Samfélagsmiðlar

Segir fjárfestinguna í Icelandair nema innan við 0,2 prósentum af eignum sjóðsins

Þó ríkisábyrgð sé á hluta af lífeyrisgreiðslum LSR geri það sjóðnum ekki kleift að taka meiri áhættu en öðrum segir Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR.

Harpa Jónsdóttir er framkvæmdastjóri LSR en sjóðurinn er í dag stærsti hluthafinn í Icelandair Group.

Í nýafstöðnu hlutafjárútboði Icelandair Group keypti A- og B-deild lífeyrissjóðsins LSR ný bréf fyrir rúmlega 1,8 milljarð króna. Þar með er LSR stærsti hluthafinn í félaginu með samtals 7,99 prósent. Hlutdeild sjóðsins í Icelandair samsteypunni nam 8,25 prósentum fyrir útboðið.

Það má ljóst vera að fjárfesting í flugrekstri er áhættusöm nú þegar útbreiðsla Covid-19 hefur dregið verulega úr samgöngum milli landa. Þannig tók Lífeyrissjóður verzlunarmanna og lífeyrissjóðurinn Birta ekki þátt í útboðinu og ekki heldur bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital Management. Þessir þrír sjóðir voru áður meðal stærstu hluthafa Icelandair Group.

Aðspurð hvort LSR geti tekið meiri áhættu í ljósi ábyrgðar ríkissjóðs á lífeyrisgreiðslum sjóðsins þá bendir Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR, á að einungis B-deildar hluti LSR njóti ábyrgðar og að sú deild sé í dag innan við fjórðungar af heildarstærð sjóðsins. „Því er ábyrgð ríkisins takmörkuð í fjárfestingum sjóðsins,“ bætir Harpa við.

Hún segir LSR fylgja fyrirfram mótaðri fjárfestingar- og áhættustefnu og þátttakan í Icelandair rúmist innan hennar. „Fjárfesting LSR í Icelandair í nýafstöðnu útboði nemur innan við 0,2% af heildareignum sjóðsins,“ segir Harpa.

Hlutahafahópur Icelandair hefur breyst töluvert eftir útboðið í síðasta mánuði. Og samkvæmt svörum frá lífeyrissjóðnum Gildi, sem á litlu minna í félaginu en LSR, þá væri ekki óeðlilegt að breytingar verði gerðar á stjórn félagsins. Kjörtímabil núverandi stjórnar er rétt rúmlega hálfnað.

Harpa segir að engin ákvörðun um framtíðarskipan stjórnar Icelandair hafi verið tekin innan LSR. En það er valnefnd sjóðsins sem geri tillögu um stjórnarmann í þeim félögum sem sjóðurinn á eignarhlut í. Málið hefur ekki verið tekið fyrir í nefndinni.

Árið 2018 var mikil umræða um ört versnandi stöðu WOW air og líka Icelandair og möguleg gjaldþrot félaganna. Þó vissulega var hættan mun meiri á því að rekstur WOW myndi stöðvast. Á þessum tíma var Harpa framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands. Þá hafði Viðskiptablaðið eftir henni að önnur flugfélög myndu „grípa boltann“ og taka við flugleiðum sem skila hagnaði ef önnur félög dyttu út.

Spurð hvort hún telji að það myndi líka gerast í dag þá segir Harpa það ljóst vera að umhverfið hafi breyst mikið frá árinu 2018 þegar WOW var í vanda.

„Öll stærstu flugfélög heims hafa í dag dregið verulega úr starfsemi sinni vegna ferðatakmarkana í kjölfar kórónaveirufaraldursins. Það sama gildir um þau erlendu flugfélög sem flogið hafa hingað til lands. Rétt eins og Icelandair þá hafa þau aðlagað framboð sitt að minni eftirspurn. Of snemmt er að spá fyrir um það nú hversu hratt framboð á flugi til og frá landinu eigi eftir að aukast á ný eftir að þessu tímabili lýkur,“ segir Harpa að lokum.

Nýtt efni

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja fjárfesti fyrst í Play í desember í fyrra og jók svo hlutinn í febrúar sl. og komst þá á lista yfir 20 stærstu hluthafana. Í lok febrúar nam hlutur sjóðsins 1,8 prósentum og markaðsvirði hans var þá rétt um 70 milljónir króna. Gengi Play hafði reyndar lækkað umtalsvert í febrúar því eftir að …

Það hafa almennt verið taldar góðar horfur í útgerð skemmtiferðaskipa í heiminum en afkomutölur móðurfélags Norwegian Cruise Line (NCLH) eftir fyrsta ársfjórðung varpa nokkrum skugga þar á. Tekjur voru minni en vænst hafði verið og leiddi birting talnanna til 12 prósenta lækkunar á verði hlutabréfa. Enn skilar reksturinn þó hagnaði. Bjartsýni útgerða skemmtiferðaskipanna hefur byggst …

Lágt gengi japanska jensins og brottnám ferðahindrana eftir heimsfaraldurinn eru meginskýringar á því að 60 prósentum fleiri norrænir ferðamenn héldu til Japans á fyrsta fjórðungi ársins en á sama tíma í fyrra. Margir eru auðvitað áhugasamir um að kynnast menningu, lífsháttum og náttúru í þessum fjarlæga landi og nýta sér þess vegna þau hagstæðu kjör …

Að meðaltali losar hver Íslendingur um það bil 12 tonn af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið á ári. Víða á netinu er hægt að kaupa kolefnisjöfnun á 12 tonnum fyrir 20 þúsund krónur eða svo. Þá er eðlilegt að margur spyrji: Ef fólk gerir þetta árlega, er fólk þá ekki bara í góðum málum? Gagnvart svona …

Það söfnuðust 4,6 milljarðar í hlutafjárútboði Play sem efnt var til í kjölfar birtingu ársuppgjörs félagsins í byrjun febrúar. Nú liggur nýr hluthafalisti fyrir og samkvæmt honum þá er lífeyrissjóðurinn Birta orðinn stærsti hluthafinn með 8,78 prósent hlut. Þar á eftir kemur fjárfestingafélagið Stoðir með 5,82 prósent og svo eignhaldsfélagið Fea sem er í eigu …

Sjálfbærnifulltrúar fyrirtækja og verkefnisstjórar í umhverfismálum, og aðrir starfsmenn með svipaða starfstitla, sinna sífellt mikilvægari og umfangsmeiri viðfangsefnum, enda eru umhverfismál — með tilheyrandi kolefnisbókhaldi, úrgangstölum og markmiðum um minni sóun —farin að spila stóra rullu í öllum rekstri.  Við stefnum á að taka hús á nokkrum slíkum starfskröftum á íslenskum vinnumarkaði á komandi vikum. …

Starfsfólk í öryggisleit í Leifsstöð og þau sem sinna farþegaflutningum á Keflavíkurflugvelli hafa samþykkt bæði yfirvinnu- og þjálfunarbann og reglulegar vinnustöðvanir frá og með lokum næstu viku. Atkvæðagreiðsla um þessar aðgerðir fór fram í dag og var samþykkt með miklu meirihluta af félagsfólki í Sameyki og Félagi flugmálastarfsmanna ríkisins. Ótímabundið yfirvinnu- og þjálfunarbann tekur gildi …

Arnar Már Magnússon, einn af stofnendum flugfélagsins Play og fyrsti forstjóri þess, hefur verið gerður að aðstoðarforstjóra. Hann mun áfram sinna stöðu framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs en við þeirri stöðu tók hann á nýjan leik í mars í fyrra. „Það hefur verið einstakt að fylgjast með Play slíta barnsskónum og nú stöndum við á tímamótum þar sem …