Samfélagsmiðlar

„Það er margt spennandi að gerast“

„Þetta eru framkvæmdir sem ráðast þurfti í," segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri hjá Isavia, um uppbygginguna á Keflavíkurflugvelli. Hinsvegar gætu áform ESB um auknar álögur á losun frá flugvélum að óbreyttu haft áhrif á hugmyndir um meiri stækkun.

Guðmundur Daði Rúnarsson

Guðmundur Daði Rúnarsson

Það má eiginlega segja að Keflavíkurflugvöllur og Flugstöð Leifs Eiríkssonar taki stöðugum breytingum. Nú er unnið að margháttuðum umbótum á vellinum sjálfum og mjög mikilli stækkun á flugstöðinni sem tekin var í notkun 1987.

Þegar ekið er upp að flugstöðinni blasir fyrst við stór viðbygging að austanverðu. Þessi nýja álma stækkar flugstöðina um nærri 39% og með henni verða til nýir landgangar og aðstaða fyrir farþega og móttöku farangurs batnar til muna.

Austurálman í byggingu – MYND: ISAVIA

Túristi fór á dögunum suður á Keflavíkurflugvöll og hitti þar Guðmund Daða Rúnarsson, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar hjá Isavia. Það er í mörg horn að líta á vellinum þegar líður að háönn í farþegaflutningum – á sama tíma og unnið er af kappi að framkvæmdum við austurálmuna og að uppsetningu nýrra farangurskerfa.

Ný færibönd fyrir farangur til brottfarar – MYND: ÓJ

„Ætli megi ekki líkja þessu við að vera í miðri hjartaaðgerð. Framkvæmdunum sem nú er unnið að er ætlað að búa okkur undir afkastaaukningu á flugvellinum. Við byrjum á að stækka flugstöðina til austurs. Því verki lýkur undir lok næsta árs. Síðan verður byggður nýr tengigangur í suðurátt. Þessu fylgir því miður töluverð röskun en hún er nauðsynleg til að búa flugvöllinn fyrir framtíðina og þær stækkanir sem þá verða.“

Horft í att að nýju austurálmunni í gegnum gler á landgangi – MYND: ÓJ

Skoðum Austurálmuna aðeins betur. Fyrst tók fólk eftir stórri holu, síðan reis upp úr henni mikil stálgrind og nú er verið að klæða bygginguna að utan. Gengur þetta verk samkvæmt áætlun?

„Já, við erum á áætlun, en það er ekki sjálfgefið í því ástandi sem ríkt hefur í heiminum – hvort sem litið er til aðfangakeðjunnar eða verðþróunar. Við erum mjög ánægð með ganginn í verkinu. Verktakinn hefur unnið gott verk, svo og okkar eigið starfsfólk og samstarfsaðilar. Við sjáum fyrir okkur að geta notað fyrsta hluta mannvirkisins í sumar. Þá tökum við í notkun, eitt af öðru, ný móttökubönd fyrir farangur sem er að koma til landsins. Í því felst dálítið púsluspil í nokkra mánuði: Við þurfum að taka niður eldri bönd og setja ný í staðinn. Vonandi í lok árs verður komusalurinn orðinn eins og við viljum hafa hann næstu fimm eða sex árin. Síðan verða ný hlið tekin í notkun sumarið 2024. Þá verður opnað mun stærra biðsvæði fyrir farþega. Þarna á annarri hæðinni verða nýir veitingastaðir og verslanir. Í lok næsta árs lýkur svo framkvæmdum í þessum áfanga. Við teljum að með austurálmunni batni þjónusta verulega við farþega og afkastageta verður meiri.“

Með breytingunum á fyrstu hæðinni þar sem farangursmóttakan er þurfti að ganga á athafnapláss Fríhafnarinnar. Er það varanleg breyting?

„Nei, þetta er tímabundið. Því miður þurfti að minnka Fríhöfnina á meðan framkvæmdir standa yfir. Hún mun stækka aftur undir lok framkvæmdatímans sumarið 2024. Þá verður hún orðið töluvert stærri en hún var fyrir framkvæmdir.“

Fríhöfnin mun teygja sig yfir þetta svæði eftir stækkun farangursmóttökunnar – MYND: ÓJ

Flugfélögin auglýstu á dögunum að það gætu orðið tafir á innritun farangurs vegna framkvæmda í flugstöðinni. Boðið var upp á innritun kvöldið fyrir brottför og það er líka hægt gegn töskugjaldi að láta sækja farangur heim til innritunar. Hafa orðið miklar tafir á afgreiðslu farþega vegna framkvæmdanna?

„Þetta hefur auðvitað verið áskorun. Starfsfólkið hefur staðið sig með stakri prýði, bæði hjá Isavia og öllum þjónustuaðilum á flugvellinum. Raðirnar hafa vissulega verið lengri en við viljum hafa þær. Auðvitað munar um að minnka afkastagetu innritunar um helming. Það segir sig sjálft. Við bjuggumst við að það gætu orðið seinkanir en þetta hefur gengið vonum framar. Við gerum ráð fyrir að þessum framkvæmdum við farangurskerfið sem áhrif hafa á innritunarborðin ljúki undir lok maí.“

Leifsstöð, brottfararsalur
Mikil biðröð getur myndast vegna minni afkasta við innritun – MYND: ÓJ

Allir sem farið hafa um flugstöðina á liðnum árum sjá að miklar breytingar eru að verða á biðsalnum og veitingarýminu. Gamlir staðir eru horfnir og nýir hafa komið í staðinn. En það á mikið eftir að breytast til viðbótar á næstu mánuðum, ekki satt?

„Það er margt spennandi að gerast. Isavia er opinbert hlutafélag og verður að haga innkaupum og útboðum á gagnsæan hátt. Nú var komið að því að endurnýja nánast alla samninga við rekstraraðila á flugvellinum. Meðal þess sem framundan er má nefna að Jómfrúin opnar stað í flugstöðinni. Það er mörgum mikið tilhlökkunarefni. Þá verður opnað kaffihúsið Elda. Síðan bætist við staðurinn Bakað, þar sem Gústi bakari og Brikk koma að veitingum og kaffið kemur frá Te & Kaffi. Hinn gamalgróni Loksins Bar flyst í suðurbygginguna á frábæran stað þaðan sem sér út á flugbrautir. Þetta er það sem farþegar munu sjá og geta nýtt sér á þessu ári. Síðan eru fyrirhuguð útboð á stærri veitingarýmum sem opnuð yrðu eftir árið 2024. Í austurálmunni verður tiltölulega stórt veitingarými og einnig í suðurbyggingunni í framhaldi af endurnýjun samninga.

Allt er þetta hollt og gott fyrir fyrirtæki að fara í gegnum – að markaðurinn sé reglulega opnaður og ekki síður að ná því fram hvaða straumar og stefnur eru á hverjum tíma, hvaða væntingar ferðamenn hafa til veitingastaða og vöruframboðs á flugvellinum. Það hefur verið mjög skemmtilegt að sjá rótgróin íslensk vörumerki koma inn í flugstöðina.“

Loksins Bar verður á þessum stað í suðurbyggingunni – MYND:ÓJ

 Eru þið sátt við rammann sem kynntur var nýverið um hvernig menn sjá fyrir sér að svæðið í kringum Keflavíkurflugvöll þróist? Isavia kom auðvitað að því verki.

 „Algjörlega. Það er gríðarlega spennandi að byggja um Keflavíkurflugvöll og nærumhverfi hans. Það eru mikil samlegðartækifæri fólgin í þeirri vinnu sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, hefur verið að vinna í kringum flugvöllinn og niður í Helguvík – að þróa og byggja upp heildrænt þetta svæði allt. Þegar horft er til orkuskipta í fluginu er líklegt að þörf sé á innviðum dálítið fyrir utan flugvöllinn. Svo eru uppi hugmyndir um grængarða hér á svæðinu. Þá væntum við mikils af áformum um að aukið landeldi á fiski skili sér í meiri tekjum fyrir Keflavíkurflugvöll.“

Væntanlegt skipulag við flugstöð framtíðarinnar á Keflavíkurflugvelli – MYND: KADECO

Eitt af því sem breytt gæti stöðu Keflavíkurflugvallar sem tengiflugvallar í miðju Atlantshafinu væri ef nýjar losunarálögur Evrópusambandsins drægju úr umferðinni til og frá Íslandi. Hafið þið áhyggjur af því?

„Auðvitað höfum við áhyggjur af því eins og allir aðrir. Við höfum heyrt forsvarsmenn flugfélaganna og fulltrúa stjórnvalda tala mjög afdráttarlaust. Við stöndum auðvitað heilshugar að baki þeim í þessu máli. En ef horft er til þess sem er í gangi hjá okkur núna hér á Keflavíkurflugvelli þá er nánast eingöngu um að ræða framkvæmdir sem lúta að þjónustuupplifun.

Brottfararhlið þrengja að umferð í tengibyggingu. Breyting verður með austurálmu og nýrri tengibyggingu – MYND: ÓJ

Vissulega er verið að auka afköst á landamærum en það er ekki verið að fjölga mikið hliðum eða auka afköst. Þetta eru framkvæmdir sem þurfti að ráðast í. Við höfum frekar áhyggjur af því að ef svo ólíklega vill til að ekki takist að finna einhverja málamiðlun, eða hreinlega stöðva þessa fyrirætlun, þá þurfum við að horfa öðrum augum á þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru eftir árið 2032 eða 2035. Það sem er í gangi núna þurfti að gerast til að bæta þjónustugæðin á flugvellinum hvað sem svo gerist í framtíðinni.“

Horft út á flugvöllinn – MYND: ÓJ

Enn erum við ekki farin að sjá aftur eftir heimsfaraldur kínverska ferðamenn í stórum stíl. Þeim á vafalaust eftir að fjölga. Svo er þess vænst að ferðafólki frá Indlandi eigi eftir að fjölga verulega. Svo nefndir séu ferðamenn frá tveimur fjölmennustu ríkjum heims. Það er svo sem nóg af fólki í heiminum sem gæti tekið upp á því að vilja heimsækja Ísland – og verða þar með viðskiptavinir Keflavíkurflugvallar.

 „Já og miðað við að tvær til þrjár milljónir ferðamanna komi árlega til Íslands út þennan áratug þá er það samt aðeins um að ræða örlítið brot af fjölda ferðamanna í heiminum, sem spáð er að fjölgi verulega. Ísland er einstakur áfangastaður: fallegt og víðfeðmt land sem býður upp á góða þjónustu og mat, góða upplifun. Það er mikil spurn eftir því að vera ferðamaður á Íslandi. Við sjáum engin merki um að það breytist í bráð. Þegar flugfélögin sjá tækifærin í að fljúga frá nýjum markaðssvæðum eins og Kína eða Indlandi má búast við að ferðamönnum fjölgi hér.“ 

Farþegar að koma til landsins – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …