Samfélagsmiðlar

easyJet sker niður Íslandsflug

Minnkandi eftirspurn eftir Íslandsferðum skrifast á hátt verðlag að mati stjórnenda easyJet sem hafa dregið úr flugi til Keflavíkurflugvallar þrátt fyrir gjaldþrot WOW air. Á móti kemur að bæði British Airways og Wizz Air munu fjölga ferðum hingað frá London í vetur.

Um borð í þotu easyJet.

Það var í mars árið 2012 sem breska lággjaldaflugfélagið easyJet hóf að fljúga til Íslands. Fyrst frá Luton, nærri London, en fljótlega bættust við ferðir frá fleiri breskum flugvöllum og eins frá svissnesku borgunum Basel og Genf. Með þessu stóraukna framboði á Íslandsflugi, á vegum stærsta lággjaldaflugfélags Bretlands, þá fjölgaði bresku ferðafólki hér á landi hratt og ferðamynstrið breyttist umtalsvert. Bretar sækja nú miklu frekar í vetrardvöl og til að mynda komu hingað fleiri Bretar í febrúar í fyrra en samanlagt yfir sumarmánuðina þrjá.

Undanfarið hefur easyJet hins vegar verið að draga úr flugi til Keflavíkurflugvelli og sú þróun mun halda áfram jafnvel þó WOW air sé nú farið af markaðnum. „Við höfum dregið úr framboði vegna minnkandi eftirspurnar sem skrifast á hækkandi verðlag á Íslandi,“ segir Andy Cockburn, talsmaður easyJet, um ástæður samdráttarins sem sjá má í núverandi flugáætlun félagsins. Hann bætir því við að Ísland sé enn vinsæll áfangastaður hjá viðskiptavinunum easyJet en félagið einbeiti sér að flugleiðum þar sem eftirspurnin er mest.

Til marks um samdráttinn sem nú verður hjá easyJet þá fækkar áætlunarferðum félagsins í janúar um 17 prósent og um tíund í febrúar samkvæmt talningu Túrista. Samtals rétt rúmlega fimmtíu ferðir samtals þessa tvo mánuði. Munar mestu um að félagið ætlar ekki að fljúga hingað frá London Stansted og til viðbótar er ekki hægt að bóka neitt flug til Íslands í vetur með easyJet frá Basel eða Genf.  Þær flugleiðir bætast þó stundum við leiðakerfi easyJet með litlum fyrirvara eins og Túristi hefur greint frá í gegnum tíðina.

Það sem vegur upp á móti niðurskurðinum í Bretlandsflugi easyJet og brotthvarfi WOW air eru tíðari ferðir frá London á vegum Wizz Air og British Airways. Þotur þess fyrrnefnda munu fljúga daglega hingað frá Luton flugvelli en áform um svo tíðar ferðir gengu ekki eftir í fyrra þar sem afkoma af flugleiðinni var ekki nægjanlega góð. Stjórnendur British Airways sjá einnig tækifæri í auknu flugi hingað miðað við þann fjölda ferða sem nú er hægt að bóka á heimasíðu félagsins til Íslands frá bæði Heathrow og London City flugvelli. En eins og fram hefur komið í viðtölum Túrista við forsvarsmenn British Airways þá hafa tengifarþegar frá Asíu verið stór hluti af þeim sem nýtt hafa sér Íslandsflug félagsins og flóra farþega um borð því líklega fjölbreyttari en í ferðum easyJet og Wizz air til Íslands.

Síðustu tvo vetur hefur easyJet verið umsvifameira í Lundúnarflugi en Icelandair þegar litið er til fjölda ferða. Samdrátturinn hjá breska félaginu verður hins vegar til þess að Icelandair er ný það flugfélag sem er með flestar ferðir héðan til London. Núverandi flugáætlun félagsins gerir hins vegar ekki ráð fyrir fleiri ferðum en í fyrra enda eru öll lendingaleyfi uppseld á Heathrow og lítið hægt að bæta í á Gatwick flugvelli. Til marks um það þá gat WOW air komið lendingaleyfum sínum á Gatwick í verð til að bæta fjárhagsstöðu sína. Það ber líka að hafa í huga að íslensku flugfélögin hafa verið með mjög hátt hlutfall tengifarþega um borð á meðan nær eingöngu ferðamenn á leið til Íslands sitja í vélum erlendu flugfélaganna.

Þess má geta að tvær breskar ferðaskrifstofur, Jet2holidays og Thomson, bjóða upp á vetrarferðir til Íslands og lenda þotur félaganna á Keflavíkurflugvelli í viku hverri yfir háveturinn. Því til viðbótar heldur Akureyrarflug bresku ferðaskrifstofunnar Super Break áfram í vetur.

Nýtt efni

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og ríkisstjórn hans með Janet Yellen, fjármálaráðherra, fremsta í flokki, hafa nú kynnt fyrstu opinberu leiðbeiningarnar fyrir markað með kolefniseiningar þar í landi. Leiðbeininginum er ætlað auka líkurnar á því að kolefniseiningar sem ganga kaupum og sölum séu af nægilegum gæðum og að verkefnin sem liggi þeim til grundvallar skili raunverulegum árangri, …

„Fyrir þessa aðgerð voru rúmlega 800 manns í störfum sem ekki eru flugtengd og uppsagnirnar náðu eingöngu til þeirra," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, en fyrirtækið samdi í dag um starfslok 82 starfsmanna. Uppsagnirnar náðu ekki til áhafna líkt og FF7 hafði áður greint frá. „Eins og við höfum sagt þá var árið …

Ráðuneyti viðskipta og sjávarútvegsmála í Noregi kynnti fyrir tveimur árum drög að frumvarpi um að þarlendir kjarasamningar og reglur um aðbúnað næðu líka til áhafna erlendra skipa sem færu um norska lögsögu. Litið yrði svo á að um leið og erlent skip færi inn fyrir norska lögsögu giltu um það sömu reglur og alla innlenda …

Fjárfestar lögðu Play til 4,6 milljarða króna í hlutafjárútboði félagsins sem lauk þann 11. apríl síðastliðinn. Í kjölfarið urðu töluverðar breytingar á hópi stærstu hluthafa félagsins. Nú er lífeyrissjóðurinn Birta stærsti einstaki hluthafinn en samanlagt fara sjóðir á vegum Íslandssjóða fyrir enn stærri hlut. Meðal nýrra stórra hluthafa er félag í eigu Einars Sveinssonar og …

Icelandair sagði í dag upp 82 starfsmönnum en um er að ræða starfsfólk úr ýmsum deildum á skrifstofum og starfsstöðvum félagsins. Í tilkynningu er bent á að Icelandair hafi á árunum 2021 til 2023 ráðið og þjálfað um 2.500 starfsmenn og góður árangur hafi náðst við að byggja félagið hratt upp eftir heimsfaraldurinn. Nú er …

Miklar breytingar eru við sjóndeildarhringinn í grænlenskri ferðaþjónustu. Ný flugstöð verður tekin í notkun í Nuuk 28. nóvember. Síðan er ráðgert að ljúka framkvæmdum við nýjar flugstöðvar í Ilulissat og Qaqortoq á Suður-Grænlandi fyrir lok ársins 2026. Nú sinna Air Greenland og Icelandair Grænlandsflugi en færi ættu að skapast til að laða að fleiri flugfélög. …

Þýski Volkswagen ætlar ekki að játa sig sigraðan í baráttunni um markaðinn fyrir ódýrar gerðir rafbíla, þar sem kínverskir framleiðendur hafa náð góðri fótfestu og boða enn frekari landvinninga. Fyrr í mánuðinum runnu út í sandinn viðræður fornu fjendanna Volkswagen og franska Renault um að standa sameiginlega að þróun og smíði nýs rafknúins alþýðubíls til …

Þegar landamæri opnuðu á ný eftir heimsfaraldurinn fylltust þoturnar og flugfélögin gátu hækkað farmiðaverðið það mikið að mörg þeirra skiluðu í fyrra meiri hagnaði en oft áður. Hækkandi tekjur af hverju flugsæti náðu þannig að vega upp á móti háu olíuverði, hækkandi launakostnaði og aukinni verðbólgu. Núna eru hins vegar vísbendingar um að hinni uppsöfnuðu …