Samfélagsmiðlar

Gray Line hætt í Samtökum ferðaþjónustunnar

Stjórnendur Gray Line óskuðu eftir fjárhagslegum stuðningi SAF í deilu fyrirtækisins við Isavia. Því var hafnað þar sem hagsmunir félagsmanna af málinu voru ólíkir að sögn framkvæmdastjóra samtakanna.

airportexpress

„Niðurstaðan varð sú að stæðisgjöld hópferðabíla voru lækkuð á bilinu 50 til 63 prósent frá upphaflegri gjaldskrá,” segir stjórnarformaður Gray Line um mál fyrirtækins gegn gjaldtöku Isavia.

Eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, hópbifreiðafyrirtækið Allrahanda Gray Line, hefur sagt skilið við Samtök ferðaþjónustunnar (SAF). Þetta staðfestir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður fyrirtækisins og fyrrum varaformaður samtakanna, í svari við fyrirspurn Túrista.

Hann segir úrsögnina hafa verið þungbæra ákvörðun en það sem gerði útslagið var ákvörðun stjórnar SAF að hafna því að taka þátt í baráttu fyrirtækisins gegn „gjaldtökuokri” Isavia.

„Stjórn SAF taldi sig ekki beinan aðila að þessari baráttu þó svo að hún varðaði í raun hagsmuni allra félagsmanna samtakanna,” segir Þórir. Vísar hann til þess að þann 1. mars 2018 hóf Isavia að innheimta bílastæðagjöld á svokölluðum fjarstæðum við Leifsstöð. Upphaflega var ætlunin að rukka allt að 19.900 krónur á hverja klukkustund sem var fáranlega hátt verð segir Þórir. Gray Line kærði því gjaldtökuna til Samkeppniseftirlitsins.

„Sú stofnun brást fljótt við og bannaði gjaldtökuna til bráðabirgða. Í framhaldinu lækkaði Isavia gjaldið. Næstu misseri áttu lögmenn okkar í miklum samskiptum við Samkeppniseftirlitið til að fylgja málinu eftir. Niðurstaðan varð sú að stæðisgjöld hópferðabíla voru lækkuð á bilinu 50 til 63 prósent frá upphaflegri gjaldskrá. Enn þurfti þó að tryggja varanlega lausn og með þrýstingi frá okkur setti Samkeppniseftirlitið í júlí síðastliðnum ákveðin skilyrði fyrir útreikningi gjalda Isavia til framtíðar,” rekur Þórir. 

Hann segir ferlið hafa staðið yfir í rúm tvö ár og verið tímafrekt. Við bætist svo lögfræði- og ráðgjafakostnaður upp á milljónir króna og því óskuðu stjórnendur fyrirtækisins eftir fjárhagslegri þátttöku SAF upp á tvær milljónir króna. 

Þeirri beiðni var hafnað og í svari til Túrista bendir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, á að bæði Gray line og Isavia hafi á þessum tíma verið aðilar að samtökunum. Til viðbótar hafi nokkur önnur hópferðafyrirtæki haft ólíka hagsmuni af niðurstöðu málsins segir Jóhannes.

Í því samhengi má rifja upp a sumarið 2017 buðu Kynnisferðir og Hópbílar hæst í einkarétt á rútustæðunum sem eru næst Leifsstöð. Aðstöðuna nota fyrirtækin fyrir sætaferðir til Reyjavíkur. Gray Line býður einnig upp á þess háttar ferðir en þó frá fjarstæðunum sem eru lengra frá komusal flugstöðvarinnar.

Kynnisferðir og Hópbílar eru bæði hluti af SAF og framkvæmdastjóri þess fyrrnefnda er stjórnarmaður í samtökunum.

„Í raun má segja að fjórar ólíkar skoðanir og hagsmunir hafi verið uppi meðal félagsmanna gagnvart málinu. Það gefur auga leið að það er ekki einfalt fyrir samtök eins og SAF að draga taum eins félagsmanns umfram aðra í slíkri deilu,” bætir Jóhannes Þór við. Hann segist gera sér vonir um að Allrahanda Gray line verði sem fyrst hluti af samtökunum á ný. „Mikilvægi samtakamáttar ferðaþjónustufyrirtækja er meiri nú en nokkru sinni fyrr.“

Nýtt efni

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …

MYND: ÓJ

Kínverskir ferðamenn hafa verið töluvert áberandi í Reykjavík og víðar um land í vor. Auðvitað er fólk af kínverskum uppruna búsett um allan heim og eitthvað af því fer í Íslandsferðir en þeim hefur snarfjölgað sem koma hingað alla leið frá Alþýðulýðveldinu Kína. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli komu hingað í marsmánuði 8.642 Kínverjar og …

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …