Samfélagsmiðlar

Landsbankinn eignaðist Keahótelin að fullu

Eignarhaldsfélag Keahótelanna var lýst gjaldþrota í síðustu viku. Stærsti hluthafinn segir það ferli stutt af kröfuhöfum og Landsbankinn hafi fengið 100 prósent hlut í fyrirtækinu.

Hótel KEA á Akureyri er eitt þeirra hótela sem heyrir undir Keahótelin.

Gengið var frá endurskipulagningu allra skulda Keahótelanna í lok síðasta árs samkvæmt tilkynningu sem forráðamenn fyrirtækisins sendu frá sér í desember sl. Þar sagði jafnframt að eigendurnir myndu leggja á þriðja hundrað milljónir króna í fyrirtækið og halda eftir 65 prósent hlut.

Landsbankinn eignaðist um leið 35 prósent í hótelkeðjunni en í tilkynningunni sagði að hluta af skuldum hafi var breytt í hlutafé.

Það var eignarhaldsfélagið K Acquisitions ehf. sem hélt um öll hlutabréfin í Keahótelunum en það félag var hins vegar lýst gjaldþrota í síðustu viku líkt og Viðskiptablaðið greindi frá. Í fyrrnefndri tilkynningu frá eigendum Keahótelanna var ekkert minnst á þess háttar aðgerðir.

Í frétt Viðskiptablaðsins sagði einnig að K Acquisitions hafi skuldað lánastofnun 1,8 milljarða króna en skuldirnar voru tryggðar með veði í Keahótelum.

Túristi óskaði eftir upplýsingum frá Landsbankanum hvort krafa bankans hefði verið afskrifuð. Í svarinu segir einfaldlega að bankinn tjái sig ekki um málefni einstakra viðskiptavina.

Hugh Short, forstjóri bandaríska fjárfestingasjóðsins Pt Capital, sem átti helmingshlut í K Acquisitions, segir í svari til Túrista að við endurskipulagningu á Keahótelunum hafi eignarhaldsfélagið farið í gjaldþrotameðferð með stuðningi kröfuhafa. Short segir að þar með hafi K Acquisitions sett öll hlutabréfin sín í Keahótelunum í hendur kröfuhafans, Landsbankans.

„Hlutahafar K Acquisition lögðu svo nýju eignarhaldafélagi, sem heitir Primehotels ehf., til fjármagn,“ útskýrir Short.

Sem fyrr segir þá nam sú fjárfesting á þriðja hundrað milljónum króna og gamli eigendahópurinn fékk í staðinn 65 prósent hlut í Keahótelunum til baka. Skuld gamla eignarhaldsfélagsins við Landsbankann nam nærri 1,8 milljarði kr. í lok árs 2019 sem fyrr segir.

Short bendir á, í svari sínu til Túrista, að áætlanir hafi gert ráð fyrir að rekstrartekjur Keahótelanna myndu nema 6,7 milljörðum króna í fyrra en hafi endað í um 1,4 milljarði króna.

„Með föstum leiguskuldbindingum og kostnaði þá var það ljóst að við þurftum á samvinnu við leigusala og aðra kröfuhafa að halda, auk viðbótarfjárfestingar, til að komast í gegnum þessa niðursveiflu,“ bætir Short við.

Keahótelin reka samtals níu hótel og þar á meðal Hótel Borg við Austurvöll og Hótel Kea á Akureyri.

Nýtt efni

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …