Samfélagsmiðlar

Gengi flugfélaganna lækkar þrátt fyrir jákvæðar yfirlýsingar forstjóranna

Áhugi fólks á ferðalögum er mikill á heimsvísu og fargjöldin há. Hlutabréf í stórum evrópskum flugfélögum hafa því hækkað umtalsvert að undanförnu. Þróunin er ekki eins hagstæð fyrir hluthafa í Icelandair og Play.

Það stefnir í mikla traffík um Keflavíkurflugvöll í sumar en Icelandair og Play munu þá standa undir um 8 af hverjum 10 áætlunarferðum.

„Þetta lítur vel út, bókunarstaðan er mjög sterk og eftirspurnin mikil,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í viðtali við Morgunblaðið fyrir viku síðan. Þrátt fyrir þennan jákvæða tón þá heldur gengi hlutabréfa Icelandair áfram að dala. Í síðustu nam lækkunin þremur prósentum og síðastliðna 30 daga hefur gengið farið niður um 11 af hundraði.

Markaðsvirði Icelandair hefur því lækkað um 10 milljarða frá því í lok apríl.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Það var ekki í fyrsta sinn í Mogganum í síðustu viku sem forstjóri Icelandair gaf til kynna að komandi sumarvertíð yrði góð. Horfurnar eru líka lofandi til lengri tíma enda hafa stjórnendur Icelandair stillt upp vetraráætlun sem er umfangsmeiri en dæmi eru um í sögu flugfélagsins.

Frá Play berast líka yfirlýsingar um vænlega stöðu.

Birgir Jónsson, forstjóri Play.

„Sætanýting er sífellt betri, farþegafjöldi eykst til muna og bókunarstaðan fyrir sumarið er mjög sterk. Að fá þennan sterka meðbyr er frábær tilfinning og ég trúi því einlæglega að árið 2023 verði frábært,“ sagði Birgi Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningu eftir páskahátíðina. Hlutabréfin í Play hafa lækkað um ríflega fimmtung síðan þá og gengið aldrei verið lægra.

Hver hlutur í Play kostar 9,5 krónur í dag en fyrir ári síðan var gengið tvöfalt hærra. Lækkunin það sem af er þessu ári nemur 28 prósentum.

Hjá Icelandair er þróunin önnur því hlutabréfin í félaginu hafa hækkað um 12 prósent frá áramótum.

Í samanburði við mörg önnur evrópsk flugfélög er það þó ekki mikið. Gengi hlutabréfa í Norwegian hefur til að mynda hækkað um 75 prósent í ár og Easyjet, Wizz Air og Finnair eru um helmingi verðmætari í dag en þau voru um áramótin. Hækkunin hjá Ryanair og Air France-KLM group nemur rúmlega þriðjungi á þessum tímabili og Lufthansa hefur farið upp um fimmtung.

Stjórnendur þessara félaga hafa, líkt og íslensku flugforstjórarnir, lýst því yfir útlitið fyrir sumarvertíðina sé mjög gott. Því hefur til að mynda verið haldið fram að markaðurinn hafi aldrei verið betri fyrir flugfélögin sem bjóða upp á ferðir milli Norður-Ameríku og Evrópu. Ferðaáhuginn sé mikill og há fargjöld virðast lítið lítið úr fólki.

Sú staða mun þá væntanlega endurspeglast í næstu uppgjörum flugfélaganna og hvernig þeim tekst að hafa stjórn á kostnaðinum. Það stefnir alla vega í að eldsneytisreikningur flugfélaganna verði nokkru lægri en hann var í fyrra enda hefur verð á þotueldsneyti lækkað umtalsvert síðustu mánuði þó sú lækkun skili sér ekki öll til flugfélaganna.

Nýtt efni

Stærsti bílaframleiðandi heims lætur ekki haggast þó hann hafi mætt nokkru andstreymi að undanförnu. Hluthafafundur Toyota endurnýjaði traust sitt á 10 manna stjórn fyrirtækisins í dag, þar á meðal á formanninum, Akio Toyoda, sem verið hefur í forystusveit fjölskyldufyrirtækisins frá aldamótum. Hann vék úr starfi forstjóra fyrir rúmu ári og varð stjórnarformaður. Nú hefur þessi …

Hér á landi hefur fjöldi erlendra vegabréfa við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli verið helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni. Á hinum Norðurlöndunum er ekki hægt að stunda svona talningu á flugvöllum enda margir sem koma landleiðina. Gistinætur útlendinga eru því aðalmælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni hjá frændum okkar og samtals voru þær 15,3 milljónir …

Búist er við að 38 prósenta hækkun tolla á innflutta rafbíla frá Kína hægi á sókn framleiðenda þar inn á Evrópumarkað. Hins vegar verður það aðeins tímabundið. Kínverskir framleiðendur hafa þegar náð sterkri stöðu í tæknimálum og getu til að framleiða á hagkvæman hátt - þeir ráða yfir allri aðfangakeðju framleiðslu sinnar. Að auki munu …

Fyrstu helgina í júní stefndi í verkfall flugmanna Norwegian í Noregi en samningar tókust á elleftu stundu. Flugfélagið hafði áður samið við danska og spænska flugmenn en þeir norsku kröfðust hlutfallslega meiri hækkunar og vísuðu til þess að laun þeirra stæðust ekki samanburð við starfsbræður sína í Evrópu vegna þess hve veik norska krónan er. …

„Það umfangsmikið verkefni að opna nýja álmu við flugstöð. Byggingin þarf að uppfylla fjölmargar kröfur yfirvalda , m.a. um innréttingar, eldvarnir, umhverfiskröfur og vinnuaðstæður. Það þarf líka að setja upp flókinn tækjabúnað, sem þarnast sérhæfðrar þekkingar og margra stunda þjálfun ef hann á að skila sínu hlutverki. Það gildir um nýjan öryggisbúnað flugvallarins," segir í …

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai veðjar á fjórða stærsta bílamarkað heims, Indland. Stærstu markaðirnir eru Kína, Bandaríkin og Japan - en Indlandsmarkaður vex hratt og mikil sala er í litlum og sparneytnum gerðum bíla. Á síðasta ári keypti dótturfélag Hyundai á Indlandi verksmiðjur General Motors í Maharashtra í vestanverðu landinu með það fyrir augum að auka framleiðslu …

Icelandair sagði 82 starfsmönnum upp fyrir síðustu mánaðamót en þær uppsagnir náðu ekki til áhafna flugfélagsins. Nú er hins vegar komið að þeim hópi því fyrir helgi fengu 57 flugmenn uppsagnarbréf og eins voru 26 flugstjórar færðir í stöðu flugmanna. Við þá breytingu lækka laun viðkomandi um fimmtung samkvæmt því sem FF7 kemst næst.  Flugmönnum …