Samfélagsmiðlar

Að móta eigin framtíð

Hverjar eru líkurnar á því að fjárfestar setji peninga í uppbyggingu ferðaþjónustu á Austurlandi? Ekkert einfalt svar er til við þessari spurningu. Margir bíða eftir einbeittari aðgerðum stjórnvalda en mjög óljóst er í hverju þær gætu falist.

Góður dagur á Seyðisfirði

„Það er í rauninni dálítið galið að við skulum líta á ferðaþjónustu sem stóra, nýja atvinnugrein, og höfum ekki skoðun á því hvað við viljum að hún verði stór. Við látum þetta bara gerast, auglýsum og hömumst við að fá fólk til landsins en veltum því ekkert fyrir okkur hvað væri passlega mikið, sagði Friðrik Pálsson, hótelrekandi á Suðurlandi, þegar hann ávarpaði Austfirðinga á málþingi á Egilsstöðum um fjárfestingar í ferðaþjónustu í síðustu viku.

Þetta er auðvitað rétt hjá Friðrik en er svo sem ekkert nýtt í sögu okkar. Við höfum áður byggt upp atvinnugreinar meira af kappi en forsjá.

Samgöngudraumsýn Austfirðinga – MYND: Austurbrú

Stærstur hluti erlendra ferðamanna lætur duga að skoða staði sem eru í þægilegri akstursfjarlægð frá Keflavíkurflugvelli eða Reykjavík. Samkvæmt tölum Ferðamálaráðs um heimsóknir erlendra ferðamanna á tímabilinu apríl 2022 til mars 2023 sést að á meðan 79 prósent heimsóttu Suðurland og nærri helmingur, eða 47 prósent, Vesturland, fór aðeins 31 prósent til Norðurlands og 28 prósent til Austurlands – einungis 12 prósent til Vestfjarða.

Heimsóknir erlendra ferðamanna. Hlutföll af heild eftir landshlutum – MYND: Ferðamálaráð

Það er nokkurn veginn hægt að draga línu frá Hvammsfirði og þvert yfir landið í suðaustur að Hornafirði eða þar um slóðir og segja að á svæðinu sem er sunnan línunnar sé þorri erlendra ferðamanna staddur á hverjum tíma – sérstaklega á veturna. Einhverjir gætu viljað hafa þetta svona – það sé bara fínt að norðanvert landið fái frið fyrir ágangi ferðamanna. Líklega segja þó fleiri að meiri dreifing væri landinu og þjóðinni fyrir bestu. 

Erlendir ferðamenn rölta eftir Austurvegi á Seyðisfirði – MYND: ÓJ

Austfirðingar (sem sumir kalla Austlendinga) væru auðvitað til í að fá meiri tekjur af ferðaþjónustu. En það eru ekki síst innviðirnir sem fylgja myndu auknum ferðamannafjölda sem margt heimafólk sér að gætu bætt líf þess – auðgað samfélögin fyrir austan. Fleiri veitinga- og kaffihús og afþreyingarmöguleikar myndu auðvitað nýtast Austfirðingum sjálfum. Það er eins og það gleymist stundum að allir eru einhvern tímann einskonar túristar – túristar eru venjulegt fólk. Við höfum flest gaman af að setjast í náttúrulaug, dást að undrum náttúrunnar, borða heilnæman og góðan mat í fallegu umhverfi, kynnast dálítið heimafólki á hverjum áfangastað, lífsbaráttu þess og sögu. Fleiri hótel, veitingahús, útsýnispallar og þjónustuhús myndu auðvitað styrkja Austurland og laða þangað fleira fólk – ekki bara ferðamenn heldur líka nýja íbúa. Það er meðal þess sem fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, Jóna Árný Þórðardóttir, nýráðinn bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hefur lagt áherslu á. 

Veitinga notið í blíðunni – MYND: ÓJ

En hverjar eru líkurnar á því að fjárfestar rífi upp veskin og setji peninga í uppbyggingu ferðaþjónustu á Austurlandi? (Þessi spurning á auðvitað allt eins við um Norðurland og Vestfirði) Eftir að hafa hlýtt á umræður á áðurnefndu málþingi fyrir austan er augljóst að ekkert einfalt svar er til við þessari spurningu. Margir bíða eftir einbeittari aðgerðum stjórnvalda til að stuðla að meiri fjárfestingu í ferðaþjónustu á landsbyggðinni en mjög óljóst er enn í hverju sú aðkoma geti falist.

Auð „Regnbogagatan“ – MYND: ÓJ

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, sagði þetta í viðtali við TÚRISTA í nóvember á síðasta ári um vinnuna í stjórnarráðinu vegna hinna svonefndu köldu svæða: 

„Við erum að vinna að aðgerðaáætlun vegna þeirra. Í fyrsta lagi skoða aðgengi að fjármagni í fjármálakerfinu, sem er ekki gott. Verið er að greina það hér í ráðuneytinu og leita skýringa stjórnenda bankanna á því hvernig standi á þessu og líka um það hvert fjárfestingar í ferðaþjónustu fari. Ferðaþjónustan úti á landi segir að meirihlutinn fari á höfuðborgarsvæðið. Við erum að skoða það.”

Líklega stendur sú skoðun enn yfir. 

Á Djúpavogi. Margt undir sama þaki í litlu þorpi – MYND: ÓJ

Flokksbróðir ferðamálaráðherrans, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sótti málþingið fyrir austan og sagði þetta í viðtali við TÚRISTA um það kappsmál Austfirðinga að fá betri flugtengingar – við Keflavíkurflugvöll og útlönd:

Sigurður Ingi ásamt aðstoðarmanni sínum – MYND: ÓJ

„Þetta ákall er mjög skiljanlegt.  Við höfum reynt að svara því með stofnun flugþróunarsjóðs 2015, byggja upp þessa tvo varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, sem um leið verða betur búnir til að taka á móti fleiri farþegum. Það verður hinsvegar dálítil áskorun að gera það. Við höfum séð það á undanförnum árum að stundum koma mjög jákvæðar fréttir en svo gufa þau tækifæri upp. Það er mikilvægt að halda áfram. Dropinn holar steininn. Kannski verður þetta alltof svona ströggl. Ég held að við verðum að viðurkenna að ef á að takast að byggja ferðaþjónustuna upp sem heilsársgrein allan hringinn þá verðum við að vera tilbúin að verja fjármunum í það – fjárfesta í greininni.”

Þar átti innviðaráðherra ekki aðeins við ríkisfjárfestingar heldur fjárfestingar einkaaðila. 

Austfirðingar vilja gjarnan efla ferðaþjónustuna og styrkja með henni þau mörgu, fámennu og dreifðu samfélög sem eru í landshlutanum. Það virðist ekki áhugi á að fá viðlíka mannfjölda og streymir Gullna hringinn eða austur í Reynisfjöru eða Jökulsárlón frá Reykjavík. Austfirðingar væru líklega sáttir við ríflegan helming af þeirri traffík. Mestur áhuginn er á því, heyrist TÚRISTA, að fá meiri umferð frá hausti og fram á vor. En hversu raunhæft er fyrir Austfirðinga að láta sig dreyma um verulega fjölgun ferðamanna á kaldasta árstímanum þegar veður geta á örskotsstund lokað leiðum og sett ferðaáætlanir úr skorðum?

MYND: Austurbrú

Augljóst er að dreifbýlið fyrir austan setur áætlunum um þetta töluverðar skorður. Íbúarnir eru aðeins rúmlega 11 þúsund á þessu tæplega 16 þúsund ferkílómetra svæði. Tvöfalt fleiri búa í Reykjanesbæ einum. Hvernig á að manna stóraukna ferðaþjónustu fyrir austan? Væntanlega yrði það gert með erlendu vinnuafli eins og annars staðar. Er til nægt húsnæði fyrir það fólk? Myndi fjöldadrifin ferðaþjónusta skila samfélögunum sjálfum arði? Verður lífið betra fyrir austan? 

Ekki er ólíklegt að helstu tækifærin á veturna fyrir austan felist í að fara með ferðafólk í skipulagðar ferðir, þar sem væri heinlega spilað inn á að gera óvissuna heillandi, breytilegt veðrið spennandi, eins og fyrirtækjaráðgjafi Arctica Finance, Hildur Sveinbjörnsdóttir, talaði um á málþinginu. 

Sænskir ferðamenn bíða rútu við N1 á Egilsstöðum – MYND: ÓJ

Auðvitað er kjarni vel heppnaðarar ferðaþjónustu gestrisni – að taka vel, hlýlega og af fagmennsku á móti fólki. Austfirskur sjarmi myndi að sjálfsögðu bræða hjörtu allra veðurbarinna vetrarferðamanna. En á meðan tekjumódel flugfélaganna og stærstu ferðaþjónustufyrirtækja landsins miðast einkum við að nýta orðspor og frægð áfangastaðanna á Suðurlandi breytist staða Austurlands ekki mikið. Eða hvað?

Það má þó segja að Austfirðingar séu enn í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að geta mótað eigin framtíð hvað varðar túrisma. Þeir geta ráðið því hvort þeir haldi heimahögunum nokkurn veginn fyrir sig sjálfa eða opni gáttirnar. Þeir geta ráðið því nokkurn veginn hversu margir koma og hversu mikið álag þeir telja ásættanlegt á náttúru og innviði.  

Nýtt efni

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …