Samfélagsmiðlar

Hægt að leysa áskoranir sem fylgja mikilli fjölgun skemmtiferðaskipa við Ísland

Talsmaður Cruise Iceland, Ingvar Örn Ingvarsson, vísar á bug fullyrðingum um óhóflegt álag af komum skemmtiferðaskipa og að ferðamenn sem komi með þeim séu ekki jafn verðmætir og aðrir. „Við þurfum sem þjóð hinsvegar að læra að taka á móti erlendum gestum," segir hann í viðtali við Túrista.

Ingvar Örn Ingvarsson

Ingvar Örn Ingvarsson, talsmaður Cruise Iceland

Það er búist við að komum skemmtiferðaskipa til Íslands fjölgi umtalsvert á næstu árum – ef ekki koma til einhverjar takmarkanir af hálfu yfirvalda. Vænst er 269 skipa í Faxaflóahafnir einar á þessu ári með um 300 þúsund farþega. Margir hafa gagnrýnt komur þessara fljótandi hótela og hafa áhyggjur af álaginu sem fylgir miklum gestafjölda. Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, beindi spjótum sínum að mikilli fjölgun skemmtiferðaskipa í viðtali við Túrista í nóvember síðastliðnum: „Við eigum að taka gæði fram yfir magn. Ísland verður aldrei ódýr áfangastaður. Við þurfum frekar en áður að leggja áherslu á að upplifun ferðafólks sé góð og jákvæð – að það fái gæði fyrir peninginn sem það hefur kostað til í Íslandsheimsókn. Nú er verið að spá 30 til 40 prósenta fjölgun í komum skemmtiferðaskipa á næsta ári. Það finnst mörgum vera ansi mikið.“

Umræðan hélt áfram um komur skemmtiferðaskipanna í Túrista og víðar. Í síðustu viku ræddi Túristi við Kristófer Oliversson, formann Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, um stöðuna í hótelrekstrinum og helstu áskoranir. Hann sagði að á sama tíma og hótelin skiluðu miklum tekjum í þjóðarbúið í formi skatta slyppu útgerðir skemmtiferðaskipanna vel. Kristófer gagnrýndi stefnuleysi í málum sem varða skemmtiferðaskipin: „Það er bara eitt markmið með þessari uppbyggingu: Að taka á móti fleiri skemmtiferðaskipum.“ Kristófer sagði ferðamenn af skipunum fylla vinsæla ferðamannastaði sem væru auðlind okkar sem búum á Íslandi. „Við erum til í að deila þeim með ferðamönnum sem skilja eftir miklar tekjur í okkar samfélagi – en við eigum ekki að galopna þær auðlindir fyrir slíkum troðningstúrisma sem skilur lítið eða ekkert eftir í landinu.“

Þessi umræða kraumar enn.

Skemmtiferðaskip við Skarfabakka – MYND: Faxaflóahafnir

Cruise Iceland eru samtök hafna og fyrirtækja sem taka á móti og þjónusta skemmtiferðaskipin. Ingvar Örn Ingvarsson, framkvæmdastjóri samskiptafyrirtækisins Cohn&Wolfe á Íslandi er talsmaður Cruise Iceland.

Er 40 prósenta fjölgun í skipakomum á hverju ári ekki óhófleg fjölgun sem erfitt er að ráða við?

„Það liggur í hlutarins eðli að fjölgun skemmtiferðaskipa ár frá ári verður að þjóna markmiðum okkar sem áfangastaðar og ferðamannanna sem leita eftir upplifun hér. Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir er hægt að leysa. 300 þúsund ferðamenn með skemmtiferðaskipum, sem valda almennt minna álagi á þá innviði sem mest eru nýttir yfir háönnina, verða ekki afgerandi í öllum þeim fjölda sem hingað kemur. Við þurfum sem þjóð hinsvegar að læra að taka á móti erlendum gestum og vinna áfram að uppbyggingu innviða, sér í lagi á landsbyggðinni. Skemmtiferðaskipin eru mikil hjálp fyrir þá innviðauppbyggingu.

Lítil og stór fley við Skarfabakka – MYND: ÓJ

Það má nefna sem dæmi að Skagen, lítið sjávarþorp á Jótlandi í Danmörku, fær tvær milljónir ferðamanna á hverju ári og tekur á móti þeim með sóma. Við ættum að geta tekið á móti sama fjölda á öllu Íslandi með tiltölulega auðveldum hætti en til þess þarf uppbyggingu. Þessi vinna stendur yfir enn.

Ferðaþjónustan er geiri sem er að slíta barnsskónum og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir verða leystar – hægt en örugglega. Á þeirri vegferð mun það verða sífellt augljósara að fjölga þarf gáttum inn í landið – annars staðar en á suðvesturhorninu. Skemmtiferðaskipin eru ekki aðeins gistihús og afþreyingarstaðir á floti heldur líka gátt inn í landið, sem skiptir sveitarfélögin á landsbyggðinni miklu máli.

Þessu þarf hinsvegar að sjálfsögðu að stýra og það er gert í samráði við sveitarfélögin og aðra hagaðila.“

Þungbúinn dagur í Grundarfirði – MYND: ÓJ

Framkvæmdastjóri Kynnisferða benti á það í viðtali við Túrista að þessari miklu fjölgun hafi fylgt að margt ferðafólk hafi verið í vandræðum á Skarfabakka – ekki vitað hvert það ætti að fara. Þarf ekki að standa betur að þessum málum?

„Jú, það er mikil vinna í gangi á vegum Faxaflóahafna varðandi Skarfabakka, gömlu höfnina og Granda sem miða að því bæta aðgengi og merkingar, aðbúnað farþega, bjóða upp á ferðir frá Skarfabakka í Hörpu, tengja farþega betur við þá afþreyingu og menningarstarfsemi sem á boðstólnum er í höfuðborginni. Það er bæði unnið með ferðaþjónustuaðilum, Höfuðborgarstofu og umboðsmönnum skipafélaga.“

Skemmtiferðaskip á Ísafirði
Frá Ísafirði – MYND: Hafnarstjórinn á Ísafirði

Hvernig bregðist þið við orðum Kristófers Oliverssonar, formanns FHG, um að hótelin séu í ósanngjarnri samkeppni við skipin – og raunar Airbnb líka, sem greiði miklu lægri skatta til samfélagsins?

„Hótelin njóta reyndar góðs af þeim 85 þúsund skiptifarþegum sem annað hvort koma með flugi til landsins og fara með skipi eða öfugt. Við myndum því frekar telja að þarna sé um samvirkni fremur en samkeppni að ræða.

Skemmtiferðaskip eru ákveðinn ferðamáti sem er vinsæll um víða veröld. Þegar haft er í huga að Ísland er eyja og það eru aðeins tvær leiðir til landsins þarf nokkuð einbeittan ásetning til að sjá samkeppni frá skemmtiferðaskipunum. Þau eru viðbót. Ólíklegt er að þessir farþegar kæmu annars til landsins. Þegar það er svo haft í huga að skattlagning er oft á tíðum á einhvern hátt tengd innviðanýtingu, t.d. fylgir rask uppbyggingu fasteigna og samkeppni er um lóðir, t.d. vegna skorts á húsnæði, þá má segja að frá þeim sjónarhóli sé eðlilega mikill munur á skattlagningu hótela og skemmtiferðaskipa þar sem þau nýta innviði mun minna.

Airbnb er allt annað mál, en það hlýtur þó að vera jákvætt ef fólk getur ráðstafað eignum sínum að einhverju leyti t.d. í þessum tilgangi. Það hjálpar ferðaþjónustunni að takast á við sveiflur og ýtir undir frekari hóteluppbyggingu þegar eftirspurnin er orðin nægjanleg, eins og við höfum séð.“

Þrjú erlend farþegaskip við Oddeyrartanga á Akureyri – MYND: ÓJ

Eru það ekki fyrst og fremst hafnarsjóðir sem fá miklar tekjur af skipakomunum?

„Hafnir á Íslandi eru í eigu sveitarfélaga – þannig að á endanum eru það íbúar sveitarfélaga sem njóta góðs af í formi arðgreiðslna. Tekjur eru jafnframt notaðar í uppbyggingu hafna til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Muna verður að um hafnir fara bæði vörur og fiskur og þær verða að standast miklar kröfur. Hjá Faxaflóahöfnum eru hafnarbakkar nýttir af öllum gerðum skipa og báta.

Umferð við Reykjavíkurhöfn – MYND: ÓJ

Er það ekki rétt að flutningur á ferðamönnum að helstu ferðamannastöðum, t.d. á Gullna hringnum auki á troðningsturisma? Margar rútur koma á sama tíma. 

„Við teljum að það sé spurning um almenna aðgangsstýringu og skipulagningu. Ef við tölum fyrir þá 300 þúsund farþega, af þeim 2,5 milljónum sem áætlað er að komi í sumar, þá teljum við að sameiginlegir hagsmunir þeirra séu augljóslega þeir að allir verði ekki á sama staðnum á sama tíma. Kosturinn við skemmtiferðaskipin er hinsvegar sá að þau fara sannanlega með sína ferðamenn hringinn í kringum landið. Á liðnu ári komu 189 skemmtiferðaskip til Akureyrar, Grímseyjar og Hríseyjar með samtals um 134 þúsund farþega.“

Skipafarþegar á Akureyri – MYND: ÓJ

Farþegar skemmtiferðaskipanna eru ekki jafn verðmætir og þeir sem koma með flugi og þurfa að kaupa hér gistingu – og greiða þar með hærri gjöld til samfélagsins. Er ekki eðlilegt að hagsmunaaðilar í íslenskri ferðaþjónustu bendi á þetta – og gagnrýni?

„Þetta er alhæfing sem stenst ekki. Það kaupa ekki allir farþegar sem koma með flugi til landsins gistingu hér og það er allt í lagi. Flestir gera það vissulega. Munum að fjöldi flugfélaga flýgur til Íslands, flest eru þau erlend.

Könnun á fjárhagslegum áhrifum af komum skemmtiferðaskipa sem Cruise Iceland fól bresku fyrirtækinu GP Wild International og Business Research & Economics Advisors að gera árið 2018 leiddi í ljós að komur skemmtiferðaskipa sköpuðu 920 heilsárs störf og að þjóðhagslegur ávinningur væri 16,4 milljarðar króna. Ef tillit er tekið til þeirrar 13 prósenta aukningar milli áranna 2018 og 2022, má reikna með að komur skemmtiferðaskipa skili á þessu ári um 18,5 milljörðum króna í þjóðarbúið. Við vitum svo auðvitað að verðlag hefur breyst töluvert í millitíðinni. Þetta eru því stórar upphæðir þegar haft er í huga að skemmtiferðaskipin eru viðbót án mikils álags á hluta innviða eins og fullbókuð hótel á landsbyggðinni yfir sumarið.

Skemmtiferðaskip af minni gerðinni – MYND: ÓJ

Ef íslensk ferðaþjónusta snýst hinsvegar um að selja gistingu þá má segja að eðlilegt sé að ræða þessi mál á þeim forsendum. Fram að þessu hefur íslensk ferðaþjónusta þó snúist um upplifun ferðamannsins fyrst og fremst. Gisting, bílaleigubíll, rútur, flug og skemmtiferðaskip, og einhver blanda af þessu, eru nauðsynlegir þættir fyrir flesta ferðamenn til að komast um landið okkar og upplifa það sem við getum boðið upp á.

Það er alltaf gott að taka umræðuna en hún ætti að fara fram á réttum forsendum. Og þegar það er haft hugfast að skemmtiferðaskip nýta innviði sem eru hér fyrir og þurfa lítið annað þá er ekki óeðlilegt að skattheimtan sé í takti við þá nýtingu. Það eru hafnir í kringum allt landið sem sveitarfélög vilja fegin nýta til að taka á móti ferðamönnum. Þau ráða ekki öll yfir öflugum alþjóðaflugvöllum.“

Skemmtiferðaskip á Akureyri – MYND: ÓJ

Er það ekki til merkis um óstjórn þegar mörg stór skemmtiferðaskip eru á sama tíma í höfnum þar sem þröngt er um vik – og þau gnæfa yfir byggðir – eins og t.d. á Ísafirði og á Akureyri?

„Mikil umræða hefur verið um skipakomur í margar vinsælar hafnir erlendis. Það mætti á móti spyrja í hverju sú óstjórn á að felast. Skemmtiferðaskipin bóka komur sínar með löngum fyrirvara og það er ekki þannig að þeim sé ekki komið fyrir. Hótelherbergi, ofarlega í hárri byggingu og með miklu útsýni, eru dýrari en þau sem lægri eru. Einhverjir kunna að vera ánægðir með glæsilegar hótelbyggingar á meðan aðrir kunna síður að meta að vera í skugganum. Ekki hefur orðið vart við það að vilji sveitarfélaganna standi til þess að skip séu í ákveðinni hæð. Stóru skipin sem hingað koma staldra víða við og eru yfirleitt tilkomumikil að sjá. Í samhengi tímans þá eru þetta ekki margar stundir sem þau skyggja á fjallasýnina í íslenskum fjörðum en vissulega lítur allt fólk þau ekki sömu augum.“

Nýjustu skipin menga minna en þau eldri. Þarf samt ekki að auka kröfurnar í mengunarmálum enn frekar, eins og aðrar þjóðir hafa gert?

„Faxaflóahafnir eru fyrstu hafnirnar utan Noregs til að taka upp Environmental Port Index, öflugasta umhverfiseinkunarkerfi sem í boði er. Vottunaraðili er Det Norske Veritas, virtur alþjóðlegur vottunaraðili. Faxaflóahafnir eru með loftgæðamæli við Laugarnes sem mælir í rauntíma loftgæði frá Skarfabakka, mælirinn er opinn og aðgengilegur öllum á loftgaedi.is. Faxaflóahafnir hafa sem eina af sínum grunn stefnuáherslum að eiga og reka grænar hafnir, liður í því eru landtengingar skipa, Environmental Port Index, mælingar á loftgæðum, mælingar á hljóðmengun svo dæmi sé nefnt. Landtenging fyrir leiðangurskip verður tekin í notkun á vormánuðum 2023 við Faxagarð og verið er að vinna að landtengingum stærri skipa á Skarfabakka.“

Nýtt efni

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …

Koffínlausar kaffibaunir eru hefðbundnar kaffibaunir þar sem beiskjuefnið og örvandi hlutinn koffín hefur verið fjarlægt. Útbreiddasta og ódýrasta ferlið við að losa baunirnar við koffínið er hins vegar orðið umdeilt þar sem efnasambönd sem við það eru notuð eru nú tengd við ýmsa heilsufarskvilla.Hægt er að beita nokkrum aðferðum við að losa kaffibaunir við koffín. …

Þrjátíu og átta trilljónir er tala sem er svolítið erfitt að skilja. Trilljón er notað í Bandaríkjunum yfir það sem við Íslendingar köllum billjón, og billjón er þúsund milljarðar, eða milljón milljónir. Á núverandi gengi eru 38 trilljónir Bandaríkjadala sama og 5.320 billjónir íslenskra króna, eða 5,3 milljón milljarðar.  Það er gott að hafa þetta …