Samfélagsmiðlar

Vandinn að lengja annatímann

Unnið er að endurbótum á Hótel Ísafirði. Í fyrsta áfanga eru gerðar breytingar á veitingasal og móttöku - nýr hótelbar verður opnaður eftir áramót. Hótelstjórinn lýsir í viðtali við Túrista þeim vandkvæðum í starfsmannamálum sem fylgja stuttum annatíma.

Hótel Ísafjörður eftir breytingar

Hótel Ísafjörður hf býður gistingu á fimm stöðum – á aðalhótelinu við Silfurtorg 2 sem nefnist Torg. Þar eru 36 herbergi, á Horni við Austurveg, í nýuppgerðu húsnæði í gamla kaupfélagshúsinu, eru 24 herbergi, á Gamla gistihúsinu við Mánagötu 5 eru níu herbergi og á Mánagötu 1 svefnpokagisting fyrir 20 manns. Á sumrin bætist heimavist menntaskólans við og er kallað Hótel Torfunes. Stærstu eigendur Hótel Ísafjarðar eru Ari Wendel og hjónin Daníel Jakobsson og Hólmfríður Vala Svavarsdóttir. Hótelstjóri síðasta eitt og hálft árið hefur verið Kristján Þór Kristjánsson. 

Kristján Þór Kristjánsson, hótelstjóri – Mynd: ÓJ

Túristi sest niður eftir hádegismat í tómum matsal Hótels Ísafjarðar við Silfurtorg, sem er um leið veitingastaðurinn Við Pollinn. Þetta er ekki fallegasta húsið á Ísafirði og innréttingar ekki með nýjasta sniði, en þarna hefur verið hótelrekstur frá árinu 1981, aðalhótel bæjarins á frábærum stað með góðri útsýn yfir Pollinn. Með þeim breytingum sem unnið er að á að glæða staðinn nýju lífi. Hótelstjórinn Kristján Þór kemur með kaffi handa okkur og sest við borðið. Yfir blikka perur, sem tekur varla að skipta út af því að staðnum verður brátt lokað vegna breytinga. Allt verður rifið úr veitingasalnum, innréttingar, klæðningar og gólfefni, veggir brotnir og ný leið opnuð að nýbyggingu sem risin er við hliðina. 

Hótel Ísafjörður eftir breytingar – Teikning: Hótel Ísafjörður

Það á að hverfa frá því að starfrækja einn veitingasal sem nýst hefur fyrir morgunverð og veislur en bæta við nýrri vínstúku eða hótelbar hjá gestamóttökunni á jarðhæðinni. „Þetta hefur verið salur sem á að passa fyrir allt en fyrir vikið passar hann ekki fyrir neitt,” segir Kristján og bindur miklar vonir við „lobbíbarinn“ þarna á jarðhæðinni. Þar á fólk að geta sest niður, fengið sér drykk og léttar veitingar. Þessi nýja viðbót verður tekin í notkun í byrjun næsta árs. Í öðrum áfanga, sem eftir er að fjármagna, stendur til að breyta þaki hússins, gera hótelgarð með heitum pottum og sána.  

Kristján Þór segir að nú í septemberbyrjun fari að draga úr gestakomum, þau séu að sigla inn í rólegasta tímann, frá október til loka desember, þó séu alltaf einhverjar ráðstefnur og hópakomur, auk sölumanna og iðnaðarmanna sem þurfi gistingu. Sumarið hefur verið gott í hótelrekstrinum á Ísafirði, segir hann, þó að veðrið hefði mátt vera betra. Útlendu gestirnir voru auðvitað fyrir löngu búnir að panta herbergi óháð því hvernig veðrið yrði en íslenskir ferðamenn taka kipp ef veðurútlit er gott, leita þá fyrst eftir gistingu og eru hissa á að það gangi ekki upp með stuttum fyrirvara. 

Gamla gestamóttakan á Hótel Ísafirði – Mynd: ÓJ

„Síðustu tvö sumur kom hinsvegar í ljós að Íslendingar eru alveg tilbúnir að ferðast innanlands og áttuðu sig á því að það væri skemmtilegt og ekki svo dýrt miðað við að ferðast erlendis – þegar allt var talið.” 

Þó að endanlegar tölur liggi ekki fyrir sýnist Kristjáni að erlendir ferðamenn hafi verið um 80-90 prósent gesta í sumar. 

Við Pollinn – Mynd: ÓJ

Enn er hótelrekstur á Ísafirði og annars staðar á Vestfjörðum mjög háður árstíðasveiflum. Það er allt fullt í fáeinar vikur á sumrin en svo kólnar hratt í rekstrinum í október. Það er ekki fyrr en skíðavertíðin hefst eftir áramót að aftur færist fjör í leikinn. Þetta flækir rekstrarmálin – ekki síst að hafa aðgang að starfsfólki til að sinna verkunum.

„Maður missir hæft starfsfólk. Þessar fyrstu vikur í september eru erfiðastar, skólafólkið sem var hér í vinnu, íslenskt og frá Póllandi og Slóvakíu er farið.”

Erfiðast segir hótelstjórinn að manna eldhúsið þegar aðeins er í boði vinna í fjóra eða fimm mánuði í senn. Ráða þurfi fjóra kokka auk þjóna og þjálfa starfsfólkið. Svo hverfur það eftir þennan stutta starfstíma og næsta ár byrjar allt upp á nýtt. Nauðsynlegt sé að gera veitingastaðinn rekstrarhæfan allan ársins hring. 

„Ég byrjaði að auglýsa eftir kokkum í byrjun ársins. Einn Íslendingur sótti um en dró umsóknina til baka. Þetta er áskorunin – að ná í hæft starfsfólk. Ekki er nóg að lesa yfir ferilskrána hjá umsækjandanum. Ég hef hringt í þá staði þar sem viðkomandi hefur unnið og spurst fyrir um hann.”

Annars er Kristján Þór bjartsýnn á horfurnar i rekstrinum, hægt sé að lengja annatímann. Það hafi þegar tekist að fjölga gestum töluvert á veturna, t.d. hafi gönguskíðanámskeið í janúar, febrúar og mars reynst mjög vinsæl. Búist sé við svipuðu á næsta ári. Hótel Ísafjörður – Torg verður opnað eftir breytingar í janúar. 

Unnið í nýrri viðbyggingu – Mynd: ÓJ

„Ég held að við eigum mikið inni í veitingasölunni. Við viljum fá heimafólkið aftur. Nýi barinn ætti að hjálpa til, fólk komi og fái sér drykk og borði létta rétti eða fínni mat.”

Við ræðum markaðsstarf Hótel Ísafjarðar. Kristján Þór segir að því ljúki aldrei. 

„Markaðsstarfið felst í því að halda viskiptavinum ánægðum. Álit þeirra fer á netið þar sem allir geta lesið það. Þetta er auðvitað mjög áhugavert og ögrandi verkefni. Fólk er misjafnlega kröfuhart. Einn gestur kemur og horfir yfir morgunverðarboðið og dáist að úrvalinu, eggjum, beikoni og brauði, en sá næsti kvartar strax undan því ef ekki er til croissant. Ég átta mig stundum ekki á því hvort fólk haldi að það sé alltaf statt á fimm stjörnu hótelum. En þetta er bara skemmtilegt.”

Hótel Ísafjörður í byggingunni, sem reist var undir lok áttunda áratugsins, verður enn um sinn stærsta hótelið í bænum. En einhvern tímann kemur að því að fjárfestar sjái möguleikana í því að reisa stærra og nútímalegra hótel, jafnvel í gömlum stíl, þarna á Tanganum. 

Hótel Ísafjörður – Mynd: ÓJ

„Það kæmi ekki á óvart,” segir Kristján Þór um þær vangaveltur – að nýtt hótel rísi þarna nærri. „Vandinn við að reisa nýtt og stórt hótel er bara að ennþá þarftu að fjármagna reksturinn á fimm mánuðum. Það er meginskýringin á því að ný hótel hafa ekki verið reist á Vestfjörðum. En með bættum samgöngum, nýrri hringtengingu um Vestfirði sem opin verður árið um kring, má búast við að fleiri tækifæri onast í afþreyingu og þörf verði á meira gistiplássi.”

Nýtt efni

Aðdáun Indverja á vískíi er ekki ný af nálinni. Þó var það ekki fyrr en í kringum árið 2010 að framleiðandinn Amrut, sem var stofnaður árið 1948, kynnti Indian Single Malt viskí sem átti sérstaklega góðu gengi að fagna í Skotlandi, af öllum stöðum, áður en það hélt áfram til Bandaríkjanna þar sem það mæltist …

Ein leiðin til að sjá eigin augum hversu umsvifamikil atvinnugrein ferðaþjónustan er í landinu er að fara í morgunferð austur á Þingvelli, njóta þess að vera þar nánast einn dálitla stund og hlusta á fuglana syngja, fylgjast síðan með bílaflóðinu inn á stæðin við gestastofuna á Hakinu þegar klukkan fer að ganga tíu. Þá sér …

Norska flugfélagið Norwegian gerði upp annan ársfjórðung í gær en hlutabréf í félaginu féllu um 16 prósent í síðustu viku þegar afkomuspá ársins var lækkuð. Fjárfestar tóku þó uppgjör gærdagsins vel því bréfin hækkuðu um fimm af hundraði. Niðurstaðan hljóðaði upp á 477 milljónir norskra króna í hagnað fyrir skatt eða 6,1 milljarð íslenskra kr. …

Play mun fækka flugferðunum sínum til Norður-Ameríku um fjórðung í vetur í samanburði við þann síðasta líkt og FF7 greindi frá. Til viðbótar hefur félagið gert breytingar á flugáætlun sinni til Evrópu. Í sumum tilfellum fjölgar ferðunum en þeim fækkar í öðrum. Þannig gerir áætlunin fyrir september ráð fyrir tíu prósent færri ferðum en í …

Play er með fjóra áfangastaði Bandaríkjunum og einn í Kanada og býður félagið nú upp á daglegar ferðir til þeirra allra nærri allt árið um kring. Yfir vetrarmánuðina hefur Play þó dregið úr framboði en næsta vetur verður niðurskurðurinn meiri en áður. Næstkomandi nóvember er aðeins reiknað með 99 brottförum frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna og …

Nú í vikunni hafa mælingar í Noregi og Bandaríkjunum sýnt að verðlag í þessum tveimur löndum hjaðnar hraðar en greinendur höfðu reiknað með. Það sama er upp á teningnum í Svíþjóð en í morgun birti hagstofan þar í landi nýjar verðlagsmælingar sem sýna að verðbólga sl. 12 mánuði mælist nú 2,6 prósent. Ef vaxtakostnaður er …

Gengi hlutabréf í Icelandair hefur nú fallið um 61 prósent síðustu 12 mánuði og kostar hver hlutur í dag 86 aura. Í hlutafjárútboðinu sem efnt var til í september 2020, til að koma flugfélaginu í gegnum heimsfaraldurinn, var hluturinn seldur á 1 krónu. Stuttu eftir útboðið fór gengið eins langt niður og það er í …

Á fyrri helmingi ársins komu aðeins færri Bandaríkjamenn til Íslands en á sama tíma í fyrra þrátt fyrir tíðari flugferðir. Há verðbólga vestanhafs er væntanlega ein af skýringunum á þessum samdrætti enda hafa skuldsettir Bandaríkjamenn nú minna á milli handanna. Nú gæti hagur þess hóps vænkast því verðlag í Bandaríkjunum lækkaði meira í síðasta mánuði …