Í Noregi mætir hækkun farþegagjalda mikilli andstöðu og sambærileg gjaldtaka hér á landi gæti því haft afleiðingar á framboð á flugi. Í Noregi mætir hækkun farþegagjalda mikilli andstöðu og sambærileg gjaldtaka hér á landi gæti því haft afleiðingar á framboð á flugi.
Hækkun komugjalda á flugfarþega er ein þeirra leiða sem reglulega er rædd til að auka tekjur ríkisins af ferðamönnum. Fyrr í þessum mánuði lagði til að mynda Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár og fyrrum stjórnarfomaður Íslandsstofu, til að allir ferðamenn sem koma til landsins myndu greiða sérstaklega þrjú til fimm þúsund króna framlag í sérstakan sjóð. Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, var á sömu línu í aðsendri grein í Morgunblaðinu og í frétt blaðsins í síðustu viku kom fram að 5000 króna gjald á erlenda ferðamenn hefði getað skilað um 6,5 milljörðum á síðasta ári. Bandaríska vegabréfaskráningin ESTA var nefnd sem fyrirmynd að þessu nýja íslenska gjaldi. Þess ber þó að geta að ESTA gjaldið er nærri þrefalt lægra eða um 1800 krónur (14 dollarar). Það er því ólíku saman að jafna.
Tugprósenta hækkun á lægstu fargjöldum
Átján erlend flugfélög munu bjóða upp á reglulegt áætlunarflug til Íslands í sumar og hafa þau aldrei verið jafn mörg. Farþegar þeirra eru í langflestum tilfellum erlendir ferðamenn á meðan stór hluti farþega Icelandair og WOW air eru skiptifarþegar sem aðeins millilenda á Keflavíkurflugvelli. Nýtt gjald upp á nokkur þúsund krónur myndi því hafa veruleg áhrif á farmiðaverð erlendu flugfélaganna og sem dæmi má nefna þá kosta ódýrustu miðarnir hjá sumum þeirra til Íslands innan við tíu þúsund krónur. Lægstu fargjöldin myndu þá hækka um tugi prósenta ef hugmyndir um 3 til 5 þúsund króna aukagjald á flugfarþega yrðu ofan á.
Hefði eyðileggjandi áhrif
„Svona gjaldtaka gæti haft eyðileggjandi áhrif á íslenska ferðaþjónustu og almennt leitt til þess að framboð á flugi til landsins dragist saman. Þetta gæti því líka haft áhrif á framboð okkar en við bíðum og sjáum hvernig þessi umræða endar,” segir Anna Nielsen, upplýsingafulltrúi SAS, aðspurð um áhrif þess að leggja á komugjöld lík þeim sem rædd hafa verið síðustu vikur. SAS verður næst umsvifamesta erlenda flugfélagið hér á landi í ár og hefur til að mynda daglegt flug hingað frá Kaupmannahöfn nú í mars. Breska lággjaldaflugfélagið easyJet hefur síðustu fjögur ár verið stórtækt í Íslandsflugi og m.a. haft á boðstólum farmiða, til og frá landinu, sem kosta innan við þrjú þúsund krónur. Hið nýja komu- eða náttúrugjald myndi þá í sumum tilvikum vera hærra en tilboðsverð félagsins. „Reykjavík er ört vaxandi áfangastaður fyrir easyJet og við vinnum náið með ferðamálayfirvöldum á Íslandi. Við myndum fara í gegnum allar tillögur sem myndu hugsanlega hafa áhrif á farþega okkar eða starfsemi,” segir Andy Cockburn, talsmaður easyJet, um hugmyndir um nýtt farþegagjald hér á landi. Túristi leitaði viðbragða hjá nokkrum öðrum erlendum flugfélögum en talsmenn þeirra sögðust ekki vilja tjá sig um málið að svo stöddu.
Umdeild leið í Noregi
Í fjárlögum norska ríkisins í ár er reiknað með tekjum upp á rúman milljarð norskra króna vegna nýs farþegaskatts sem byrja á að innheimta þann 1. apríl nk. Gjaldið nemur 80 norskum krónum en ofan á það bætist svo virðisaukaskattur upp á tíund og heildargjaldið verður þar af leiðandi 88 norskar sem samsvarar um 1.300 íslenskum krónum. Forsvarsmenn stærstu flugfélaganna þar í landi hafa mótmælt hækkun gjalda og boðað að flugleiðir sem ekki eru nægjanlega ábatasamar verði lagðar niður. Forsvarsmenn Avinor, sem sér um rekstur flugvalla í eigu norska ríkisins, telja að gjaldið gæti orðið til þess að flugfélög í Skandinavíu flytji hluti af starfsemi sinni til nágrannalandanna þar sem gjöldin eru lægri. Alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, hafa í umsögn sinni um komugjöldin sagt þau stríða gegn alþjóðlegum samþykktum og ferðamálasamtök Noregs hafa einnig mótmælt þeim. Gjöldin eru líka talin hafa mikil áhrif á áætlanir lággjaldaflugfélaga til Noregs og til að mynda hefur forstjóri Rygge flugvallar, í útjaðri Ósló, sagt að gjaldið gæti gert út af við rekstur flugvallarins þar sem lággjaldaflugfélög standa undir bróðurparti flugumferðarinnar. Nýir farþegaskatturinn í Noregi mætir s.s. mikilli andstöðu í flug- og ferðageiranum en hann er þó nokkru lægri en það gjald sem lagt hefur verið til að sett verði á hér á landi.
Hófstillt gistináttagjald
Líkt og Túristi greindi frá í síðustu helgi á er gistináttaskatturinn hér á landi lágur í samanburði við það sem þekkist víða annar staðar. Hækkun á skattinum gæti hins vegar dregið úr eftirspurn eftir Íslandsferðum því gistingin yrði dýrari. Kosturinn við gistináttaskattinn er hins vegar sá að þá borga þeir mest sem dvelja á lengst á landinu en með komugjöldum myndi farþegi á leið hingað í helgarferð borga jafn mikið og sá sem ferðast um Ísland í þrjár vikur. Komugjöld myndu einnig verða til þess að farmiðar almennt myndu hækka og það kæmi líka niður á íslenskum farþegum.