsstaðan er ömurleg á heildina litið. Greinin þarf meira eigið fé, beinharða peninga í uppbyggingu og rekstur. En um leið verðum við að halda í kraftinn sem fylgir hinum smáu og ólíku í greininni.”

Skarphéðinn segir brýnt að fá meiri innlenda og erlenda fjárfestingu í greinina. Verkefnin séu mörg og möguleikarnir miklir. 

Höfum ekki hugað nóg að umhverfismálum

Spjallið á kaffihúsinu þennan góða júnídag berst að því sem þó framar öðru mun ráða framtíð okkar allra – umhverfismálunum. 

„Við erum að dragast aftur úr,” segir ferðamálastjóri og blaðamanni bregður eiginlega við hversu afdráttarlaus hann er. 

„Við höfum ekki hugað nógu vel að umhverfismálunum. Þetta á eiginlega við um allt: flugið, bílaaksturinn um hringveginn og almennt notkun jarðefnaeldsneytis, val á matvælum og nýtingu þeirra, fráveitumálin. Við höfum ekki haft þessi mál í fókus þó vissulega séu sífellt fleiri að setja þau á dagskrá hjá sér.“ 

Skarphéðinn nefnir sérstaklega komu skemmtiferðaskipa hingað til lands en þeim hefur fylgt mikil losun. Hann segir að við ættum að gera meiri kröfur til skemmtiferðaskipanna – að hingað sigli aðeins skip sem uppfylli kröfur varðandi kolefnisspor. 

„Við náum ekki markmiðum okkar í umhverfismálum með því að bíða eftir innleiðingu annarra. Árangur okkar á þessu sviði er mikilvægur varðandi sölu á ferðum hingað í framtíðinni.”

Erum ekki það sem við segjumst vera

Ég spyr loks um áhrif hvalveiða Íslendinga og hvað ferðamálastjóri hefur að segja um þær. Hann dregur upp snjallsímann og sýnir mér langa röð tölvubréfa frá fólki í útlöndum sem mótmælir hvalveiðunum, hefur áhyggjum af þeim, og jafnvel hótar að koma aldrei til landsins á meðan þær eru stundaðar. 

„Stóru málin varða umhverfi og loftslag, hvernig við bregðust við þeim vanda sem að steðjar með sjálfbærni að leiðarljósi. Það þýðir að nýting okkar á náttúrunni þarf að vera sjálfbær. Hvalveiðar ganga gegn þessu. Ferðaþjónustan er auðlindadrifin atvinnugrein. Við erum að selja aðgang að náttúrunni. Fólk um allan heim sem lætur sig varða um náttúruna lítur svo á að fjölbreytileiki hennar sé mikilvægur – og hvalurinn gegni þar stóru hlutverki. Af þessum sökum getur við ekki haldið á lofti hugmyndinni um ósnortna náttúru Íslands en á sama tíma látið eitthvert leyfi til að veiða hvali standa óhaggað,” segir Skarphéðinn og niðurstaða hans er sláandi: 

„Við erum ekki það sem við segjumst vera.”

Skarphéðinn segir að veiðar Hvals hf. á stórhvölum séu staðfesting á þessu. Hvalveiðar hafi engin jákvæð áhrif á afkomu þjóðarinnar, nema síður sé, og þær gangi þvert gegn mörgu sem við erum að gera: endurheimta votlendi, auka skógrækt, binda koldíoxíð úr andrúmsloftinu. 

Hvað segir þá fólk í ferðaþjónustunni um þá þrákelkni eiganda Hvals hf. um að halda áfram hvalveiðum? 

„Fólk hristir hausinn, nennir ekki að diskútera þetta frekar. Vonast bara til að þetta gangi yfir.”

Við ferðamálastjóri göngum út í góða veðrið í miðborginni og kveðjumst. Hvarvetna eru túristarnir að njóta dagsins, upplifa eitthvað nýtt og áhugavert. Fæstir þessara góðu gesta velta því líklega fyrir sér hversu miklu lífi einmitt þeir hafa hleypt í miðborgina, gert hana meira lifandi og skemmtilega að búa í. 

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …