Um átta af hverjum tíu erlendu ferðamönnum sem hingað koma greiða fyrir heimsókn í sund, náttúrulaug eða spa. Engin önnur afþreying nýtur álíka vinsælda hjá ferðafólkinu samkvæmt niðurstöðum landamærakönnunar Ferðamálastofu sem kynnt var í byrjun þessa mánaðar. Gera má ráð fyrir að þetta háa hlutfall skrifist að töluverðu leyti á Bláa lónið sem lengi hefur verið einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Í fyrra tóku starfsmenn lónsins á móti 1,3 milljónum gesta en til samanburðar flugu um 2,2 milljónir erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli á síðasta ári.
Aðgangur í Bláa lónið sjálft stendur undir um sextíu prósent af tekjum fyrirtækisins og hefur það hlutfall verið nokkuð jafnt síðustu ár samkvæmt ársskýrslum fyrirtækisins. Í fyrra námu tekjurnar af þessum lið um 7,5 milljörðum sem er viðbót rúman 1,5 milljarð frá árinu á undan. Hlutfallslega nam aukningin 27 prósentum, í krónum talið, sem er álíka viðbót og varð í fjölda erlendra ferðamanna. Þessar tvær stærðir fylgjast þó ekki alltaf en báðar eiga það þó sameiginlegt að hafa hækkað umtalsvert síðustu ár.
Tækifæri í breiðara vöruframboði
Það sem af er þessu ári hefur fjöldi ferðamanna hins vegar staðið í stað og spár gera ráð fyrir litlum vexti í ár. Aðspurður hvort þessi þróun verði til þess að tekjur Bláa lónsins standi í stað í ár þá segir Grímur Sæmundsen, forstjóri, að hjá fyrirtækinu hafi verið markvisst unnið að því að hækka tekjur af hverjum gesti frekar en að fjölga þeim. „Við erum því í sjálfu sér ekki að gera ráð fyrir auknum fjölda gesta heldur munum við þróa vöruframboð t.a.m. með því að tvinna saman ólíka þjónustuþætti, vörur og upplifun gesta. Hér er ég að vísa til upplifunarsvæða okkar, veitingasstaða, hótela og húðvara. Þá höfum við nýverið stofnað fyrirtæki sem býður uppá áætlunarferðir í Bláa Lónið sem fer vel af stað. Vöruframboð okkar hefur þannig breikkað nokkuð á síðustu mánuðum og í því felast fjölmörg tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar,“ segir Grímur.
Styrkja beint samband við viðskiptavini
Aukin umsvif erlendra bókunarfyrirtækja innan ferðaþjónustunnar hafa verið þónokkuð til umræðu síðustu misseri. Ekki aðeins vegna hinnar háu söluþóknunar sem þau krefjast heldur einnig áhrifanna sem þau geta haft á ferðahegðun fólks. Á þessu hefur Grímur meðal annars vakið máls á og hvatt forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja til sóknar í hinum stafræna heimi sem hefur eflst umtalsvert síðustu ár. En hafa aðgerðir Bláa lónsins sjálfs, til að draga úr þóknunum til endursöluaðila, skilað árangri? „Áhrifin af þessum breytingum eiga eftir að koma betur í ljós þegar líða tekur á árið en fyrstu tölur benda til þess að við séum að ná markmiðum okkar með þessum aðgerðum. Við erum að vinna markvisst að því að þróa stafrænar dreifileiðir Bláa Lónsins og styrkja þannig beint samband okkar og viðskiptavinanna, en við erum þegar í beinu sambandi við flesta okkar gesti þar sem þeir bóka miða í Bláa Lónið með góðum fyrirvara. Í þessu felast tækifæri og vöruframboð okkar mun klárlega taka mið af því á næstu misserum,” segir Grímur.
Bláa lónið skilaði 3,7 milljarða króna hagnaði á síðasta ári samkvæmt ársskýrslu fyrirtækisins sem birt var fyrir helgi. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að síðasta ár hafi verið ár uppbyggingar og breytinga. Er þar vísað til umbóta á baðsvæði lónsins, stækkunar skrifstofuhúsnæðis og mötuneytis starfsmanna og eins var lokahnykkurinn settur á byggingaframkvæmdir á nýju hóteli og upplifunarsvæði; The Retreat at Blue Lagoon Iceland.