Samfélagsmiðlar

Ævintýrafyrirtæki í sátt við náttúru og samfélag

„Sjálfbærni er góður bissniss. Við getum ekki rekið fyrirtæki eins og okkar án þess að vera í sátt við samfélagið og náttúruna, sem það byggir allt sitt á," segir Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir, meðeigandi og leiðsögumaður hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Midgard á Hvolsvelli.

Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir

Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir, einn eigenda Midgard-ferðaþjónustunnar

Upphaf ferðaþjónustufyrirtækisins Midgard Adventure á Hvolsvelli má rekja til ársins 2010. South Iceland Adventure varð Midgard Adventure.

Miðgarður í norrænni goðafræði er nafnið á hinni byggðu jörð, víggirt til að halda jötnum fjarri. Þau sem standa að fyrirtækinu Midgard á Hvolsvelli vilja hinsvegar helst vera uppi á fjöllum – úti í náttúrunni. Öll heiti eru tilvísanir í norræna goðafræði, bílar nefndir eftir goðunum, rúnaletur notað til skreytinga.

Höfuðstöðvar Midgard í útjaðri Hvolsvallar – MYND: ÓJ

Fjallagarpurinn Siggi Bjarni, eða Sigurður Bjarni Sveinsson, hóf starfsemina sem komst á flug með eldgosinu í Eyjafjallajökli – þarna í bakgarðinum. Athygli heimsins beindist að Íslandi. Siggi Bjarni fékk vini sína Arnar Gauta Markússon og Stefni Gíslason til liðs við sig. Síðan bættust við kona og móðir Arnars Gauta, þær Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir og Björg Árnadóttir, sem sumarstarfsmenn í fyrstu. Siggi Bjarni hefur sagt skilið við rekstur Midgard og tekst á við ný ævintýri. Midgard er í eigu þriggja fjölskyldna og þau eru fjögur sem annast daglegan rekstur: Björg er framkvæmdastjóri en þau Arnar Gauti, Hildur Guðbjörg og Stefan Michel sjá um daglegan rekstur með henni – hvert þeirra er með marga hatta er óhætt að segja. 

Ferðbúið fólk í sal Midgard – MYND: ÓJ

Hildur Guðbjörg tók á móti blaðamanni Túrista í blíðviðri í góubyrjun. Það er ekki síst vinna hennar að umhverfismálum sem vakti athygli Túrista en hún fékk tilnefningu til hvatningarverðlauna Ábyrgrar ferðaþjónustu 2022 og er að ljúka meistaraprófsritgerð í auðlinda- og umhverfisfræði.

Í afgreiðslunni – MYND: ÓJ

Óhætt er að segja að Hildur Guðbjörg er sem meðeigandi og leiðsögumaður með skýra sýn á stöðu og framtíð þessa öfluga ferðaþjónustufyrirtækis á Suðurlandi. Við settumst niður með kaffisopa í veitingasal ævintýramiðstöðvarinnar, sem upp á ensku nefnist Midgard Base Camp, og er í útjaðri byggðarinnar. Frá efri hæðinni sér í átt að Fljótshlíð. Þarna var áður steypustöð en Sveinn, faðir stofnandans Sigga Bjarna, hafði byggt húsið, eignast það síðan og leitt umbreytingar á því.

Góð útsýn er úr Sveinslaug – MYND: ÓJ

Þarna er nú veitingastaður sem opinn er allan ársins hring, aðstaða fyrir viðburði og tónleika, og á efri hæðinni eru herbergi af nokkrum gerðum með 62 rúmum, snyrtingar, böð og eldunaraðstaða. Húsgögn og innréttingar eru sérsmíðaðar, mikið er lagt upp úr mjúkum og góðum rúmum, allt yfirbragðið er snyrtilegt og öllu haganlega komið fyrir.

„Lúxus í fábrotnu umhverfi,” segir Hildur Guðbjörg.

Gestir horfnir út í daginn – MYND: ÓJ

Þessi ævintýramiðstöð á Hvolsvelli var opnuð í maí 2017. Þokkalega stæðir Bandaríkjamenn eru mikilvægasti kúnnahópurinn í sérferðum – en líka námsmenn sem eru komnir yfir hafið til að fræðast. Í fastar ferðir, sem allir geta keypt sæti í, kemur fólk úr öllum áttum. Í fyrrasumar voru Ísraelar áberandi.

Hildur Guðbjörg segir að þau hjá Midgard séu heppin með viðskiptavini, fái fólk sem sé tilbúið að eyða töluverðu í upplifun en þurfi ekki hvítdúkuð borð. Lúxusinn felist í góðri þjónustu, mörgum fararstjórum, góðu hráefni. Þetta eru náttúruunnendur sem vilja gera vel við sig og eru tilbúnir að borga fyrir það. 

MYND: Midgard

„Maður á ekki að selja annað en það sem maður hefur. Það er mjög mikilvægt. Við erum heimilisleg, úti í sveit, í hesthúsahverfi á Hvolsvelli. En fólk kemur hingað til að kynnast okkur, heyra hvað við höfum að segja, hlusta á sögurnar okkar. Við rekum ekki fimm stjörnu hótel hér.”

Túristi horfir í kringum sig og kann að meta það sem hann sér. Það lætur ekki mikið yfir sér að utan þetta hús en það kemur á óvart þegar inn er komið. 

Hildur Guðbjörg lýsir byggingunni – MYND: ÓJ

„Í fyrstu nýttist þetta hús til að geyma bílana okkar. Okkur langaði hinsvegar að búa til miðstöð og athvarf fyrir fólkið okkar eftir fjallaferðir, að hér yrði nokkurs konar ævintýramiðstöð. Hingað kæmi fólk eftir gönguferðir, gæti þurrkað tjöldin, hvílt sig, haft það kósí og farið í heitan pott. Síðan þróaðist þetta í að bætt var við veitingastað – sem var ekki ætlunin.

Midgard Adventure byggir ekki á fjöldatúrisma heldur meira á námsferðum háskólafólks og ungmennaferðum. Við skipuleggjum mikið af kvennaferðum frá Bandaríkjunum og fólk sem kemur til að stunda íhugun.”

MYND: Midgard / Kyana Sue

Koma engir víkinganöttarar út af nafninu og norrænum tilvísunum?

„Nei, þeir koma ekki. Þetta eru frekar náttúruunnendur enda miðar markaðsstarf okkar að þeim hópi. Mikið af þessum ferðum eru prívatferðir, sérferðir af ýmsum toga. Við förum oft með tvo til sex farþega og sjáum alveg um þá. Margir koma aftur og aftur. Yfir sumarið eru síðan fastar ferðir alla daga í Landmannalaugar og Þórsmörk. Nú í sumar ætlum við að leggja meiri áherslu á Fjallabak.

Fyrir utan þessar ferðir þá rekum við ferðaskrifstofu, sem er mikilvægur hluti af starfseminni. Átta starfsmenn eru á skrifstofu að selja og skipuleggja ferðir og þjónustu af ýmsum toga, bóka gistingu. Þetta helst allt vel í hendur: veitingastaðurinn, gistingin, ferðirnar og ferðaskrifstofan.” 

MYND: Midgard

Eigendur Midgard vilja að ferðaþjónustufyrirtækið standi fyrir fjögur grunngildi í öllu starfi. Hildur Guðbjörg lýsir með eigin orðum þessum gildum sem móta stefnu fyrirtækisins – og viðmið í hönnun hússins: 

Fjölskylda:

„Það kom dálítið af sjálfu sér að setja fjölskylduna í öndvegi. Þetta er fjölskyldurekið fyrirtæki. Við viljum að gestum líði eins og þeir séu komnir heim. Þeir eiga að fá tilfinningu fyrir því að tilheyra fjölskyldu. Þá viljum við líka geta tekið vel á móti fjölskyldufólki – að krakkarnir geti hlaupið hér um allt án þess að eiga á hættu að brjóta eitthvað. Svo viljum við að starfsfólkið upplifi sig sem hluta af fjölskyldunni. Við reynum að halda vel utan um starfsfólkið okkar. Við bjóðum þeim heim. Sumir halda jólin saman. Hér er skemmtileg stemmning. Þessi áhersla á fjölskylduvænt umhverfi verður til þess að hér skapast nánast aldrei vandræði með gesti – að þeir séu með uppsteyt. Við segjum sögu hússins og frá fjölskyldunum sem tóku þátt í að byggja þetta upp. Umsagnir sem við fáum endurspegla gjarnan þessa fjölskyldustemmningu sem við höfum skapað hérna.” 

Hildur Guðbjörg og Arnar Gauti – MYND: Midgard

Sveigjanleiki:

„Við erum að vinna með fólki og þurfum að vera mjög sveigjanleg, geta lagað okkur að aðstæðum. Við erum á Íslandi þar sem er allra veðra von. Við viljum að starfsfólkið sé tilbúið að bregðast hratt við hverju sem er. Við erum alltaf með plan A, B, C og D tilbúin. Erum með gott gæðakerfi og öryggisstaðla. Ef brjálað veður skellur á þá getum við alltaf brugðist við því.

Mörg okkar í eigendahópnum erum hvatvís en ég vil meina að þetta sé skipulagt kaos!

Við þurfum að vera sveigjanleg og kynnum stefnu okkar fyrir gestum. Við undirbúum fólk þegar við seljum því ferðirnar. Sem dæmi þá förum við í fjögurra daga staðlaða ferð á veturna en segjum gestum fyrirfram að við verðum að vera sveigjanleg vegna aðstæðna. Segjum fólki að það sé gott að koma með opnum huga og lifa í núinu. Að baki þessari áherslu á sveigjanleika er dálítil núvitundarpæling. Við hönnum allar okkar ferðir í kringum þetta. Það er ekki tilgreint nákvæmlega hvar er stöðvað og hversu lengi.  Reynt er að hafa ferðalýsinguna opna og það hjálpar okkur mikið.” 

Tónleikar – MYND: Midgard

Skemmtun:

„Það er tiltölulega auðvelt að gera þetta skemmtilegt fyrir gestina. Þeir eru komnir til að hafa gaman af. Við viljum að allir sem koma hingað inn segi við sjálfa sig: Þetta er skemmtilegt! Þess vegna notum við alla þessa liti. Húsið er hannað til að vera skemmtilegt. Svo viljum við að starfsfólkið hafi gaman af vinnunni. Það verður að endurspeglast í öllu okkar starfi. Ef okkur þykir ekki gaman þá verður að finna út úr því. Við leggjum okkur fram um að skapa góðan starfsanda. Hluti af þessu er að búa til nýjar og áhugaverðar ferðaleiðir að fara. Þetta verður að vera fjölbreytt. Annars hættum við að nenna þessu.”

MYND: Midgard

Sjálfbærni:

„Þessi gildi voru öll unnin af starfsfólkinu árið 2014. Það sem nú er kallað sjálfbærni var á þeim tíma kallað að vera staðbundinn eða lókal. Við endurunnum gildin 2017 með starfsfólkinu og þá breyttist lókal í sjálfbærni.

Hugtakið sjálfbærni er mjög vítt. Við reynum að gefa eins og við getum til baka til samfélagsins. Það er nauðsynlegt að vinna í sátt og samlyndi við samfélagið í kring. Þess vegna eru hér haldnir viðburðir og tónleikar. Auðvitað er selt inn á tónleika en það eru líka haldnir hér viðburðir með ókeypis aðgangi. Hér hafa Ásgeir Trausti, Moses Hightower og Mugison, svo einhverjir séu nefndir, haldið tónleika. Þetta þykir okkur skemmtilegt að gera og það auðgar samfélagið. Þá er fyrirtækið skráð hér og borgar alla sína skatta hingað. Svo er mikilvægt að tekist hefur að búa til heilsársstörf. Fólk getur flust hingað, sest hér að og unnið hjá Midgard.

Mikil vinna er lögð í öllu markaðsstarfi við að koma gestum frá Reykjavík í gistingu hér á svæðinu. Við viljum að samfélagið njóti góðs af ferðaþjónustunni. Við reynum að kaupa sem mest af hráefni fyrir veitingastaðinn héðan úr nærumhverfinu. Matseðilinn er hugsaður út frá því. Bóndi úr Þykkvabænum kemur með kartöflurnar, fisksalinn á Hellu útvegar fiskinn. Svo eru grænmetis- og veganréttir í boði til jafns við annan mat. Fylgst er náið með matarsóun, matur og úrgangur er vigtaður kvölds og morgna. Kokkarnir hanna réttina þannig að hráefnið nýtist vel. Stefnt er að því að minnka matarsóun um 20 prósent í sumar.”

MYND: Midgard

Metnaður ykkar er augljós en þið hafið ekki sótt um umhverfisvottun. Hvers vegna?

„Við vorum í Vakanum en fórum úr honum. Þegar við vorum að koma okkur í gang í upphafi græddum við heilmikið á því að fylgja leiðsögninni í Vakanum en komum okkur síðan upp eigin gæðakerfi.

Við erum að skoða þann möguleika að sækja um Svaninn. Því fylgir mikið ferli. Við ætlum að byrja á því sjá undir hvaða skilgreiningar við föllum þar og fara svo að vinna í þeim málum. Við höfum mikið velt fyrir okkur hvaða vottun við ættum að fá. Vakinn var góður til að koma okkar af stað en þetta er einungis innlend viðurkenning. Okkur langar í Svansvottun en hún kostar bæði tíma og peninga. Við erum hinsvegar komin vel áleiðis og ég sé fyrir mér að fá Svansvottun eftir eitt til tvö ár.”

Bíll bíður farþega – MYND: ÓJ

En svo akið þið um á dísilknúnum stórum bílum sem menga mikið?

„Já, við gerum það.

Ég ræddi þessi mál við einn bílstjórann okkar sem sagðist ekki geta talað um sjálfbærni á meðan hann æki á dísiljeppa upp á hálendið. Ég spurði á móti hvort hann ræddi ekki við gestina um loftslagsmálin, hvernig jöklarnir hafa hopað, hversu erfitt væri að græða jarðveginn, hvernig unnið væri að skógrækt, að ekki mætti ganga á mosanum, að mikilvægt væri að skilja staði eftir í betra ástandi en þeir voru fyrir heimsóknina – allt rusl væri fjarlægt og ekki sæust för eftir tjöldin? Talarðu ekki um allt þetta þegar þú velur gönguleiðina? Ertu ekki að byggja á náttúrutengingu í öllum þínum ferðum, sem er mikilvægt í allri sjálfbærnivinnu, lætur fólk drekka vatn úr læk og tína upp í sig ber – fá fólk til að virða náttúruna, það sitji og þegi í 10 mínútur og hlusti á þögnina – stuðla að því að fólk fari til baka með breytt hugarfar, aðra afstöðu til náttúrunnar? Þannig spurði ég bílstjórann. Hann svaraði þessu öllu játandi.

Enn erum við því miður ekki með nógu umhverfisvæn tæki til að koma fólki á staðina þaðan sem lagt er upp í gönguferðirnar, sem eru stærsti hlutinn af okkar starfsemi. Þetta þurfum við að útskýra fyrir viðskiptavinum okkar. Við kolefnisjöfnum fyrir ökuferðunum, allri starfsemi okkar: rafmagnsnotkun, sorpi og brennslu á olíu, með vottuðum einingum frá Gold Standard sem styður verkefni um allan heim. Hér heima vantar vottaðar kolefnisjöfnunareiningar á markaðinn. Til viðbótar við þetta þá ráðumst við í mörg smærri verkefni í nærumhverfinu, eins og hreinsun strandlengju og plöntun trjáa.”

Farið yfir gildi Midgard – MYND: ÓJ

Eru þessi sjálfbærnimál mikilvæg út frá viðskiptalegu tilliti?

„Við höfum í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Tækniskólann unnið með Green Program í Bandaríkjunum en á þeirra vegum koma hingað háskólanemar alls staðar að úr heiminum að læra um endurnýjanlega orkugjafa. Þetta eru sjö prógröm á ári hverju, vika til níu dagar í senn. Við tökum við þeim í H.R. og förum með þau upp í virkjanir, kynnum verkefni Landgræðslunnar og okkar náttúrusýn í margskonar ferðum. Þessu höfum við sinnt frá 2012 og gerði það að verkum að við gátum starfað árið um kring.

MYND: Midgard / Berglind Ýr

Verkefnið með Green Program hefur gert okkur meðvitaðri um sjálfbærni. Svo koma auðvitað margir hingað til Íslands til að fræðast um endurnýjanlegar orkuauðlindir og leita þá til ferðaþjónustufyrirtækja sem eru með þessi mál á stefnuskrá sinni.

Sjálfbærni er góður bissniss. Við getum ekki rekið fyrirtæki eins og okkar án þess að vera í sátt við samfélagið og náttúruna, sem það byggir allt sitt á. Svo viljum við auðvitað vera efnahagslega sjálfbær. Þar kemur t.d. að sóun verðmæta. Strax í upphafi var samfélagshugsunin mjög sterk. Siggi Bjarni vildi byggja upp þetta samfélag hér í sveitinni. Áður höfðu fyrirtæki í Reykjavík sinnt ævintýraferðamennskunni hér á svæðinu.

Í eigendahópnum eru bara náttúrubörn sem elska náttúruna sem þau vinna í. Við getum ekki unnið áfram í náttúrunni án þess að verja hana.”

Nýtt efni

Tónlistarmaðurinn hefur á þessum árum lagt inn 689 lög í eigin nafni. En þrátt fyrir afar litlar vinsældir hefur maðurinn fengið útborgaðar um það bil sem svarar 90 milljónum íslenskra króna frá streymisveitunum vegna þess hve oft lögin hafa verið spiluð. Til að fá útborgað um eitt hundrað krónur frá tónlistarstreymisveitu þarf lag að vera …

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …