Samfélagsmiðlar

Óhóflegar álögur á skemmtiferðaskip yrðu ekkert nema landsbyggðaskattur

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri, telur að hávær söngur myndi heyrast frá Keflavík ef hækka ætti gjöld á flugið en ekki skipin. Hann segist ekki geta tekið undir niðurstöður nýrrar skýrslu þar sem fullyrt er að stóru skipafélögin fari sínu fram í minni höfnum landsins.

Skipafarþegar á Akureyri.

Auknar álögur á ferðaþjónustu eiga að skila ríkissjóði 2,7 milljörðum króna á næsta ári og þá helst horft til endurupptöku gistináttagjalds og álagningar á skemmtiferðaskip. Endanleg útfærsla mun liggja fyrir í haust samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu.

„Ég vona að gjöldin verði hófleg og að þessi ferðamáti verði ekki tekinn út fyrir sviga enda tryggir hann dreifingu ferðamanna um landið. Það yrði ekkert nema landsbyggðaskattur að setja auknar óhóflegar álögur á skipin og það myndi heyrast hávær söngur frá Keflavík ef hækka ætti gjöld á flugið en ekki skipin. Því er nauðsynlegt að ferðamátunum sé ekki mismunað í gjaldheimtunni,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri, aðspurður um boðaða gjaldtöku hins opinbera.

Skemmtiferðaskip í 20 hafnir í sumar

Komur skemmtiferðaskipa og þjónusta við þau skipta verulega máli fyrir rekstur hafna víða um land. Um helming af tekjum Akureyrarhafnar í fyrra má rekja til skemmtiferðaskipa að sögn hafnarstjórans.

„Innviðauppbygging hefur verið mjög takmörkuð til að sinna þessum ferðamáta því að miklu leyti er verið að nýta það sem var til staðar. Það sama á við út um allt land og fyrir vikið hefur nýting mannvirkja batnað mikið. Einnig hefur fegrun hafnasvæðanna skánað mikið enda mikill vilji hjá höfnum um allt land að bjóða gestum upp á sem fallegt og snyrtilegt hafnasvæði,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri.

Um tuttugu íslenskar hafnir taka á móti skemmtiferðaskipum í sumar og þessi umsvif hafi gjörbreytt rekstri hafnanna að sögn hafnarstjórans fyrir norðan.

„Án þessar tekna gætum við ekki ráðist í viðhald og endurnýjun á eldgömlum bryggjum á Akureyri, Hrísey, Grímsey, Grenivík, Svalbarðseyri og á Hjalteyri en þetta eru þær hafnir sem falla undir Hafnasamlag Norðurlands.  Það myndi því hafa mjög mikil áhrif áuppbygginu hafna víða um land ef skemmtiferðaskipin kæmu ekki.”

Vertíðin gengið vel fyrir norðan

Sem fyrr segir stefnir í metfjölda skemmtiferðaskipa víða um land í sumar en hafnarstjórinn á Akureyri segir allt hafa gengið vel og þar vegi þungt að forsvarsfólk hópbifreiðafyrirtækisins SBA-Norðurleið hafi verið vel undirbúið fyrir sumarið auk annarra fyrirtækja sem þjónusta skipin á svæðinu. Vertíðin hefur líka lengst því fyrstu skipin komu í mars í ár og þau síðustu leggjast að bryggju í október. 

„Þetta er samt áskorun því vöxturinn í ár verður um 40 prósent frá því í fyrra. Menn höndla þetta mjög vel og mér finnst allir vera mjög ánægðir með það hvernig þetta er að ganga á Akureyri. Engar líkur á að vöxturinn næsta sumar verði álíka og í ár. Ég ímynda mér að næsta vertíð verði álíka og sú sem nú er í gangi.“

Segir erlendu útgerðirnar ekki ráða ferðinni

Á Ísafirði hefur umferð skemmtiferðaskipa valdið meira álagi líkt og Túristi fjallaði ítarlega um. Í niðurstöðum nýrrar skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála segir jafnframt að mikið valdaójafnvægi ríkir á milli lítilla bæjarsamfélaga líkt og á Ísafirði og stóru skipafélaganna.

Auk þess að vera hafnarstjóri fyrir norðan þá er Pétur líka formaður Cruise Iceland, samtaka hafna og fyrirtækja sem þjónusta skemmtiferðaskip. Og hann segist ekki geta tekið undir niðurstöður skýrslunnar.

„Það hefur átt sér stað mikil vinna síðasta árið hjá Cruise Iceland og ferðmálayfirvöldum víða um land til að greina þolmörk og menn hvattir til að setja skýrar línur varðandi hvert svæði fyrir sig. Ég get alls ekki tekið undir það að erlend skipafélög ráði ferðinni. Hafnaryfirvöld víða um land stjórna ferðinni varðandi skipakomur. Hér á Akureyri og víða annars staðar hefur skipum ítrekað verið neitað um aðstöðu þar sem við teljum að ekki sé skynsamlegt að taka við fleiri farþegum þann daginn þó svo að höfnin sjálf mundi ráða við það,“ svarar Pétur.

Leiðsögumenn bíða farþega skemmtiferðaskipa við Skarfabakka í Reykjavík. Mynd: ÓJ

10 milljónir í hafnargjöld í hverri ferð

Í viðtali við Morgunblaðið í fyrradag nefndi Pétur að eitt stórt skemmtiferðaskip myndi skila eftir um einn milljarð í tekjur á Norðurlandi í sumar. Spurður um nánari útskýringar á þessum útreikningum þá segir hann þá byggja á komum Norwegian Prima en þetta stóra skip mun leggjast að bryggju á Akureyri tólf sinnum nú í sumar og með tæplega 3.300 farþega í hvert skipti. 

„Hafnargjöldin nema 10 milljónum í hverri ferð og samkvæmt útreikningum, sem byggðir eru á gögnum um meðaleyðslu farþega í Evrópu, þá eyðir hver farþegi að jafnaði 16 þúsund krónum í hverju stoppi. Þar verða þá til tekjur upp á rúmlega 50 milljónir í hvert skipti. Varlega áætlað kaupa um tveir af hverjum þremur farþegum skoðunarferðir í landi sem kosta mjög varlega áætlað um 10 þúsund krónur. Þessi hluti skilar þá um 20 milljónum til viðbótar. Þannig að tekjurnar af þessu skipi hér fyrir norðan í sumar er um einn milljarður króna. Það má örugglega hækka eða lækka þá tölu um 200 milljónir út frá mismunandi forsendum en tekjurnar eru á þessu bili.”

Pétur bendir á að inn í þessum útreikningum séu ekki þær fjárhæðir sem áhafnir skipanna eyða í landi, vita- og tollafgreiðslugjöld sem renna í ríkissjóð né kaup útgerðanna á vistum. Þau viðskipti geti verið mikil í sumum tilfellum en stundum eru engin aðföng keypt í stoppinu sem sé vanalega 10 klukkutíma langt.

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …