Samfélagsmiðlar

Að móta eigin framtíð

Hverjar eru líkurnar á því að fjárfestar setji peninga í uppbyggingu ferðaþjónustu á Austurlandi? Ekkert einfalt svar er til við þessari spurningu. Margir bíða eftir einbeittari aðgerðum stjórnvalda en mjög óljóst er í hverju þær gætu falist.

Góður dagur á Seyðisfirði

„Það er í rauninni dálítið galið að við skulum líta á ferðaþjónustu sem stóra, nýja atvinnugrein, og höfum ekki skoðun á því hvað við viljum að hún verði stór. Við látum þetta bara gerast, auglýsum og hömumst við að fá fólk til landsins en veltum því ekkert fyrir okkur hvað væri passlega mikið, sagði Friðrik Pálsson, hótelrekandi á Suðurlandi, þegar hann ávarpaði Austfirðinga á málþingi á Egilsstöðum um fjárfestingar í ferðaþjónustu í síðustu viku.

Þetta er auðvitað rétt hjá Friðrik en er svo sem ekkert nýtt í sögu okkar. Við höfum áður byggt upp atvinnugreinar meira af kappi en forsjá.

Samgöngudraumsýn Austfirðinga – MYND: Austurbrú

Stærstur hluti erlendra ferðamanna lætur duga að skoða staði sem eru í þægilegri akstursfjarlægð frá Keflavíkurflugvelli eða Reykjavík. Samkvæmt tölum Ferðamálaráðs um heimsóknir erlendra ferðamanna á tímabilinu apríl 2022 til mars 2023 sést að á meðan 79 prósent heimsóttu Suðurland og nærri helmingur, eða 47 prósent, Vesturland, fór aðeins 31 prósent til Norðurlands og 28 prósent til Austurlands – einungis 12 prósent til Vestfjarða.

Heimsóknir erlendra ferðamanna. Hlutföll af heild eftir landshlutum – MYND: Ferðamálaráð

Það er nokkurn veginn hægt að draga línu frá Hvammsfirði og þvert yfir landið í suðaustur að Hornafirði eða þar um slóðir og segja að á svæðinu sem er sunnan línunnar sé þorri erlendra ferðamanna staddur á hverjum tíma – sérstaklega á veturna. Einhverjir gætu viljað hafa þetta svona – það sé bara fínt að norðanvert landið fái frið fyrir ágangi ferðamanna. Líklega segja þó fleiri að meiri dreifing væri landinu og þjóðinni fyrir bestu. 

Erlendir ferðamenn rölta eftir Austurvegi á Seyðisfirði – MYND: ÓJ

Austfirðingar (sem sumir kalla Austlendinga) væru auðvitað til í að fá meiri tekjur af ferðaþjónustu. En það eru ekki síst innviðirnir sem fylgja myndu auknum ferðamannafjölda sem margt heimafólk sér að gætu bætt líf þess – auðgað samfélögin fyrir austan. Fleiri veitinga- og kaffihús og afþreyingarmöguleikar myndu auðvitað nýtast Austfirðingum sjálfum. Það er eins og það gleymist stundum að allir eru einhvern tímann einskonar túristar – túristar eru venjulegt fólk. Við höfum flest gaman af að setjast í náttúrulaug, dást að undrum náttúrunnar, borða heilnæman og góðan mat í fallegu umhverfi, kynnast dálítið heimafólki á hverjum áfangastað, lífsbaráttu þess og sögu. Fleiri hótel, veitingahús, útsýnispallar og þjónustuhús myndu auðvitað styrkja Austurland og laða þangað fleira fólk – ekki bara ferðamenn heldur líka nýja íbúa. Það er meðal þess sem fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, Jóna Árný Þórðardóttir, nýráðinn bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hefur lagt áherslu á. 

Veitinga notið í blíðunni – MYND: ÓJ

En hverjar eru líkurnar á því að fjárfestar rífi upp veskin og setji peninga í uppbyggingu ferðaþjónustu á Austurlandi? (Þessi spurning á auðvitað allt eins við um Norðurland og Vestfirði) Eftir að hafa hlýtt á umræður á áðurnefndu málþingi fyrir austan er augljóst að ekkert einfalt svar er til við þessari spurningu. Margir bíða eftir einbeittari aðgerðum stjórnvalda til að stuðla að meiri fjárfestingu í ferðaþjónustu á landsbyggðinni en mjög óljóst er enn í hverju sú aðkoma geti falist.

Auð „Regnbogagatan“ – MYND: ÓJ

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, sagði þetta í viðtali við TÚRISTA í nóvember á síðasta ári um vinnuna í stjórnarráðinu vegna hinna svonefndu köldu svæða: 

„Við erum að vinna að aðgerðaáætlun vegna þeirra. Í fyrsta lagi skoða aðgengi að fjármagni í fjármálakerfinu, sem er ekki gott. Verið er að greina það hér í ráðuneytinu og leita skýringa stjórnenda bankanna á því hvernig standi á þessu og líka um það hvert fjárfestingar í ferðaþjónustu fari. Ferðaþjónustan úti á landi segir að meirihlutinn fari á höfuðborgarsvæðið. Við erum að skoða það.”

Líklega stendur sú skoðun enn yfir. 

Á Djúpavogi. Margt undir sama þaki í litlu þorpi – MYND: ÓJ

Flokksbróðir ferðamálaráðherrans, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sótti málþingið fyrir austan og sagði þetta í viðtali við TÚRISTA um það kappsmál Austfirðinga að fá betri flugtengingar – við Keflavíkurflugvöll og útlönd:

Sigurður Ingi ásamt aðstoðarmanni sínum – MYND: ÓJ

„Þetta ákall er mjög skiljanlegt.  Við höfum reynt að svara því með stofnun flugþróunarsjóðs 2015, byggja upp þessa tvo varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, sem um leið verða betur búnir til að taka á móti fleiri farþegum. Það verður hinsvegar dálítil áskorun að gera það. Við höfum séð það á undanförnum árum að stundum koma mjög jákvæðar fréttir en svo gufa þau tækifæri upp. Það er mikilvægt að halda áfram. Dropinn holar steininn. Kannski verður þetta alltof svona ströggl. Ég held að við verðum að viðurkenna að ef á að takast að byggja ferðaþjónustuna upp sem heilsársgrein allan hringinn þá verðum við að vera tilbúin að verja fjármunum í það – fjárfesta í greininni.”

Þar átti innviðaráðherra ekki aðeins við ríkisfjárfestingar heldur fjárfestingar einkaaðila. 

Austfirðingar vilja gjarnan efla ferðaþjónustuna og styrkja með henni þau mörgu, fámennu og dreifðu samfélög sem eru í landshlutanum. Það virðist ekki áhugi á að fá viðlíka mannfjölda og streymir Gullna hringinn eða austur í Reynisfjöru eða Jökulsárlón frá Reykjavík. Austfirðingar væru líklega sáttir við ríflegan helming af þeirri traffík. Mestur áhuginn er á því, heyrist TÚRISTA, að fá meiri umferð frá hausti og fram á vor. En hversu raunhæft er fyrir Austfirðinga að láta sig dreyma um verulega fjölgun ferðamanna á kaldasta árstímanum þegar veður geta á örskotsstund lokað leiðum og sett ferðaáætlanir úr skorðum?

MYND: Austurbrú

Augljóst er að dreifbýlið fyrir austan setur áætlunum um þetta töluverðar skorður. Íbúarnir eru aðeins rúmlega 11 þúsund á þessu tæplega 16 þúsund ferkílómetra svæði. Tvöfalt fleiri búa í Reykjanesbæ einum. Hvernig á að manna stóraukna ferðaþjónustu fyrir austan? Væntanlega yrði það gert með erlendu vinnuafli eins og annars staðar. Er til nægt húsnæði fyrir það fólk? Myndi fjöldadrifin ferðaþjónusta skila samfélögunum sjálfum arði? Verður lífið betra fyrir austan? 

Ekki er ólíklegt að helstu tækifærin á veturna fyrir austan felist í að fara með ferðafólk í skipulagðar ferðir, þar sem væri heinlega spilað inn á að gera óvissuna heillandi, breytilegt veðrið spennandi, eins og fyrirtækjaráðgjafi Arctica Finance, Hildur Sveinbjörnsdóttir, talaði um á málþinginu. 

Sænskir ferðamenn bíða rútu við N1 á Egilsstöðum – MYND: ÓJ

Auðvitað er kjarni vel heppnaðarar ferðaþjónustu gestrisni – að taka vel, hlýlega og af fagmennsku á móti fólki. Austfirskur sjarmi myndi að sjálfsögðu bræða hjörtu allra veðurbarinna vetrarferðamanna. En á meðan tekjumódel flugfélaganna og stærstu ferðaþjónustufyrirtækja landsins miðast einkum við að nýta orðspor og frægð áfangastaðanna á Suðurlandi breytist staða Austurlands ekki mikið. Eða hvað?

Það má þó segja að Austfirðingar séu enn í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að geta mótað eigin framtíð hvað varðar túrisma. Þeir geta ráðið því hvort þeir haldi heimahögunum nokkurn veginn fyrir sig sjálfa eða opni gáttirnar. Þeir geta ráðið því nokkurn veginn hversu margir koma og hversu mikið álag þeir telja ásættanlegt á náttúru og innviði.  

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …