Samfélagsmiðlar

Stuck in Iceland í 10 ár

Jón Heiðar við Langasjó nú í sumar. Myndin er tekin af þýska ljósmyndaranum Martin Schulz en þeir tveir kynntust í gegnum Stuck in Iceland.

Hátt í átta hundruð þúsund manns hafa lesið ferðaritið Stuck in Iceland sem Jón Heiðar Ragnheiðarson hefur haldið úti frá árinu 2012. Hann segir mikilvægt að draga upp rétt mynd af Íslandi sem áfangastað og forðast klisjur um sögu þjóðarinnar.

Hver var hugmyndin að baki útgáfunni?

Ég stofnað tímaritið Stuck in Iceland af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi hef mikinn áhuga á að ferðast um Ísland, í öðru lagi hef ég ástríðu fyrir útgáfu og markaðssetningu á netinu og í þriðja lagi fannst mér dreginn upp óspennandi glansmynd af Íslandi í því efni sem þá stóð ferðafólki til boða. Ísland var kynnt sem sem land þar sem alltaf væri sólskin og gott veður og lítið fjallað um sögu og menningu Íslands. Helst voru týndir til einhverjir þrotaðir frasar um víkinga. Mér fannst þetta allt frekar flatneskjulegt og ekki ná utan um ægifegurð landsins og þeirri upplifun sem margbreytilegt íslenskt veðurfar og náttúra felur í sér.

Ég gerði mitt besta til að skrifa greinar sem voru öðruvísi en megnið af því efni sem var þó verið að bera á borð fyrir ferðafólk. Til dæmis skrifaði ég um myrka sögu Þingvalla og sagði frá gönguferðum sem ég hef lent í þar sem farið var yfir Fimmvörðuháls og Eyjafjallajökul í aftakaveðri og alls engu skyggni. Vont veður er jú eitthvað sem ferðafólk getur vel lent í á Íslandi og það þarf að vera tilbúið til að eiga við það.

Boltinn byrjaði að rúlla mjög hratt eftir að vefurinn fór í loftið. Fjölmörg sem fundu vefinn á samfélagsmiðlum eða á Google settu sig í samband við mig til að leita ráða eða einfaldlega til að spjalla um Ísland. Mörg vildu jafnvel leggja til myndir og greinar. Upp úr þessu hef ég myndað vinskap við nokkra lesendur og það er auðvitað það besta við allt þetta brölt sem núna hefur staðið yfir í tíu ár. Ég er enn að fá fyrirspurnir frá fólki sem vill ferðast til Íslands og spyr um ótrúlegustu hluti.

Hvernig hafa efnistökin þróast í gegnum tíðina?

Fyrst um sinn voru þetta greinar eftir mig og meðstofnanda tímaritsins, Sigurð Fjalar Jónsson sem staldraði stutt við í þessu verkefni. Svo bættust við greinar eftir allskonar fólk sem vildi leggja til efni og myndir. Oft lagði fólk alveg gríðarlega vinnu við að skrifa flottar greinar fyrir tímaritið. Núna upp á síðkastið hef ég tekið fjölmörg viðtöl við fólk sem tengist Íslandi með einhverjum hætti, í þeim góða hópi viðmælenda eru leikarar, sendiherrar, vísindafólk, tónlistarfólk, ljósmyndarar, leiðsögufólk, ósköp venjulegt ferðafólk og margir fleiri. Ég bið að sjálfsögðu alla um að segja frá uppáhaldsstöðum sínum, mæla með afþreyingu, íslensku menningarefni eða listafólki og gefa ráð til þeirra sem eru að heimsækja Ísland í fyrsta sinn. Það er mjög skemmtilegt að fá mismunandi sjónarmið á þessa hluti frá þessum góða hóp sem hefur gefið sér tíma til að vera viðmælendur hjá mér. Ennfremur geri ég mitt besta til að gefa ferðafólki góð ráð, t.d. um hvernig eigi að ferðast með öruggum hætti, greiða fyrir vöru og þjónustu, klæða sig rétt og fleira í þeim dúr.

Frá hvaða löndum koma flestir lesendur?

Flestir eru frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, Þýskalandi og Íslandi. Mikið af ferðafólki sem er þegar komið til landsins, og eru að leita sér upplýsinga um hvað sé skemmtilegt að gera, nota vefinn. Meirihluti notenda er yngri en 44 ára gamall og aðeins fleiri konur en karlar nota vefinn. Bandarískar konur um þrítugt sem eru að koma hingað til lands í fyrsta sinn með maka og börnum og ferðast á eigin vegum virðist vera kjarnahópur tímaritsins. 

Á síðunni er töluvert um ferðatilboð í formi afsláttarkóða. Sérðu fyrir þér að breyta Stuck in Iceland í sölusíðu?

Ég er í mjög annasömu og skemmtilegu starfi hjá Controlant samhliða því að reka Stuck in Iceland. Eins og sakir standa eru því engar líkur á því að ég fari að standa í sölu á ferðum sjálfur!  Ég byrjaði að bjóða afsláttarkóða 2019 og notkunin á þeim fór stigvaxandi þangað til að veiran skæða setti alla ferðaþjónustu í frost. Eftir Covid fór þetta aftur á stað og það er bara alveg ótrúlegt hvað þetta rúllar hratt af stað aftur. Veltan er þegar orðin miklu meiri en fyrir veiru.

Kosturinn við afsláttarkóðana fyrir alla aðila er að þeir eru einfaldir í notkun. Lesendur skrá sig fyrir fréttabréfinu mínu og fá helling af afsláttarkóðum frá flottum ferðaþjónustufyrirtækjum sendan í tölvupósti með sjálfvirkum hætti. Ég tek aðeins 5% til mín, lesendur fá afslátt sem ferðaþjónustufyrirtækin ráða hvað er hár en oft er afslátturinn 10%. Það sem skiptir máli fyrir lesendur er að þeir geta sparað mikla fjármuni með því að nýta kóðana, sérstaklega ef um vinahópa eða fjölskyldur er að ræða. Ferðaþjónustufyrirtækin eiga viðskiptasambandið við viðskiptavininn og kaupin á ferðum gerast á þeirra eigin vef. Þau stjórna því hvað þau gefa mikinn afslátt og þetta er líklega mun ódýrari söluleið en að fara í gegnum stóra söluvefi. 

Annars er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Ég er til í samstarf við öll ferðaþjónustufyrirtæki eða íslenskar vefverslanir sem hafa sýnt og sannað að þau veita góða þjónustu og fyrirtaks vörur. Tilgangur minn er að hjálpa ferðafólki að upplifa Ísland á sem skemmtilegastan og hagkvæmastan hátt eins og mögulegt er. Afsláttarkóðarnir hafa hingað til virkað mjög vel til að ná þessu markmiði. Sjáum til hvað gerist á næstu tíu árum!

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …