Samfélagsmiðlar

„Við erum vaxtarfyrirtæki“

Starfsfólk Arctic Adventure fagnaði um helgina lokum sumarferðatímabilsins. Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri, segir að allt hafi gengið vonum framar. Hún ræðir við Túrista um hvernig fyrirtækið mætir þeim áskorunum sem fylgja versnandi efnahagsástandi víða og mikilvægi þess fyrir íslenska ferðaþjónustu að geta boðið heilsársstörf og auka þjálfun starfsfólks.

Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures

„Það var mikil áskorun að auka umsvifin upp úr nánast engu en með okkar frábæra starfsfólki þá gekk það ótrúlega vel,” segir Gréta María, sem ráðin var forstjóri Arctic Adventures í desember á síðasta ári en hafði áður átt sæti í stjórn fyrirtækisins og aflað sér mikillar reynslu í viðskiptalífinu, m.a. sem framkvæmdastjóri Krónunnar. Það er alveg ljóst í huga hennar að starfsfólkið er mesti auður Arctic Adventures. Um 200 manns störfuðu undir merkjum fyrirtækisins í sumar en Gréta María segir líklegt að þeim fækki niður í um 140 í vetur. 

„Leiðsögumannahópurinn okkar býr að mjög mikilli reynslu og sama er að segja um þá sem stýra rekstrinum. Mjög vel gekk að koma starfseminni í gang eftir heimsfaraldurinn en auðvitað reyndi það mjög á,” segir Gréta María og brosir. Hún viðurkennir að ýmsar legur hafi verið ryðgaðar, ef svo má segja. Ýmis vandamál hafi komið upp í aðfangakeðjunni, ekki hafi fengist allt sem þurfti í svo umfangsmikinn rekstur, t.d. fengust ekki allir þeir bílar sem vonast var eftir. 

„Allir þurftu að leggjast á árarnar til að láta hlutina ganga upp, laga það sem var bilað.”

Ferðamaður í Merardölum – Mynd: Arctic Adventures

Sumarið sem er að kveðja var það fyrsta sem Gréta María upplifði við stjórnvölinn hjá Arctic Adventures. Túristi spyr hvað henni hafi helst komið á óvart. Hún svarar því til að hún sé þannig að eðlisfari að fátt komi henni á óvart. 

„Þetta eru allt verkefni og áskoranir sem þarf að takast á við. Ég hef gaman af því að takast á við ný verkefni. Þegar eitthvað birtist þykir mér það spennandi. Ég spyr: Hvernig var þetta leyst síðast? Getum við leyst þetta betur núna eða hvernig getum við komið i veg fyrir að eitthvert vandamál verði til aftur? Þetta er umfangsmikill rekstur. Mikið fjör.”

En hvernig líst Grétu Maríu á komandi vetur?

„Við erum bjartsýn og erum að undirbúa okkur fyrir verkefni vetrarins. Ég er bjartsýn manneskja. Auðvitað eru ýmis teikn á lofti. Asíumarkaðurinn hefur enn ekki opnast að fullu en stefnir í þá átt. Svo sjást fyrstu merki um kreppu í Evrópu. Bandaríkjamenn eru hinsvegar stór hluti viðskiptavina okkar. Dollarinn er mjög sterkur og það er jákvætt fyrir okkur. Þetta er bara þannig að eitthvað gengur ekki vel en annað betur.”

Gréta María nefnir fyrstu merki kreppu í Evrópu en staðan í Bretlandi er augljóslega slæm og hefur farið versnandi. Pundið hefur hríðfallið og þar með minnka möguleikar Breta til að kaupa ferðir til útlanda. Bretar hafa auðvitað verið mikilvægir fyrir íslenska ferðaþjónustu, sérstaklega í helgarferðum á vetrum. Er ekki ógnvænlegt ef efnahagsástandið batnar ekki í Bretlandi?

„Jú, að sjálfsögðu. En þarna kemur að markaðssetningu. Þeir sem hafa nóg milli handanna koma þá kannski frekar og eru lengur en almennt hefur gilt um Bretana, sem hafa komið til Reykjavíkur í tveggja til þriggja nátta ferðir og lítið farið út fyrir borgina. En auðvitað hefur þetta ástand í Bretlandi áhrif. Það skiptir miklu máli fyrir ferðþjónustuna að verið sé að skapa verðmæti alls staðar – að flugfélögunum, bílaleigunum og hótelunum gangi vel. Það er erfitt að segja til um það núna hver nákvæmlega áhrifin af falli pundsins verða. Enn eru flugferðir í boði og vonandi koma þeir Bretar áfram sem á annað borð hafa efni á því. Það er mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustu að eitthvað sé í boði fyrir allar tegundir ferðamanna – að þeir sem eiga litla peninga hafi samt um eitthvað að velja og það sama gildi um þá sem hafa meðaltekjur eða eru ríkir og vilja lúxus.”

Er þetta ekki einmitt veikasti bletturinn á íslenskri ferðþjónustu – að hún er orðin of dýr?

„Auðvitað hefur gengi krónunnar og ýmislegt annað áhrif en við þurfum að gæta okkur á að verða ekki of dýr. Greinin er það mikilvæg fyrir þjóðarbúið. Við höfum fljótt náð okkar striki eftir Covid-19 og þar skipti ferðaþjónustan sannarlega miklu máli. Auðvitað þurfum við að verðleggja þannig að ferðamaðurinn vilji koma en um leið þarf greinin að skila einhverju.”

Verðlistar fyrir komandi vetur þurfa að taka breytingum vegna efnahagsþróunarinnar. Gréta María segir að þau þurfi að hækka verðið. 

„Það er ætlast til þess að fyrirtækin í afþreyingarhluta ferðaþjónustunnar birti verð með árs fyrirvara á meðan flugfélögin geta breytt verði frá degi til dags. Við þurftum að hækka verð fyrir haustið og förum svo yfir það hvað þarf að gera varðandi verðlagningu eftir áramót.”

Er þessum verðhækkunum ekki illa tekið?

„Það er auðveldara fyrir okkur en marga aðra af því að við seljum svo mikið sjálf. Fyrir þá sem eru mjög háðir ferðaheildsölum er það erfiðara.”

Eldsneytisverð hækkar, skattar hækka og svo má búast við launahækkunum með nýjum samningum.

„Já, þetta eru allt áskoranir sem við mætum þegar að þeim kemur. “ 

Húsavíkurhöfn – Mynd: ÓJ

Meðal nýjunga hjá Arctic Adventures í vetur verða þriggja daga ferðir um Norðurland, frá Akureyri, að Mývatni og um hluta Demantshringsins. Samstarf er við hvalaskoðunarfyrirtæki fyrir norðan og síðan er auðvitað gist á hótelum þar.

„Þó að við keyrum á eigin bílum þá erum við alltaf í samstarfi við aðra. Það skiptir miklu máli að vera í góðu sambandi við þá sem maður vinnur með. Við leggjum áherslu á þetta. Á Suður- og Suðausturlandi eigum við samstarf við frábæra aðila. Arctic Adventures eiga eftir að finna fleiri samstarfsaðila víða um land.”

Lava Tunnel – Mynd: Arctic Adventures

Fyrirtækið hefur aukið umsvif sín, m.a. með kaupum á rekstri í Alaska í samstarfi við heimafólk. Sérðu fyrir þér meira af slíku?

„Já, það er ekki nokkur spurning. Við erum vaxtarfyrirtæki, ætlum að halda áfram að vaxa. Það gerum við með því að stækka sjálf en líka með því að kaupa önnur fyrirtæki eða sameinast öðrum. Það er alltaf eitthvað í skoðun,” segir forstjórinn og verður dálítið leyndardómsfull á svipinn.

Arctic Adventures er fyrirtæki sem er með mikla starfsemi árið um kring, þó auðvitað séu viðskiptavinir flestir um hásumarið. 

„Ef ferðaþjónustan vill vera undirstöðu atvinnugrein á Íslandi, eins og hún er nú orðin, þá verðum við að get boðið störf allt árið, haft eitthvað að gera fyrir fólkið okkar. Við getum ekki verið með fólk í vinnu aðeins á sumrin og í kringum jólin. Þetta snýst um það hvernig við getum haft stöðugri rekstur þó að topparnir komi. Okkur hefur tekist þetta.”

Við komum aftur að mikilvægi þess að vera með gott starfsfólk, sem Gréta María leggur ríka áherslu á – en ræðum líka skyldur fyrirtækjanna við fólkið. 

„Auk þess að geta boðið fólki störf allt árið er þjálfun mjög mikilvæg. Við leggjum okkur fram við að þjálfa fólkið okkar. Ég sé oft að auglýst er eftir leiðsögumönnum með mjög stuttum fyrirvara. Maður spyr sjálfan sig þá: Þú ert að fá einhvern til að vinna fyrir þig strax en hvaða þjálfun hefur viðkomandi fengið? Verður leiðsögnin þá nógu góð og nýtur viðskiptavinurinn ferðarinnar? Þeir sem eru með leiðsögn hjá okkur uppi á jöklum þurfa fyrst að ljúka tveggja vikna þjálfun, í Silfru starfa einungis menntaðir kafarar, allir sem sinna ökuleiðsögn þurfa að hafa lokið námskeiði í skyndihjálp og hafa fengið kynningu á ferðahandritum, sem alltaf er verið að þróa og breyta. Þá þurfa tilvonandi ökuleiðsögumenn að hafa áður fylgt öðrum eftir í nokkrum ferðum. Við þjálfum líka framsögu og ýmislegt annað. Við viljum að fólk vilji vinna hjá okkur og líði vel. Það er mikilvægt fyrir svona stórt fyrirtæki eins Arctic Adventures að vera aðlaðandi vinnustaður. Hægt sé að bjóða upp á fjölbreytt störf. Þannig að t.d. ökuleiðsögumaður sé ekki alltaf í sömu ferðinni, að stundum fari hann í dagsferðir og svo lengri ferðir á milli – á ólíka staði á landinu. Ekki alltaf Gullna hringinn.”

Þá er það staða íslenskrar ferðaþjónustu og stefnan í málaflokknum. Er einhver stefna?

„Auðvitað er Arctic Adventures stórt fyrirtæki og er tilbúið í samtalið um það hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðina. Ég held að það vanti dálítið meira kjöt á beinin. Það er stundum talað um að við viljum bara betur borgandi ferðamenn – en hvað þýðir það? Ætlum við þá ekki að taka á móti þeim sem kaupa flugmiða hjá Icelandair eða Play og vilja svo taka hér á leigu bílaleigubíl? Viljum við ekki þannig fólk? Það skapar mjög mörg störf. Ég segi: Við þurfum að geta boðið ólíkum hópum upp á það sem þeir sækjast eftir. Við þurfum að taka hagsmuni allra haghópa inn í dæmið: Tryggja vinnu allt árið, huga meira að þjálfun starfsfólks en gert hefur verið, dreifa ferðafólkinu meira um landið.”

Þetta síðastnefnda er eitt af þemum sumarsins að mati Túrista.

„Já, það er rétt. En til hvaða aðgerða á að grípa? Á að setja kvóta á Suðurlandið? Nei, það er ekki hægt. Ef of margir ferðamenn eru hinsvegar á einum stað verður upplifun þeirra ekki nógu góð, endurgjöfin verður ekki góð, og þá koma færri. Það verður að lokka fólk á fleiri staði. Snæfellsnes er æðislegt. Vestfirðina eigum við alveg inni. Með batnandi samgöngum mun það svæði blómstra. Það þarf líka að beina fólki á Austfirði. Ferðafólkið dvelur ekki nógu lengi þar. Vestfirðir og Austfirðir eru einstök svæði fyrir ferðafólk að heimsækja. Svo eru það sjálfbærnimálin. Auðvitað eru kolefnisspor af fluginu en það væri ávinningur af því að fólk dveldi lengur í landinu.”

Silfra – Mynd: Arctic Adventures

En eru þið ekki fyrirtæki sem hefur samt aðallega verið að mjólka vinsælustu staðina?

„Jú, en erum jafnframt í mikilli vöruþróun, viljum prófa nýja hluti og hugsa svolítið öðruvísi. Við hófum að selja nýja ferð í sumar upp á hálendi og þaðan til Vestmannaeyja. Svo verða ferðir um Norðurland í vetur. Farnar voru ferðir í sumar sem settu sjálfbærni í fókus: Í jöklagöngu var talað um hversu mikið jöklarnir hafa hopað og hvaða áhrif veðurfarsbreytingar hafa. Síðan buðum við nýja útgáfu af Gullna hringnum þar sem talað var um það hvernig Íslendingar beisla og nota orkuna í landinu, þessa grænu orku. Þar koma Sólheimar sterkt inn, þar hefur verið sjálfbært þorp frá 1930. Það eru svona sögur sem við segjum. Við þurfum að gæta þess að viðskiptavinurinn upplifi kraftinn í náttúrunni, hvort sem að hann stendur við foss, uppi á fjalli eða er inni í helli – að ferðamaðurinn segi við sjálfan sig: „Vá, hvað ég er lítill og náttúran öflug!“ Þetta er lykilatriði. Það er þetta sem við eigum. Svo er auðvitað mikilvægt hversu mikla fjölbreytni ferðamaðurinn getur upplifað í náttúrunni hér á skömmum tíma – þó að ég vilji að sjálfsögðu hafa hann lengur. Þú sérð jökla, eldfjöll og sanda og getur snorklað í svo tæru vatni að þú gætir orðið lofthræddur ofan í því að því að þér finnst þú svífa.”

Nýtt efni

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …

Koffínlausar kaffibaunir eru hefðbundnar kaffibaunir þar sem beiskjuefnið og örvandi hlutinn koffín hefur verið fjarlægt. Útbreiddasta og ódýrasta ferlið við að losa baunirnar við koffínið er hins vegar orðið umdeilt þar sem efnasambönd sem við það eru notuð eru nú tengd við ýmsa heilsufarskvilla.Hægt er að beita nokkrum aðferðum við að losa kaffibaunir við koffín. …

Þrjátíu og átta trilljónir er tala sem er svolítið erfitt að skilja. Trilljón er notað í Bandaríkjunum yfir það sem við Íslendingar köllum billjón, og billjón er þúsund milljarðar, eða milljón milljónir. Á núverandi gengi eru 38 trilljónir Bandaríkjadala sama og 5.320 billjónir íslenskra króna, eða 5,3 milljón milljarðar.  Það er gott að hafa þetta …