Samfélagsmiðlar

Vill búa grænlenska ferðaþjónustu undir hraðari vöxt

Nýr framkvæmdastjóri ferðamálaráðs Grænlands er Hjörtur Smárason. Hann hefur síðustu ár unnið víða að ímyndarmálum, krísustjórnun og ferðaþjónustu, til að mynda í Zimbabwe, Íran og Armeníu. Þann 1. apríl sl. flutti Hjörtur til Nuuk.

Hundasleði á fleygiferð við Ilulissat, Hjörtur Smárason og kirkjan við Hvalseyri.

„Grænland hefur alltaf heillað en hingað kom ég í fyrsta sinn þegar ég var 14 ára gamall. Ég ólst nefnilega upp á Bíldudal sem er vinabær Kulusuk og ég var það heppinn að vera í eina árganginum sem fékk að fara í nemendaskipti yfir til Grænlands. Við vorum í tíu daga í Kulusuk og þetta var mikil upplifun en líka mikið kúltúrsjokk. Það kom manni á óvart að það gæti verið svona mikill munur bæði á náttúru og menningu þrátt fyrir nálægðina,” segir Hjörtur.

Hræddir við massatúrisma

Þó Grænlendingar vinni í dag að því að stækka flugvelli landsins og byggja nýja þá er ekki stefnt að því að fjölga ferðamönnunum hratt. Enda liggur það fyrir að framboð á gistirými og afþreyingu verður áfram takmarkandi þáttur. Það er líka í takt við vilja heimamanna að sögn Hjartar því þeir vilja ekki verða nýtt Ísland í ferðageiranum.

„Grænlendingar vilja hægan vöxt enda hræddir við massatúrisma og þau vandamál sem hann getur valdið. Það er heldur ekki nóg að fljúga ferðamönnum til landsins, það verður að vera eitthvað fyrir þá að gera og fólk þarf gistingu. Þarna vantar mikið upp á,” útskýrir Hjörtur og hann segir hlutverk Visit Greenland ekki bara snúast um að markaðssetja Grænland út í heimi. Það verkefni sé ekkert svo erfitt enda sé landið magnað og einstakt og því auðvelt að fá athygli.

Massatúrismi er frekar skortur á flæðisstjórnun

„Það sem er hins vegar áhyggjuefni er hvort við getum þróað innviðina nógu hratt og þá er ég ekki að tala um flugvellina heldur það sem tekur við eftir að fólk er komið. Þess vegna hefur ég verið að tala fyrir því að menn horfi til 25 prósent vaxtar en ekki fimm prósenta. Ég óttast að hér verði massatúrismi af þeirri ástæðu að það verður ekki hægt að taka almennilega á móti fólki þó fjöldinn verði takmarkaður. Þess vegna verður að búa sig undir stærri vöxt og vera þannig á undan honum. Því ef við horfum til Íslands þá var massatúrismi meira vandamál þegar það komu 1,2 milljónir ferðamanna en þegar fjöldinn fór upp í rúmlega tvær milljónir. Núna er búið að byggja hótel, leggja stíga, koma upp klósettum og þjónustumiðstöðvum og því getum við tekið á móti öllu þessu fólki,” segir Hjörtur. 

Hann bendir jafnframt á að það sé enginn skortur á landsvæði á Grænlandi því það svæði sem er ekki undir ís er fjórum sinnum stærra en Ísland. 

„Það er hægt að dreifa fleiri milljónum ferðamanna án þess að þú takir eftir því ef infrastrúkturinn er til þess. En hann er það ekki í dag og það þurfum við að þróa. Ég reyni því að tala fyrir því að ekki sé horft á massatúrisma í tengslum við fjölda ferðamanna heldur sem skorti á flæðisstjórnun.”

Máli sínu til stuðnings bendir Hjörtur á útivistarbæinn Åre í Svíþjóð sem er þrettán hundruð manna þorp sem fær 1,1 milljón ferðamanna á ári en ræður vel við það. 

„Disney er líka gott dæmi og ég hef gamað að því að ræða það bæði hér á Grænlandi og Íslandi að við þurfum að Disney-væða ferðaþjónustuna. Það er algjört eitur í hugum margra en tvennt er það sem má læra af Disney. Í fyrsta lagi hvernig þau segja sögur og skapa upplifanir í kringum þær. Hitt er hvernig tekið er á móti miklum fjölda fólks á stuttum tíma. Það fara sextíu þúsund manns inn um hliðin á skemmtigarðinum þeirra í Flórída á morgnana og þú finnur ekki fyrir fjöldanum. Því það er búið að hugsa fyrir flæðinu. Nú er ég ekki að mæla með því að búa til staði þar sem sextíu þúsund manns koma inn á einni klukkustund, hvorki á Grænlandi eða Íslandi. En hugsunin er sú að við getum tekið á móti auknum fjölda ferðamanna ef við hugsum flæðið rétt.”

Leggja áherslu á ævintýraferðamennsku

Fyrir kórónuveirufaraldurinn komu árlega um 100 þúsund ferðamenn til Grænlands. Um helmingur þeirra voru farþegar skemmtiferðaskipa. Hjörtur segir stefnuna hins vegar vera þá að fókusa á ævintýraferðamennsku. 

„Það er sú grein ferðaþjónustunnar sem er að vaxa hvað hraðast. Fólk sem vill komast út í náttúruna, læra eitthvað og skilja eitthvað eftir sig. Þetta er hópur sem dreifist betur, er meira á eigin vegum og notar frekar þjónustu heimamanna. Þarna viljum við sjá vöxtinn frekar en í komum stórra skemmtiferðaskipa.”

Fleiri Íslendinga til Grænlands

Um langt árabil hafa verið góðar flugsamgöngur milli Íslands og Grænlands og Hjörtur skorar á landa sína að nýta sér þessar tíðu ferðir.

„Það er furðulítið af Íslendingum sem koma til Grænlands miðað við tengslin og nálægðina. Ég vil því mjög gjarnan sjá fleiri Íslendinga koma hingað og upplifa það sem Grænland hefur upp á að bjóða.”

Í því samhengi nefnir Hjörtur ísinn og bráðnun hans sem eitt það helsta sem geri Grænland spennandi. 

Í bænum Ilulissat er til að mynda verið að opna miðstöð í tengslum við bráðnunina enda fljóta úr firðinum risastórir ísjakar. Sleðaferðirnar á Grænlandi eru líka af allt öðrum toga en annars staðar að mati Hjartar enda sé hinn upprunalegi sleðahundur á Grænlandi og þar er þetta alvöru ferðamáti en ekki bara gert fyrir ferðamenn. 

„Grænland er auðvitað gríðarlega stórt land og suður- og norðurhlutinn eru gjörólíkir. Á Suður-Grænland eru mjög spennandi svæði með frábærum gönguleiðum. Það er það svæði sem er ástæðan fyrir því að Grænland var nefnt Grænland. Það var ekki bara fölsk markaðssetning hjá Eiríki Rauða. Þarna eru magnaðar minjar eftir víkingana sem þangað fóru og bjuggu. Voru þar í 400 ár en hurfu svo. Hluti af fjósinu í biskupssetrinu Görðum stendur ennþá og kirkjan í Hvalseyri líka nema það vantar þak og glugga. Við eigum engar svona gamlar byggingar á Íslandi. Þú kemst því í nálægð við söguna með að fara inn í þessar byggingar.”

Nú í heimsfaraldrinum hefur Grænland verið að mestu lokað og allt flug milli Grænlands og Íslands liggur niðri. Nú ætla stjórnvöld hins vegar að opna landið í litlum skrefum og til að byrja með fá að hámarki sex hundruð ferðamenn í viku að koma til Grænlands. Þó ekki frá Íslandi enn sem komið er.

Nýtt efni

„Fyrir þessa aðgerð voru rúmlega 800 manns í störfum sem ekki eru flugtengd og uppsagnirnar náðu eingöngu til þeirra," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, en fyrirtækið samdi í dag um starfslok 82 starfsmanna. Uppsagnirnar náðu ekki til áhafna líkt og FF7 hafði áður greint frá. „Eins og við höfum sagt þá var árið …

Fjárfestar lögðu Play til 4,6 milljarða króna í hlutafjárútboði félagsins sem lauk þann 11. apríl síðastliðinn. Í kjölfarið urðu töluverðar breytingar á hópi stærstu hluthafa félagsins. Nú er lífeyrissjóðurinn Birta stærsti einstaki hluthafinn en samanlagt fara sjóðir á vegum Íslandssjóða fyrir enn stærri hlut. Meðal nýrra stórra hluthafa er félag í eigu Einars Sveinssonar og …

Icelandair sagði í dag upp 82 starfsmönnum en um er að ræða starfsfólk úr ýmsum deildum á skrifstofum og starfsstöðvum félagsins. Í tilkynningu er bent á að Icelandair hafi á árunum 2021 til 2023 ráðið og þjálfað um 2.500 starfsmenn og góður árangur hafi náðst við að byggja félagið hratt upp eftir heimsfaraldurinn. Nú er …

Ráðuneyti viðskipta og sjávarútvegsmála í Noregi kynnti fyrir tveimur árum drög að frumvarpi um að þarlendir kjarasamningar og reglur um aðbúnað næðu líka til áhafna erlendra skipa sem færu um norska lögsögu. Litið yrði svo á að um leið og erlent skip færi inn fyrir norska lögsögu giltu um það sömu reglur og alla innlenda …

Bláa lónið í Svartsengi hefur rýmt öll sín athafnarsvæði vegna jarðhræringa við Sundhnúkagígaröðina nú í morgun. Rýmingin gekk vel að því segir í tilkynningu og er gestum þakkaður góður skilningur á stöðunni, starfsmönnum fagleg vinnubrögð og viðbragðsaðilum gott samstarf. Bláa lónið er einn allra vinsælasti viðkomustaður ferðamanna hér á landi en vegna jarðhræringa á Reykjanesi …

Icelandair hefur gripið til hópuppsagna í dag og munu þær ná til ólíkra deilda innan fyrirtækisins að því segir í frétt Vísis. Þar er haft eftir Ásdísi Ýr Pétursdóttur, talskonu Icelandair, að dagurinn í dag sé erfiður en hún geti ekki tjáð sig nánar um stöðuna af virðingu við starfsfólkið. Heimildir FF7 herma að uppsagnirnar …

Miklar breytingar eru við sjóndeildarhringinn í grænlenskri ferðaþjónustu. Ný flugstöð verður tekin í notkun í Nuuk 28. nóvember. Síðan er ráðgert að ljúka framkvæmdum við nýjar flugstöðvar í Ilulissat og Qaqortoq á Suður-Grænlandi fyrir lok ársins 2026. Nú sinna Air Greenland og Icelandair Grænlandsflugi en færi ættu að skapast til að laða að fleiri flugfélög. …

Þýski Volkswagen ætlar ekki að játa sig sigraðan í baráttunni um markaðinn fyrir ódýrar gerðir rafbíla, þar sem kínverskir framleiðendur hafa náð góðri fótfestu og boða enn frekari landvinninga. Fyrr í mánuðinum runnu út í sandinn viðræður fornu fjendanna Volkswagen og franska Renault um að standa sameiginlega að þróun og smíði nýs rafknúins alþýðubíls til …