Samfélagsmiðlar

„Maskína sem skapar verðmæti alla daga“

„Í öllum geirum menningarlífsins er sókn og framþróun, meiri skilningur en áður á því að við höfum sögu að segja - einhverju mikilvægu að miðla,” segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, bjartsýn um framtíð menningartengdrar ferðaþjónustu. Þar leiki Harpa stórt hlutverk. Vart sé hægt að hugsa sér lengur Reykjavík án Hörpu.

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu

„Í eigendastefnunni er líka tiltekið alveg skýrt að Harpa eigi að vera áfangastaður fyrir innlenda og erlenda gesti. Lagt var upp með að húsið yrði tákn eða íkon sem myndi vekja athygli og laða að gesti,” segir Svanhildur Konráðsdóttir þegar Túristi innir eftir samspili Hörpu og ferðaþjónustunnar. 

Harpa á góðum degi – Mynd: ÓJ

Hún nefnir svokölluð Bilbao-áhrif, þar sem stórfjárfestingu í menningarmálum og mjög eftirtektarverðum arkitektúr er ætlað að snúa við neikvæðri efnahagslegri þróun viðkomandi borgar og hefja nýja sókn. Þannig urðu áhrifin af Guggenheim-safninu í Bilbao, sem Frank Gehry hannaði. Bilbao var á fallandi færi og Gehry var beðinn um að færa borginni ígildi óperuhússins í Sidney. Glerhjúpur Hörpu eftir Ólaf Elíasson er listaverk í þessum heimsflokki.

„Þegar svo vel tekst til eins og í þessu húsi, Hörpu, verður byggingin sjálf og íkonið ekki skel, sem aðeins er hægt að horfa utan frá, heldur opið borgartorg undir þaki – og ekki bara hvaða þaki sem er heldur listaverki. Þetta er stærsta glerlistaverk í heimi. Harpa er íkon fyrir menningu og fegurð, fulltrúi byggingarlistar á heimsmælikvarða og menningarstarfsemi sem fólk getur verið stolt af. ”

Horft í gegnum glerhjúpinn út á höfninaMynd: ÓJ

En hvernig hefur tekist að fylgja eigendastefnunni eftir?

„Það hefur að mörgu leyti heppnast mjög vel. Tekist hefur að efla Reykjavík sem ráðstefnuborg – en auðvitað er það ekki Hörpu einni að þakka heldur tóku Reykjavíkurborg, Icelandair og um 40 ferðaþjónustuaðilar sig saman og stofnuðu Ráðstefnuborgina Reykjavík eða Meet in Reykjavík, sem er markaðsbatterí sem vann ötulega að því frá 2012 að kynna Reykjavík og sína aðildarfélaga. En ég held að enginn geti véfengt það að alþjóðlegir viðburðir urðu aðeins að veruleika hér í Reykjavík vegna þess að Harpa er hér. Ég nefni sérstaklega Arctic Circle, sem á heima hérna í Hörpu. Af því sem er framundan get ég nefnt Evrópsku kvikmyndaverðlaunin, sem afhent verða í Hörpu í desember. Þessi hátíð hefði að öðrum kosti ekki verið haldin í Reykjavík. Við höfum verið með alþjóðlega viðburði og ráðstefnur sem tekið hafa yfir allt húsið í marga daga en svo eru aðrir viðburðir á vegum alþjóðlegra stórfyrirtækja, þar sem verið er að verja miklum fjármunum í flug, gistingar, veitingar og ferðir. Ég nefni Netflix, sem hélt fund hér í júlí – þegar annars er lítið um að vera. Við vitum að ef alþjóðlegur viðburður hér í Hörpu veltir um 40 milljónum, og einhver prósent af því verða eftir í húsinu, þá erum við kannski að tala um 400 milljóna veltu inn í hagkerfið. Ef frá er talin truflunin af heimsfaraldrinum þá hefur tekist vel að framfylgja eigendastefnunni hvað þetta varðar. 

Harpa mynduð – Mynd: ÓJ

Varðandi almenna ferðamanninn hefur tekist vel að gera Hörpu að aðdráttarafli. Húsið er fullt af fólki árið um kring. Það kemur til að skoða húsið og taka af sér myndir. En það sem ég tel að við getum gert betur er að bjóða þessum gestum okkar upp á viðburði og tækifæri til að upplifa eitthvað meira en að rölta í gegnum húsið og fá sér kaffibolla á veitingastað – og skilja þá eftir meiri verðmæti í húsinu.”

Flestar uppákomur og afþreying í Hörpu eru á vegum annarra en hússins sjálfs. Fyrsta ber auðvitað að nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands sem á heima í Hörpu, en í húsinu má líka m.a. sjá sýningar Bjarna Hauks Þórssonar í Kaldalóni, How to become Icelandic in 60 minutes, sem notið hefur mikilla vinsælda í mörg ár, leiksýninguna Icelandic Sagas – Greatest Hits, þar sem sagnaarfur Íslendinga er kynntur gestum með hressilegum hætti, og Hljóðhimna, sem er upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur þeirra, þar sem uppgötva má töfra í hljóði og mynd, setja sig í stellingar hljómsveitarstjóra Sinfóníunnar og fleira. 

Ljós og litir – Mynd: ÓJ

„Við sjáum að þrátt fyrir vaxandi sókn erlendra ferðamanna á sinfóníutónleika, Sígilda sunnudaga, eða álíka, þá koma koma þeir mest á ókeypis viðburði í opnum rýmum. Reyndar opnuðum við margmiðlunarsýningu hér niðri, við neðri bílakjallarann, sem selt er inn á. Þar ganga gestir inn í myrkvað rými og upplifa fallega sýningu sem styðst við íslenska náttúru. Högni Egilsson samdi tónlist við sýninguna. Þetta 20 mínútna rennsli sem gengur í hringi hefur slegið í gegn. Sérstaklega koma ferðamenn á þessa sýningu á rigningardögum.”

Gott að slaka á – Mynd: ÓJ

Svanhildur segir að gera mætti meira fyrir ferðafólk, ekki síst farþega skemmtiskipa, en dagskrá þarf að liggja fyrir með löngum fyrirvara því ekki sé gott að taka frá sali fyrir litla og fámenna viðburði ef hægt er að nýta rýmið fyrir stórviðburði sem tryggja fjölda gesta og mikil not.

Segja má að Harpa þurfi í raun ekki að gera mikið meira en að láta ljós leika um glerhjúpin til að gleðja íbúa og ferðafólk. Viðbrögðin sjást á samfélagsmiðlunum, þar sem Harpa er mikið tögguð. En metnaður stjórnenda nær auðvitað miklu lengra.

„Þetta snýst allt um að upplifun á Hörpu verði sem best og fallegust, að við miðlum því hvaða hlutverki húsið gegnir. Þetta er heimili tónlistarinnar. Í menningartengdri ferðaþjónustu eru feykileg tækifæri ónýtt. Við Íslendingar erum orðin miklu betri en áður í að skipuleggja okkur langt fram í tímann. Enn getum við þó bætt okkur í að setja viðburði í sölu og kynna þá með nægilega góðum fyrirvara til að hámarka megi sölu til ferðafólks.”

Erlendum gestum á sinfóníutónleikum fjölgar ár frá ári og sama er að segja um óperusýningar. Menningarferðamenn eru stór hópur en mikilvægt er að þeir sjái tímanlega hvað er í boði hér og þar í heiminum – og flestir telja vafalaust áhugavert að njóta listviðburða í slíku húsi sem Harpa er. 

Á jarðhæðinni – Mynd: ÓJ

Svanhildur nefnir sérstaklega tónleikaröð Bjarkar sem laðaði að marga erlenda gesti. 

Svo er annað áhugavert að gerast í menningartengdri ferðaþjónustu:

„Við erum komin í samstarf við erlenda tóneikahaldara sem koma hingað, halda tónleika í Eldborg fyrir gesti sem hefur verið flogið hingað sérstaklega á vegum viðkomandi. Slíkir tónleikar hafa þegar verið haldnir hérna og framhald verður á þessu. Þetta er dæmi um hvernig hægt er að selja heilan tónleikapakka í stórkostlegu húsi í frábærri borg – og Ísland er ótrúlegur áfangastaður. Hótelin hér fá mörg þúsund gistinætur í hvert sinn. Þarna er ótrúlega mikil verðmætasköpun. Þetta hús er maskína sem skapar verðmæti alla daga.”

Umhverfi Hörpu hefur smám saman batnað, lengi stóð hún ein eins og klettur eða borgarísjaki á risastórri byggingalóð. Það styttist í að Hörputorg verði lagfært og hús Landsbankans klárað. Hafnartorg er að taka á sig endanlega mynd með íbúðum, veitingastöðum og verslunum. Næst Hörpu er glæsihótelið The Reykjavík Edition.

„Þetta er stórkostleg framför. Allt hjálpar þetta til við að færa mannlífið og fókusinn hingað niður eftir. Þegar þetta svæði verður allt uppbyggt verða tengingar frá nýju Hörputorgi fyrir gangandi fólk upp í Kvosina allt aðrar en verið hefur. Bryggjugatan við hafnarbakkann er frábær og sama verður að segja um Reykjagötu þegar Landsbankinn hefur lokið framkvæmdum og fellt sínar girðingar. 

Það var auðvitað þjáningarfullt að Harpa stæði á barmi stórrar holu í átta ár. Þess vegna er frábært að fá hótel við hliðina sem jafnframt er mikilvægt fyrir borgina sem áfangastað. Það breikkar framboðið. Laðar til sín gesti sem annars væru í vandræðum að fá gistingu. Hópur fólks velur bara tiltekið merki. Marriot-keðjan er með mikinn fjölda fylgjenda, fólk sem ferðast um heiminn með punktana sína. Edition er þó ekki ráðstefnuhótel eins og talað var um í upphafi að gæti risið þarna. Við sjáum hinsvegar mörg tækifæri í samstarfi við Edition um þjónustu við smærri hópa en hefðu verið á stóru ráðstefnuhóteli. Þetta getur verið lítill hópur á vegum fyrirtækis sem gistir á Edition og leigir síðan sal í Hörpu fyrir veislu, brúðkaup, móttöku eða kynningu á einhverri vöru.”

Svanhildur svarar neitandi beinni spurningu um hvort hún hefði viljað sjá stærra hótel en þarna reis við hliðina. Edition sé jú býsna stórt, með 253 herbergjum. Þar séu einhver fundarrými en tækifæri séu á samstarfi. Innangengt er á milli, hægt að ganga þurrum fótum milli húsanna í hvaða veðri sem er – til að hlusta á fyrirlestra, fara í móttökur, t.d. á vegum íslenska ríkisins. 

Grannarnir Harpa og Edition – Mynd: ÓJ

„Uppbygging hótela hérna í miðborginni er að auka möguleika á ráðstefnuhaldi í Hörpu og almennt í borginni. Auk Edition þá er hótel að rísa í Lækjargötu og víðar í grenndinni, hérna rétt við þröskuldinn.”

Svanhildur býr að langri reynslu í stjórnun á sviði menningar, lista og ferðamála. Hún hefur verið forstjóri Hörpu frá 2017 en hafði áður setið í stjórn hússins og kom að undirbúningi þess frá árinu 2004 sem fulltrúi borgarinnar og undirbúningsfélaga. Áður leiddi hún stofnun Höfuðborgarstofu og var síðan sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Hún lítur stolt yfir það sem áunnist hefur í menningartengdri ferðaþjónustu hér á landi og horfir björtum augum til framtíðar.

„Í öllum geirum menningarlífsins er sókn og framþróun, meiri skilningur en áður á því að við höfum sögu að segja – einhverju mikilvægu að miðla. Það að koma hingað til Íslands sem gestur án þess að ná snertingu við menninguna á einhvern hátt ófullkomið. Þá er bara hálf sagan sögð.”

Hnoss Restaurant í Hörpu – Mynd: ÓJ

En nær Harpa til fólks sem hefur ekki vanist því að sækja sinfóníutónleika eða að slíkir menningarviðburðir liggi ekki vel við því?

„Hér í venjulegu ári fara fram 1.200 til 1.400 viðburðir, þar af eru 600 til 700 tónleikar. Sinfónían er með u.þ.b. 100 tónleika. Svo er mikið í boði af poppi, jazzi og dauðarokki. Þetta er hinsvegar mikilvæg spurning vegna þess að húsið er í eigu þjóðarinnar, almenningur er hinn eiginlegi eigandi. Húsið er lýðræðislegt, opið borgartorg undir þaki, ólíkt mörgum húsum sem við erum í sambandi við. Þau eru flest miklu lokaðri, með afmarkaðri starfsemi. Í mörg þeirra ferðu bara á tónleika. Með breytingum á jarðhæð Hörpu og nýjum rekstraraðilum er lögð áhersla á að allir geti átt erindi í húsið óháð því hvort leiðin liggi á tóneika eða ráðstefnu. Svo þykir mér fallegt hversu mikið af persónulegum viðburðum eru haldnir hérna: fermingar, afmæli, útskriftir, brúðkaup, erfidrykkjur. Svo eru hér markaðir og bókamessur. Og ekki má gleyma blessuðum börnunum, heimsóknum leikskólabarna, skólatónleikum Sinfóníunnar. Ég tel mig geta sagt alveg heiðarlega og af sannfæringu: Harpa er hús þjóðarinnar. Þjóðin sækir húsið heim.”

Svanhildur á skrifstofu sinni – Mynd: ÓJ

En hafa alþjóðasamtök gluggaþvottamanna ekki sóst eftir því að halda ráðstefnu í Hörpu, spyr Túristi, sem hefur verið þrálitið út um glervegg skrifstofu forstjórans á sjöttu hæð. Þvílíkt útsýni. Svanhildur hlær, hefur ekki fengið símtal frá alþjóðasamtökum gluggaþvottamanna, en segir glerhjúpinn þrifinn á hverju ári af sérstökum fjallasigmönnum,  glerið hafi staðist vel – þrátt fyrir öll veðrin og seltuna. 

Við þurfum að fara að ljúka þessu. Túristi leitar lokaorða hjá forstjóra Hörpu – til að slá með botninn.

„Mér finnst menningarlífið og tilveran í Reykjavík óhugsandi án Hörpu. Ég held að fáir í tónlist, ráðstefnuhaldi og almennt í ferðaþjónustu myndu ekki taka undir að það hefðu orðið vatnaskil með tilkomu þessa húss. Hlutverk hússins er að skapa þessi verðmæti: efnahagsleg, samfélagsleg og menningarleg. Þetta eru mín leiðarljós í vinnunni. Síðan er það líka hlutverk Hörpu að stækka möguleikana, búa til ný tækifæri, og ég tel húsið hafa gert það og geri áfram. Við erum rétt að byrja.”

Nýtt efni
Arnar Guðmundsson, Íslandsstofu

Íslandsstofa vinnur að því að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland, kemur íslenskum fyrirtækjum á framfæri á erlendri grundu og liðkar til eftir bestu getu fyrir erlendri fjárfestingu á fimm sviðum atvinnulífs: orku og grænum lausnum, sjávarútvegi og matvælaframleiðslu, hugviti og tækni, listum og skapandi greinum - og loks ferðaþjónustu. Allt byggist þetta á útflutningsstefnu landsins, sem …

Það voru 27.293 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu hér á landi í mars 2024 sem er aukning um 2 prósent frá sama tíma í fyrra en 2 prósent færri í samanburði við mars 2018. Það ár voru ferðamenn hér flestir en gert er ráð fyrir álíka ferðamannastraumi í ár. Vægi starfsfólks með íslenskan bakgrunn er …

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur slitið viðræðum við franska Renault um að þróa og smíða saman nýja gerð af rafknúnum smábíl á viðráðanlegu verði, sem keppt gæti við ódýrustu kínversku bílana. Hugmyndin var sú að bíllinn yrðu byggður á grunni Twingo-smábílsins frá Renault. Renault hyggst nú upp á eigin spýtur þróa Twingo áfram sem rafbíl og …

„Pittsburgh flugið fer vel af stað og er ánægjulegt að sjá að farþegar frá 25 Evrópulöndum hafa bókað flug með okkur til Pittsburgh um Ísland og þaðan hafa farþegar bókað flug til 30 áfangastaða Evrópumegin," sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilefni af fyrstu áætlunarferð flugfélagsins til bandarísku borgarinnar á fimmtudaginn. Forstjórinn lagði um …

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …