Samfélagsmiðlar

„Við gerum það sem okkur þykir skemmtilegt“

Tjöruhúsið á Ísafirði er nafntogað fyrir góða fiskrétti og vinalegt andrúmsloft í einstöku húsi. Túristi fór vestur einn rigningardag síðsumars til að kynnast því svolítið hvernig þessi galdur verður til í þessu húsi sem danskir einokunarkaupmenn reistu og lifað hefur tímana tvenna.

Tjöruhúsið á Ísafirði

Tjöruhúsið varð til árið 2004 þegar hjónin Magnus Hauksson og Ragnheiður Halldórsdóttir hófu þar veitingarekstur. Ísafjarðarbær bað þau um að hefja kaffisölu í friðuðu húsinu, sem byggt var 1781 og er hluti af einni elstu husaþyrpingu landsins. Þau höfðu áður rekið Sjómannastofuna, með mötuneyti fyrir togarasjómenn og almennri veitingasölu, og öðlast þar reynslu sem skilar sér í Tjöruhúsinu. 

„Það er enginn veitingastaður góður nema eigandinn vinni þar,” segir Haukur S. Magnússon, sonur frumkvöðlanna og núverandi rekstrarstjóri Tjöruhússins, eftir að hafa rakið fyrir Túrista aðdragandann að rekstri einhvers þekktasta og best heppnaða fiskiveitingahúss á landinu. Aðdragandinn er með ýmsum útúrdúrum. Magnús faðir Hauks hefur tekið sér margt fyrir hendur á Ísafirði meðfram því að elda fisk með ágætum, m.a. séð um landanir úr skipum og rekstur vídeóleigu. 

Haukur og pönnurnar – Mynd: ÓJ

„Við erum ekkert endilega mjög skipulögð en gerum það sem okkur þykir skemmtilegt,” segir Haukur um fjölskyldu sína. Það eru ekki síst tengslin við löndunarheiminn sem tryggði Tjöruhúsinu góð sambönd þegar kom að því að elda ævinlega úr fersku og góðu hráefni – úrvalsfiski alla daga. 

„Pabbi fór að elda fyrir okkur heima úr fiski sem hann fékk, kolann og steinbítinn sem eru hér á matseðlinum.” 

Síðan hófst ævintýrið í Tjöruhúsinu. Boðið var upp á kaffi, vöflur og bakkelsi, en líka fiskisúpuna frægu sem hafði verið á boðstólum á Sjómannastofunni. Markmiðið var að halda lífi í þessu gamla húsi með góðum mat og skemmtilegu viðmóti. 

„Eldhúsið var helmingi minna en núna með gamalli eldavél. Pabbi fór að gera tilraunir með að útbúa fiskipönnur og færa fólki á borðin. Því fylgdu töfrar. Fólki leið eins og það væri komið í matarboð heima hjá foreldrum mínum. En þannig var þetta. Þau voru hérna öllum stundum og krakkarnir með. Þetta vatt upp á sig. Frændur og frænkur voru kölluð til þegar álagið var mikið. Það varð ekki til neitt sérstakt form á rekstrinum.”

Hörður kokkur í eldhúsinu – Mynd: ÓJ

Nei, og kerfið hefur ekki alltaf verið sátt við það hvernig staðið hefur verið að rekstri Tjöruhússins en Túristi ætlar ekki að rekja þá sögu heldur komast dálítið nær því hvernig þessir eldhugar hugsa sem starfrækt hafa þetta vinsæla veitingahús í Neðstakaupstað á Ísafirði, Tjöruhúsið, þar sem lágt er til lofts, eldhúsið þröngt – þó það hafi stækkað mikið frá árdögum rekstrarins – snyrtingar eru í öðru húsi. Þarna er það maturinn sjálfur og andrúmsloftið í einstöku umhverfi sem skipta öllu. 

Fiskisúpan í Tjöruhúsinu – Mynd: ÓJ

Túristi kemur í heimsókn um hádegisbil á mánudegi. Það hellirignir á Ísafirði og það er notalegt að koma inn í hlýtt Tjöruhúsið. Rumours, plata Fleetwood Mac, snýst á grammófóninum: 

“Oh, thunder only happens when it´s raining. Players only love you when their playing.“

Shayan og glæsilegt salatið – Mynd: ÓJ

Ég fæ fiskisúpu í skál. Jóhann bróðir Magnúsar segir mér að veiða vel af fiski úr pottinum. Jóhann er að bjástra í eldhúsinu með Herði Óttarssyni, kokki, sem er frændi þeirra Haukssona, Magnúsar og Jóhanns. Frammi er Shayan Pandole, eiginkona Hauks, að þjóna lipurlega gestum sem fjölgar jafnt og þétt. Sjálf er hún listakokkur. Þau Haukur seldu indverska rétti á meðan heimsfaraldurinn geisaði og halda því áfram í vetur. Ragnheiður er ekki á staðnum í þetta sinn en Magnús væntanlegur.

Túristi situr áfram og fylgist með úr horni sínu. Haukur kemur með kaffi. 

„Það sem ég er að reyna er að auðvelda foreldrum mínum og systkinum lífið með því að búa til strúktúr og skipulag. Það er mikilvægt að hafa eitthverja reglu. Mamma var hinsvegar á móti því að gera vaktaplan, fólk ætti bara að koma og vinna þegar það gæti, hafa þetta lífrænt. Mamma er svo kúl, henni þykja venjuleg fyrirtæki hallærisleg. Ég viðurkenni að þetta þarf að vera dálítið lífrænt til að virka, þannig að ég er að reyna að búa til takt þar sem þetta lífræna fær að njóta sín án þess að fólk tapi andlegri og líkamlegri heilsu.”

Gestir næla sér í fisk á disk – Mynd: ÓJ

Starfsfólkið hnígur sem sagt ekki lengur ofan í súpupottinn af þreytu. 

„Nei, það er búið, en þau hafa unnið mjög mikið í sumar. Pabbi hefur verið allan daginn að útvega fisk, flaka síðan og elda á kvöldin.”

Þegar Haukur hafði gefist upp á háskólanáminu lá leiðin vestur á Ísafjörð og þar hefur hann verið samfellt frá 2016 og segir að vel hafi gengið – þrátt fyrir heimsfaraldur. Á Tjöruhúsinu vinni skemmtilegt fólk og gestirnir séu það oftast líka.

„Við erum alltaf að læra betur hvernig við getum látið þetta ganga vel og mjúklega upp fyrir alla. Við viljum ekki lenda í því að bókun tínist (þó að það gerist stundum) og ekki fara í taugarnar á neinum – taka vel á móti fólki og skapa góða stemmningu. Þetta á að vera gaman. Þess vegna er mikilvægt að taka pásu af og til.” Tjöruhúsinu er lokað um háveturinn.

Við ræðum aðeins Covid-timann. Gestakomur í Tjöruhúsið höfðu aukist ár frá ári fram að faraldrinum – og það breyttist ekki í faraldrinum. Þá streymdu þangað íslenskir ferðamenn. Miklu færri voru í salnum í einu en fyrir faraldur, reglum um aðskilnað var fylgt með því að hólfa staðinn niður. Alltaf voru fundnar einhverjar leiðir til að halda rekstrinum gangandi – jafnvel þegar takmarkanir voru stífastar. Þá var fólki dreift yfir lengri tíma, einhver sem átti pantað að kvöldi mátti jafnvel mæta ellefu daginn eftir! „Fólk gerði það,” segir Haukur og við hlæjum núna – vongóðir um að fá ekki að endurlifa þessa tíma. „Við græddum á því að þetta er fjölskyldustaður, ekki með marga aðra á launaskrá.”

Pönnusteiktur koli – Mynd: ÓJ

Við nennum ekki að tala meira um Covid-tímann. Hvernig hefur þetta sumar verið?

„Alveg geggjað! Mjög gott sumar. Það tók tíma að ljúka samningaviðræðum við Ísafjarðarbæ um leiguna en nú erum við með samning til næstu fimm ára. Einu sinni var okkur boðin greiðsla fyrir veitingarekstur í húsinu, sem foreldrar mínir þáðu ekki heldur vildu greiða leigu eins og venjulegt fólk. Og nú hefur leigan hækkað.”

Bærinn hefur vafalaust sínar ástæður fyrir því að hækka leiguna. 

„Fólk hefur alls konar skoðanir á þessum almannabrunni, hverju þetta hús í eigu bæjarins eigi að skila,” segir Haukur. 

Tjöruhúsið er ómetanlegt hús – en um leið eru það einmitt Magnús, Ragnheiður og börn sem hafa aukið verðmæti staðsetningarinnar með matnum og þjónustunni. Túristi hættir sér ekki lengra að sinni í umræðu um hvaða leigu er sanngjarnt að greiða sveitarfélaginu. 

Við stígum út fyrir. Haukur fær sér smók í rigningunni. Við ræðum þetta magnaða hús með sína löngu sögu – frá upphafi verslunarstaðarins þarna í Neðstakaustað á Skutulsfjarðareyri. Í Turnhúsinu þarna við hliðina er húsi við Byggðasafn Ísafjarðar til húsa. 

Nú birtist stofnandinn, Magnús Hauksson, yfirkokkur, faðir Hauks. Við spjöllum um veðrið, húsin þarna og bissnissinn í sumar í samanburði við Covid-tímann þegar Íslendingar héldu staðnum gangandi.

Magnus lagar súpu – Mynd: ÓJ

„Nú koma kvöld þegar hér sitja um 50 gestir en aðeins tveir af þeim eru Íslendingar. Annars eru heimamenn og gestir þeirra duglegir að koma hingað,” segir Magnús.

Túristi notar tækifærið og spyr Magnús um matinn, sem hann er orðinn frægur fyrir. Magnús segir að litlar breytingar hafi orðið á þessum árum sem liðin eru – en auðvitað taki þau mið af viðtökum. „Kolinn, steinbítur og gellurnar eru okkar sérréttir. Svo fæ ég stundum lúðu líka en eftir langt veiðibann er unga fólkið ekki lengur vant því að borða hana. Útlendu gestirnir hinsvegar sólgnir í lúðu.” Við ræðum aðgengi Tjöruhússins að fyrsta flokks fiskmeti og hvernig gömul sambönd Magnúsar gegnum landanir nýtast. „Fyrstu árin flakaði ég fiskinn hér inni eldhúsi og svo var honum skellt á pönnuna.” Þeir dagar eru liðnir. Nú kemur fiskurinn inn á veitingahúsið tilbúinn til eldunar.

Bræðurnir Magnús og Jóhann – Mynd: ÓJ

Það hefur verið gaman að spjalla við þá feðga, Magnús og Hauk, fræðast dálítið um húsið og rekstur Tjöruhússins, finna ilminn úr eldhúsinu og sjá glaða gesti njóta matarins. 

Það eru nokkrir þættir sem tryggja velgengni svona veitingahúss eins og Tjöruhússins. Staðsetningin er auðvitað góð, í elsta hluta Ísafjarðarkaupstaðar, húsið mjög fallegt og skemmtilegt, svo er það auðvitað ferskt hráefnið og þrautreyndar uppskriftir Magnúsar og þjálfuð handtök við eldunina. Og ekki má gleyma vinalegu og glaðværu viðmóti gestgjafanna. Þetta gengur allt upp – ísfirsk rausn. Gestirnir streyma að og orðsporið berst víða. Og nú eru komin vaktatafla og skipulag sem Haukur rekstrarstjóri ber ábyrgð á ásamt konu sinni, Shayan, sem er sérmenntuð í slíkum fræðum. Markmið þeirra er að halda í upprunalegan anda, þetta lífræna og frjálslega vinnulag sem foreldrar hans skópu í upphafi – en sjá um leið til þess að enginn gangi fram af sér í vinnugleðinni og hlutirnir gangi upp frá degi til dags. 

Sögumenn í Tjöruhúsinu – Mynd: ÓJ

MEIRA FRÁ VESTFJÖRÐUM: „ÉG HELD AÐ VESTIFRÐIR EIGI GRÍÐARLEGA MIKIÐ INNI“ – VEIKIR INNVIÐIR HINDRA UPPGANGVANDINN AÐ LENGJA ANNATÍMANN

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …