Samfélagsmiðlar

Hlutabréfin í Icelandair ofan í „skúffu í skattaparadís“

Hlutabréf langstærsta hluthafans í Icelandair eru skráð á írskt félag með enga eiginlega starfsemi. Formaður bankaráðs Seðlabankans segir aðspurður að mikilvægt sé að loka fyrir glufur sem skattaskúffur búa til.

Hlutur stærsta hluthafa Icelandair jafnast á við eign níu stærstu lífeyrissjóðanna á hluthafalista flugfélagsins.

Botninn datt úr rekstri flugfélaga þegar Covid-19 breiddist út um heiminn í ársbyrjun 2020. Í framhaldinu fengu þau flest einhverskonar ríkisstuðning enda fóru fá flugfélög á hausinn í heimsfaraldriunum þrátt fyrir gríðarlegt tekjutap.

Í sumum tilvikum keypti hið opinbera hlutabréf í flugfélögunum og sú leið var til að mynda farin í Þýskalandi. Þar eignaðist þýska ríkið fimmtung í Lufthansa samsteypunni sem seldur hefur verið í pörtum síðustu misseri. Í vikunni losuðu Þjóðverjar sig við síðustu bréfin í flugfélaginu og samkvæmt frétt Financial Times hagnaðist þýska ríkið um 760 milljónir evra eða um 106 milljarða króna á viðskiptunum með bréfin í Lufthansa.

Hér heima var opinber stuðningur við Icelandair meðal annars fólgin í almennum aðgerðum sem þó voru að hluta til sniðnar að þörfum flugfélagsins. Einnig samþykkti Alþingi, í september 2020, að ríkið myndi ábyrgjast 90 prósent af 16,4 milljarða kr. láni sem Íslandsbanki og Landsbanki voru tilbúnir til að veita. Ábyrgð ríkisins hefði þá numið um 15 milljörðum kr.

Ekkert varð af þessari lántöku sem skrifast líklega að miklu leyti á aðkomu bandaríska lánasjóðsins Bain Capital Credit í júní 2021. Sjóðurinn keypti þá nærri 17 prósent hlut í Icelandair en um var að ræða nýtt hlutafé. Þar með lækkaði eignarhlutur annarra fjárfesta, meðal annars þeirra sem tóku þátt í hlutafjárútboði flugfélagsins níu mánuðum áður. Bain Capital Credit greiddi 8,1 milljarð króna fyrir nýju bréfin og varð langstærsti hluthafinn.

Lánasjóðurinn er þó ekki skráður fyrir fjárfestingunni í eigin nafni heldur írskt félag sem heitir Blue Issuer DAC en það var stofnað 26. apríl 2021, tveimur mánuðum fyrir kaupin í Icelandair.

Í kauphallartilkynningum Icelandair, þar sem vísað er til langstærsta hluthafans, er því ekki talað um Bain Capital Credit heldur Blue Issuer DAC. Á hluthafalista flugfélagsins trónir þetta írska félag á toppnum en í næstu sætum eru íslenskir lífeyrissjóðir og bankar.

Stærsti hluthafinn í Icelandair, sem skilgreint hefur verið sem þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki, er því írskt félag með enga eiginlega starfsemi. Spurður út í þetta fyrirkomulag þá segir Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans og prófessor við Háskóla Íslands, að tilgangurinn sé að lágmarka skattgreiðslur.

„Það kemur ekki á óvart að þessi eignarhlutur sé geymdur í skúffu í skattaparadís. Það er auðvitað gert til að greiða sem minnst í sameiginlega sjóði. Það er væntanlega fyllilega löglegt en sýnir bara mikilvægi þess að loka almennt fyrir þær glufur sem skattaskúffur búa til á skattkerfum. Það er hins vegar almennt viðfangsefni en ekki sérstakt vegna Icelandair,“ segir Gylfi í svari til Túrista.

Talsmaður Bain Capital Credit sagði í svari við Túrista í fyrra að það væri ekki óalgengt að sjóðurinn fjárfesti í gegnum einingar utan Bandaríkjanna líkt og gert var í tilviki Icelandair.

Túristi hefur á ný reynt að fá útskýringar frá bandaríska lánasjóðnum á þessu írska eignarhaldi en nú fást engin svör. Til að mynda við spurningunni afhverju ekki var fjárfest í Icelandair í gegnum íslenskt félag.

Ef hlutabréf Bain Capital Credit væru skráð hér á landi þá fengi íslenska ríkið umtalsverða skattgreiðslu ef bréfin yrðu seld í dag. Markaðsvirði þeirra er 13,8 milljarðar króna en samtals hefur bandaríski lánasjóðurinn fjárfest 10,4 milljörðum kr. í Icelandair. Fyrst voru það 8,1 milljarðar kr. sumarið 2021 en í júlí sl. bættust við 2,3 milljarðar þegar Bain Capital Credit nýtti rétt sinn á kaupum á viðbótar hlutafé.

Nýtt efni

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …

MYND: ÓJ

Kínverskir ferðamenn hafa verið töluvert áberandi í Reykjavík og víðar um land í vor. Auðvitað er fólk af kínverskum uppruna búsett um allan heim og eitthvað af því fer í Íslandsferðir en þeim hefur snarfjölgað sem koma hingað alla leið frá Alþýðulýðveldinu Kína. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli komu hingað í marsmánuði 8.642 Kínverjar og …

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …