Samfélagsmiðlar

Á leiðinni með betur borgandi bandaríska farþega

Þotur United Airlines munu fljúga hingað daglega frá tveimur bandarískum stórborgum í sumar. Nú þegar er búið að bóka hátt hlutfall sætanna og sérstaklega gengur vel að selja þau dýrustu. Sölustjóri flugfélagsins fer hér yfir stöðuna með Túrista.

Bob Schumacher er sölustjóri hjá United ber meðal annars ábyrgð á Íslandsflugi bandaríska flugfélagsins.

„Það er mjög ánægjulegt að finna fyrir þessum mikla áhuga á ferðalögum,” segir Bob Schumacher, yfirmaður sölumála United Airlines, í samtali við Túrista um komandi sumarvertíð. Hann vísar þar til eftirspurnarinnar almennt eftir ferðum bandaríska flugfélagsins en líka á hans sölusvæði, þ.e. Bretlandi, Írlandi og Íslandi. 

En frá og með 5. maí munu þotur United fljúga hingað daglega frá Newark flugvelli við New York og 22. júní hefst áætlunarflug félagsins frá Chicago. Þetta er í takt við umsvif félagsins á Keflavíkurflugvelli í fyrrasumar.

Spurður um eftirspurnina eftir Íslandsflugi United þá segir Schumacher hana álíka góða frá báðum borgum. Sérstaklega seljast sætin á fremsta farrými vel.

„Fólk ætlar að gera vel við sig og ferðast með eins þægilegum hætti og hægt er nú þegar heimurinn er að opnast á ný. Við sjáum það til að mynda í fluginu til Íslands þar sem hlutfall viðskiptaferðalanga er ekki hátt. Engu að síður eftirspurn eftir fremstu sætunum álíka mikil og þeim sem eru aftar í vélinni.”

Máli sínu til stuðnings bendir sölustjórinn á að nú þegar sé búið að selja yfir sextíu prósent sætanna ferðunum frá Chicago og á það jafnt við um dýrari og ódýrari farrýmin. Í fluginu frá Newark er staðan álíka nema þar er sætanýtingin á fremsta farrými ennþá betri. Farþegarnir eru fyrst og fremst Bandaríkjamenn á leið í frí til Íslands.

Sæti sem hægt er að breyta í rúm

Það er pláss fyrir 169 farþegar í þotunum sem United nýtir í Íslandsflugið í sumar og þar af fjórtán sæti á Polaris Business Class. Þar er hægt að halla sætunum svo langt aftur að þau verða að bedda. Þjónustan er líka betri enda kosta þessi sæti töluvert meira en þau ódýrustu aftar í þotunum. Sem dæmi þarf að borga að minnsta kosti 330 þúsund krónur fyrir sæti á þessu viðskiptafarrými í ferðum frá New York til Íslands í júní. Farmiði á hefðbundnu farrými kostar frá 58 þúsund krónum í dag.  

Salan tók dýfu þegar stríðið hófst

Upphaflega ætlaði United að hefja áætlunarflugið hingað frá Chicago strax í byrjun sumars en fyrstu ferð var seinkað fram í lok júní. Spurður um þessa breytingu þá segir sölustjórinn að þó Chicago sé vissulega stórborg þá sé markaðurinn minni en á New York svæðinu og því hafi verið dregið aðeins úr framboði. Hann bætir því við að það sé mikilvægt að laga flugáætlunina að eftirspurninni nú sem fyrr.

Og það er ekki að sjá að stríðið í Úkraínu dragi úr áhuga viðskiptavina United Airlines að fljúga til Evrópu. Schumacher segir að fyrstu vikuna eftir að innrásin hófst þá hafi salan minnkað en svo tekið við sér hratt á ný. 

Markaðurinn ákveður fargjöldin

Stríðið hefur þó haft áhrif á olíuverð sem hefur hækkað umtalsvert síðustu tvo mánuði og var það þó orðið hátt strax í ársbyrjun. Spurður hvort þessi þróun hafi skilað sér út í verðlagið þá segir Schumacher að það sé markaðurinn sé ákveði fargjöldin. Það sé ekki þannig að flugfélög geti bara lagt fimmtán prósent ofan á kostnaðinn og neytendur borgi svo uppsett verð. 

„Þannig virkar þetta ekki. Fargjöldin hækka hins í takt við fjölda seldra sæta en það er bara grunnurinn í tekjustýrtingu í fluggeiranum og ekkert nýtt í því.”

Rétt um þriðjungur byrjar ferðalagið í Chicago

United er eitt af þremur stærstu flugfélögum Bandaríkjanna og farþegarnir í Íslandsflugi félagsins koma því víða að. Um helmingur þeirra sem fljúga hingað frá New York búa í borginni og í Chicago er hlutfall heimamanna í þotunum ennþá lægra eða rétt um þriðjungur. Schumacher bendir á að þetta sé til marks um hversu öflugt leiðakerfi United flugfélagsins er.

Max þoturnar gætu nýst í flug til fleiri staða

Þrátt fyrir áhuga Bandaríkjamanna á flugferðum United til Íslands í sumar þá er félagið ekki með til skoðunar að fljúga hingað yfir veturinn. Skýringin á því liggur meðal annars í því hversu fáir fljúga til Íslands vegna vinnu. En kannanir Ferðamálastofu hafa sýnt að rétt um þrír af hverjum eitt hundrað ferðamönnum hér á landi eru hér staddir vegna vinnu.

Schumacher bendir þó á að United sé að prófa sig áfram nú þegar heimsfaraldurinn er í rénum. Dæmi um það er að fljúga Boeing Max þotum yfir Atlantshafið, nánar tiltekið til Azoreyja. Reynslan gæti sýnt að þessar þotur gætu nýst á fleiri áfangastaði og þá við að lengja vertíðina. 

Gömlu flugvélarnar í sumar

United flugfélagið hefur verið stórtækt í kaupum á flugvélum og á von á fimm hundruð þotum næstu fimm ár og þar af 270 á næstum þremur. Sumar munu leysa þær eldri af hólmi á meðan aðrar eru hrein viðbót. Í ferðir United til Íslands eru notaðar Boeing 757 þotur en þær komnar eru til ára sinna líkt og segja má um flugvélar af sömu gerð í flota Icelandair. 

Þegar vertíð United hér á landi hefst í byrjun næsta mánaðar þá verður þjónustan um borð aftur orðin almenn eins og var fyrir Covid-19. Allir farþegar fá því mat á leiðinni án þess að greiða aukalega fyrir, skiptir þá engu hvar í þotunum setið er.

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …