Samfélagsmiðlar

Breski ferðarisinn bíður átekta með Íslandsferðir

Hingað koma allt að fimmtán þúsund ferðamenn hvern vetur á vegum TUI ferðaskrifstofunnar í Bretlandi. Þrátt fyrir ástandið þá er ennþá haldið í vonina um að hluti af vetrarprógramminu verði að veruleika segir framkvæmdastjóri Snæland Grímsson.

„Það líta margir á okkur sem rútufyrirtæki en við erum í raun ferðaskrifstofa með eigin rútur,“ segir Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri Snæland Grímsson. Fyrirtækið heldur utan um Íslandsreisur farþeganna sem hingað koma á vegum TUI í Bretlandi.

„Þessar ferðir eru seldar með allt að eins árs fyrirvara og sala fyrir þennan vetur fór vel af stað þó svo að Covid hafi að sjálfsögðu sett strik í reikninginn. Lengi vel voru allir vongóðir um að faraldurinn yrði genginn yfir þegar komið yrði að fyrstu brottförunum núna í nóvember. Svo þegar á leið varð ljóst að það gengi ekki eftir. Þá voru brottfarirnar í nóvember felldar niður og sú fyrsta færð yfir til 2. desember. Núna eru líkurnar á það gangi eftir að verða minni með hverjum degi sem líður. Enda þarf að fara í skimun og sóttkví við komuna bæði hér á landi og í Bretlandi,“ segir Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri Snæland Grímsson, sem skipuleggur Íslandsdvöl bresku ferðamannanna frá a til ö.

Og hópurinn er stór því að jafnaði koma á bilinu fjórtan til fimmtán þúsund Bretar með TUI hvern vetur. Samstarfið við bresku ferðaskrifstofuna er því ekki aðeins mikilvægt fyrir Snæland Grímsson heldur líka fjölda annarra ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi. „Það eru fáir aðilar eins og TUI sem geta og hafa möguleika á því að koma með þennan mikla fjölda ferðamanna til landsins í skipulagðar ferðir yfir vetrartímann,“ bætir Hallgrímur við.

Norðurljósin aðal aðdráttaraflið

Hann segir að fyrstu samskipti Snæland Grímsson við TUI í Bretlandi megi rekja átta ár aftur tímann en fyrstu farþegarnir komu þó ekki fyrr en í janúar 2015. „Þá fór fyrsta leiguflugsserían í gang með tvö flug í viku frá janúar og fram í mars. Flogið frá tveimur breskum flugvöllum og eftirspurnin fór fram úr björtustu vonum,“ segir Hallgrímur. 

Ferðir TUI hafa verið þriggja og fjögurra nátta reisur með gistingu á mismunandi hótelum í Reykjavik og svo er boðið upp á dagsferðir á helstu ferðamannastaði. Til viðbótar eru norðurljósaferðir á kvöldin en þau eru eitt aðal aðdráttaraflið í þessum ferðum að sögn Hallgríms.

Áhuginn bundinn við vetrarferðir

Í ljósi þess hve eftirspurnin var mikil eftir vetrarferðunum hingað þá fjölgaði TUI brottförunum og fyrsta ferð þá farin strax í nóvember. „Framboðið hefur svo verið meira og minna óbreytt síðustu ár þó við höfum fundið fyrir dræmari sölu síðustu tvö ár þar sem hátt gengi krónunar hefur hækkað verðlagið á þessum ferðum í Bretlandi,“ segir Hallgrímur.

Hann hefur ekki trú á því að TUI horfi í staðinn til ferða hingað næsta sumar ef vetrardagskráin gengur ekki eftir. „Áhugi Breta á Íslandi virðist nefnilega að mestu vera bundinn við veturinn. Yfir sumarmánuðina þá hefur TUI í nógu að snúast að koma Bretum í sólina á Spáni og annars staðar við Miðjarðarhafið.“

Þrátt fyrir Covid-19 þá segist Hallgrímur þó handviss um að þegar faraldurinn er yfirstaðinn þá verði ferðaþjónustan fljót að taka við sér. „En til þess að það geti orðið þarf að passa að fyrirtækin og innviðirnir séu tilbúnir.“

Án stuðnings væri staðan ennþá verri

Spurður um stöðuna hjá Snæland Grímsson í dag þá segir Hallgrímur hana grafalvarlega. „Fyrirtækið hefur verið nánast tekjulaust síðan í apríl og þó það hafi opnast smá gluggi í sumar þá var það bara brot af því sem við er erum vön. Við höfum dregið saman seglin eins og hægt er og bíðum eftir því að Covid fárinu linni.“

Snæland Grímsson hefur nýtt sér öll þau úrræði sem stjórnvöld hafa boðið fyrirtækjum vegna ástandsins. „Án þess þá væri staðan enn verri. Við bindum vonir við að stjórnvöld komi með stuðning til handa ferðaþjónstufyrirtækjunum svo þau þreyi veturinn og geti haldið uppi lágmarksstarfsemi. Það væri mjög alvarlegt fyrir ferðaþjónustuna að missa frá sér lylkil starfsfólk og mannauðinn. Þetta er mjög viðkvæm atvinnugrein sem byggir á gagnkvæmu trausti á milli viðskiptaaðila auk þess sem við erum að vinna með og skipuleggja ferðir langt fram í tímann. Ef við náum ekki að viðhalda sambandinu við viðskiptavini okkar þá getur tekið langan tíma að koma hlutunum í samt lag aftur. Ef það er yfirleitt hægt,“ segir Hallgrímur að lokum.

Nýtt efni

Stjórnendur rafbílaframleiðandans Tesla leita nú leiða til að draga úr kostnaði og horfa þeir til þess að segja upp 14 þúsund starfsmönnum eða um 10 prósent af vinnuaflinu. Þetta kemur fram í tölvupósti sem forstjóri félagsins, Elon Musk, sendi til starfsfólks samkvæmt frétt sem fagritið Electrek birti í morgun. „Ég hata ekkert meira en þetta …

Stefnt er að því að á hótelinu verði veitingastaður, ráðstefnu- og veislusalur ásamt heilsulind. Síðan er ætlunin að stækka Skógarböðin og tengja þau hótelinu.  Samkvæmt fréttatilkynningu er um að ræða fimm milljarða króna fjárfestingu. Áætlað er að hótelið verði opnað eftir tvö ár, vorið 2026.  „Þetta er virkilega spennandi verkefni sem við hjá Íslandshótelum hlökkum …

Hver hlutur í Icelandair kostaði fyrir opnun Kauphallarinnar í morgun 1 krónu og fjóra aura. Verðið hefur ekki verið svona lágt síðan í nóvember árið 2020 en þá hafði félagið nýverið efnt til hlutafjárútboðs þar sem sölugengið var 1 króna á hlut. Í dag er markaðsvirði Icelandair 43 milljarðar króna og hefur það lækkað um …

Stafræna byltingin gerði fjarvinnu auðveldari og heimsfaraldurinn festi það vinnufyrirkomulag í sessi. Stór og vaxandi hópur fólks nýtir sér þá möguleika sem felast í þessu frelsi - að geta unnið verk sín eiginlega hvar sem er í heiminum, skila unnum verkum af sér án þess að mæta á tiltekinn stað á tilgreindum tíma. Áætlað er …

Sigurð Örn Ágústsson, fyrrum forstjóri Bláfugls, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Play. Um er að ræða nýtt svið innan flugfélagsins og verður Sigurður Örn hluti af framkvæmdastjórn flugfélagsins sem nú telur átta manns, einum fleiri en í yfirstjórn Icelandair. Í tilkynningu segir að Sigurður Örn muni hafa það hlutverk að leiða frekari þróun þvert …

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …