Samfélagsmiðlar

Engin ástæða til að horfa annað

„Það er engin ástæða til að horfa til annarra staða á Íslandi varðandi miðstöð alþjóðaflugs á Íslandi,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco. Hann biðlar til fjölmiðla og almennings að gæta sín í umræðu um áhrif eldsumbrota á svæðinu. Keflavíkurflugvelli stafi ekki hætta af þeim. Kadeco hefur hraðað skipulagsvinnu til þess að geta boðið Grindvíkingum og öðrum að setjast að á Ásbrú.

Pálmi Freyr Randversson í höfuðstöðvum Kadeco í Ásbrú - MYND: ÓJ

Þegar ógnir steðja að fólki, byggð og mannvirkjum eins og með eldsumbrotunum á Reykjanesskaga þá eru eðli máls samkvæmt mörg orð látin falla – en stundum án mikillar umhugsunar, eða að byggt sé á staðreyndum og fræðilegum grunni. En í nútímasamfélagi ferðast orðin hratt um heiminn og þau geta haft áhrif – hversu vel eða illa þau eru grunduð. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, er meðal þeirra sem gætu fundið fyrir því ef villandi eða rangar upplýsingar færu á flot. Og það eru miklir hagsmunir í húfi. Pálmi Freyr Randversson er framkvæmdastjóri Kadeco.

Hafa eldsumbrotin á Reykjanesskaga og meðfylgjandi óvissa um áhrif á búsetu og mannvirki haft einhver áhrif á fyrirætlanir um þróun svæðisins í kringum Keflavíkurflugvöll og uppbyggingu þar?

„Nei, þetta hefur ekki áhrif á verkefnið. Við erum að vinna á svæðinu allt í kringum Keflavíkurflugvöll og þar hafa ekki verið eldsumbrot síðustu 3.500 árin svo vitað sé. Eina sem gæti haft áhrif á verkefnið er umfjöllun um svæðið – og hún verður fyrst til hér innanlands. Þegar við erum að reyna að halda á lofti kostum Íslands, og þá líka Keflavíkurflugvallar og svæðisins umhverfis hann, þá er ekki léttvægt hvernig um þessi mál er fjallað.“

Framtíðarsýn Kadeco um flugvallarsvæðið – MYND: Kadeco

Finnst þér talað of gáleysislega um það að eldsumbrotin á Reykjanesskaga geti haft áhrif á framtíð Keflavíkurflugvallar?

„Já, það virðist auðvelt að setja fram hugmynd eins og þá að flytja flugvöllinn. En í fyrsta lagi þá flytur maður ekki flugvöll, heldur lokar honum og notar viðkomandi svæði í annað – og byggir síðan nýjan flugvöll annars staðar. Því fylgdu auðvitað gríðarlegar afskriftir á miklum verðmætum, þeim mannvirkjum sem fyrir eru og verið er að stækka . Svo þyrfti að ráðast í nýjar og mjög miklar fjárfestingar á öðrum stað. Það er ekki léttvægt að hrinda af stað umræðu um að flytja þurfi flugvallarstarfsemi – og hugsanlega rýma fleiri sveitarfélög en Grindavík vegna hugsanlegrar náttúruvár.“

Breyta fólksflutningar frá Grindavík stöðu eða möguleikum þróunarverkefnisins? Gætu Grindvíkingar fengið húsnæði á ykkar svæði?

„Við erum að hraða skipulagsvinnu hjá okkur til þess að geta boðið Grindvíkingum og öðrum að setjast að á Ásbrú. Það eru miklir þéttingarmöguleikar í hverfinu og við erum búin að teikna upp mjög spennandi framtíðarsýn með öllu sem hverfi af þeirri stærðargráðu þarf á að halda. Innviðir eru til staðar og hægt að fara hratt af stað. Í framtíðnni munu búa 15 þúsund manns á Ásbrú og Grindvíkingar gætu vel verið hluti af því samfélagi. Breytingarnar eru helst fólgnar í því að við erum að undirbúa að geta farið hratt af stað.“

Kort sem sýnir gosvirkni á Reykjanesskaga – MYND: ÍSOR

Er þá engin ástæða í þínum huga til að efast um að heppilegasta framtíðarstaðsetning helsta alþjóðaflugvallar okkar sé á Miðnesheiði?

„Það er engin ástæða til að horfa til annarra staða á Íslandi varðandi miðstöð alþjóðaflugs á Íslandi. Þarna er flugvöllurinn, verið er að fjárfesta þar í nýjum mannvirkjum og unnið er að frekari uppbyggingu. Engar vísbendingar eru um að þarna undir verði jarðhræringar sem ógni mannvirkjum. Það eru aðrir innviðir sem gætu verið í hættu – og þeir tengjast vissulega flugvallarstarfseminni: hitaveita, rafmagnslínur og vegir. Þessa þætti þurfum við að styrkja. Það er brýnna og margfalt ódýrara að huga að því að styrkja orkuflutning og vegasambönd frekar en að flytja starfsemi alþjóðaflugvallarins.“

Það er a.m.k. fræðilega mögulegt að vegasambönd við Keflavíkurflugvöll rofni. Það myndi sannarlega draga úr gildi hans.

„Tvær vegtengingar eru við Keflavíkurflugvöll, Reykjanesbrautin og Suðurstrandarvegurinn. Báðum þeim vegum verður að halda opnum. En auðvitað er sá möguleiki fyrir hendi að vegasamband rofni. Það er aldrei neitt fullkomlega öruggt. Svo verður sífellt ljósara hversu mikilvægt er að reisa Suðurnesjalínu 2 og tryggja betur afhendingu á heitu vatni. Annars konar orkuframleiðsla gæti líka verið fýsileg svo sem vindorka eða mögulega sorporka“.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar – MYND: ÓJ

Þið hjá Kadeco, sem vinnið að þróunaráætlun svæðisins kringum Keflavíkurflugvöll, viljið auðvitað ekki að ranghugmyndir fari á flot um hugsanlega hættu sem gæti steðjað að svæðinu. Er samt ekki líklegt að fjárfestar og lánveitendur endurmeti stöðuna í ljósi eldsumbrotanna og að það geti haft áhrif, það verði erfiðara að fjarmagna verkefnið?

„Við höfum sem betur fer ekki upplifað neitt slíkt hjá fjárfestum og fyrirtækjum sem við erum nú að tala við. Auðvitað eigum við að ræða og fara á vandaðan hátt yfir allar mögulegar hættur. Við berum okkar ábyrgð gagnvart hverskonar áhættu. Það verður hinsvegar að tryggja að rétta fólkið greini stöðuna. Orðum fylgir ábyrgð. Þegar erlend ferðaþjónustufyrirtæki eru að kanna stöðuna á Íslandi þá leita þau upplýsinga í íslenskum fjölmiðlum og setja textann í Google Translate. Þá er hætta á að gripnar séu á lofti staðhæfingar frá einhverjum sem ekki er sérfræðingur.

Við þurfum öll að tala af ábyrgð. Auðvitað myndum við aldrei hvetja til uppbyggingar á svæði sem væri hættulegt. Það væri fráleitt. Flugvallarsvæðið var á sínum tíma valið af kostgæfni af Bandaríkjaher. Engar sprungur eða hraun er við flugvöllinn eða á okkar athafna- og íbúðasvæðum. Þetta er jarðsögulega miklu eldra land en svæðið þar sem eldsumbrotin hafa verið. Miðnesið (Rosmhvalanesið) hefur verið eyja þar til hraun fylltu upp svæðið á milli Hafna og Innri Njarðvíkur. Á þessu gamla bergi þarna á heiðinni var byggður flugvöllur og hann er á góðum stað.“

Lögregla við afleggjarann að Stapafelli á veginum að Höfnum 19. desember sl. – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Stærsti bílaframleiðandi heims lætur ekki haggast þó hann hafi mætt nokkru andstreymi að undanförnu. Hluthafafundur Toyota endurnýjaði traust sitt á 10 manna stjórn fyrirtækisins í dag, þar á meðal á formanninum, Akio Toyoda, sem verið hefur í forystusveit fjölskyldufyrirtækisins frá aldamótum. Hann vék úr starfi forstjóra fyrir rúmu ári og varð stjórnarformaður. Nú hefur þessi …

Hér á landi hefur fjöldi erlendra vegabréfa við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli verið helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni. Á hinum Norðurlöndunum er ekki hægt að stunda svona talningu á flugvöllum enda margir sem koma landleiðina. Gistinætur útlendinga eru því aðalmælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni hjá frændum okkar og samtals voru þær 15,3 milljónir …

Búist er við að 38 prósenta hækkun tolla á innflutta rafbíla frá Kína hægi á sókn framleiðenda þar inn á Evrópumarkað. Hins vegar verður það aðeins tímabundið. Kínverskir framleiðendur hafa þegar náð sterkri stöðu í tæknimálum og getu til að framleiða á hagkvæman hátt - þeir ráða yfir allri aðfangakeðju framleiðslu sinnar. Að auki munu …

Fyrstu helgina í júní stefndi í verkfall flugmanna Norwegian í Noregi en samningar tókust á elleftu stundu. Flugfélagið hafði áður samið við danska og spænska flugmenn en þeir norsku kröfðust hlutfallslega meiri hækkunar og vísuðu til þess að laun þeirra stæðust ekki samanburð við starfsbræður sína í Evrópu vegna þess hve veik norska krónan er. …

„Það umfangsmikið verkefni að opna nýja álmu við flugstöð. Byggingin þarf að uppfylla fjölmargar kröfur yfirvalda , m.a. um innréttingar, eldvarnir, umhverfiskröfur og vinnuaðstæður. Það þarf líka að setja upp flókinn tækjabúnað, sem þarnast sérhæfðrar þekkingar og margra stunda þjálfun ef hann á að skila sínu hlutverki. Það gildir um nýjan öryggisbúnað flugvallarins," segir í …

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai veðjar á fjórða stærsta bílamarkað heims, Indland. Stærstu markaðirnir eru Kína, Bandaríkin og Japan - en Indlandsmarkaður vex hratt og mikil sala er í litlum og sparneytnum gerðum bíla. Á síðasta ári keypti dótturfélag Hyundai á Indlandi verksmiðjur General Motors í Maharashtra í vestanverðu landinu með það fyrir augum að auka framleiðslu …

Icelandair sagði 82 starfsmönnum upp fyrir síðustu mánaðamót en þær uppsagnir náðu ekki til áhafna flugfélagsins. Nú er hins vegar komið að þeim hópi því fyrir helgi fengu 57 flugmenn uppsagnarbréf og eins voru 26 flugstjórar færðir í stöðu flugmanna. Við þá breytingu lækka laun viðkomandi um fimmtung samkvæmt því sem FF7 kemst næst.  Flugmönnum …