Samfélagsmiðlar

Ísland einn af vinsælustu áfangastöðum heims hjá Hilton í N-Ameríku

„Styrkleiki okkar félags felst í fjölbreyttu vöruframboði og flóru af bæði innlendum og erlendum hótelvörumerkjum," segir Hildur Ómarsdóttir framkvæmdastjóri þróunar- og markaðsmála Icelandair hótelanna.

Hildur Ómarsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar- og marksmála Icelandair hótelanna, svarar hér spurningum Túrista um samstarfið við Hilton, vinnu við að finna nýtt heiti á hótelkeðjuna og horfurnar næstu mánuði.

Kemur það sér ekki vel að reka hótel undir heiti Hilton nú þegar stór hluti ferðamanna á landinu er bandarískir?
Samstarf við Hilton Worldwide og sala gegnum þeirra kanala er sannarlega að reynast okkur vel núna. Bókanir fyrir sumarið á öllum okkar hótelum, sem eru rekin í sérleyfissamningi Hilton, eru góðar enda er Ísland einn af fimm vinsælustu áfangastöðum heims hjá söluteymi Hilton í Norður-Ameríku. 

Þetta er vissulega jákvæð þróun og góð vísbending um þá aukningu sem gæti orðið á næstu árum. Við áætlum stigvaxandi aukningu viðskipta á næstu fimm árum og að fjöldi gesta árið 2023 verði álíka og við náðum árið 2019. Sá mikli sprettur sem við sjáum í bókunum nú í sumar er tilkominn vegna þess að fáir áfangastaðir í Evrópu eru enn jafn aðgengilegir og Ísland. Af þeim sökum erum við með ákveðið forskot í fjölgun ferðamanna tímabundið að okkar mati.

Öll hótelin okkar njóta góðs af því að við erum með sameiginlega bókunarmiðstöð og söluteymi á aðalskrifstofu félagsins hér heima. Auk þess eru öll hótelin kynnt saman á heimasíðu okkar og þannig er eftirspurnin hámörkuð.

Hótelin á landsbyggðinni njóta því góðs af eftirspurn eftir hótelum í Reykjavík og öfugt. Á sama tíma eru Íslendingar duglegir að bóka gistingu út á landi í sumar og horfurnar því nokkuð góðar fyrir háannatímann, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni.

Er evrópski markaðurinn að taka við sér og hvaða þjóðir þá helst? 
Þýskaland er sterkast frá Evrópu. Frakkland og Skandinavía koma þar næst á eftir. Bretland er einnig að koma sterkt inn þó svo að Bretar hafi öllu jafna verið sterkari markhópur yfir vetrartímann og sótt frekar í sólina á sumrin. Bókanir frá Suður-Evrópu eru ekki komnar í sambærilegt horf og venja var á þessum tíma árs fyrir faraldur. Bæði Ítalir og Spánverjar hafa öllu jafna komið sterkir inn seinni part sumars og gjarnan bókað með styttri fyrirvara en aðrar þjóðir þannig að ekki er öll von úti um aukningu bókana frá þeim.

Berast pantanir orðið með lengri fyrirvara? 
Almennt eru einstaklingar að bóka með styttri fyrirvara en áður, en við erum á sama tíma með góða aukningu fyrirspurna frá ráðstefnu- og hvataferðahópum lengra fram í tímann.

Eru að eiga sér stað einhverja stóra breytingar á ferðamynstrinu
Dvalartími gesta er að lengjast og bókanir berast eins og áður sagði með mun styttri fyrirvara. Einstaklingsbókanir eru fleiri en hópabókanir fyrir sumarið líkt og við gerðum ráð fyrir. Bókanir berast öllu jafna í miklu magni frá Þýskalandi yfir vetur fyrir næsta sumar, en Ísland hefur verið mjög vinsæll áfangastaður þjóðverja yfir sumartímann til fjölda ára. Þeir fara í lengri hringferðir um landið og eru okkur mikilvægir viðskiptavinir um allt land. Það er því ánægjulegt að sjá að við verðum ekki af viðskiptum Þjóðverja í ár sökum faraldursins því þeir eru að bóka ferðir hingað til lands fyrir sumarið með nokkurra daga eða vikna fyrirvara.

Hvernig lítur haustið og veturinn út núna miðað við sama tíma árið 2019? Er verðið gjörólíkt?
Í haust og vetur erum við nokkuð á pari við 2019 í bókunum frá einstaklingum en höfum ekki náð sambærilegum fjölda hópabókana enn.

Verðið er álíka og fyrri ár, bæði fyrir einstaklinga og hópa. Við höfum hinsvegar lagt mikla áherslu á að bjóða góð gistitilboð á innlendum markaði í sumar líkt og á síðasta ári. Þá sérstaklega hagstæð kjör á fimm og átta nóttum og ánægjulegt hversu margir Íslendingar hafa nýtt sér þessi sérkjör. Einnig höfum við séð góða aukningu í bókunum smærri hópa yfir veturinn. Hlaupa-, gönguskíða-, jóga-, hjólahópar og fleiri hafa sótt okkur í auknum mæli heim á landsbyggðinni en í Reykjavík hefur t.d.verið góð aukning í fjölda gesta í detox dvöl.

Við Íslendingar erum einfaldlega ferðaglöð þjóð og það er óskandi að þessi aukning á ferðalögum innanlands, með smá dekri í mat og drykk á góðum hótelum, sé komin til að vera. Þrátt fyrir að utanlandsferðir hrökkvi vonandi einnig í gang í meira mæli.

Er búið að finna nýtt heiti á hótelin sem kemur þá í stað Icelandair og kemur til greina að þau verði líka kennd við erlendar keðjur?
Endurmörkun Icelandair hótelanna er í vinnslu um þessar mundir. Það kemur allt til greina en stefnan er þó tekin á að halda sérstöðu Icelandair hótelanna sem sterku íslensku vörumerki líkt og áður. Styrkleiki okkar félags felst í fjölbreyttu vöruframboði og flóru af bæði innlendum og erlendum hótelvörumerkjum.

Við byggjum innviði okkar á traustum grunni og höfum alltaf haft það að leiðarljósi að ganga ekki að viðskiptunum sem gefnum. Því þrátt fyrir mikla aukningu ferðamanna til landsins undanfarin ár þá hefur hún aldrei verið sjálfgefin og við verið meðvituð um það. 

Góður árangur í hótelrekstri felst í því að vera stöðugt vakandi fyrir þörfum gestanna og þróun í þjónustu hótela og veitingastaða. Það er mikilvægt að nálgast það verkefni líkt og aðra ferðaþjónustu, af ákveðinni auðmýkt og skilningi á því að viðskiptaumhverfið er síbreytilegt og mjög háð ytri aðstæðum. Það hefur undanfarið rúmt ár svo sannarlega sýnt okkur. Við hjá Icelandair Hótelum erum full bjartsýni fyrir næstu misseri, en meðvituð um að vel þarf að halda á spöðunum í þeirri uppbyggingavinnu sem er framundan og að hótelgestir eru ekki tryggðir fyrr en í raun komnir inn í hús.

Nýtt efni

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …

MYND: ÓJ

Kínverskir ferðamenn hafa verið töluvert áberandi í Reykjavík og víðar um land í vor. Auðvitað er fólk af kínverskum uppruna búsett um allan heim og eitthvað af því fer í Íslandsferðir en þeim hefur snarfjölgað sem koma hingað alla leið frá Alþýðulýðveldinu Kína. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli komu hingað í marsmánuði 8.642 Kínverjar og …

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …