Samfélagsmiðlar

Veikir innviðir hindra uppgang í ferðaþjónustu

Vestfirðir hafa vakið athygli heimsins en veikir innviðir hamla straumi ferðafólks þangað. Díana Jóhannsdóttir á Vestfjarðastofu vill fá meiri kraft í opinberan stuðning á kaldari svæðum landsins, þar sem engin stór ferðaþjónustufyrirtæki geta knúið markaðsstarfið. Þá vanti meiri fjárfestingu til að fjölga heilsársstörfum. Margt er þó í pípunum.

Á Hornströndum

Af Hornströndum

„Ferðaþjónustan skiptir mjög miklu fyrir Vestfirði en við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti, miða starfið við framlögin frá hinu opinbera,” segir Díana Jóhannsdóttir, sviðsstjóri atvinnumála hjá Vestfjarðastofu. Hún leiðir þar Markaðsstofu Vestfjarða. Díana hefur verið með ferðamálin fyrir vestan á sinni könnu í áratug og séð miklar breytingar – upsveiflu og hrun vegna heimsfaraldurs.

Díana Jóhannsdóttir – Mynd: ÓJ

Flest fyrirtækin á Vestförðum komu reyndar ekki illa út úr heimsfaraldrinum.

„Íslendingar kíktu loksins á Vestfirðina, föttuðu að Vestfirðir eru æðislegir. Sumarið sem nú er bráðum að baki var gott og við erum bjartsýn.“

Díana nefnir nýjar áherslur í uppbyggingarstarfinu fyrir vestan, t.d. hjólaferðir.

„Við höfum skipulagt kynningar með blaðamönnum og áhrifavöldum til að kynna Vestfirði sem áfangastað fyrir hjólaferðamennsku. Höfum hjólað með þessu fólki um Vestfirði og nú eru komin fyrirtæki sem selja þessa ferðapakka – að hjóla Vestfjarðaleiðina, 950 kílómetra leið. Það má líka klippa þetta niður í styttri ferðir og semja við ferðaþjónustufyrirtæki um trúss á milli. Við sjáum núna gríðarlegan fjölda ferðafólks á hjólum. Það er mikil aukning í þessu.”

Hjólað á Vestfjörðum – Mynd: Vestfjarðastofa

Svo er varla nokkur miðaldra Íslendingur með mönnum nema að hafa gengið á Hornstrandir, helst án símasambands – og horfast í augu við ref út um tjaldopið í morgunsárið. Díana staðfestir þetta og nefnir slíkar ferðir „digital detox” og hlær. Hún segir erlent ferðafólk líka duglegt að skrá sig í slíkar ferðir með leiðsögn.

Ferðamannatíminn var sex vikur en hvað teygir það sig yfir langt tímabil núna?

„Núna er tímabilið júní, júlí, ágúst, september – góðir fjórir mánuðir – og október er líka fínn. Það gengur betur að lengja tímabilið á haustin heldur en byrja fyrr á vorin. Það virðist flóknara. Fleiri fyrirtæki eru með starfsemi allt árið nú en áður – en þetta gengur hægt. Markhópurinn hefur breyst. Þjóðverjar voru og eru enn stór hluti erlendra gesta en með auknu framboði á flugi frá Bandaríkjunum sáum við þann markað stækka. Bandaríkjamenn tóku fram úr Þjóðverjum. Það hefur leitt af sér margskonar verkefni og breyttar áherslur. Bandarískir ferðamenn henta okkur á Vestfjörðum vel. Þeir kippa sér ekkert upp við að þurfa að keyra í sex tíma hingað. Þegar ég segi Evrópubúum frá því að þeir þurfi að gera ráð fyrir að keyra í sex tíma frá Keflavíkurflugvelli hingað vestur þá stynja þeir, taka mið af því að á meginlandi Evrópu er hægt að fara í gegnum mörg lönd á svo löngum tíma. En Bandaríkjamenn segja einfaldlega: Já, kemst ég alla leið þangað á aðeins sex tímum – geggjað!”

Langflestir erlendu gestanna á Vestfjörðum koma þangað á bílaleigubílum, annað hvort setja þeir stefnuna beint vestur eða fara þar um á lengri ferð um Ísland.

„Hátt hlutfall ferðamanna á Vestfjörðum er að koma í annað sinn, sleppti Vestfjörðum í fyrstu Íslandsferðinni. Þetta er fólk sem segir: Nú skulum við fara og skoða Vestfirði. Margir gerðu sér ekki grein fyrir hvaða tíma það tæki að skoða Ísland, vissu ekki alveg fyrirfram hvað það myndi skoða, kemur þess vegna aftur og nýtir tímann vel.”

Vestfirðingar hafa mjög kvartað undan lélegum samgöngum en sannarlega hafa verið gerðar úrbætur, Dýrafjarðargöngin eru nýjasta stórvirkið, og meira er á döfinni. En ætli túristarnir kvarti?

„Sumir vegirnir geta verið ógnvænlegir í augum einhverra, t.d. að aka niður á Rauðasand. Það eru auðvitað slæmir vegir hérna en flestir eru þeir frábærir. Eftir fjögur ár verðum við í mjög góðum málum, þegar lokið verður úrbótum á Dynjandisheiði. Þar hafa verið miklar framkvæmdir sem valdið hafa erfiðleikum í ferðaþjónustunni. Svo er það vegurinn um Teigsskóg.”

En hverju breyttu Dýrafjarðargöngin?

„Öllu! Það var bara nýr raunveruleiki. Þegar Dýrafjarðagöngin komu opnuðum við nýja ferðamannaleið sem við köllum Vestfjarðaleiðina, um Dali, norður Strandir að Bjarnarfirði, yfir Steingrímsfjarðarheiði og þaðan um Vestfirði. Þessi leið á eftir að batna enn. Þetta lítur svo vel út. Hvert skref í úrbótum hefur skipt máli. Þó að framkvæmdum við Dynjandisveg sé ekki lokið og vegurinn sé grófur, þá höfum við allt í einu eignast vetrartengingu við fossinn Dynjanda. Ég fór þangað um jól og fjöldi fólks var við fossinn í klakaböndum. Þarna opnaðist eitthvað nýtt sem ekki hafði verið aðgengilegt.”

Fólk getur nálgast tölulegt efni og samantekt um stefnuna í ferðaþjónustumálunum í Áfangastaðaáætlun Vestfjarða. Þar kemur m.a. fram að árið 2020 höfðu 15 ferðaskrifstofur leyfi til starfa á Vestfjörðum og 33 ferðasalar dagsferða. Hótel í fjórðungnum voru 15, gistiheimili 50 en 159 skráðar Airbnb-íbúðir. Gistinætur árið 2019 voru tæplega 217 þúsund – og tæplega 140 þúsund gestir voru skráðir á Vestfjörðum. Gestum fækkaði í tæplega 97 þúsund Covid-árið 2020.

Allir landshlutarnir nema Suðvesturland og Suðurland kvarta undan því að fá ekki stærri skerf af heimsóknum. Nú erum við á Vestfjörðum.

„Við erum minnst heimsótti landshlutinn. Þar eru ákveðnir flöskuhálsar: Við takmörkum aðgengið með innviðunum. Fullbókað er gistingum yfir sumarið. Erfitt er orðið að fá gistingu þá. Við þurfum fjárfestingu til að halda áfram og nýta betur það sem fyrir er árið um kring. Annars byggjum við ekki á fjöldatúrisma. Það hentar okkur ekki. En sannarlega viljum við sjá meiri straum ferðafólks hingað.”

Dynjandi – Mynd: Vestfjarðastofa

Díana nefnir mannfjöldaþróunina á Vestfjörðum en hún skiptir máli þegar horft er til innviða í samfélaginu og möguleikana á að taka á móti ferðafólki. Vestfirðingum hafði fækkað mjög, voru orðnir um 6.900 en nú hefur þróunin snúist við og íbúar orðnir um 7.200. Þetta skiptir máli. 

Fé í Vestfjarðagöngum í Botnsdal – Mynd: ÓJ

„Það er meira um að vera. En við verðum að halda áfram að skapa heilsársstörf. Til þess þurfum við fjárfestingu. Og ég er auðvitað talskona þess að við setjum meira í að markaðssetja kaldari svæðin. Það er auðvitað ekki endilega rétt að allir fái jafnt þegar þeir standa ekki jafnt að vígi fyrir. Það getur þurft að mismuna til að leiðrétta. Ég held að það sé nauðsynlegt í þessu. Við verðum að tryggja fjármagn í markaðssetja – ekki aðeins Ísland heldur landshlutana. Hér fyrir vestan erum við ekki með nein stór fyrirtæki, þau eru lítil, mest fjölskyldufyrirtæki, ekki keðjur sem geta borið uppi markaðssetninguna. Þá er það á okkar könnu að leiða starfið en til þess þarf einfaldlega fjármagn. Okkur er gert erfitt fyrir. Við fáum opinber framlög en þau mega ekki fara í markaðssetningu, aðeins í að fjármagna starfsemi – ekki beint í markaðssetningu. Peningarnir fara í að tryggja störf þeirra sem þurfa síðan að leita að fjármunum hjá sveitarfélögum eða öðrum. Fyrirtækin eru tilbúin að leggja sitt af mörkum en þau eru bara svo lítil.”

Stefni Maríu Júlíu í Ísafjarðarhöfn – Mynd: ÓJ

Auðvitað er bara tímaspursmál hvenær Vestfirðir springa út sem ferðamannaslóðir – og í raun hófst sú vegferð með viðurkenningu Lonely Planet í október í fyrra um Vestfirði sem áfangastað 2022. Díana segir að viðurkenningin og sú umfjöllun sem fylgdi hafi svo sannalega haft áhrif. 

„Ég hef farið á fleiri fundi um fjárfestingar eftir að Lonely Planet-viðurkenningin kom heldur en öll tíu árin á undan. Nú eru Runólfur Ágústsson og Valdimar Ármann hjá Arctica Finance að stofna vestfirskan fjárfestingarsjóð, Þuríði, sem á að sérhæfa sig í ferðaþjónustu. Þá er verið að kanna mögulegar hótelbyggingar á tveimur eða jafnvel þremur stöðum á Vestfjörðum. Menn eru að safna gögnum og skoða möguleikana. Þetta er misjafnlega langt komið.”

Meira fæst Díana ekki til að segja um þessar viðræður. Það er ljóst að verkefnið er brýnt. Veikir innviðir hamla mjög gegn því að hægt sé að auka ferðamannastrauminn til Vestfjarða og treysta þá um leið forsendur nýrrar byggðasóknar í fjórðungnum. En Díana er vongóð.

„Það er stígandi í þessu,” segir Díana um þróun ferðamála á Vestfjörðum.

Bættar samgöngur, viðurkenning Lonely Planet og nýir seglar eins og útsýnispallurinn á Bolafjalli hafa örvandi áhrif. Þá hafa lystiskipin byggt Ísafjörð upp sem ferðamannabæ. Hún segir afþreyingarmöguleikana á Vestfjörðum marga. Hægt sé að fara í kajakfirðir og bátsferðir árið um kring, í fjallgöngur eða á fjallaskíði.

Kajakróður á Patreksfirði – Mynd: Vestfjarðastofa

„Þessi starfsemi er kvik. Menn eru fljótir að bregðast við tækifærum sem opnast. En það eru stóru innvirðirnir, byggingar og slíkt, sem kemur í hægum takti. Á mínum starfstíma hefur litlu fyrirtækjunum fjölgað og þau stækkað. Stundum er þetta dálítið falið fyrir íbúum, fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir hvað litla krúttlega ferðaskrifstofan er orðin umsvifamikil. Þetta er orðið miklu stærra en flestir gera sér grein fyrir.“

Nýtt efni

Veitingahúsarekstur á Íslandi getur verið töluverður barningur: Vaktafyrirkomulag er kostnaðarsamt og launin vega mjög þungt í rekstri, verð á hráefni er hátt og opinber gjöld ekki síður, einkum á áfengi. Veitingamenn bíða eins og aðrir að gengið verði frá kjarasamningum og það verði hægt að gera einhverjar áætlanir fram í tímann.  Þegar launin sem greiða …

Kauphöllin

Hlutabréfavísatalan Stoxx Europe 600 náði sína hæsta gilda á föstudaginn og hefur þá hækkað um nærri 70 prósent frá því mars 2020 þegar vísitala fór lægst í upphafi heimsfaraldursins. Vísitala Bloomberg sem fylgist með gengi evrópskra flugfélaga hefur á sama tíma hækkað um 23 prósent. Af stóru evrópsku flugfélögunum er Ryanair það eina þar sem …

Tónlistarmaðurinn hefur á þessum árum lagt inn 689 lög í eigin nafni. En þrátt fyrir afar litlar vinsældir hefur maðurinn fengið útborgaðar um það bil sem svarar 90 milljónum íslenskra króna frá streymisveitunum vegna þess hve oft lögin hafa verið spiluð. Til að fá útborgað um eitt hundrað krónur frá tónlistarstreymisveitu þarf lag að vera …

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …