Batinn á hótelunum í Reykjavík hefur ekki verið eins hraður og í Kaupmannahöfn eftir heimsfaraldur. Á fyrri helmingi ársins voru gistinæturnar á hótelum höfuðborgarinnar 89 prósent af því sem var á sama tíma árið 2019. Í samanburði við metárið 2018 þá nam batinn 84 prósentum.
Í Kaupmannahöfn voru gistinæturnar fyrstu sex mánuði ársins aftur á móti jafn margar og í janúar til júní árið 2019. Það ár var nokkru betra en 2018 í hótelgeiranum í dönsku höfuðborginni.
Þar líkt og hér á landi hefur hótelum fjölgað í heimsfaraldrinum og herbergjanýtingin er því ekki eins góð og hún var í byrjun árs. Í júlí fór hún hins vegar upp í 91 prósent í Reykjavík sem er mun betri nýting en var í júlí árin 2017 til 2019.
Og áhugi tveggja af stærstu hótelkeðjum heims á Íslandi hefur ekki dvínað. Það ítrekar talskona Accor í svari til Túrista en fyrirkomulagið á íslenska fasteignamarkaðnum hefur meðal annars staðið í vegi fyrir því að þetta stærsta hótelfyrirtæki Evrópu hasli sér völl hér á landi.
„Síðustu ár hefur Accor verið breytt í fyrirtæki með fáar fasteignir í sinni eigu. Það þýðir að við stýrum hótelum sem byggja á rekstrar- og vörumerkjasamningum. Á íslenska markaðnum er útleiga hins vegar það viðskiptamódel sem er algengast og fáir með samning við alþjóðlega keðju sem byggir á notkun vörumerkis,“ útskýrði þróunarstjóri Accor í viðtali við Túrista sl. haust.
Hann sagði jafnframt að ákjósanlegast væri fyrir fyrirtækið að hefja innreið sína inn á nýjan markað með nokkrum hótelum.
Stjórnendur Accor eru ekki þeir einu sem horfa til Íslands því ennþá er í vinnslu opnun hótels á vegum bandaríska hótelkeðjunnar Hyatt í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg. Það staðfestir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, sem á fasteignina.
Það er því útlit fyrir að útibú erlendra hótelkeðja verði enn meira áberandi á íslenska markaðnum á næstu árum. En í fyrra opnaði Marriott Editiot stórt fimm stjörnu hótel við Hörpu og Icelandairhótelin eru nú alfarið í eigu malasísku samsteypunnar Berjaya Group. Nokkur af hótelum þess fyrirtækis eru rekin undir merkjum Hilton.
Til viðbótar við þetta þá fara fjárfestar frá Alaska í Bandaríkjunum fyrir meirihluta í Keahótelunum en Landsbankinn er reyndar stærsti einstaki hluthafinn. Sú staða kom upp í kjölfar þess að móðurfélag hótelkeðjunnar varð gjaldþrota um þarsíðustu áramót.