Síðustu ár hefur easyJet gert hlé á áætlunarferðum sínum hingað frá svissnesku borginni Basel frá nóvember og fram í febrúar. Á því hefur verið gerð breyting því flugfélagið hefur nú á boðstólum tvær ferðir í viku hverri milli Keflavíkurflugvallar og Basel í allan vetur. Þar með opnast tækifæri fyrir þá sem vilja heimsækja svissnesku borgina í vetur eða nýta flugið til að koma sér yfir á skíðasvæðin sem finna má í 2 til 3 klukkutíma akstursfjarlægð frá borginni. Þeirra þekktast er sennilega Engelberg sem nýtur til að mynda mikilla vinsælda meðal sænskra skíðakappa.
Farmiðarnir með easyJet frá Íslandi til Basel í vetur eru í mörgum tilfellum mjög ódýrir og til að mynda er hægt að fljúga út föstudaginn 18. janúar og heim aftur á mánudeginum fyrir rétt um 6.700 krónur. Hins vegar kostar 10.800 krónur að taka með sér skíði í flugið og það er vissulega sérkennileg staða þegar borga þarf meira fyrir farangur en farþega.
Þegar easyJet hóf Íslandsflug frá Sviss fyrir fjórum árum síðan þá flaug félagið hingað heilan vetur frá bæði Basel og Genf. Það hafði veruleg áhrif á straum svissneskra ferðamanna hingað til lands því fjöldi þeirra þrefaldaðist fyrsta veturinn eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan. Þrátt fyrir það breytti easyJet áætlun sinni og nú takmarkast Genfarflugið við vor, sumar og haust og ekkert flug hefur verið í boði frá Basel yfir háveturinn þar til núna.
Á móti kemur að Icelandair flýgur nú allt árið til Zurich og verða ferðirnar félagsins til fjölmennustu borgar Sviss þrjár í viku í vetur. Það er því útlit fyrir að samgöngurnar milli Íslands og Sviss verði óvenju góðar næstkomandi vetur en kannanir hafa sýnt að Svisslendingar eru oftar en ekki sú þjóð sem greiðir mest með kreditkortum sínum hér á landi.