Það stefnir í að nokkru fleiri Svíar ætli að halda sig heima í sumar því sala á sólarlandaferðum fer hægt af stað. Eru ferðafrömuðir sammála um hitibylgjan, sem gekk yfir Svíþjóð síðastliðið sumar, dragi úr áhuga margra þar í landi á ferðalögum suður á bóginn. Hin veika sænska króna gerir það líka að verkum að í dag er það dýrara fyrir Svía að halda sér uppi á erlendri grundu og þannig ástand dregur alla jafna úr ferðagleðinni.
Sænska krónan hefur til að mynda misst fjórtán prósent af virði sínu gagnvart bandarískum dollara síðastliðið ár og veikingin nemur um fjórum af hundraði í evrum talið. Dæmið lítur hins vegar betur út fyrir Svía þegar kemur að ferðalögum til Brasilíu, Tyrklands, Suður-Afríku, Úkraínu og Íslands samkvæmt samantekt fjármálafyrirtækisins Avanza.Sænska krónan hefur nefnilega styrkst gagnvart gjaldmiðlum þessara landa frá því í fyrra. Þannig er sænska krónan fjórum prósentum verðmeiri á Íslandi í dag en hún var á sama tíma á síðasta ári en eins og gefur að skilja er ekki tekið tillit til verðbólgu í þessum útreikningum.
Fyrstu tvo mánuði ársins fækkaði brottförum Svía frá Keflavíkurflugvelli um tíund og er það í takt við fækkun síðustu tveggja ára. Þrátt fyrir það þá ætlar skandinavíska flugfélagið SAS að bjóða upp á beint flug til Íslands frá Arlanda í Stokkhólmi yfir hásumarið í ár. Og þá í samkeppni við bæði Icelandair og WOW.