Samfélagsmiðlar

Að móta eigin framtíð

Hverjar eru líkurnar á því að fjárfestar setji peninga í uppbyggingu ferðaþjónustu á Austurlandi? Ekkert einfalt svar er til við þessari spurningu. Margir bíða eftir einbeittari aðgerðum stjórnvalda en mjög óljóst er í hverju þær gætu falist.

Góður dagur á Seyðisfirði

„Það er í rauninni dálítið galið að við skulum líta á ferðaþjónustu sem stóra, nýja atvinnugrein, og höfum ekki skoðun á því hvað við viljum að hún verði stór. Við látum þetta bara gerast, auglýsum og hömumst við að fá fólk til landsins en veltum því ekkert fyrir okkur hvað væri passlega mikið, sagði Friðrik Pálsson, hótelrekandi á Suðurlandi, þegar hann ávarpaði Austfirðinga á málþingi á Egilsstöðum um fjárfestingar í ferðaþjónustu í síðustu viku.

Þetta er auðvitað rétt hjá Friðrik en er svo sem ekkert nýtt í sögu okkar. Við höfum áður byggt upp atvinnugreinar meira af kappi en forsjá.

Samgöngudraumsýn Austfirðinga – MYND: Austurbrú

Stærstur hluti erlendra ferðamanna lætur duga að skoða staði sem eru í þægilegri akstursfjarlægð frá Keflavíkurflugvelli eða Reykjavík. Samkvæmt tölum Ferðamálaráðs um heimsóknir erlendra ferðamanna á tímabilinu apríl 2022 til mars 2023 sést að á meðan 79 prósent heimsóttu Suðurland og nærri helmingur, eða 47 prósent, Vesturland, fór aðeins 31 prósent til Norðurlands og 28 prósent til Austurlands – einungis 12 prósent til Vestfjarða.

Heimsóknir erlendra ferðamanna. Hlutföll af heild eftir landshlutum – MYND: Ferðamálaráð

Það er nokkurn veginn hægt að draga línu frá Hvammsfirði og þvert yfir landið í suðaustur að Hornafirði eða þar um slóðir og segja að á svæðinu sem er sunnan línunnar sé þorri erlendra ferðamanna staddur á hverjum tíma – sérstaklega á veturna. Einhverjir gætu viljað hafa þetta svona – það sé bara fínt að norðanvert landið fái frið fyrir ágangi ferðamanna. Líklega segja þó fleiri að meiri dreifing væri landinu og þjóðinni fyrir bestu. 

Erlendir ferðamenn rölta eftir Austurvegi á Seyðisfirði – MYND: ÓJ

Austfirðingar (sem sumir kalla Austlendinga) væru auðvitað til í að fá meiri tekjur af ferðaþjónustu. En það eru ekki síst innviðirnir sem fylgja myndu auknum ferðamannafjölda sem margt heimafólk sér að gætu bætt líf þess – auðgað samfélögin fyrir austan. Fleiri veitinga- og kaffihús og afþreyingarmöguleikar myndu auðvitað nýtast Austfirðingum sjálfum. Það er eins og það gleymist stundum að allir eru einhvern tímann einskonar túristar – túristar eru venjulegt fólk. Við höfum flest gaman af að setjast í náttúrulaug, dást að undrum náttúrunnar, borða heilnæman og góðan mat í fallegu umhverfi, kynnast dálítið heimafólki á hverjum áfangastað, lífsbaráttu þess og sögu. Fleiri hótel, veitingahús, útsýnispallar og þjónustuhús myndu auðvitað styrkja Austurland og laða þangað fleira fólk – ekki bara ferðamenn heldur líka nýja íbúa. Það er meðal þess sem fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, Jóna Árný Þórðardóttir, nýráðinn bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hefur lagt áherslu á. 

Veitinga notið í blíðunni – MYND: ÓJ

En hverjar eru líkurnar á því að fjárfestar rífi upp veskin og setji peninga í uppbyggingu ferðaþjónustu á Austurlandi? (Þessi spurning á auðvitað allt eins við um Norðurland og Vestfirði) Eftir að hafa hlýtt á umræður á áðurnefndu málþingi fyrir austan er augljóst að ekkert einfalt svar er til við þessari spurningu. Margir bíða eftir einbeittari aðgerðum stjórnvalda til að stuðla að meiri fjárfestingu í ferðaþjónustu á landsbyggðinni en mjög óljóst er enn í hverju sú aðkoma geti falist.

Auð „Regnbogagatan“ – MYND: ÓJ

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, sagði þetta í viðtali við TÚRISTA í nóvember á síðasta ári um vinnuna í stjórnarráðinu vegna hinna svonefndu köldu svæða: 

„Við erum að vinna að aðgerðaáætlun vegna þeirra. Í fyrsta lagi skoða aðgengi að fjármagni í fjármálakerfinu, sem er ekki gott. Verið er að greina það hér í ráðuneytinu og leita skýringa stjórnenda bankanna á því hvernig standi á þessu og líka um það hvert fjárfestingar í ferðaþjónustu fari. Ferðaþjónustan úti á landi segir að meirihlutinn fari á höfuðborgarsvæðið. Við erum að skoða það.”

Líklega stendur sú skoðun enn yfir. 

Á Djúpavogi. Margt undir sama þaki í litlu þorpi – MYND: ÓJ

Flokksbróðir ferðamálaráðherrans, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sótti málþingið fyrir austan og sagði þetta í viðtali við TÚRISTA um það kappsmál Austfirðinga að fá betri flugtengingar – við Keflavíkurflugvöll og útlönd:

Sigurður Ingi ásamt aðstoðarmanni sínum – MYND: ÓJ

„Þetta ákall er mjög skiljanlegt.  Við höfum reynt að svara því með stofnun flugþróunarsjóðs 2015, byggja upp þessa tvo varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, sem um leið verða betur búnir til að taka á móti fleiri farþegum. Það verður hinsvegar dálítil áskorun að gera það. Við höfum séð það á undanförnum árum að stundum koma mjög jákvæðar fréttir en svo gufa þau tækifæri upp. Það er mikilvægt að halda áfram. Dropinn holar steininn. Kannski verður þetta alltof svona ströggl. Ég held að við verðum að viðurkenna að ef á að takast að byggja ferðaþjónustuna upp sem heilsársgrein allan hringinn þá verðum við að vera tilbúin að verja fjármunum í það – fjárfesta í greininni.”

Þar átti innviðaráðherra ekki aðeins við ríkisfjárfestingar heldur fjárfestingar einkaaðila. 

Austfirðingar vilja gjarnan efla ferðaþjónustuna og styrkja með henni þau mörgu, fámennu og dreifðu samfélög sem eru í landshlutanum. Það virðist ekki áhugi á að fá viðlíka mannfjölda og streymir Gullna hringinn eða austur í Reynisfjöru eða Jökulsárlón frá Reykjavík. Austfirðingar væru líklega sáttir við ríflegan helming af þeirri traffík. Mestur áhuginn er á því, heyrist TÚRISTA, að fá meiri umferð frá hausti og fram á vor. En hversu raunhæft er fyrir Austfirðinga að láta sig dreyma um verulega fjölgun ferðamanna á kaldasta árstímanum þegar veður geta á örskotsstund lokað leiðum og sett ferðaáætlanir úr skorðum?

MYND: Austurbrú

Augljóst er að dreifbýlið fyrir austan setur áætlunum um þetta töluverðar skorður. Íbúarnir eru aðeins rúmlega 11 þúsund á þessu tæplega 16 þúsund ferkílómetra svæði. Tvöfalt fleiri búa í Reykjanesbæ einum. Hvernig á að manna stóraukna ferðaþjónustu fyrir austan? Væntanlega yrði það gert með erlendu vinnuafli eins og annars staðar. Er til nægt húsnæði fyrir það fólk? Myndi fjöldadrifin ferðaþjónusta skila samfélögunum sjálfum arði? Verður lífið betra fyrir austan? 

Ekki er ólíklegt að helstu tækifærin á veturna fyrir austan felist í að fara með ferðafólk í skipulagðar ferðir, þar sem væri heinlega spilað inn á að gera óvissuna heillandi, breytilegt veðrið spennandi, eins og fyrirtækjaráðgjafi Arctica Finance, Hildur Sveinbjörnsdóttir, talaði um á málþinginu. 

Sænskir ferðamenn bíða rútu við N1 á Egilsstöðum – MYND: ÓJ

Auðvitað er kjarni vel heppnaðarar ferðaþjónustu gestrisni – að taka vel, hlýlega og af fagmennsku á móti fólki. Austfirskur sjarmi myndi að sjálfsögðu bræða hjörtu allra veðurbarinna vetrarferðamanna. En á meðan tekjumódel flugfélaganna og stærstu ferðaþjónustufyrirtækja landsins miðast einkum við að nýta orðspor og frægð áfangastaðanna á Suðurlandi breytist staða Austurlands ekki mikið. Eða hvað?

Það má þó segja að Austfirðingar séu enn í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að geta mótað eigin framtíð hvað varðar túrisma. Þeir geta ráðið því hvort þeir haldi heimahögunum nokkurn veginn fyrir sig sjálfa eða opni gáttirnar. Þeir geta ráðið því nokkurn veginn hversu margir koma og hversu mikið álag þeir telja ásættanlegt á náttúru og innviði.  

Nýtt efni

Vorið 2021, stuttu áður en Play fór í loftið í fyrsta sinn, efndi félagið til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Í kjölfarið voru bréfin skráð á First North Growth í Kauphöllinni en um þann markað gilda ekki eins strangar reglur og Aðalmarkað Nasdaq. Í tengslum síðustu hlutafjáraukningu, sem lauk í apríl síðastliðnum, var …

Viðkiptastríð vesturveldanna og Kína heldur áfram að þyngjast því fyrr í dag gaf Evrópusambandið út að 38,1 prósent innflutningstollar yrðu lagðir á kínverska rafbíla frá og með næsta mánuði. Sú hækkun bætist við þann 10 prósent toll sem í dag ríkir á innflutning rafbíla frá Kína til aðildarríkja ESB. Þessi viðbótartollur hefur verið yfirvofandi síðustu …

Það var í júní 2014 sem breska lággjaldaflugfélagið Flybe, sem nú er gjaldþrota, hóf áætlunarflug til Íslands frá Birmingham. Flugleiðin stóð ekki undir væntingum stjórnenda Flyby og var lögð niður eftir níu mánuði. Þá tók Icelandair við keflinu og hélt úti tíðum ferðum milli Íslands og þessarar næstfjölmennustu borgar Bretlands fram í ársbyrjun 2018. Síðan …

Í Bandaríkjunum eru lestarsamgöngur ekki eins góðar og í Evrópu og þurfa þeir sem ætla að sækja komandi landsfundi Demókrata og Repúblikana annað hvort að keyra eða fljúga á fundarstað. Af þeim sökum hefur bandaríska flugfélagið United Airlines bætt við 118 flugferðum til og frá Chicago í ágúst í tilefni af landsfundi Demókrata. Repúblikanar hittast …

Gistináttagjald upp á 400 krónur (2,7 evrur) verður lagt á í Færeyjum frá og með október á næsta ári. Um leið verða allir þeir sem koma til eyjanna með skemmtiferðaskipum að greiða 1.300 króna gjald (9 evrur). Allar tekjur af þessari nýju gjaldtöku renna í sérstakan náttúruverndarsjóð að því segir í tilkynningu. Sá sjóður verður …

Talning á brottfararfarþegum á Keflavíkurflugvelli gefur vísbendingu um að erlendum ferðamönnum hér á landi hafi fækkað um tvö prósent í nýliðnum maí í samanburði við sama tíma í fyrra. Þróunin var hins vegar mjög ólík á milli þjóðerna. Þannig jókst straumurinn hingað frá Kanada umtalsvert á milli ára á meðan ferðamönnum frá Ísrael og Rússlandi …

Það seldust 1.259 nýir Tesla bílar á Íslandi árið 2022 og í fyrra voru þeir nærri þrefalt fleiri eða 3.471. Veltan jókst ekki í takt við söluna því tekjur bandaríska rafbílaframleiðands af hverjum nýjum bíl hér á landi drógust saman um 17 prósent samkvæmt útrekningum FF7 sem byggja á ársreikningi Tesla Motors Iceland ehf. Þetta …

Það voru 155 þúsund útlendingar sem innrituðu sig í flug frá Keflavíkurflugvelli í maí en þessi talning er notuð til að meta ferðamannastrauminn hingað til lands. Í maí í fyrra voru erlendu brottfararfarþegarnir 158 þúsund og 165 þúsund í maí 2018 þegar þeir voru flestir. Það vantaði því sex prósent fleiri farþega til að jafna …